Morgunblaðið - 25.09.2002, Blaðsíða 11

Morgunblaðið - 25.09.2002, Blaðsíða 11
FRÉTTIR MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 25. SEPTEMBER 2002 11 HÆSTIRÉTTUR vísaði í gær frá dómi þeirri kröfu Baugs Group hf. að úrskurðað verði um lögmæti aðgerða lögreglu varðandi húsleit í höf- uðstöðvum fyrirtækisins í síðasta mánuði. Ríkislögreglustjóri gerði húsleit hjá Baugi á grundvelli úrskurðar héraðsdómara 28. ágúst sl. Í kjölfarið leitaði Baugur úrlausnar héraðs- dóms um lögmæti aðgerða lögreglunnar og um lögmæti haldlagningar gagna við hana. Héraðs- dómari hafnaði kröfum Baugs 11. september. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að þegar leit hafi verið lokið í húsakynnum félagsins hafi fallið niður heimild þess til að kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdóms um heimild til húsleitar- innar. Samkvæmt þeim rökum sem búi að baki 3. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð op- inberra mála geti félagið ekki nú beitt ákvæðum 75. gr. eða 79. gr. sömu laga til að leita úrlausnar dómstóla um atriði, sem snúi að því hvort rík- islögreglustjóri hafi undirbúið nægilega rann- sókn sína áður en húsleitar var krafist eða hvort þörf hafi í raun verið á húsleit. Þá komst Hæsti- réttur að þeirri niðurstöðu að ríkislögreglustjóri hafi ekki farið út fyrir þá heimild sem honum hafði verið veitt með úrskurði héraðsdóms. Dómur Hæstaréttar er birtur hér á eftir í heild sinni: Dómur Hæstaréttar ,,Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. september 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2002, þar sem hafnað var kröfum varnaraðila, sem lutu að lögmæti aðgerða sókn- araðila við leit í húsakynnum varnaraðila 28. ágúst 2002 og haldlagningar þar á gögnum. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/ 1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að athafnir sóknaraðila verði dæmd- ar ólögmætar. Sóknaraðili kærði úrskurðinn fyrr sitt leyti 12. september 2002. Hann krefst þess aðallega að vísað verði frá héraðsdómi kröfu varnaraðila, sem snýr að lögmæti aðgerða sóknaraðila við húsleitina, en hafnað þeirri kröfu, sem snýr að lögmæti haldlagningar á gögnum. Til vara krefst sóknaraðili þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. I. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði krafðist sóknaraðili þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 28. ágúst 2002 að sér yrði heimilað að gera leit í húsnæði Baugs hf. og Aðfanga hf. að Skútuvogi 7 í Reykjavík til að handtaka þar tvo menn, formann stjórnar varnaraðila og for- stjóra, og finna muni og gögn, sem hald yrði lagt á vegna rannsóknar á ætluðu broti gegn 247. gr. og 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 36. gr., sbr. 37. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald og 107. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Rannsókn þessari væri beint að fyrrnefndum tveimur mönnum ásamt öðrum stjórnarmanni varnaraðila. Vísaði sóknaraðili til þess að nafngreindur maður, sem reki útflutn- ingsfyrirtæki í Bandaríkjunum, hafi borið í lög- regluskýrslu að hann hafi gefið út í nafni fyr- irtækisins 33 reikninga á hendur Baugi hf. á árunum 2000 til 2002 fyrir samtals 491.691,43 bandaríkjadölum. Reikningarnir hafi verið bún- ir til samkvæmt fyrirmælum stjórnarformanns og forstjóra varnaraðila og hljóðað á greiðslu fyrir þjónustu, sem Baugi hf. hafi verið látin í té. Þetta efni reikninganna hafi verið rangt, því þeir hafi í raun verið gerðir vegna nánar tiltek- inna persónulegra útgjalda þessara manna. Þá hafi sami maður borið að