Morgunblaðið - 20.01.2003, Blaðsíða 6
FRÉTTIR
6 MÁNUDAGUR 20. JANÚAR 2003 MORGUNBLAÐIÐ
PERSÓNUVERND telur að vinnuveitanda hafi
ekki verið heimilt að skoða einkabréf starfsmanns
síns sem send voru og móttekin í tölvupósti fyr-
irtækisins. Lögfræðingur Verslunarmannafélags
Reykjavíkur telur niðurstöðuna fordæmisgefandi,
vinnuveitendum sé óheimilt að skoða tölvupóst
starfsmanna nema skýrar reglur séu til um það
eða málefnalegar ástæður krefjist þess. Þá megi
ekki skoða einkabréf.
Vegna málaferla sem risu vegna greiðslu van-
goldinna launa á uppsagnarfresti starfsmanns
sem sagt hafði verið upp lögðu stjórnendur fyr-
irtækisins fram 158 tölvupóstbréf sem starfsmað-
urinn og fyrrverandi samstarfsmaður hans, sem
kominn var í samkeppni við fyrirtækið, höfðu sent
sín í milli. Raunar töldu stjórnendur fyrirtækisins
að í fimm þeirra mætti finna efni sem teldist brot á
trúnaði starfsmannsins og átaldi dómarinn þá fyr-
ir að leggja fram bréf sem snúast um persónuleg
málefni og snertu ekki deiluefni málsins.
Lögmaður VR óskaði eftir áliti Persónuverndar
á þessu framferði. Persónuvernd komst að þeirri
niðurstöðu í áliti sínu að skoðun tölvupóstsam-
skiptanna og notkun þeirra í dómsmáli hafi verið
vinnsla persónuupplýsinga. Að mati Persónu-
verndar hefði átt að stöðva skoðun tölvupóstsins
um leið og ljóst var að um einkamálefni var að
ræða og eyða þeim skeytum sem þegar höfðu ver-
ið skoðuð. Er það mat Persónuverndar að með því
að halda áfram að skoða umrædd einkabréf og
leggja þau síðan fram í dómsmáli hafi verið farið
gegn meginreglum 7. greinar laga um persónu-
vernd og meðferð persónuupplýsinga.
Telja tilganginn ekki málefnalegan
Byggst niðurstaðan meðal annars á því að ekki
verði séð að skoðun umræddra einkaskeyta hafi
farið fram í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum
tilgangi. Einnig á því að við vinnsluna skuli aðeins
nota nægilegar og viðeigandi persónuupplýsingar.
Þá er vakin athygli á því að gefa hefði átt starfs-
manninum kost á að eyða einkatölvupósti við
starfslok.
Persónuvernd telur þó ekki vera efni til þess að
beita stjórnendur fyrirtækisins refsiákvæðum. Að
því er fram kemur í úrskurðinum byggist það mat
meðal annars á því að hér sé um nýtt mat að ræða
og að enn hafi ekki almennri fótfestu í huga manna
hvernig skuli bera sig að. Fleiri atriði voru nefnd,
svo sem að einkaskeytin hafi ekki verið aðgreind
frá öðrum tölvupóstbréfum og að um hafi verið að
ræða allmikil samskipti um búnað atvinnurekanda
við keppinaut hans.
Verslunarmannafélag Reykjavíkur fagnar áliti
Persónuverndar í fréttatilkynningu sem send var
út í gær og telur hann eyða þeirri óvissu sem ríkt
hefur um notkun tölvupósts í fyrirtækjum. Jafn-
framt hvetur félagið fyrirtæki til að setja sér skýr-
ar reglum um tölvupóstnotkun starfsmanna.
Guðmundur B. Ólafsson hdl. sem rak málið fyrir
VR telur að niðurstaðan sé fordæmisgefandi og
leiðbeinandi fyrir stjórnendur fyrirtækja. Þeim sé
óheimilt að skoða tölvupóst starfsmanna nema um
það séu skýrar reglur eða málefnalegar ástæður,
svo sem grunur um refsivert athæfi. Þá megi ekki
skoða einkabréf starfsmanna.
Vinnuveitendum óheimilt að
skoða einkabréf starfsmanna
Þörf á sam-
ræmingu
vinnutíma
flugáhafna
EVRÓPUSAMTÖK flugáhafna
vekja um þessar mundir athygli á ör-
yggismálum er varða vinnutíma
flugáhafna. Félag íslenskra atvinnu-
flugmanna er aðili að Evrópusam-
tökunum en 21. janúar hefur verið
valinn til að vekja athygli meðal al-
mennings á málinu í Evrópu.
Jóhann Þ. Jóhannsson, formaður
Félags íslenskra atvinnuflugmanna,
segir að ólíkar reglur hafi gilt um
vinnutíma flugáhafna í Evrópu.
