Morgunblaðið - 18.09.2002, Blaðsíða 20
ERLENT
20 MIÐVIKUDAGUR 18. SEPTEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
LÖGREGLA í Kína hefur
handtekið öfundsjúkan sölu-
turnseiganda sem játaði að
hafa sett rottueitur í mat sem
keppinautur hans seldi, með
þeim afleiðingum að 38 manns
hafa látist og mörg hundruð
veikst. Maðurinn, Chen Zhenp-
ing, var handtekinn á sunnu-
dag, daginn eftir að fólkið lést
eftir að hafa borðað árbít í
verslun í borginni Nanjing.
Chen, sem rak söluturn í sömu
borg, játaði að hann hefði öf-
undast út í velgengni Zhengwu-
verslunarinnar og sett eitur í
vörur sem verslunin seldi.
Afganar
snúi heim
FRAMKVÆMDASTJÓRN
Evrópusambandsins sagði í
gær að það væri forgangsatriði
að tugir þúsunda afganskra
flóttamanna og ólöglegra inn-
flytjenda sem sest hefðu að í
Evrópu sneru aftur til síns
heima. Áætlað er að alls sé um
að ræða eitt hundrað þúsund
manns. Hefur framkvæmda-
stjórnin lagt til hliðar þrjár
milljónir evra til þess að hjálpa
fólkinu að komast aftur heim.
Fjárfestingar
aukast
ERLENDAR fjárfestingar í
ríkjum Mið- og Austur-Evrópu
jukust um tvö prósent í fyrra og
námu þá alls 27 milljörðum
dollara. Hafa þær aldrei verið
meiri. Í skýrslu Verslunar- og
þróunarstofnunar Sameinuðu
þjóðanna fyrir síðasta ár segir,
að Mið- og Austur-Evrópa virð-
ist hafa áunnið sér „áreiðanlegt
og efnilegt“ orðspor. Á þessu
svæði eru átta af tíu ríkjum er
koma til greina sem aðilar að
Evrópusambandinu 2004.
„Emírinn“
handtekinn
FJÖRUTÍU og fimm ára
Frakki sem kallaður hefur ver-
ið „Emírinn“ eða „Soldáninn“
og talinn vera þrautþjálfaður
gimsteinaþjófur hefur verið
handtekinn í París, að því er
dómstólar í Nice greindu frá í
gær. Þjófurinn heitir réttu
nafni Jean Herrina og hafði á
sér einn demant og dýr arm-
bandsúr er hann var tekinn.
Hans hefur verið leitað vegna
þjófnaðar í síðasta mánuði á
demanti sem talinn er um 100
þúsunda evra virði.
Grjót og
meira grjót
FÖR lítils beltavélmennis um
þröng göng í Keops-pýramíd-
anum í Egyptalandi leiddi að-
eins í ljós meira grjót handan
við steinhellu sem fornleifa-
fræðingar höfðu látið vélmenn-
ið bora sig í gegnum í þeirri von
að á bakvið hana leyndust vís-
bendingar um hvernig píramíd-
inn, sem er 4.500 ára gamall,
var byggður. Handan hennar
var aðeins þröngt rými og önn-
ur hella sem lokaði göngunum.
Blaðamenn sem fylgdust með á
sjónvarpsskjá andvörpuðu af
vonbrigðum, en fornleifafræð-
ingar voru hæstánægðir.
STUTT
Játaði að
hafa eitr-
að matinn
UNGFRÚ Sviss ákvað um síðustu
helgi að hundsa fegurðarkeppnina
Ungfrú heimur, sem haldin verður í
Nígeríu í nóvember. Með því vill hún
mótmæla því, að nígerísk kona var
dæmd til dauða fyrir að eiga barn ut-
an hjónabands. Fjölgar þeim nú dag
frá degi fegurðardrottningunum,
sem ætla ekki að mæta til keppn-
innar, og er hart lagt að skipuleggj-
endum hennar að finna henni annan
vettvang.
„Mér finnst sem það jafngilti
stuðningi við þessa villimennsku,
færi ég til Nígeríu,“ sagði Nadine
Vinzens, svissneska fegurðardrottn-
ingin, þegar hún ákvað að gera það
sama og stöllur hennar í Belgíu,
Frakklandi, Fílabeinsströndinni,
Kenýa og Noregi en auk þess eru
fegurðardrottningarnar í Hollandi,
Þýskalandi, Finnlandi, Póllandi og
Togo að hugsa sinn gang.
Konurnar eru að mótmæla því, að
íslamskur dómstóll í Norður-Nígeríu
dæmdi þrítuga konu, Aminu Lawal,
til dauða fyrir að eiga barn utan
hjónabands. Verður hún grýtt til
bana þegar barnið hefur verið vanið
af brjósti.
