Morgunblaðið - 27.07.2002, Síða 26
ERLENT
26 LAUGARDAGUR 27. JÚLÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ
MARGIR frammámenn í viðskipta-
lífinu, fjárfestar og fjármálasérfræð-
ingar í Bandaríkjunum hafa fagnað
nýjum lögum um hert viðurlög við
bókhaldssvikum og fleiri ráðstafanir
til að vekja aftur traust almennings
á bandarískum fyrirtækjum.
Lögin eru yfirgripsmikil og leiða
til mestu breytinga á reglum um
endurskoðun fyrirtækja frá krepp-
unni miklu eftir verðhrunið í kaup-
höllinni í New York 1929.
„Samþykkt þingsins um umbætur
á endurskoðun fyrirtækja er sigur
fyrir bandaríska fjárfesta og laun-
þega,“ sagði George W. Bush
Bandaríkjaforseti. „Ég hlakka til að
staðfesta þessar mikilvægu umbæt-
ur.“
Margir fjármálasérfræðingar
telja að lögin séu nógu ströng til að
knýja stjórnendur fyrirtækja til að
hætta að veita fjárfestum rangar
upplýsingar um fjárhag þeirra. Þeir
vara hins vegar við því að gengi
hlutabréfa kunni að lækka næstu
vikurnar þar sem líklegt er að
strangari reglur og hert eftirlit yf-
irvalda verði til þess að fleiri fyr-
irtæki verði staðin að svikum og
vafasömum reikningskilum.
„Það mun líða nokkur tími þar til
markaðurinn réttir úr kútnum,“
sagði Robert Litan, forstöðumaður
efnahagsdeildar Brookings Institu-
tion, rannsóknastofnunar í Wash-
ington. „Fjárfestar hafa misst trúna
á öllu reikningsskilakerfinu og laga-
setning nægir ekki til að ráða bót á
því.“
Forstjórar ábyrgist að
reikningsskilin séu rétt
Báðar deildir þingsins samþykktu
lögin í fyrradag eftir að leiðtogar
þeirra náðu málamiðlunarsamkomu-
lagi um frumvarp sem öldungadeild-
in, þar sem demókratar eru með
meirihluta, samþykkti einróma í vik-
unni sem leið. Repúblikanar í full-
trúadeildinni féllust á flest af ströng-
ustu ákvæðum frumvarpsins.
Lögin voru samþykkt einróma í
öldungadeildinni og með 423 at-
kvæðum gegn þremur í fulltrúa-
deildinni þar sem repúblikanar eru í
meirihluta.
Lögin kveða á um hert viðurlög
við bókhaldssvikum og eyðingu bók-
haldsgagna. Samkvæmt lögunum á
að stofna óháða nefnd sem á að hafa
eftirlit með endurskoðendum og fær
vald til að refsa þeim. Endurskoð-
unarfyrirtækjum verður einnig
bannað að veita fyrirtækjum, sem
þau endurskoða, ráðgjafarþjónustu
á flestum sviðum sem tengjast ekki
beint reikningsskilum.
Þá verður forstjórum og aðalfjár-
málastjórum gert að ábyrgjast að
reikningsskil fyrirtækja þeirra séu
rétt. Leggi þeir blessun sína yfir
reikningsskil með upplýsingum, sem
gefa ranga mynd af fjárhag fyrir-
tækjanna, verður hægt að dæma þá í
allt að tuttugu ára fangelsi.
Fyrirtækjum verður bannað að
veita stjórnendum þeirra lán og fjár-
málaeftirlitinu var falið að setja nýj-
ar reglur um störf greiningarsér-
fræðinga til að koma í veg fyrir
hagsmunaárekstra.
Í lögunum segir einnig að lög-
fræðingum, sem starfa fyrir fyrir-
tækin, beri skylda til þess að gera yf-
irvöldum viðvart fái þeir
vísbendingar um bókhaldssvik eða
önnur brot.
Repúblikanar gáfu eftir
Fulltrúar bandarískra fyrirtækja
höfðu beitt sér gegn ýmsum af
ströngustu ákvæðum frumvarps
demókrata í öldungadeildinni og
stutt mildari tillögur repúblikana í
fulltrúadeildinni. Repúblikanarnir
gáfu hins vegar eftir og ákváðu að
sýna kjósendum að þeir vildu taka
hart á bókhaldssvikunum af ótta við
að þeim yrði refsað í þingkosning-
unum í nóvember.
Eitt af því fáa sem fulltrúar
þrýstihópsins náðu fram var að orða-
lagi ákvæðisins um refsiábyrgð for-
stjóra var breytt. Í lögunum segir að
hægt sé að dæma forstjóra í fangelsi
leggi þeir blessun sína yfir villandi
upplýsingar í ársreikningum „af
ásettu ráði og vísvitandi“. Í frum-
varpi demókrata í öldungadeildinni
voru notuð orðin „á glæfralegan hátt
og vitandi vits“ og talið er að það
orðalag hefði auðveldað saksóknir á
hendur forstjórum vegna bókhaldss-
vika.