Fyrir liggur að Evrópusambandið
gefi út samræmdar reglur um vinnu-
tíma flugáhafna sem munu gilda á
Íslandi eins og aðrar reglur sem
ganga yfir evrópska efnahagssvæð-
ið. Flugmenn í Evrópusamtökum
flugmanna fagna þessu því þeir telja
að þetta muni jafna samkeppnis-
stöðu flugrekstraraðila innan evr-
ópska efnahagssvæðisins.
Samræmist Norðurlöndum
Á Íslandi gilda reglur sem sam-
gönguráðherra setti árið 1997 sam-
kvæmt tillögu Evrópuþingsins.
Íslensk flugmálayfirvöld hafa eng-
ar gildandi samevrópskar reglur til
að styðjast við og þykir Jóhanni und-
arlegt að Ísland skuli ekki fylgja
Norðurlöndunum í þeim samræmdu
vinnutímareglum sem þar gilda.
„Norðmenn, Svíar og Danir hafa
töluvert strangari reglugerð en gild-
ir hér, sérstaklega hvað varðar
vinnutíma á nóttunni. Þó svo að
ákveðnar r reglur séu í gildi hér þá
vinna ekki öll flugfélög eftir henni út
í hörgul. Við hjá Flugleiðum erum
með strangari reglur í gegnum
kjarasamninga okkar og það helgast
af því að þeir eru mun eldri en reglu-
gerðin,“ sagði Jóhann og bætti við að
ósk flugmanna væri að koma meira
að reglugerðasmíðinni á Íslandi líkt
og gert er á Norðurlöndum.
HUNDRUÐ manna komu saman á
Lækjartorgi í Reykjavík á laug-
ardag til að mótmæla hugsanlegu
stríði við Írak og heimsvaldastefnu
Bandaríkjanna. Á skiltum mótmæl-
enda var m.a. minnt á að ofbeldi
getur ekki skapað frið.
Meðal þeirra sem ávörpuðu hóp-
inn var séra Örn Bárður Jónsson,
prestur í Neskirkju, en hann kvaðst
þess fullviss að mótmælendahóp-
urinn hefði getað fyllt þá kirkju
þrisvar til fjórum sinnum, svo marg-
ir hefðu komið saman til að „halda á
lofti kyndli friðar“, eins og hann
orðaði það í ávarpi sínu. Hann sagð-
ist telja ástæðu til að setja spurning-
armerki við utanríkisstefnu „hins
volduga ríkis í vestri… sem vill fara
sínu fram án samráðs við ríki Sam-
einuðu þjóðanna.“ Benti hann á að
víða um heim hefði fólk mótmælt
undir slagorðinu Ekki í okkar nafni
og kvaðst telja að Íslendingar ættu
að gera slíkt hið sama. „Við viljum
ekki að þjóðin okkar taki beinan
þátt í hernaði eða styðji við hern-
aðinn með nokkru móti,“ sagði séra
Örn Bárður við kröftugar und-
irtektir friðarsinna á Lækjartorgi.
Morgunblaðið/Kristinn
Hundruð manna mótmæltu
Kolbeinn
efstur hjá
VG í Suður-
kjördæmi
KOLBEINN Óttarsson Proppé,
sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi
í Reykjavík, mun skipa efsta sætið á
framboðslista Vinstri hreyfingarinn-
ar – græns framboðs, VG, í Suður-
kjördæmi fyrir komandi þingkosn-
ingar. Gengið var frá listanum á fundi
kjördæmisráðs í Fljótshlíð um
helgina.
Listinn er annars þannig skipaður
hjá VG í kjördæminu:
2. Þórunn Friðriksdóttir, fram-
haldsskólakennari, Reykjanesbæ.
3. Ólafía Jakobsdóttir, fv. sveit-
arstjóri, Skaftárhreppi.
4. Þorsteinn Ólafsson, dýralæknir,
Selfossi.
5. Finnbogi Vikar Guðmundsson,
sjómaður, Hveragerði.
6. Björn Dúason, sjómaður, Sand-
gerði.
7. Jóhanna Njálsdóttir, kennari,
Vestmannaeyjum.
8. Sigurjón Einarsson, bílstjóri,
Hornafirði.
9. Jóhann Óli Hilmarsson, ljós-
myndari og fuglafræðingur,
Stokkseyri.
10. Arndís Soffía Sigurðardóttir, há-
skólanemi, Rangárþingi eystra.
11. Þorvaldur Örn Árnason, líffræð-
ingur og kennari, Vogum.
12. Svanborg R. Jónsdóttir, kennari,
Gnúpverjahreppi.
13. Klara Haraldsdóttir, húsfreyja,
Rangárþingi vestra.
14. Heimir Þór Gíslason, kennari,
Hornafirði.