Keppnin í ár verður í Nígeríu
vegna þess, að í fyrra varð nígeríski
keppandinn, Agbani Darego, fyrst
afrískra kvenna til að vinna titilinn
Ungfrú heimur. Sophia Hedmark,
Ungfrú Svíþjóð, hefur ákveðið að
taka þátt í keppninni og nota um leið
tækifærið til að mótmæla kvenfyr-
irlitningu og ómannúðlegum refsing-
um múslima. Það kann þó að vera
varasamt fyrir hana því að róttæk
múslimasamtök hafa haft í hótunum
við væntanlega þátttakendur.
Áhyggjur í Nígeríu
Stjórnvöld í Nígeríu hafa áhyggj-
ur af því, að keppnin verði flutt til
annars lands, og hefur Dubem On-
yia, utanríkisráðherra landsins,
reynt að sannfæra keppendur um, að
fyllsta öryggis verði gætt. Þá minnir
hann á, að mál Aminu Lawal eigi eft-
ir að fara fyrir æðra dómstig og úti-
lokar, að dómurinn yfir henni muni
standa.
Verður hætt við fegurðarkeppnina Ungfrú heimur í Nígeríu?
Keppnin hundsuð
vegna dauðadóms
Sydney. AFP.
AP
Amina Lawal, til vinstri, leidd úr réttarsalnum eftir uppkvaðningu
dauðadómsins. Til að mótmæla honum hafa margar fegurðardrottn-
ingar ákveðið að taka ekki þátt í keppninni Ungfrú heimur í Nígeríu.
FRANSKI rithöfund-
urinn Michel Houelle-
becq kom fyrir rétt í
gær sakaður um að
hafa lítilsvirt íslam með
því að segja trúna
„heimskulega“ og
„hættulega“. Houelle-
becq er 43 ára og varð
heimsfrægur fyrir
skáldsögu sína Öreind-
irnar, sem kom út 1998
og hefur verið þýdd á
íslensku. Samtök músl-
ima í Frakklandi hafa
ákært hann fyrir kyn-
þáttahatur og trúarof-
stæki.
Nýjasta deilan sem Houellebecq
hefur valdið á rætur að rekja til við-
tals sem hann veitti franska bók-
menntatímaritinu Lire í fyrra, þar
sem hann sagði: „Íslam er jú
heimskulegastu trúarbrögðin. Þegar
maður les Kóraninn fellur manni all-
ur ketill í eld. Biblían er þó að
minnsta kosti vel skrifuð vegna þess
að gyðingar hafa virkilega bók-
menntahæfileika.“
Stærstu moskurnar í París og
Lyon, Bandalag franskra múslima
og Heimssamband múslima, hafa
höfðað mál á hendur Houellebecq
fyrir kynþáttahatur gegn múslim-
um, og segja að sannanir fyrir því sé
að finna í nýjustu skáldsögu hans,
Áform, sem væntanleg er í íslenskri
þýðingu í nóvember.
Houellebecq er vanur því að deilur
spinnist vegna skáld-
sagna hans og hefur
hvorki dregið til baka
ummæli sín né varið
aðalsöguhetju bókar-
innar, sem hatar araba.
Lögmaður Houelle-
becqs, Emmanuel
Pierrat, sagði við AFP
að ekki sé hægt að taka
viðtal við rithöfund
eins og um væri að
ræða stjórnmálamann.
En lögmenn samtaka
múslima segja að það
séu ekki persónulegar
skoðanir rithöfundar-
ins sem málið snúist
um, heldur kynþáttahatur er beinist
gegn múslimum.
„Ég hef sérstaka hæfileika til
að móðga og ögra“
Þegar deilurnar, er hafa átt þátt í
því að bækur Houellebecqs haldast á
metsölulistum, stóðu sem hæst í
fyrra svaraði hann gagnrýnendum
sínum fullum hálsi: „Þetta hefur
bara valdið mér erfiðleikum, en
svona er þetta nú. Ég geri árásir. Ég
móðga. Ég hef sérstaka hæfileika til
að móðga og ögra. Þetta kryddar
skáldsögurnar mínar. Er það ekki
fremur fyndið? Það virðist hér engu
skipta hvað mér finnst sem einstak-
lingi.“
Houellebecq er nú búsettur á Ír-
landi þar sem hann vinnur að kvik-
myndun skáldsögunnar Öreindirnar.
Houellebecq
kemur fyrir
rétt í París
París. AFP.
Houellebecq
TVÖ flutningaskip, sem höfðu með-
ferðis mikið magn kjarnorkuelds-
neytis, lögðust að bryggju í Barrow í
norðvesturhluta Englands í gær eft-
ir að hafa verið 75 daga á ferðalagi
um heimsins höf. Hópur umhverfis-
sinna fylgdi skipunum síðasta spöl-
inn en þeir segja ferðalag þeirra hafa
verið hið mesta hneyksli.