John C. Coffee, lagaprófessor við
Columbia háskóla, kvaðst telja að
hörðu viðurlögin í lögunum hefðu
takmarkaða þýðingu fyrir aðra en
þingmenn sem vildu sefa kjósendur
á kosningaári. „Flest af því sem við
vitum um hvítflibbaglæpi bendir til
þess að líkurnar á að þeir komist upp
hafi meiri fyrirbyggjandi áhrif en
refsingin.“
Frammámenn í bandarísku við-
skiptalífi höfðu efasemdir um
ströngustu ákvæðin en flestir þeirra
sögðu eftir samþykkt laganna að þau
væru nauðsynleg til að binda enda á
verðfallið í kauphöllunum. „Þetta
eru kröftug lög og þegar þau öðlast
gildi að fullu verða þau ekki aðeins
fyrirtækjunum til góðs heldur einnig
almennum fjárfestum,“ sagði John
J. Castellani, forseti Business
Roundtable, samtaka bandarískra
kaupsýslumanna.
Martin Regiala, varaforseti
bandaríska verslunarráðsins, sagði
að ráðið hefði enn efasemdir um að
svo ströng lög væru nauðsynleg þótt
það viðurkenndi að leggja þyrfti
áherslu á að auka traust fjárfesta á
hlutabréfamörkuðunum.
Lögfræðingar óánægðir
Lögfræðingar voru andvígir
ákvæðinu um að þeim bæri að skýra
yfirvöldum frá hugsanlegum brotum
fyrirtækja og sögðu það „grafa und-
an trúnaðarsambandi lögfræðinga
og skjólstæðinga þeirra“. „Þetta
ákvæði er einber vitleysa,“ sagði Ro-
bert E. Hirshon, forseti samtaka
bandarískra lögmanna.
Aðrir sögðu að lögin væru ekki
fullnægjandi. Nokkrir fjármálsér-
fræðingar gagnrýndu þingið fyrir að
skylda ekki fyrirtæki til að bókfæra
sem gjöld hlutabréf sem stjórnend-
um eru boðin á mjög hagstæðum
kjörum.
Aðeins þrír repúblikanar greiddu
atkvæði gegn lögunum. Einn þeirra,
Mac Collins, sagði að lögin ykju
kostnað fyrirtækja og þar með lík-
urnar á því að þau færðu starfsemi
sína til annarra landa.
Phil Gramm, repúblikani í öld-
ungadeildinni, kvaðst óttast að lögin
leiddu til „holskeflu ástæðulausra
málsókna“. Gramm lagðist í fyrstu
gegn ströngustu ákvæðunum en
greiddi atkvæði með lögunum. „Að-
stæðurnar eru svo erfiðar að nánast
hvað sem er hefði getað náð fram að
ganga á þinginu,“ sagði hann.
Embættismenn Evrópusam-
bandsins eru einnig óánægðir með
lögin vegna þess að evrópsk fyrir-
tæki og endurskoðendur þeirra
þurfa að lúta valdi nýju eftirlits-
nefndarinnar ef þau eru skráð á
bandarískum hlutabréfamarkaði.
Bandaríkjaþing samþykkir yfirgripsmikil lög um reikningsskil fyrirtækja
Bókhaldssvik varða allt
að tuttugu ára fangelsi
Mestu breytingar
á reglum um end-
urskoðun fyr-
irtækja frá
kreppunni miklu
Washington. The Washington Post, AP, AFP.
AP
Frá vinstri: Tom Daschle, leiðtogi demókrata í öldungadeild Banda-
ríkjaþings, en þeir eru þar í meirihluta, Trent Lott, leiðtogi repúplikana
í öldungadeildinni, og Dennis Hastert, forseti fulltrúadeildarinnar.
’ Aðstæðurnar erusvo erfiðar að nánast
hvað sem er hefði
getað náð fram að
ganga á þinginu. ‘
DÓMSTÓLL í Jakarta í
Indónesíu dæmdi í gær Tommy
Suharto, son Suhartos, fyrrver-
andi forseta Indónesíu, í 15 ára
fangelsi fyrir morð og ólögleg-
an vopnaburð. Komst dómstóll-
inn að þeirri niðurstöðu að Suh-
arto hefði staðið á baki við
morðið á indónesískum hæsta-
réttardómara fyrir nákvæm-
lega ári síðan. Mennirnir tveir,
sem frömdu morðið, voru
dæmdir í lífstíðarfangelsi í maí
en saksóknarar kröfðust væg-
ari dóms yfir Suharto, m.a. á
þeirri forsendu að hann ætti
fyrir ungum börnum að sjá.
Í dómsniðurstöðunni sagði
að sannað þætti að Hutomo
Mandala Putra, eins og Tommy
heitir réttu nafni, væri sekur
um öll ákæruatriðin, þar á með-
al að reyna að flýja undan rétt-
vísinni en hann fór huldu höfði
mánuðum saman. Kom fram að
Tommy Suharto hefði greitt
leigumorðingjunum jafnvirði
um einnar milljónar króna fyrir
að myrða dómarann sem
skömmu áður hafði dæmt hann
til fangelsisvistar fyrir spill-
ingu. Voru færðar sönnur á að
skammbyssan sem notuð var til
að myrða dómarann var í eigu
Tommys.