forstjóri varnaraðila hafi óskað eftir að hann gerði í nafni fyrirtækis síns svokallaðan kreditreikning á hendur Baugi hf. að fjárhæð 589.890 bandaríkjadalir vegna af- slátta, vörutjóns og rýrnunar á vörusendingum frá miðju ári 2000 til jafnlengdar á næsta ári, en þessi reikningur hafi verið tilbúningur og engin viðskipti búið að baki honum. Maður þessi hafi afhent sóknaraðila gögn um framangreint efni, þar á meðal útskrift orðsendinga, sem gengið hafi milli hans og forráðamanna varnaraðila í tölvupósti. Sóknaraðili hygðist kanna með hús- leit hvort og þá hvernig reikningar þessir hafi verið færðir í bókhaldi Baugs hf., svo og að leita staðfestingar á þeim samskiptum, sem borið hafi verið um í umræddri lögregluskýrslu, með- al annars í tölvukerfi félagsins og á skrifstofum þess að öðru leyti. Héraðsdómari veitti sókn- araðila umbeðnar heimildir með úrskurði, sem kveðinn var upp 28. ágúst 2002. Húsleit var gerð síðastgreindan dag hjá varn- araðila á grundvelli úrskurðar héraðsdómara. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum stóðu að- gerðir við hana yfir frá kl. 16.20 til 23.54. Var forstjóri varnaraðila jafnframt handtekinn og færður til skýrslutöku hjá sóknaraðila, en stjórnarformaður félagsins var staddur erlend- is. Við húsleitina var lagt hald á nokkurn fjölda skjala, tölvudisklinga og ljósmynda, auk farsíma og fartölvu, sem getið var í sérstakri skýrslu lögreglunnar um þá aðgerð. Jafnframt voru tek- in afrit gagna úr nánar tilgreindum hlutum tölvukerfis varnaraðila. Með bréfi 29. ágúst 2002 leitaði varnaraðili úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um lög- mæti aðgerða lögreglu við framangreinda hús- leit, svo og um lögmæti haldlagningar gagna við hana, en um heimild til þessa vísaði varnaraðili til 75. gr. og 79. gr. laga nr. 19/1991. Af því tilefni var mál þetta þingfest í héraði 2. september 2002. II. Áðurgreind krafa sóknaraðila um heimild Héraðsdóms Reykjavíkur til leitar beindist að húsakynnum varnaraðila. Að fenginni þeirri heimild lét sóknaraðili verða af húsleitinni og lagði við framkvæmd hennar hald á gögn og muni, sem voru í vörslum varnaraðila. Að því leyti, sem lögmæti þessara aðgerða verður að þeim loknum borið undir dómstóla eftir ákvæð- um 75. gr. og 79. gr. laga nr. 19/1991, getur varn- araðili átt aðild að slíku máli í ljósi þeirra að- stæðna, sem hér var getið. III. Samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 verður úrskurður héraðsdómara ekki kærður til Hæstaréttar ef athöfn, sem kveðið er á um í úr- skurðinum, hefur þegar farið fram eða ástand, sem leitt hefur af ákvæðum hans, er þegar um garð gengið. Eins og sérstaklega hefur verið tekið fram í fyrri dómum Hæstaréttar, meðal annars í dómi 3. maí 2002 í máli nr. 178/2002, taka þessar reglur mið af því að þótt heimild til að kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdómara líði undir lok þegar ákvæðum hans hefur verið hrundið í framkvæmd, þá geti sá, sem hefur orð- ið að þola rannsóknaraðgerð samkvæmt úr- skurðinum, allt að einu fengið leyst úr atriðum varðandi lögmæti heimildar til hennar eða að- ferðir við framkvæmd hennar í opinberu máli, sem kann að verða höfðað um sakarefnið, eða með því að höfða einkamál til heimtu skaðabóta á grundvelli XXI. kafla laga nr. 19/1991. Þótt varnaraðili sé ekki hafður fyrir sökum við þá lögreglurannsókn, sem málið varðar, og því ekki viðbúið að opinbert mál verði höfðað gegn hon- um, verður framangreindum reglum allt að einu beitt um hann, enda stendur honum opin leið til að krefjast í einkamáli eftir almennum reglum skaðabóta vegna aðgerða sóknaraðila, sem fyrr er getið, ef hann telur efni standa til þess. Þegar leit var lokið í húsakynnum varnaraðila 28. ágúst 2002 féll niður heimild hans til að kæra til Hæstaréttar úrskurð Héraðsdóms Reykja- víkur, sem kveðinn var upp sama dag. Sam- kvæmt framangreindum rökum að baki 3. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 getur varnaraðili ekki nú beitt ákvæðum 75. gr. eða 79. gr. sömu laga til að leita úrlausnar dómstóla um atriði, sem snúa að því hvort sóknaraðili hafi undirbúið nægilega rannsókn sína áður en húsleitar var krafist eða hvort þörf hafi í raun verið á húsleit. Af sömu ástæðu getur varnaraðili heldur ekki beitt síðastnefndum tveimur lagaákvæðum til að fá leyst í málinu úr atriðum, sem varða fram- kvæmd húsleitarinnar, þar með talið hvort nægilega hafi verið greint á vettvangi frá tilefni húsleitar og heimild fyrir henni áður en aðgerð- ir við hana hófust, hvort farið hafi verið út fyrir heimild héraðsdóms við framkvæmd leitarinnar eða hvort meðalhófs hafi þar verið gætt. Að öllu þessu athuguðu verður að vísa frá héraðsdómi þeirri dómkröfu varnaraðila að „úrskurðað verði um…lögmæti aðgerða lögreglu varðandi húsleit í höfuðstöðvum kæranda, dags. 28. ágúst 2002“, svo sem komist var að orði í kæru hans til Hæstaréttar. IV. Í málinu hefur varnaraðili gert kröfu, sem hann orðar þannig í málatilbúnaði sínum fyrir Hæstarétti að „úrskurðað verði um…lögmæti haldlagningar gagna í umræddri húsleit“. Líta verður svo á að með þessu sé varnaraðili í raun að leita úrlausnar dómstóla um hvort sóknarað- ila hafi verið heimilt að leggja hald á gögn og muni, sem hann tók í vörslur sínar við húsleitina 28. ágúst 2002, og hvort honum beri eftir atvik- um að skila þeim aftur til varnaraðila að því leyti, sem það hefur ekki þegar verið gert. Með þessari skýringu á kröfu varnaraðila er unnt að taka efnislega afstöðu til hennar á grundvelli 79. gr. laga nr. 19/1991. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða héraðsdómara um þann þátt í dómkröfum varnaraðila, sem að framan er getið. Dómsorð: Vísað er frá héraðsdómi kröfu varnaraðila, Baugs Group hf., sem varðar lögmæti aðgerða sóknaraðila, ríkislögreglustjóra, við leit í húsa- kynnum varnaraðila 28. ágúst 2002. Að öðru leyti er hinn kærði úrskurður stað- festur.“ Heimild til að kæra úrskurð um húsleit hjá Baugi féll niður þegar leit var lokið Kröfu Baugs Group hf. vísað frá dómi Morgunblaðið/Kristinn HREINN Loftsson hrl., lögmaður Baugs Group hf., sendi í gær frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna dóms Hæstaréttar. ,,Dómur Hæstaréttar í dag er staðfesting á því sem ég, sem lög- maður Baugs Group hf., hef haldið fram, að verulegir annmarkar séu á réttarfarslöggjöfinni þar sem brota- þola er ómögulegt að fá endurskoð- un dómstóla á rannsóknarathöfnum lögreglu fyrr en í hugsanlegu bóta- máli löngu eftir að athafnir þær eru afstaðnar sem um er deilt. Sú leið er auk þess torfarin þar sem sanna þarf fjárhagslegt tjón, orsakatengsl og fleiri slík atriði. Þannig sýnir nið- urstaða Hæstaréttar, sem er vafa- laust lögfræðilega rétt, að í lögin vantar úrræði fyrir brotaþola, sem verður fyrir frekara tjóni af svo við- urhlutamiklum aðgerðum lögreglu sem húsleit er. Í dómi Hæstaréttar í dag er ekki tekin nein efnisleg af- staða til réttmætis þeirrar gagnrýni sem undirritaður lögmaður hefur sett fram gagnvart rannsóknarat- höfnum lögreglunnar. Allt sem þar hefur verið sagt af minni hálfu stendur óhaggað. Rétt er að ítreka að dómur Hæstaréttar sýnir eink- um fram á meinbugi á lögum um meðferð opinberra mála