Morgunblaðið - 17.01.2003, Síða 32

Morgunblaðið - 17.01.2003, Síða 32
MINNINGAR 32 FÖSTUDAGUR 17. JANÚAR 2003 MORGUNBLAÐIÐ Árið 1930 var merk- isár í sögu þjóðarinnar. Það var líka viðburða- ríkt í lífi mínu. Þjóðhá- tíð var haldin á Þing- völlum í tilefni af þúsund ára afmæli Alþingis. Faðir minn ætlaði til Þing- valla og ákvað að taka okkur tvo elstu syni sína með sér. Ekki vissi ég þá að móðir mín ætti von á barni, 45 ára gömul. En 16. nóvember um haustið ól hún ljóm- andi fallegt stúlkubarn sem seinna hlaut nafnið Hjördís. Ég man enn í dag eftir bláu augunum og ljósu lokk- unum sem hringuðust fram á ennið á litlu hnátunni. Tveim árum síðar eignuðust svo foreldrar mínir annað stúlkubarn sem gefið var nafnið Erna. Þá var mamma orðin 47 ára. Það þykir alltaf varasamt að svo fullorðnar konur ali börn en þetta gekk eins og í sögu. Allt virtist leika í lyndi — og gerði það í nokkur ár. Þá dró skyndilega ský fyrir ham- ingjusól heimilisins. Faðir okkar veiktist, fékk heilablóðfall og var fluttur suður til Reykjavíkur. Hann HJÖRDÍS GEIRDAL ✝ Hjördís Geirdalfæddist á Ísafirði 16. nóvember árið 1930. Hún lést á líkn- ardeild Landspítal- ans í Kópavogi hinn 8. janúar síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Dómkirkj- unni í Reykjavík 16. janúar. hresstist samt nokkuð svo að hann gat tekið við fyrra starfi sínu. En nú tók heilsu móður okkar að hnigna. Hún andaðist á Sjúkrahúsi Ísafjarðar á jóladag 1939. Ég var við dánarbeð hennar. Hún gat ekki talað en það fór ekki milli mála hvað henni lá þyngst á hjarta. Hún var barn tveggja alda, fædd 1885, og vissi vel hvaða örlög biðu mun- aðarleysingja á upp- vaxtarárum hennar. Hún átti þrjú börn í ómegð og heilsutæpan eigin- mann. Ég hét því þá með sjálfum mér að gera það sem í mínu valdi stæði til að tryggja framtíð barnanna. Faðir okkar reyndi að halda heim- ilinu saman en tókst það misjafnlega. Þegar ég gifti mig tveimur árum síð- ar ákváðum við kona mín að taka til okkar litlu stelpurnar. Bragi, sem orðinn var 14 ára, fór til Keflavíkur í rafvirkjanám hjá Pétri bróður okkar. Allt bjargaðist þetta, börnin voru mannvænleg og þau spjöruðu sig. Bragi varð umsvifamikill rafverk- taki. Hjördís lærði hárgreiðslu og varð meistari í þeirri grein. Erna tók stúdentspróf og stundaði síðan há- skólanám í frönsku. Ég rifja þetta upp til að sýna að bernskuár Hjördísar voru nokkuð frábrugðin því sem börn eiga að venj- ast og njóta. Móðurmissirinn skildi eftir sig sár sem aldrei greru til fulls. Samt er gaman að minnast at- burða úr bernsku þeirra systra með- an báðir foreldrarnir lifðu. Vega- lengdir eru ekki langar á Ísafirði. Það var ekki nema fimm mínútna gangur heim frá vinnustað pabba svo hann kom venjulega heim í mat. Bílar voru örfáir á þessum árum, frjálsræðið meira en í dag og leikvöll- urinn rétt fyrir framan húsið í Fjarð- arstræti. Þar var farið í parís og alls kyns boltaleiki en þegar sást til pabba á leiðinni heim í mat þá brást vart að hnáturnar hlupu fagnandi á móti honum og hann hélt á þeim í fanginu heim. Eftir að suður kom tók tilveran á sig alvarlegri blæ. Við tók skólinn, unglings- og manndómsárin. Hjördís systir mín var fríð sýnum og alvörugefin þótt oft mætti sjá glettnisglampa bregða fyrir í augum hennar. Hún gat verið þykkjuþung ef því var að skipta. Hún giftist ung Guðmundi Áka Lúðvíkssyni og rak um tíma hárgreiðslustofu. Þau Áki eignuðust tvær fallegar og gáfaðar dætur og nú eru barnabörn- in orðin fimm, öll hin mannvænleg- ustu. Heimili