Morgunblaðið - 23.11.2002, Page 53
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 23. NÓVEMBER 2002 53
arnar fylla hugann. Hann var á átt-
unda ári þegar ég fæddist, var mér
góður, strauk oft af mér skælurnar.
Smáprakkari var hann stundum.
Einn veturinn er ég var farin að
stálpast, smíðaði Gunnar sleða og gaf
mér, með einu skilyrði, ég mátti ekki
segja neitt ljótt í viku. Eitthvað varð
mér á, eignarréttinum tapaði ég, en
áfram mátti ég nota sleðann sem
væri hann minn.
Gunnar var fylginn sér, dulur og
afskaplega blíður. Mesta gæfa hans í
lífinu var að fá Steinunni sína fyrir
konu. Það var ást við fyrstu sýn, sem
entist alla tíð. Til þess var tekið hve
hamingjusöm þau voru. Fóru allt
saman, leiddust alltaf eins og nýtrú-
lofuð. Vart var hægt að nefna annað
svo hitt kæmi ekki í hugann. Þau
voru afskaplega gestrisin, það vita
allir þeir mörgu sem oft hafa notið
ljúfra stunda við hlaðin veisluborð á
heimili þeirra.
Fyrst bjuggu þau á bernskuheimili
okkar Gunnars. Þá kynntist ég Stein-
unni vel. Við urðum strax góðar vin-
konur og höfum verið það síðan. Eftir
að ég flutti og stofnaði mitt heimili
var sem betur fer ekki lengra á milli
en svo að samgangur var tíður eða
eins og aðstæður leyfðu á þeim tíma.
Við fórum báðar að eiga börn þau
voru á líku reki og höfðu gaman af að
hittast. Alltaf um jólin voru boð milli
heimilanna og mörg gamlárskvöld
vorum við öll þar og er enn í minnum
haft. Eitt sinn er ég þurfti að skreppa
til Reykjavíkur fékk yngsta dóttir
mín að vera hjá þeim á meðan. Þar
undi hún sér vel. Er heim kom og ég
fór eitthvað að banna henni, sagði
hún bara: „Þú átt að vera eins og
Gunnar frændi, hann bannaði mér
aldrei neitt.“
Gunnar og Steinunn nutu mikils
barnaláns. Þau eiga sex mannvænleg
og góð börn sem eru búin að færa
þeim sex tengdabörn og marga af-
komendur sem öll hafa umvafið þau
ást.
Best hafa börnin sýnt umhyggjuna
með því að skiptast á um að vera hjá
þeim í erfiðum veikindum pabba síns
í lengri tíma svo þau væru aldrei ein
með álagið. Ekki var hægt að gera
betur.
Með hrærðum huga þakka ég
Gunnari bróður vinsemd við mig og
mína. Ég kveð hann eins og ég var
vön: „Blessaður væni, líði þér sem
best.“
Elsku Steinunn, þín stórfjölskylda
og ástvinir allir, við Elís sendum okk-
ar innilegustu samúðarkveðjur.
Emilía Lilja.
Gunnar Aðalsteinsson var vinur
okkar og samferðamaður um meira
en hálfrar aldar skeið. Á kveðjustund
er margs að minnast og margt að
þakka. Vináttutengsl við hann og
Steinunni gerðu okkur kleift að veita
börnum okkar fjórum kynni af
sveitabúskap á Íslandi eins og hann
var stundaður um og upp úr miðri
síðustu öld. Fyrir þau, sem öll voru
fædd og uppalin í borg, var það dýr-
mætara en orð fá lýst að fá að kynn-
ast unaðssemdum sveitalífsins. Það
var gaman að heyra Gunnar ræða við
þau um hesta, kindur, kýr og annað
það sem lífsanda dró og tilheyrði
áhöfn búsins. En liljur vallarins og
fuglar himinsins voru honum einnig
hugleikin enda var hann mikið nátt-
úrubarn. Þetta var á þeim gömlu,
góðu dögum þegar Steinunn og
Gunnar bjuggu að Brautarholti II í
Dölum en þar stóð heimili þeirra frá
1950 til 1971.
