Morgunblaðið - 18.09.2002, Blaðsíða 6
FRÉTTIR
6 MIÐVIKUDAGUR 18. SEPTEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
ÞAÐ er hvergi skráð í lögbækur að
menn verði að vera heima hjá sér á
afmælisdaginn. Þó verður að teljast
nokkuð óvenjulegt að hæstarétt-
arlögmaður, sem í ofanálag er 85
ára, haldi daginn hátíðlegan í veiði-
túr á togara. Blaðamaður náði tali af
Vilhjálmi Árnasyni í gær, en þá var
hann um borð í Gullveri frá Seyð-
isfirði og búinn að vera fjóra daga á
sjónum. Hann varð 85 ára sl. sunnu-
dag. „Þetta hefur verið dýrðarferð
allan tímann, yndislegt veður og
gott fiskirí,“ segir hann himinlifandi.
Hvað gerirðu þarna um borð?
„Ég er nú bara eins og hver önn-
ur mubla og geri ekki neitt nema
dást að þeim sem hér eru um borð
og vinnubrögðunum.“ Hann út-
skýrir veru sína á togaranum með
því að hann sé gamall sjómaður.
„Ég var byrjaður á sjó árið 1932 og
hætti árið 1943 þegar komið var
fram í stríðið. Þess vegna sæki ég í
þetta ef ég vil virkilega halda upp á
daginn. Það er stórkostlegt hvað
áhöfnin hefur komið vel fram við
mann og maður er alveg eins og
dekurbarn hér.“
Þú áttir 85 ára afmæli sl. sunnu-
dag.
„Það var einmitt í tilefni af því
sem ég fór í þessa ferð.“
Gerðirðu eitthvað í tilefni dags-
ins?
„Allt var gert fyrir mig,“ svarar
Vilhjálmur glaðlega. „Það var flagg-
að og veislumatur á borðum.“
Mér skilst þú sért vanur að halda
afmælisdagana á hafi úti.
„Já, þetta er afmælisveislan. Ég
hef gert þetta áratugum saman, oft-
ast á handfærum. Þetta er þriðji
túrinn sem ég fer á þessu skipi.“
Að þessu sinni var einn af vinum
þínum með í för.
„Já, með mér er Birgir Þorgils-
son, fyrrverandi ferðamálastjóri.
Honum þykir þetta alveg jafngaman
og mér og er líka himinlifandi með
gestrisnina um borð.“
Hvað sækirðu á hafið?
„Ég er fæddur á Skálanesi á
Seyðisfirði og alinn upp við sjóinn.
Þetta er því hálfgerð nostalgía hjá
mér og æskuminningarnar hrannast
upp þegar maður er kominn út á
hafið.“
Hvað varstu gamall þegar þú
fórst fyrst á sjó?
„Ég varð fullgildur háseti þegar
ég var 14 ára á vélbátum og varð
formaður þegar ég var 19 ára.“
Núna ertu á togara og óhætt að
fullyrða að þú hafir orðið vitni að
miklum breytingum.
„Þú getur ímyndað þér. Hér er
tæknin eins og best verður. Vinnu-
brögðin eru svo stórkostleg að ég á
varla til orð yfir það.“
Hvernig var útgerðin þegar þú
byrjaðir á sjónum?
„Maður stundaði mest línuveiðar,
en einnig dragnótarveiðar og stund-
um reknet eða skak.
Það var allavega. Og allt saman
fiskimenn og útgerðarmenn í kring-
um mig.“
Hvernig voru bátarnir?
„Þeir voru nú ekki eins og þessi,“
svarar Vilhjálmur og hlær. „Mér
fannst þeir ógurlega fínir samt.
Maður sér auðvitað muninn eftir á.
En við rerum alveg út í hafsauga.
Þá fór maður 30 til 40 mílur til hafs
til veiða.“
Var það togstreita fyrir þig á sín-
um tíma þegar þú valdir að fara í
langskólanám og ljúka embættis-
prófi í lögum?
„Já, þetta er góður punktur, sem
ég hef hugsað svolítið um. Þetta var
í kreppunni, sem ég var á sjónum.
Ég byrjaði árið 1932. Þá var kreppa
eins og árin þar á undan. Því fylgdi
alveg hrikalegt streð. Ég var á
nokkrum vertíðum á Hornafirði og
hafði ekki fyrir fæði einu sinni. Svo
ég fékk þá hugdettu að það væri
miklu betra að vera sýslumaður en
sjómaður. Því ekki að reyna að kom-
ast í gegnum menntakerfið?“
Þá byrjaðir þú að feta mennta-
veginn.