þeirra hefur alla tíð borið vitni um listræna smekkvísi. Þar leið manni vel — og var ævinlega vel tekið. Ég kveð systur mína með ást og þakklæti og votta eiginmanni henn- ar, dætrunum og börnum þeirra inni- lega samúð mína. Á þessari kveðju- stund kemur upp í huga mér erindi úr afmælisvísum sem faðir okkar orti til Hjördísar þegar hún varð sjö ára. Að eilífu standi þín hamingjuhöll, svo haustkuldi lífsins ei saki. Í vorheiði brosi þér blómin þín öll og blíðgeislar yfir þér vaki. Ingólfur Geirdal. ✝ Bjarni ÞrösturLárusson fæddist í Reykjavík 31. júlí 1957. Hann lést á sjúkrahúsi í Skien í Noregi 8. janúar síð- astliðinn. Foreldrar hans eru Guðlaug Guðjónsdóttir, f. 15.7. 1921 og Lárus Þor- steinsson skipstjóri, f. 14.4. 1916, d. 26.6. 1978. Systkini Bjarna Þrastar eru: Þuríður, f. 1946, maki Ari Leifsson, Þórdís, f. 1948, maki Rúnar Lárusson, Erla Ósk, f. 1949, Jó- hannes, f. 1950, maki Guðrún Reynisdóttir, og Sveinbjörn, f. 1959, maki Arnfríður Guðnadóttir. Eiginkona Bjarna Þrastar er Halla Jörundardóttir leikskóla- kennari, f. 30.6. 1959. Foreldrar hennar eru Margrét Einarsdóttir, f. 10.8. 1922, og Jörundur Sveins- son, f. 2.9. 1919, d. 29.9. 1968. Syn- ir Höllu og Bjarna Þrastar eru Lárus, f. 23.5. 1984, menntaskóla- nemi, og Einar, f. 2.8. 1989, nemi. Bjarni lauk grunn- skólaprófi frá Langholtsskóla og stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund, stundaði síðan nám í tölvunarfræð- um við HÍ. Hann starfaði lengst af hjá Vatnsveitu Reykja- víkur við ýmis störf með skóla og síðar sem kerfisfræðingur þar til hann flutti til Noregs fyrir sex ár- um. Í Noregi starfaði hann síðan sem kerfisfræðingur og ráðgjafi hjá Norsk Hydro til dauðadags. Bjarni Þröstur var skáti frá barnæsku og gegndi ýmsum trún- aðarstörfum fyrir skátahreyf- inguna. Einnig tók hann virkan þátt í stjórnmálum á vegum Al- þýðubandalagsins um árabil. Útför Bjarna Þrastar verður gerð frá Langholtskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30. Elsku Bjarni, örfáar línur að lok- um. Ég byrja þessa hinstu kveðju eins og flest öll mín bréf til þín ... bara örfáar línur, og bréfin frá þér hófust velflest með orðunum: „Sæl, Hildur, ég er bara nokkuð hress ...“ Ég hef kynnst þér betur á þessu síðasta ári í gegnum bréf og símtöl en öll hin árin sem við höfum verið í sömu fjölskyldu. Maðurinn sem ég kynntist var svo sterkur og jákvæð- ur að við hin skömmuðumst okkar. Þú reiknaðir alltaf með því besta og baráttuviljinn var óbugandi. Að þú skyldir leggja það á þig að koma á fjölskyldusamkomu okkar í sumar er ómetanlegt fyrir okkur hin sem eftir stöndum. Þið fjögur stóðuð saman eins og klettur í gegnum all- an sjúkdómsferil þinn og þeir sem stóðu þér næst mynduðu um þig kærleikskeðju á dánarbeðinum. Elsku Bjarni, ég hef margt af þér lært á þessu síðasta ári og að morgni 8. janúar kvaddir þú mig með mikilli hlýju í síma, þó mjög væri af þér dregið. Hlýja, sem ég á eftir að geyma í hjarta mínu að ei- lífu. Hvíl þú í friði, elsku mágur, og ég bið Guð að veita systur minni og sonum ykkar styrk. Hildur Jörundsdóttir. Enn gisti ég mín gömlu föðurtún, sem geyma angan löngu týndra bjarka, og ennþá seiðir efsta fjallsins brún, og ennþá sé ég fyrir sporum marka. Frá bernsku hef ég blessað tind og fjörð. Í brimi var hér alltaf gott að lenda. Hér sté ég fótum fyrst á þessa jörð og finn, að ég er senn á leiðarenda. - - - Því get ég kvatt mín gömlu föðurtún án geigs og trega, þegar yfir lýkur, að hugur leitar hærra fjallsins