Nú eru spor Gunnars á föðurleifð
hans í Dölum hulin sölnuðu grasi
margra sumra. Eflaust hefði hann
viljað ganga æviveginn til enda á
þeim slóðum, enda átti landbúnaður-
inn hug hans allan. En þegar honum
bauðst ábyrgðarstarf hjá Kaupfélagi
Borgfirðinga, sem fól í sér fjölþætt
samskipti við bændur og búalið, taldi
hann rétt að færa sig um set. Í Borg-
arnesi átti hann mörg farsæl ár sem
deildarstjóri í fóðurvörudeild og slát-
urhússtjóri.
Gunnar Aðalsteinsson var manna
skemmtilegastur í viðræðu og kunni
vel þá list að láta gestum sínum líða
vel. Í því efni sem öðru voru hann og
hans góða kona samhent og sam-
stiga. Þetta ljúfa viðmót húsráðenda
átti sinn þátt í því að skyldir sem
óskyldir hneigðust til samvista við
þau og því var jafnan mjög gest-
kvæmt á heimili þeirra.
Elskulegri systur og mágkonu,
börnum hennar sex og fjölskyldum
þeirra, svo og eftirlifandi systkinum
Gunnars, sendum við innilegustu
samúðarkveðjur. Sjálfum honum
biðjum við blessunar Guðs.
Inga og Sigurður Markússon.
Á þeim árum síðan ég kom inn í
þessa stóru elskulegu fjölskyldu
Gunnars afa þurfti ekki langan tíma
til að kynnast honum og þykja vænt
um hann. Smæstu hlutirnir eru þeir
sem skipta máli, og frá fyrstu stundu
var hann eins og afi minn líka. Hann
umvafði mig með hlýju frá fyrstu
stundu og lét mig finna væntum-
þykju.
Frá þessum degi hefur hvert orð af
vörum hans og hvert andartak verið
mér dýrmætara og dýrmætara.
Við söknum afa sárt og þökkum
fyrir allt sem hann hefur gefið okkur.
Við söknum faðmlaganna og við
söknum hlýjunnar sem fylgdi honum.
Elsku afi, ef við lokum augunum
sjáum við þig ljóslifandi fyrir okkur.
Við biðjum Guð að blessa ömmu
sem hefur misst svo mikið.
Hvíl í friði, elsku afi.
Tuna og Halldór.
Elsku Gunnar langafi er farinn til
englanna og verður fallegur engill
sem kemur til með að fylgjast með
okkur. Hann langafi var svo
skemmtilegur og lék alltaf við okkur
þegar við hittum hann. Við horfðum á
Simpsons, stigum við stokkinn eða
töluðum bara saman. Gat afi alveg
haldið athygli okkar lengi með sögum
úr sveitinni sinni.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson.)
Bless, elsku langafi.
Þín langafabörn,
Nikulás Árni og
Hafdís Guðrún.
Elsku afi minn. Ég sakna þín sárt,
þakka þér fyrir allar samverustund-
irnar.
Far þú í friði,
friður guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með guði,
Guð þér fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(V. Briem.)
Takk fyrir allt.
Steinar Árni.
Elsku afi, rosalega eigum við eftir
að sakna þín mikið, þegar við minn-
umst allra góðu stundanna sem við
höfum átt saman, þegar við spiluðum
saman, lékum við Perlu og margt
fleira. Þegar við vorum litlar áttum
við eiginlega jafnmikið heima hjá
ykkur ömmu og heima hjá mömmu
og pabba. Við munum eftir óteljandi
tóbaksklútunum þínum, og hvað þú
hlóst mikið þegar þú sást Perlu með
einn slíkan um hálsinn. Þú varst af-
skaplega flinkur í höndunum, og get-
um við aldrei þakkað þér nógu mikið
fyrir alla þá fallegu hluti sem þú
smíðaðir handa okkur, og þá sér í lagi
kofann í garðinum sem þú byggðir.