Sakborningurinn var ekki
viðstaddur þegar dómararnir
lásu dóminn upp. Sögðu lög-
menn Suhartos hann veikan og
óskuðu eftir því að dómsupp-
kvaðningu yrði frestað. Þegar
dómarar féllust ekki á það
stormuðu lögmennirnir út úr
réttarsalnum.
Prófsteinn á umbætur
Litið var á réttarhöldin sem
prófstein á það hvort indónes-
ískum stjórnvöldum hefði tek-
ist að koma á umbótum í rétt-
arkerfi landsins eftir að
Suharto forseti fór frá völdum
en spilling þótti allsráðandi á 32
ára löngum valdatíma hans.
Tommy ríkti yfir viðskiptaveldi
sem metið var á um 70 millj-
arða króna en hann og aðrir úr
fjölskyldu Suhartos voru al-
mennt taldir ósnertanlegir.
Suharto eldri, sem er 82 ára
gamall, hefur vegna heilsuleys-
is komist hjá því að verða
ákærður fyrir spillingu.
Tommy
Suharto
dæmdur í
15 ára
fangelsi
Jakarta. AFP.
BANDARÍSK stjórnvöld sögðust í
gær fagna þeirri yfirlýsingu Norður-
Kóreskra yfirvalda að þau myndu
bjóða sendimann Bandaríkjanna vel-
kominn til landsins, en sögðu þó ekki
ljóst hvort slíkur maður yrði sendur.
Til stóð að bandarísk stjórnvöld
sendu mann til N-Kóreu, en hætt var
við áformin eftir að herskipum frá
kóresku ríkjunum tveimur laust
saman í Gulahafi í síðasta mánuði.
Bandaríkjamenn segja þessa síðustu
yfirlýsingu stjórnvalda í Pyongyang
vera í samræmi við þá sem þau gáfu
út á miðvikudag þar sem þau sögðust
sjá eftir sjóorrustunni við Suður-
Kóreu og settu fram tillögu þess efn-
is að háttsettir embættismenn í ná-
grannaríkjunum tveimur tækju upp
viðræður á ný.
Utanríkisráðherrar ríkjanna
tveggja, Colin Powell og Paek Nam-
Sun, munu sitja ráðstefnu um öryggi
í Asíu í Brúnei, sem haldin verður
þann 30. þessa mánaðar, en ekki er
ljóst hvort þeir muni hittast þar.
Þá skýrðu stjórnvöld í Suður-Kór-
eu frá því í gær að þau hefðu af því
fregnir að Norður-kóresk stjórnvöld
væru að gera stórfelldar breytingar
á efnahagskerfi landsins. Sérstakur
ráðgjafi forseta Suður-Kóreu, Lim
Dong-Won, segir Norður-Kóreu-
menn vera að snúa baki við óhag-
kvæmu, miðstýrðu hagkerfinu, sem
við lýði hefur verið undanfarin 40 ár,
og færa sig meira í átt að markaðs-
hagkerfi í anda þeirra breytinga sem
Kínverjar hafa gert á sínu hagkerfi
undanfarin tuttugu ár. „Í stuttu máli
miða breytingarnar að því að end-
urnýja hagkerfið án þess að það
stofni sósíalísku stjórnkerfinu í
hættu,“ segir Lim. Að sögn Lims var
ákvörðun um breytingarnar tekin
eftir að leiðtogi Norður-Kóreu, Kim
Jong-Il, fór í heimsókn til Kína og
Rússlands á síðasta ári.
Meðal helstu breytinga er að
reyndir kaupsýslumenn taki við
stjórnartaumum ríkisfyrirtækja af
flokksgæðingunum sem nú stjórna
þeim, skömmtun á mat verði hætt og
laun verkafólks verði árangurs-
tengd. Reynt verður að venja lands-
menn af ríkisstyrkjum og aðstoð ým-
iss konar og munu þeir þurfa að
greiða fyrir matvæli og aðrar nauð-
synjar með peningum. Suður-kór-
eskir ferðamenn, sem heimsótt hafa
nágrannaríkið í norðri nýlega, segja
laun verkamanna í Norður-Kóreu
munu hækka allt að fimmtíufalt frá
því sem nú er.
„Norður-Kóreumenn hafa lýst
breytingunum sem efnahagslegri
byltingu,“ segir Kim Chang-Soo hjá
Kóreska sátta- og samvinnuráðinu.
„Þeir segja að héðan í frá muni þeir
sem leggja harðar að sér njóta
ávaxta erfiðis síns, en leggja þó
áherslu á það að ríkið, en ekki mark-
aðurinn, muni ákveða allt verð.“
N-Kóreumenn vilja taka á
móti bandarískum sendimanni
Seoul. AP, AFP.
Reuters
Sérlegur sendimaður S-Kóreuforseta, Lim Dong-Won (annar frá
vinstri), ásamt leiðtoga N-Kóreu, Kim Jong-Il (fyrir miðju).