brún, og heitur blærinn vanga mína strýkur. Í lofti blika ljóssins helgu vé og lýsa mér og vinum mínum öllum. Um himindjúpin horfi ég og sé, að hillir uppi land með hvítum fjöllum. (Davíð Stef.) Kæri mágur. Með þessum ljóð- línum viljum við þakka þér sam- fylgdina, vináttuna og síðast en ekki síst alla hjálpina okkur til handa. Harðri en hetjulegri baráttu við krabbameinið er lokið. Æðru- leysi þitt og hugarró var aðdáun- arverð og mikill lærdómur fyrir okkur sem fylgdumst með úr fjar- lægð. Þú varst þó ekki einn í þeirri baráttu. Halla stóð við hlið þér eins og klettur, sem og fjölskylda þín öll. Landið þitt, sem var þér svo kært, tekur vel á móti þér með- hækkandi sól og eftir dimman vet- ur kemur aftur vor. Elsku Halla, Lárus, Einar og aðrir aðstandend- ur, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra. Hvíl í friði, vinur. Fjölskyldan Lambalæk. Kæri vinur. Okkar kunnings- skapur stóð ekki lengi, en ég er þakklátur fyrir að hafa átt þess kost að vera þér samferða um skeið, þó alltof stutt hafi verið. Þrátt fyrir aldursmuninn upplifði ég að okkur líkaði nærvera hvor annars. Við áttum mörg og oft löng samtöl um allt milli himins og jarð- ar. Maður kom aldrei að tómum kofunum hjá þér, sama hvaða mál- efni var á dagskrá. Alltaf jafn greindur og fróður. Ég man að stundum gleymdum við stað og stund, og vorum jafnvel farnir að nota norskuna án þess að nokkur þörf væri á. Þrátt fyrir erfiðan sjúkdóm var aldrei uppgjöf að finna hjá þér á meðan nokkur von var. Maður dáðist að hugrekkinu og bjartsýninni. Síðustu dagana var þér orðið ljóst hvert stefndi, en þú virkaðir þrátt fyrir það, sterkur og rólegur. Um þig hef ég eins og aðr- ir aðeins góðar og þægilegar minn- ingar. Sérstaklega yfirvegaður og greindur persónuleiki og óvenju þroskaður. Blessuð sé minning þín. Samúðarkveðjur til eftirlifandi eiginkonu, Höllu, og drengjanna ykkar, Lárusar og Einars. Þú hopaðir ekki, þó andaði strítt, og aldrei var kjarkurinn deigur. Ég fann það svo gerla, hvað hjartað var hlýtt og hugurinn djarfur og fleygur. (Jón í Garði.) Viðar Baldursson, Noregi. Með djúpum söknuði og trega kveðjum við kæran vin, Bjarna Þröst, eiginmann ástkærrar æsku- vinkonu minnar, Höllu Jörundar- dóttur. Það var á menntaskólaárunum að Halla kynntist Bjarna en þau voru bæði nemendur Menntaskólans við Sund. Frá upphafi varð samband þeirra mjög náið og fór ekki á milli mála að þarna hafði Halla mín fundið sér lífsförunaut. Fljótt varð Halla heimagangur í Njörvasundi og Bjarni á Litlalandi. Bjarni var skáti og starfaði hann mikið í þágu skátahreyfingarinnar. Margar góðar minningar tengjast þeim tíma. Í seinni tíð höfum við átt margar skemmtilegar stundir sam- an sem munu ylja okkur þegar við minnumst Bjarna. Bjarni var bráðvel gefinn. Hann var mjög vel að sér má segja í hverju sem er og var víðlesinn. Það var sama hvert umræðuefnið var, Bjarni hafði alltaf eitthvað til mál- anna að leggja. Bjarni var mjög trygglyndur og traustari vinur vandfundinn. Einkenndu þessir kostir þau bæði. Eftir að þau fluttu búferlum til Noregs, 1996, þá var hann ótrauður að senda okkur myndir og í ferðum þeirra til Íslands lagði hann allt kapp á að heimsækja sem flesta vini og ættingja þó oft væri tíminn naumur. Það varð mikið áfall þegar Bjarni greindist með krabbamein sl. vor og enn meira varð áfallið þegar út- séð var um bata. Í veikindum sínum sýndi Bjarni mikið æðruleysi og raunsæi. Sannkölluð hvunndags- hetja. Fram á síðustu stundu fylgd- ist hann vel með