„Já, og mér er það minnisstætt
þegar ég mætti í gagnfræðaprófið til
að komast í fjórða bekk í MA. Þeir
gengu maður undir manns hönd að
reyna að hjálpa mér, Hjalti Þór-
arinsson prófessor, Hjörtur Eldjárn
og fleiri. Svo var ég í tímum. En ég
var efins fram á síðustu stundu um
að ná. Þá fór ég í próf til Steindórs
Steindórssonar í náttúrufræði. Mér
var sagt að draga efni til prófs og
dró þorskinn!“ segir hann og skelli-
hlær. „Svoleiðis að ég brilleraði og
þar með var ég kominn inn. Það má
því segja að þorskurinn hafi löngum
verið í kringum mig. Þegar ég fór í
Eiðaskóla nokkuð löngu áður, þá var
mitt skólagjald greitt með nokkrum
saltfiskpökkum.“ Eftir stutta þögn
bætir hann við: „Jæja, ég hef eig-
inlega ekki meira um þetta að segja,
annað en að hér stend ég og horfi á
Austfjarðafjöllin fögru og hafið er
alveg slétt og yndislegt.“
Hvenær kemurðu í land?
„Á fimmtudagsmorgun, hugsa ég.
Það er skipstjórinn sem ræður því.
Það eru komin upp undir 100 tonn í
skipið núna og þeim verður landað á
Seyðisfirði. Svo fljúgum við Birgir
suður fullir af þakklæti til útgerðar
og skipshafnar fyrir þessa frábæru
veiðiferð.“
Ætlarðu að halda þessum sið að
vera á sjónum á afmælisdaginn?
„Hann var góður þessi,“ svarar
Vilhjálmur. „Maður segir bara: Ef
Guð lofar.“
Hér stend ég og horfi á
Austfjarðafjöllin fögru
Morgunblaðið/GJH
Vilhjálmur Árnason og Birgir Þorgilsson með vænan steinbít um borð í
Gullveri frá Seyðisfirði. Myndin var símsend frá togaranum í gær.
Vilhjálmur Árnason fer á sjó einu sinni á ári
– á afmælisdaginn. Á sunnudaginn var hélt
hann upp á 85 ára afmælið um borð í Gull-
veri frá Seyðisfirði. Túrinn stendur enn yf-
ir. Pétur Blöndal talaði við hann um dekur,
veðrið og þorskinn á gagnfræðaprófi.
pebl@mbl.is
SAMÞYKKT var á ríkisstjórnar-
fundi í gær að tillögu landbúnaðar-
ráðherra, að ganga til viðræðna við
samtök bænda um gerð nýs samn-
ings vegna mjólkurframleiðslu og
verður viðræðunefnd skipuð í því
skyni á á næstunni.
Guðni Ágústsson, landbúnaðar-
ráðherra, sagði að Landssamband
kúabænda hefði óskað eftir því að
viðræður hæfust um gerð nýs
samnings um mjólkurframleiðsl-
una. Það væri í samræmi við
ákvæði gildandi samnings sem
gerður hefði verið fyrir fjórum ár-
um. Þar væri gert ráð fyrir við-
ræðum að fjórum árum liðnum, en
samningurinn væri til sjö ára og
gilti til ársins 2005. Ríkisstjórnin
hefði fallist á að verða við þessu og
samninganefnd yrði skipuð á næst-
unni.
Guðni sagði að bændur óskuðu
eftir því að fá sem fyrst nýjan
samning. Þeim fyndist tíminn
framundan orðinn stuttur og vildu
sjá lengra inn í framtíðina. Þeir
vilji sjá nýjan samning gerðan sem
fyrst til annarra sjö ára svo menn
viti hvar þeir standi og greinin geti
þrifist.
„Það var fallist á þessa beiðni
þeirra að setja í gang samninga-
viðræður og hefja þær sem fyrst,“
sagði Guðni ennfremur.
Viðræður
um nýjan
mjólkur-
samning
STJÓRN Café Sólon Islandus
hefur sent frá sér tilkynningu
þar sem gagnrýnd er ólögleg
notkun nýrra eigenda á nafn-
inu Café Sólon Íslandus.
„Þegar nýir rekstraraðilar
yfirtóku rekstur Café Sólon
Íslandus skírðu þeir staðinn
upp á nýtt og nefndu Í húsi
málarans. Nýlega hafa
rekstraraðilar skipt um nafn
og kalla nú staðinn Kaffi Sól-
on. Við viljum vekja athygli á
að vöruheitið Café Sólon Ís-
landus, sem reyndar gekk
ávallt undir nafninu Kaffi Sól-
on í daglegu tali, er skráð
okkur með einkaleyfi og því
er öðrum óheimilt að nota
nafnið,“ segir í tilkynning-
unni.
Málshöfðun athuguð
Sverrir Guðjónsson, stjórn-
armaður í Café Sólon Island-
us, segir að rekstraraðilum
hafi verið tjáð þetta bæði
munnlega og í bréfi en engin
breyting orðið á og ef svo
verði ekki sé um fátt annað að
ræða en að fara í mál.
