Morgunblaðið - 27.07.2002, Page 19
AKUREYRI
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 27. JÚLÍ 2002 19
Ræstingar/
umsjón
Háskólinn á Akureyri auglýsir eftir starfsmanni í 75% stöðu
umsjónarmanns við háskólann.
Starfið felur í sér þrif á kennslu- og skrifstofuhúsnæði, öryggis-
eftirlit, auk umsjónar með húsum og búnaði háskólans og um-
sjón með kaffistofu starfsmanna. Æskilegt er að viðkomandi
geti sinnt minniháttar lagfæringum.
Um er að ræða vaktavinnu frá kl, 7.30 til 22.00 á virkum dög-
um samkvæmt fyrirliggjandi vaktatöflu. Laun eru samkvæmt
kjarasamningum Starfsm.félags ríkisstofnana (SFR).
Umsækjendur þurfa að geta hafið störf sem fyrst.
Nánari upplýsingar um starfið veitir Björn Jóhannsson, rekstrar-
stjóri, í síma 463 0505 milli kl. 11.00 og 12.00 dagana 29. júlí -
2. ágúst nk.
Umsóknarfrestur er til 9. ágúst nk. og skulu umsóknir hafa bor-
ist undirrituðum á aðalskrifstofur Háskólans á Akureyri, Sól-
borg v/Norðurslóð fyrir þann tíma, merkt „ræstingar/umsjón“.
Umsóknareyðublöð liggja frammi í aðalafgreiðslu háskólans á
Sólborg v/Norðurslóð. Öllum starfsumsóknum verður svarað
þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.
AÐALSTEINN Vestmann tók að sér
að kenna myndmennt í einn vetur á
sínum tíma við Barnaskóla Akureyr-
ar. Kennaraferlinum lauk hins veg-
ar ekki fyrr en nú í vor, eftir fjörutíu
ára samfellda kennslu, og af því til-
efni heldur hann málverkasýningu í
húsakynnum Brekkuskóla, eins og
stofnunin heitir nú, um helgina.
Hann sýnir sitt lítið af hverju að
þessu sinni. „Þetta er blanda; ég
tíndi saman allt sem ég átti. Elsta
myndin er til dæmis frá 1951 þegar
ég var í Handíða- og myndlistaskól-
anum,“ segir hann í samtali við
Morgunblaðið.
„Ég kenndi hér myndmennt í 40
ár. Hannes J. skólastjóri hringdi og
bað mig að koma. Þá vantaði kenn-
ara og af því að lítið var að gera í
málningunni sló ég til, en það togn-
aði úr þessu. Og nú verð ég að hætta
því ég verð sjötugur í næsta mánuði.
Annars hefði ég örugglega verið
lengur.“
Hann var sem sagt farinn að
starfa sem húsamálari fljótlega eftir
nám og segist aldrei hafa reiknað
með að fara út í kennslu, þó svo
hann hefði slíkt próf upp á vasann.
„En þegar Hannes bauð mér starfið
lofaði hann mér mikilli málning-
arvinnu í skólanum um sumarið og
ég gleypti við því!“
Fyrsta sýning Aðalsteins var í
Gagnfræðaskólanum á Akureyri ár-
ið 1952, árið eftir að hann útskrif-
aðist úr teiknikennaradeildinni.
Sýndi þá með Gunnari Dúa.
En sýningarnar urðu ekki fleiri í
bráð. Aðalsteinn sneri sér að iðninni
og fékk meistarabréf sem mál-
arameistari 1961. Á sumrin starfaði
hann svo jafnan við húsamálun; rak
eigið fyrirtæki og gleðst yfir því nú
að lærlingar hans frá þeim árum
skuli halda saman. „Nú eru þeir
saman með fyrirtæki og þótt ég sé
eiginlega hættur að mála kalla þeir
stundum í mig í vinnu. Það er gam-
an. Þetta eru góðir strákar.“
Hann hefur tekið þátt í fjölda sam-
sýninga og einkasýningarnar eru
líka nokkrar. „Aðallega á Akureyri
en þrjár úti á landi, þar af ein í
Reykjavík,“ eins og hann segir.
Alli, ertu nokkuð
voðalega strangur?
„Það er gaman hvernig ég tengist
skólunum hér á Brekkunni. Fyrsta
sýningin var í Gagganum, sem nú er
hluti Brekkuskóla, ég kenndi í öll
þessi ár í þessu húsi og enda svo með
sýningu hér.“
Aðalsteinn segir sér hafa líkað vel
við börnin í skólanum og yfirleitt
náð góðu sambandi við þau. Kveðst
hafa lagt áherslu á að þau létu hug-
myndaflugið ráða. Væru skapandi.
„Fyrstu árin var ég víst talinn
helv… strangur en svo áttaði ég mig
á því að ég var að gera tóma vit-
leysu; ætlaði að gera listamann úr
öllum í hópnum, sem er auðvitað
tóm tjara. Var nokkur ár að átta mig
á því og eftir það varð allt gott. Þeg-
ar börnum líður vel kemur þetta af
sjálfu sér.