Skipin tvö, Pacific Pintail og Paci-
fic Teal, höfðu verið send með fjögur
tonn af plútonoxíðsblöndu, þ.e.
kjarnorkueldsneyti, til Japans árið
1999. Hafði fyrirtækið Kansai El-
ectric Power fest kaup á eldsneytinu
af breskum framleiðendum til nota í
kjarnorkustöð þess í Fukui-héraði.
Þegar til kom neitaði Kansai
Electric hins vegar að taka við elds-
neytinu enda kom á daginn að for-
svarsmenn breska fyrirtækisins
British Nuclear Fuels Limited höfðu
falsað öryggisskýrslur, sem fylgdu
farminum.
Bretarnir samþykktu að taka aft-
ur við eldsneytinu, auk þess sem þeir
samþykktu að borga Kansai skaða-
bætur. Ekki gekk hins vegar slysa-
laust að koma farminum aftur til
Bretlands en skipin tvö lögðu af stað
frá Japan 4. júlí. Hafa áttatíu lönd – í
kjölfar hryðjuverkaárásanna á
Bandaríkin – mótmælt ferðalagi
þessu um heimshöfin enda fullyrða
fulltrúar umhverfisverndarsamtak-
anna Greenpeace að skipið hafi haft
meðferðis nægt magn plúton-efna til
að búa mætti til 50 kjarnorku-
sprengjur, ef farmurinn félli í hend-
ur rangra aðila.
Þessu hefur BNFL hins vegar
hafnað algerlega og segja efnin, sem
um borð voru, alls ekki jafn hættuleg
og af hefði verið látið.
Umdeildur farm-
ur kominn aftur
til Englands
Barrow-in-Furness. AFP.
Al-QAEDA-liði sem handtekinn
var ásamt hryðjuverkamannin-
um Ramzi Binalshibh í Pakistan
í síðustu viku, er sagður vera
einn morðingja bandaríska
blaðamannsins Daniels Pearls,
að því er háttsettur maður innan
pakistönsku lögreglunnar
greindi frá í gær.
Pakistani sem var handtekinn
en ekki kærður vegna morðsins
á Pearl, gaf upp nafn meints
morðingja.
Samkvæmt heimildarmanni
AP-fréttastofunnar var Pakist-
aninn, Fazal Karim, færður á
griðastað þar sem tíu grunaðir
voru, þar á meðal Binalshibh, í
haldi.
Heimildarmaðurinn vildi ekki
segja hver væri meintur morð-
ingi Pearls en sagði að hann
væri ekki í hópi þeirra fimm
manna sem framseldir hefðu
verið til bandarískra yfirvalda.
Reynist þetta vera rétt, er
þetta fyrsta staðfestingin á aðild
al-Qaeda að ráninu og morðinu á
Pearl. Honum var rænt í janúar
þar sem hann rannsakaði tengsl
hópa herskárra Pakistana við
Richard C. Reid, sem var hand-
tekinn í desember í flugvél á leið
frá París til Miami í Flórída eftir
að sprengiefni fundust í skóm
hans.
Lík Pearls, sem starfaði hjá
dagblaðinu The Wall Street
Journal, fannst í Karachi í maí.
Karim og tveir aðrir menn vís-
uðu á gröfina.
Meintur
morðingi
Pearls
hand-
tekinn
SPRENGJA sprakk á götu á Öster-
malm í miðborg Stokkhólms
skömmu fyrir hádegi í gær. Einn
maður slasaðist að því að fram kom í
yfirlýsingu frá lögreglunni.
Sprengingin átti sér stað á ellefta
tímanum að staðartíma og var hinn
slasaði, sem kvað vera á fertugsaldri,
fluttur á sjúkrahús. Björn Pihlblad,
talsmaður lögreglunnar, sagði, að
sérstök sprengjusveit hefði verið
send á vettvang en ekki var vitað um
hvers konar sprengiefni var að ræða.
Pihlblad sagði, að engin viðvörun
hefði borist um sprengjuna eða
sprengjuhótun. Lokaði lögreglan
götunni og hótel, sem er handan göt-
unnar við staðinn þar sem sprengjan
sprakk, var rýmt.
Að sögn vitna var sprengjan í
tösku, sem skilin var eftir á götunni,
og svo virðist sem hún hafi legið þar í
nokkurn tíma.
Sprengjan sprakk í um 100 metra
fjarlægð frá sænska varnarmála-
ráðuneytinu en í gær var ekki vitað
hvort hún tengdist því eða einhverju
öðru.
Sprengja í Stokkhólmi
Stokkhólmi. AP.