Við munum líka eftir vasahnífnum
þínum, en hann skildir þú aldrei við
þig og kom hann oft að góðum notum,
hvort sem var að ydda tréliti, blýanta
eða hjálpa til við að losa um erfiða
hnúta á pökkum um jólin.
Við viljum biðja þig um að passa
Perlu fyrir okkur, við munum biðja
guð að geyma þig og að hjálpa ömmu
Steinunni í sorg sinni.
Þakka þér fyrir allt.
Ásrún og Sigríður.
Elsku afi, ef þú bara vissir hvað
það er erfitt að vera svona langt í
burtu frá fjölskyldunni og vinum á
stund sem þessari. Að koma aftur
heim fær líka aðra merkingu, því
ekkert verður eins og áður. Þín verð-
ur sárt saknað, en eins sárt og okkur
þykir að kveðja þig gleður það okkur
jafnframt að vita að þú ert nú laus frá
þeim þjáningum sem krabbameinið
olli þér.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta,
þá sælt er að vita af því.
Þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sig.)
Við vitum að þú lifir áfram og munt
taka vel á móti okkur hinum þegar
okkar tími er liðinn.
Með ástarkveðjum.
Jenny Lind, Gunnar Aðils
og Friðrik Árni.
Það er orðin venja að koma við í
Borgarnesi á langferðum fjölskyld-
unnar. Sest er yfir kaffibolla og gaml-
ir tímar ræddir. Ómetanlegar upp-
lýsingar fyrir fróðleiksþyrstan
frænda um lífið og tilveruna í gamla
Brautarholti. Um systkinin sjö, ein-
kenni þeirra og samskipti. Um bú-
skaparárin í Brautarholti og um
sveitalífið eftir að ég kom þangað.
Þessi aðgangur að fortíðinni er svo
mikilvægur.
Það má segja að ég hafi ekki
kynnst Gunnari og Steinunni al-
mennilega fyrr en ég var orðinn full-
orðinn. Sem snoðdýr í sveitinni var
ég hálffeiminn við þennan keika og
myndarlega frænda sem gekk rösk-
lega til verka, var ákveðinn og stund-
um dálítið strangur á svip. En þegar
ég lít til baka man ég svo vel and-
stæðuna sem birtist í glettni og bros-
mildi og ég bar virðingu fyrir þessum
frænda mínum. Það var heldur ekki
til að minnka álit mitt, hversu góður
hann var við konuna sína. Saman
gengu þau hönd í hönd á kvöldin, eft-
ir langan og strangan vinnudag.
Þrátt fyrir ungan aldur skynjaði ég
að þetta var óvenjulegt og fallegt.
Löngu síðar ákvað ég að heim-
sækja Gunnar og Steinunni í Borg-
arnes. Þau tóku þessum frænda sín-
um opnum örmum. „Hvað er að
frétta, væni?“ Það varð ekki aftur
snúið. Þau urðu lykillinn að fortíð-
inni, minningum og fróðleik sem var
svo erfitt að ná til með sjálfum sér.
Fallegt heimili þeirra, gestrisni, sam-
heldni og gleði hlýjaði um hjartaræt-
ur.
Fyrir þessi kynni vil ég og fjöl-
skylda mín þakka, því slík kynni eru
það sem gefur lífinu gildi. Við vottum
Steinunni og börnum dýpstu samúð
okkar.
Aðalsteinn Sigfússon.
Ég á góðar minningar um heim-
sóknir mínar með fjölskyldu minni til
Gunnars og Steinunnar þegar þau
bjuggu í Brautarholti vestur í Dölum.
Fyrstu ferðir mínar vestur voru um
eða upp úr 1967 og var lagt af stað
eftir vinnu hjá pabba á föstudögum, á
fullhlöðnum bíl af fólki og farangri.