„Þetta eru menn sem hafa
rekið þekkt veitingahús hér í
bænum í mörg ár og eiga að
vita betur. Við erum búnir að
fara í gegnum þetta og það er
ekki hægt að vera með hár-
toganir. Mér finnst dálítið
sorglegt að menn skuli ekki
hafa meira hugmyndaflug en
þetta. Þeir eru með þessu í
reynd að nota viðskiptavild
sem búin var til af öðrum.“
Hjá eigendum veitingastað-
arins fengust þær upplýsing-
ar að málið væri í athugun hjá
lögfræðingi þeirra og þeir
vildu ekki tjá sig um það að
svo stöddu.
Segja
nafnið
Café
Sólon
misnotað
NÝ ristilholsjá verður til kynningar
hér á landi næstu vikur, en að sögn
Ásgeirs Theodórs, læknis og sér-
fræðings í meltingarsjúkdómum, er
notkun tækisins ekki aðeins sárs-
aukaminni en aðrar aðferðir fyrir
sjúklinga heldur kemur það að mikl-
um notum í skimun fyrir krabba-
meini í ristli og endaþarmi.
Dr. Ingolf Mesecke-von Rheinbab-
en, framleiðslustjóri hjá Olympus í
Þýskalandi, sem framleiðir tækið,
segir að hönnunin hafi tekið sex ár.
Ristilholsjáin sé í kynningu víða í
Evrópu um þessar mundir en hún
verði sýnd á þingi evrópskra melting-
arlækna í Genf í Sviss í næsta mánuði
og sala hefjist í kjölfarið.
Framleiðslustjórinn bendir á að
holsjáin sé mjög meðfærileg og lítið
fari fyrir henni. Ekki sé hætta á rönt-
gengeislum, hún byggist á segulsvið-
snemum og sýni nákvæma legu
speglunartækisins í ristlinum í þrí-
vídd auk þess sem hægt sé að velja
sér sjónarhorn. Þá sé notkun hennar
fljótvirkari og rannsóknin sársauka-
minni en aðrar aðferðir.
Ásgeir Theodórs tekur í sama
streng og segir að með holsjánni sé
auðveldara að spegla fólk sem hafi
langan og hlykkjóttan ristil. Greina
má hvaða stefnu speglunartækið tek-
ur við rannsóknina í ristlinum, en
þetta hefur ekki verið hægt nema
með röntgenskyggningu, sem er
samt ekki mikið notuð vegna rönt-
genáhrifa. Hann segir að til að byrja
með megi komast af með eitt svona
tæki á hverri ristilspeglunardeild, en
fjöldi aðgerða á hverri deild hafi auð-
vitað áhrif og markviss leit að
krabbameini kalli ef til vill á fleiri
tæki.
Þriðja algengasta krabbamein
meðal Íslendinga
Krabbamein í ristli og endaþarmi
er þriðja algengasta krabbamein
meðal Íslendinga og önnur algeng-
asta dánarorsök af völdum krabba-
meina, að sögn Ásgeirs. Fyrir rúm-
um tveimur árum skipaði landlæknir
starfshóp sem átti að gera tillögur að
leiðbeiningum um skimun fyrir rist-
ilkrabbameini á Íslandi. Ásgeir Theo-
dórs var formaður starfshópsins, sem
mælti meðal annars með árlegri leit
að blóði í hægðum hjá körlum og kon-
um 50 ára og eldri, að því gefnu að
einstaklingarnir væru án einkenna
og teldust í meðaláhættu. Ásgeir seg-
ir að þetta séu enn aðeins ráðlegg-
ingar því beðið sé ákvörðunar heil-
brigðisyfirvalda í málinu. Í Evrópu sé
gífurleg hreyfing í þessa veru, þ.e. að
koma á svona leit, og eðlilegt sé að
takast á við leit í ristli og endaþarmi
alveg eins og leit í brjóstum og leg-
hálsi. Þetta sé sú leit sem sé næst í
röðinni og ekki sé spurning hvort
heldur hvenær enda hafi alþingis-
menn sl. vor samþykkt samhljóða
þingsályktunartillögu um auknar for-
varnir gegn krabbameinssjúkdómum
í meltingarvegi og öðrum sjúkdóm-
um þeim tengdum. Við leit í ristli og
endaþarmi komi nýja holsjáin að
miklu gagni, því með góða þátttöku í
huga sé mikilvægt að speglanirnar
gangi vel fyrir sig og að rannsókn-
irnar séu ekki sársaukafullar.
Skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi verður auðvelduð
Sársaukaminni
aðgerðir með
nýrri holsjá
Morgunblaðið/Þorkell
Dr. Ingolf Mesecke-von Rheinbaben, framleiðslustjóri hjá Olympus í
Þýskalandi, og Ásgeir Theodórs, læknir og sérfræðingur í melting-
arsjúkdómum, nota tækið við speglun í ristli í gær.