gangi sjúkdómsins og vafðist ekki fyrir honum að ræða hann opinskátt. Halla mín og drengirnir þeirra, Lárus og Einar, hafa af mikilli óeigingirni stutt Bjarna í veikind- um hans. Missir þeirra er mikill. Við sendum aldraðri móður Bjarna, tengdamóður, systkinum og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Elsku Höllu og strákana biðjum við algóðan Guð að styrkja og vernda um ókomna tíð. Minnumst orða Kahlil Gibran úr Spámannin- um: ,,Þeim mun dýpra sem sorgin grefur sig í hjarta manns, þeim mun meiri gleði getur það rúmað.“ Guðbjörg og fjölskylda. Kveðja frá Skátafélaginu Skjöldungum Bjarni Þröstur Lárusson gerðist ungur skáti. Hann var einn fjöl- margra drengja sem mynduðu Skátafélagið Skjöldunga á stofn- degi þess 5. október 1969. Þá gengu liðsmenn hins nýja félags frá heim- ili Dalbúa við Dalbraut, þar sem Skjöldungadeild hafði verið, í nýjar höfuðstöðvar í kjallara Vogaskóla, sem þá var ungur skóli í byggingu. Í félaginu voru þá drengir sem einkum áttu heima í hverfum þar sem sund, vogar og heimar eru í götuheitum. Bjarni Þröstur var 12 ára þegar þetta gerðist. Næsta aldarfjórðung starfaði Bjarni Þröstur í félaginu af áhuga og miklum dugnaði. Hann gegndi þar ýmsum störfum, var m.a. sveitarforingi Minkasveitar og síðar félagsforingi. Það er óhætt að segja að hann hafi löngum verið vakinn og sofinn í þágu félagsins og lykilmaður í mörgum verkum. Hann vann t.d. ötullega við að byggja upp starf útilífsskóla félags- ins og var einn forgöngumanna um kaup á Hleiðru, skála félagsins við Hafravatn. Þannig mætti lengi nefna störf eða einstök verkefni sem Bjarni Þröstur lagði gjörva hönd á í þágu Skjöldunga. Við fráfall Bjarna Þrastar er efst í huga okkar Skjöldunga þakklæti til hans fyrir vel unnin störf og langan og farsælan feril. Í hugum okkar nú er sorg en um ókomna tíð lifa bjartar minningar um góðan fé- laga. Undirritaður fagnar því að eiga í hugskoti sínu gamlar minningar um kátan og athafnasaman strák, fyrir daga skátastarfs. Þegar Bjarni Þröstur var sex ára gamall flutti fjölskylda mín á efri hæðina í Njörvasundi 14, þar sem Bjarni átti heima með foreldurm sínum og fimm systkinum. Ná- grannar í því húsi vorum við í ára- tug. Skjöldungar votta Höllu Jörund- ardóttur, eiginkonu Bjarna, og son- unum, Lárusi og Einari, einlæga samúð og senda jafnframt innilegar samúðarkveðjur til móður Bjarna, systkina, annarra ættingja, vina og skátafélaga. Fyrir hönd Skjöldunga, Eiríkur G. Guðmundsson, félagsforingi. BJARNI ÞRÖSTUR LÁRUSSON Innilegar þakkir til allra þeirra, sem sýndu okk- ur samúð og hlýhug við andlát og útför ást- kærs föður okkar, sonar, bróður og mágs, GUNNARS INGA LÖVDAL, Blásölum 24, Kópavogi. Sérstakar þakkir sendum við séra Guðmundi Karli Brynjarssyni fyrir hans stuðning. Guð veri með ykkur öllum. Jónas Ingólfur Gunnarsson, Sonný Gunnarsdóttir, Sunna Lind Gunnarsdóttir, Sigrún Jónsdóttir, Hafsteinn Ársælsson, Edvard Lövdal, Elsa Pálsdóttir, Ragnar Lövdal, Kristín Halldórsdóttir, Sigurður Jóhann Lövdal, Ólafía Vigdís Lövdal, Guðlaugur Aðalsteinsson, Sigrún Edda Lövdal, Bjarni Þór Gústafs, Ingiberg Baldursson, Sigurgeir Gunnarsson, Kári Þór Jensson, Nína Mikaelsdóttir. Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð og vinar- hug við andlát og útför elskulegrar frænku okkar, ÖNNU INGUNNAR BJÖRNSDÓTTUR. Guð blessi ykkur öll. Björn Kristjánsson, Jóhanna Gunnlaugsdóttir, Óli Jón Bogason, Guðríður Bogadóttir og fjölskyldur.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.