Fyrir nokkrum árum sagði lítil
stelpa hér í skólanum við mig:
Heyrðu, Alli – krakkarnir hafa alltaf
kallað mig Alla – ertu nokkuð voða-
lega strangur?
Nei, af hverju spyrðu að því,
spurði ég á móti.
Pabbi segir það, og mamma líka,
svaraði hún þá!“
Margir nemenda Aðalsteins starfa
sem myndlistarmenn og hann kveðst
gleðjast verulega yfir því „þó ég
þakki mér það alls ekki að þau urðu
listamenn. En ég hef að minnsta
kosti ekki náð að drepa neistann!“
Nefna má Þorvald Þorsteinsson,
Sigurð Árna Sigurðsson og Kristínu
Gunnlaugsdóttur.
Aðspurður segist hann sjá fljótt
hvort krakkar hafi hæfileika á
myndlistarsviðinu eður ei. „Já, ægi-
lega fljótt. Og ég hef kennt mjög
mörgum sem ekki hafa nýtt sér góða
listamannshæfileika. En þótt fólk
gerist ekki listamenn getur það not-
að hæfileikana sér til skemmtunar.“
Segist einmitt hafa gefið þre-
menningunum sem nefndir voru að
framan 10 í einkunn á sínum tíma,
líka Helga Vilberg sem nú er skóla-
stjóri Myndlistarskólans á Akureyri.
„Ég gef voðalega sjaldan 10 en þessi
staðreynd er svona smásýnishorn af
því að ég hef hitt á það!“
Á sýningunni nú eru einkum ak-
rýlmyndir, en eitthvað af olíu-
verkum og vatnslitamyndum.
En af hverju skyldi hann hafa
mest gaman; olíu, akrýl eða vatns-
litum?
„Ég hef gaman af þessu öllu. Ég
dett oft ofan í verkefni og gleymi
mér, sama í hverju ég er að vinna.
Þá líður mér vel. Er maður þá ekki
hamingjusamur?“
Hann segir myndina sem slíka
nefnilega ekki skipta sig meginmáli,
heldur verknaðinn að búa hana til.
„Margir tala um myndir sem
börnin sín en ég skil það ekki. Hef
ekki hugmynd um hvert myndirnar
mínar fara og þegar þær eru farnar
skipta þær mig engu máli.“
En hann á sér uppáhalds fyr-
irmynd, sem er fjallið Kaldbakur út
með firði. „Ég hef gert mjög margar
myndir af Kaldbak. Það er mikill
kraftur í honum og litirnir mjög
breytilegir.“
Aðalsteinn hefur einmitt haft
Kaldbak fyrir augunum hvern
kennsludag síðustu 40 árin. Hann
blasir við út um norðurgluggann á
myndmenntastofunni á efstu hæð
gamla Barnaskólahússins. Segir
nemendur sína hafa gert margar
glettilega góðar myndir af fjallinu.
Leitaðu hamingjunnar
Á vegg í myndmenntastofunni
hangir gamalt heilræði sem fannst í
St. Pálskirkjunni í Baltimore í
Bandaríkjunum, ársett 1692.
Þar segir m.a.: Lífið er þess virði
að lifa því þrátt fyrir erfiðleika, fals
og vonbrigði. Vertu varkár. Leitaðu
hamingjunnar.
„Ég held að nýr kennari hafi gott
af því að lesa þetta. Ég skil blaðið því
eftir; arfleiði nýjan kennara að því.“
Og þótt hann hætti í skólanum
kveðst Aðalsteinn Vestmann fráleitt
hættur að mála. Þetta er ekki
kveðjusýning, nema í þeim skilningi
að hann er að kveðja skólann. Segist
einmitt hafa tíma til að hella sér í
hobbíið núna. „Er ekki sagt að þegar
einar dyr lokast opnist aðrar? Menn
þurfa bara að sjá þær.“
Sýningin stendur bara í dag og á
morgun, kl. 14 til 18 báða dagana.
Og þær dyr sem gestir Aðalsteins
nú þurfa að sjá eru að austan.
Alli, ertu voðalega strangur?
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Maður og fjall – Aðalsteinn Vestmann listmálari við mynd af fjallinu
Kaldbak, uppáhalds fyrirmynd hans.
FJÓRÐU tónleikarnir í röðinni Sum-
artónleikar í Akureyrarkirkju verða í
kirkjunni á sunnudag, 28. júlí, kl. 17.
Flytjendur að þessu sinni eru
dönsku tónlistarkonurnar Nina Jeppe-
sen hornleikari og Marie Ziener org-
elleikari. Þær munu flytja verk eftir
Luigi Cherubini, Francis Poulenc,
Georg Høeberg, Niels la Cour, Henk
Badings og Bernhard Krol.