Spenningurinn magnaðist eftir því
sem nær dró Brautarholti og þegar
ekið var vestur Miðdali og sást til
Brautarholts voru bílljósin látin
blikka og undantekningarlaust var
svarað með ljósmerki sem átti upp-
tök sín í eldhúsinu hennar Steinunn-
ar. Heimsóknirnar í Brautarholt liðu
sem örskot, við leiki, störf og ýmis
ævintýri. Mér er Gunnar minnis-
stæður frá þessum árum. Hann var
grannvaxinn, snar í hreyfingum og
hafði í nógu að snúast. Þau eru ófá
börnin sem komu í heimsókn og
fengu að sitja í hliðarsætinu á græna
Deutz-traktornum hans Gunnars.
Þannig fylgdu þau honum í fjárhúsin
eða fjósið. Þessar heimsóknir mínar
urðu til þess að ég fékk örlitla innsýn
í búskap sem ég bý enn að. Gunnar
flutti með fjölskyldu sína í Borgarnes
árið 1971 og tók þar við starfi slát-
urhússtjóra hjá Kaupfélaginu. Mikill
samgangur hefur verið alla tíð á milli
foreldra minna og Steinunnar og
Gunnars. Eftir því sem ég óx úr grasi
og þroskaðist áttaði ég mig betur á
hvílíkum mannkostum Gunnar og
Steinunn bjuggu yfir. Gunnar sýndi
ávallt fölskvalausan áhuga á öllu því
sem maður var að sýsla við, hvort
sem það var nám eða vinna. Hann
hafði gaman af því að fræðast um alla
hluti og var sjálfur víðlesinn og vel að
sér. Ég á eftir að sakna heimsókn-
anna í borðkrókinn að Kveldúlfsgötu
1 þar sem ég ræddi við Gunnar um
alla mögulega hluti. Gunnar lést eftir
nokkuð snarpa legu í viðureign sinni
við sjúkdóm sem hafði betur á end-
anum. Kæra Steinunn, góðu frænd-
systkini og aðrir sem eiga um sárt að
binda, ég bið þess að fallegar minn-
ingar um góðan mann megi milda
sorgina og sefa söknuðinn.
Guðbrandur Sigurðsson.
Á kveðjustundu þegar hugurinn
leitar yfir farinn veg minnist ég fyrst
og fremst Gunnars Aðalsteinssonar
sem bónda. Við systkinin og foreldr-
ar okkar áttum ótalmargar sameig-
inlegar stundir í Brautarholti hjá
Gunnari og Steinunni, móðursystur
minni og börnum þeirra hjóna. Það
er ómetanlegt hverju barni að kynn-
ast lífinu í sveitinni og Gunnar kunni
þá list að virkja börn og unglinga til
að aðstoða við sveitastörfin þó ekki
væri nema til að fá smá nasasjón af
búrekstri. Ef satt skal segja veit ég
ekki hvort sex ára stúlkubarn gat
rakað heyi af nokkurri elju; sama
barn fékk að gefa hænsnunum fóður
og fannst hún mjög mikilvæg. Tveim-
ur árum seinna hækkaði stúlkan í
tign þegar hún fékk að taka eggin
sem hænurnar verptu og nokkrum
árum síðar ráku tvær frænkur á svip-
uðum aldri kýrnar á beit eftir morg-
unmjaltir og sóttu þær á kvöldin. Og
þá var ekki síður lærdómsríkt að
vera í Brautarholti meðan sauðburð-
urinn stóð yfir. Þá kynntist maður
því að bóndinn þurfti að vera til taks
á nóttu sem degi og oft lítið um hvíld.
Það greyptist og í huga barnsins
hversu varfærnislega Gunnar um-
gekkst skepnurnar.
Þetta eru einungis minningabrot
úr sveitinni.
En Gunnar var líka góður mála-
maður. Sem barn er hafði búið er-
lendis var ég undrandi á því að heyra
hann tala við Þjóðverja á Verzlunar-
skólaþýskunni sinni. Þetta hélt ég að
væri ekki hægt nema að hafa búið í
viðkomandi landi. Mörgum árum síð-
ar lagði hann á sig að læra þó nokkuð
í finnsku.
Eftir að Gunnar og Steinunn
brugðu búi árið 1971 og fluttu til
Borgarness fylgdi þeim áfram óvið-
jafnanleg gestrisni. Hjá þeim voru
allir aufúsugestir og eru þeir ófáir er-
lendu ferðamennirnir sem setið hafa
að kræsingum á heimili þeirra.