þar sem aðila eins og Baugi Group hf., meintum brotaþola og þeim sem hinar harkalegu aðgerðir lögreglu beinast gegn, er fyrirmunað að fá endurskoðun dómstóla á aðferðum lögreglunnar. Þá læt ég allsendis ógetið um þær aðferðir héraðsdóm- ara varðandi heimildir til húsleitar sem gagnrýndar hafa verið á op- inberum vettvangi af fleiri lögmönn- um en mér þess efnis, að úrskurðir þeirra séu of stuttir og beri þess ekki merki að sjálfstætt mat hafi verið lagt á það efni sem lögreglan leggur fyrir þá áður en þeir stimpla það og gefa lögreglu grænt ljós til athafna.“ Hreinn Loftsson, lögmaður Baugs, um dóm Hæstaréttar Annmarkar á rétt- arfarslöggjöfinni Verjendur í máli Baugs fá aðgang að gögnum HÆSTIRÉTTUR hefur í tveimur samhljóða dómum staðfest úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu ríkislögreglustjóra um að tek- in yrði skýrsla af annars vegar stjórnarformanni Baugs hf., og hins vegar af framkvæmdastjóra fjárfest- ingarfélagsins Gaums hf. og vara- manni í stjórn Baugs, fyrir dómi vegna rannsóknar ríkislögreglu- stjóra. Hæstiréttur hafnaði hins vegar kröfu ríkislögreglustjóra um að frestur, sem hann hefur til að synja verjendum þeirra um aðgang að gögnum málsins, verði framlengdur í þrjár vikur. Í greinargerð með kröfu ríkislög- reglustjóra kemur fram að rannsókn málsins sé mjög umfangsmikil og gangi allvel en sé hins vegar enn á fyrstu stigum og því sé ljóst að miklu sé ólokið, eins og úrvinnslu hald- lagðra gagna og skýrslutökum af þeim sem tengjast málinu. Nauðsynlegt sé að fá umrædda tvo sakborninga fyrir dóm til að staðfesta fyrri framburð sinn og til nánari yfirheyrslu um málið áður en þeir fái að kynna sér öll gögn máls- ins. Er því haldið fram að ósamræmis gæti í framburði þeirra og annarra sakborninga og fari svo að hinum kærðu yrði heimilað að kynna sér gögn málsins á þessu stigi málsins byði það tvímælalaust upp á þá hættu að þeir legðu mat á sönnunar- stöðu málsins og gætu hagað fram- burði sínum í samræmi við fram- burði annarra eftir því sem þeim hentaði. Með því móti gætu sakborning- arnir spillt sönnunarfærslu í málinu og torveldað og seinkað rannsókn þess. Sé því jafnframt nauðsynlegt að krefjast þess að héraðsdómur framlengi þann frest sem lögregla hefur til að kynna verjanda gögn málsins. Meginregla að verjandi á rétt á aðgangi að gögnum máls Í úrskurði héraðsdóms segir að það sé meginregla opinbers réttar- fars að verjandi eigi rétt á aðgangi að öllum gögnum máls og að honum sé jafnframt heimilt að kynna þau sakborningi. Að kröfu ríkislögreglu- stjóra hafi verið heimiluð húsleit í húsnæði Baugs með dómsúrskurði 28. ágúst sl. Fór leit þar fram sama dag og var hald lagt á gögn, sem tal- in eru hafa þýðingu við rannsókn málsins og bókhaldsgögn afrituð. Fjórir einstaklingar hafi verið yfir- heyrðir 28. og 29. ágúst sl. sem sak- borningar í málinu og hafi ýmis þess- ara gagna verið borin undir þá og þeim gefinn kostur á að gefa skýr- ingar á atriðum tengdum þeim. Allir hafi sakborningarnir neitað sök en ekki var krafist gæsluvarðhalds yfir neinum þeirra á grundvelli rann- sóknarhagsmuna og hafi þeir því eft- ir atvikum haft öll tök á að bera sig saman og hagræða framburði sínum. Þá hafi þeir einnig haft aðgang að öllum bókhaldsgögnum sem lögregla afritaði. Að öllu þessu virtu var það mat dómsins að ekki séu efni til að beita þröngri undantekningarreglu laga um meðferð opinberra mála til framlengingar frests til að synja verjendum um aðgang að gögnum málsins og er kröfu ríkislögreglu- stjóra að þessu leyti hafnað.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.