Nina er félagi í blásarasveitinni
Boreas, Concerto Copenhagen og
leikur í í dúói og tríói með ýmsum tón-
listarmönnum. Hún á að baki glæsi-
legan feril sem hornleikari og hefur
unnið til tónlistarverðlauna.
Marie starfar sem organisti við
Davíðskirkjuna í Kaupmannahöfn.
Hún hefur leikið á fjölmörgum tón-
leikum, bæði sem einleikari og flytj-
andi kammertónlistar, í Danmörku og
víða um Evrópu. Þær Nina og Marie
hafa leikið saman frá árinu 1994. Tón-
leikar þeirra í Akureyrarkirkju
standa í klukkustund og er aðgangur
ókeypis.
Danskar tón-
listarkonur
BLÁI engillinn nefnist söngva-
dagskrá með sögulegu ívafi sem
verður í Deiglunni í kvöld, laugar-
dagskvöldið 27. júlí, kl. 21.30. Sif
Ragnhildardóttir syngur lög Marl-
ene Dietrich við undirleik Tómasar
R. Einarssonar kontrabassaleikara
og Jóhanns Kristinssonar píanóleik-
ara. Sögumaður er Arthúr Björgvin
Bollason heimspekingur.
Marlene Dietrich, söngfuglinn
frægi frá Berlín, er af mörgum talin
ein kynþokkafyllsta kona síðustu
aldar; fagurlagaðir fótleggirnir og
tælandi röddin komu róti á hug karl-
manna víða um heim. Sif mun flytja
mörg af þekktustu lögum hennar á
söngvavökunni í kvöld.
Morgunblaðið/Kristinn
Blái engillinn
TVÆR myndlistarsýningar verða
opnaðar í Ketilhúsinu í dag, laugar-
dag, Samspil / Interplay og Munstur
tilfinninganna.
Í aðalsal og á svölum eru lista-
mennirnir Ása Ólafsdóttir, Bryndís
Jónsdóttir, Kristín Geirsdóttir,
Magdalena Margrét Kjartansdóttir
og Þorgerður Sigurðardóttir með
Samspil / Interplay.
Í litla sal á jarðhæð er listamað-
urinn Joris Rademaker með innsetn-
ingarverk sem hann kallar Munstur
tilfinninganna og er samansett úr
veggfóðri og tréskúlptúrum.
Tvær nýjar
sýningar
BÆJARRÁÐ Akureyrar hefur sam-
þykkt að veita „Vinum Akureyrar“
eina milljón kr. í styrk vegna fjöl-
skylduhátíðarhalda um verslunar-
mannahelgina. „Vinir Akureyrar“ er
hópur sem efnir til hátíðarinnar „Ein
með öllu“ um verslunarmannahelg-
ina. Þetta er í annað sinn sem hátíð
með þessu nafni er haldin í bænum.
Ein með öllu
fær milljón
EKKI er gert ráð fyrir að fram-
haldsskóli verði stofnaður við utan-
verðan Eyjafjörð fyrir árið 2003.
Vegna takmarkaðs svigrúms við
gerð fjárlaga mun menntamálaráðu-
neytið ekki gera tillögu um að fé
verði veitt til að stofna framhalds-
skóla á svæðinu fyrir árið 2003.
Þetta kemur fram í svari Tómasar
Inga Olrich menntamálaráðherra til
bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar.
Bréfið var lagt fram í bæjarráði ný-
lega.
Hugmyndir um stofnun fram-
haldsskóla við utanverðan Eyjafjörð
hafa verið ræddar um skeið og fyrir
liggur skýrsla Hermanns Tómas-
sonar frá því í fyrravor um mögu-
leika á að koma honum á fót. Þar
kemur fram að á svæðinu sem um
ræðir búi um 3000 manns, en í Þing-
eyjarsýslum, þar sem tveir litlir
framhaldsskólar séu starfandi búi
rúmlega 6000 manns. Þá séu einnig
starfandi þrír framhaldsskólar á
Austurlandi. Því sé ljóst að á nokkr-
um stöðum á landinu séu framhalds-
skólar sem þjóni sambærilegum
fólksfjölda og býr við utanverðan
Eyjafjörð.
Heimamenn telja stofnun fram-
haldsskóla eitt stærsta hagsmuna-
mál íbúa á svæðinu og muni styrkja
byggðina.
Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð
Ekki gert ráð fyrir
fjárveitingu 2003
♦ ♦ ♦
♦ ♦ ♦
AKUREYRARBÆR hefur keypt 99
vinnustöðvar og 11 fartölvur af EJS
fyrir skóla og stofnanir bæjarins.
Fyrir valinu urðu Dell-tölvur að und-
angenginni ítarlegri vinnu þar sem
verð og gæði vélanna voru höfð að
leiðarljósi, segir í frétt um tölvukaup
Akureyrarbæjar.
Bærinn með
Dell-tölvur
♦ ♦ ♦
♦ ♦ ♦