Að leiðarlokum vil ég þakka Gunn-
ari alla þá vinsemd sem hann hefur
ætíð sýnt mér og mínum.
Megi góður Guð styrkja Steinunni
og alla afkomendur í sorginni.
Guðríður St. Sigurðardóttir.
Látinn er góður vinur minn, Gunn-
ar A. Aðalsteinsson frá Brautarholti í
Dalasýslu. Gunnar var verslunar-
skólagenginn og vel undir það búinn
að mæta lífinu á breiðum grundvelli.
Þjóðmál og félagsmál voru honum of-
arlega í huga og gaman að ræða við
hann á þeim nótum. Hann tók æv-
inlega svari lítilmagnans.
Þegar Gunnar og kona hans Stein-
unn bjuggu í Brautarholti heimsótt-
um við hjónin þau flest sumur. Börn-
in voru með í för og höfðu gaman af.
Það voru miklar gleðistundir, enda
viðtökur frábærar. Borð svignuðu
undan kræsingum. Þá var hlegið dátt
og hent að ýmsu gaman. Gunnar og
Steinunn voru kærleiksríkar persón-
ur svo af bar. Þótti okkur hjónum af-
ar vænt um þau.
Á síðari árum átti Gunnar við van-
heilsu að stríða. Þá nýttust honum
þeir listrænu hæfileikar sem honum
voru gefnir. Hann tók sér fyrir hend-
ur að sauma í má segja allt mögulegt,
púða, dúka, viskustykki og ótal
margt fleira. Þar að auki ræktaði
hann kartöflur og sá um viðhald á
húsinu. Gunnar var sláturhússtjóri
hjá Kaupfélaginu í Borgarnesi og
þótti fólki gott að vinna undir hans
stjórn, enda réttsýnn maður og
drengur góður, kærleiksríkur heim-
ilisfaðir og natinn. Eiginkona hans
Steinunn Árnadóttir, sem er óvenju-
leg gæðamanneskja, var stoð hans og
stytta í einu og öllu.
Þegar ég lít yfir farinn veg er það
mikil gæfa og gleði að hafa kynnst
svo góðum dreng sem Gunnar var.
Ég þakka honum af öllu hjarta hvað
hann var mér og mínum mikils virði.
Guð blessi minningu hans.
Guðmundur Guðmundsson.
Fleiri minningargreinar
um Gunnar A. Aðalsteinsson bíða
birtingar og munu birtast í blaðinu
næstu daga.
Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlý-
hug við andlát og útför ástkærs eiginmanns
míns, föður, tengdaföður, afa og langafa,
JÓNS EYJÓLFS EINARSSONAR
fv. fulltrúa hjá Kaupfélagi Borgfirðinga,
Berugötu 18,
Borgarnesi.
Helga Jónasdóttir,
Jónas H. Jónsson, V. Stefanía Finnbogadóttir,
Bragi Jónsson, Sonja Hille,
Sigurður Páll Jónsson, Hafdís Björgvinsdóttir,
Einar Helgi Jónsson, Unnur Mjöll Dónaldsdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.
Innilegar þakkir færum við öllum þeim sem
sýndu okkur samúð og vinarhug við andlát og
útför ástkærs eiginmanns míns, föður okkar,
tengdaföður, afa og langafa,
RÖGNVALDAR JÓNSSONAR
frá Marbæli,
Skarðshlíð 14A,
Akureyri.
Sérstakar þakkir til allra þeirra sem önnuðust hann og sýndu honum
hlýhug í veikindum hans.
Hulda Jónsdóttir,
Anna S. Rögnvaldsdóttir,
Pálmi Rögnvaldsson, Bryndís Óladóttir,
Jón G. Rögnvaldsson, Svanfríður Sigurðardóttir,
Margrét Rögnvaldsdóttir, Árni Ragnarsson,
Rögnvaldur B. Rögnvaldsson, Birna G. Baldursdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.