15. Gyða Sigfinnsdóttir, háskólanemi,
Selfossi.
16. Jóhann Þórsson, háskólanemi,
Reykjanesbæ.
17. Jón Traustason, verkamaður,
Vestmannaeyjum.
18. Sævar Bjarnason, bæjarstarfs-
maður, Reykjanesbæ.
19. Guðrún Jónsdóttir, félagsráðgjafi,
Selfossi.
20. Karl G. Sigurbergsson, skipstjóri,
Reykjanesbæ.ÍSÓLFUR Gylfi Pálmason alþing-
ismaður hafði sigur í kosningu um
þriðja sætið á framboðslista Fram-
sóknarflokksins í Suðurkjördæmi á
kjördæmisþingi á Selfossi um
helgina. Fimm frambjóðendur gáfu
kost á sér í þriðja sætið og hlaut Ís-
ólfur Gylfi afgerandi kosningu strax
í fyrstu umferð, eða rúm 64%
greiddra atkvæða.
Kosið var um sex efstu sætin.
Guðni Ágústsson, landbúnaðarráð-
herra og varaformaður Framsókn-
arflokksins, leiðir listann og Hjálm-
ar Árnason þingmaður verður í
öðru sæti en engir buðu sig fram í
þeirra sæti. Guðni fékk 97% at-
kvæða í fyrsta sætið og Hjálmar
fékk 94% atkvæða í annað sætið. Á
kjörskrá voru 387 þingfulltrúar.
Auk Ísólfs Gylfa sóttust eftir þriðja
sætinu þau Eygló Harðardóttir,
Helga Sigrún Harðardóttir, Drífa
Sigfúsdóttir og Baldur Kristjáns-
son. Drífa tók svo heiðurssæti
listans.
Ísólfur Gylfi sagðist í samtali við
Morgunblaðið vera „himinlifandi
glaður“ með úrslitin og þakklátur
fyrir þann mikla og ótvíræða stuðn-
ing sem hann hefði fengið. Sótt
hefði verið að sér um tíma, enda
fimm manns gefið kost á sér í þriðja
sætið. Ísólfur Gylfi sagði kjördæm-
isþingið hafa farið vel fram og ein-
ing og baráttuhugur einkennt þing-
störfin. Listinn væri vel skipaður og
valinn maður í hverju rúmi.
Guðni Ágústsson segir skemmti-
lega baráttu öflugra frambjóðanda
hafa farið fram á glæsilegu kjör-
dæmisþingi. Mikil samstaða hafi
verið um sex efstu sætin en end-
anlegur listi sé sterkur og nái einn-
ig vel yfir allt kjördæmið. „Ég er
bjartsýnn á framhaldið. Staðan í
kjördæminu er góð og ég lít á mig
sem skipstjóra á „kútter Fram-
sókn“ í Suðurkjördæmi. Ég trúi því
að þetta verði gott aflaskip og að við
fáum mikið fylgi í vor,“ segir Guðni.
Hann segist vera þakklátur fyrir
þann stuðning sem hann fékk, 97%
greiddra atkvæða. Það sé gott vega-
nesti í baráttuna um stærsta flokk
kjördæmisins.
Ísólfur Gylfi
hafði sigur í kjöri
í þriðja sætið
Kjördæmisþing framsóknarmanna í nýju Suðurkjördæmi sóttu á laug-
ardag nærri 400 manns. Fremstir sitja hér við háborðin alþingismennirnir
Guðni Ágústsson, oddviti listans, og Ísólfur Gylfi Pálmason, sem sigraði í
kosningu um þriðja sætið, ásamt fleiri frambjóðendum.
Gengið frá framboðslista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi
Jarðskjálfti á
Norðurlandi
JARÐSKJÁLFTI, sem
mældist 3,2 á Richterkvarðan-
um, varð rétt fyrir klukkan átta
í gærmorgun við Tröllaskaga.
Upptök skjálftans voru um 18
km vestan við Siglufjörð.
Nokkrir skjálftar urðu í vest-
anverðum Mýrdalsjökli aðfara-
nótt sunnudags, en voru þeir
allir innan við 3 stig á Richter
að stærð.
Útafakstur
á Jökuldal
BÍLL lenti út af þjóðveginum í svo-
kölluðum Múla efst í Jökuldal á laug-
ardagskvöld. Í bílnum voru hjón með
son sinn. Feðgarnir sluppu að mestu
ómeiddir en konan handleggsbrotn-
aði og var flutt á Heilbrigðisstofnun
Austurlands á Egilsstöðum til að-
hlynningar.
Bíllinn er mikið skemmdur að
sögn lögreglu og var mesta mildi að
ekki fór verr því gífurleg hálka var á
veginum og mikill bratti þar sem
slysið varð.
♦ ♦ ♦