Morgunblaðið - 14.04.2003, Blaðsíða 13
ERLENT
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 14. APRÍL 2003 13
HEILBRIGÐISYFIRVÖLD í
Hong Kong tilkynntu í gær-
morgun um fimm ný dauðsföll,
þrjá karla og tvær konur, af
völdum HABL-veikinnar. 40
manns hafa nú látist vegna
veikinnar í Hong Kong.
Fjöldi smittilfella hefur einn-
ig aukist og er nú talið að 1.150
manns séu smitaðir í Hong
Kong. Um 30% allra áætlunar-
ferða flugfélaga í Hong Kong
hefur verið aflýst og farþegum
hefur fækkað um 60% það sem
af er apríl vegna HABL-veik-
innar.
Veikin gerði fyrst vart við sig
í héraðinu Guangdong í suður-
hluta Kína í nóvember sl. Or-
sakir veikinnar eru óþekktar en
um 4% þeirra sem fengið hafa
hana hafa dáið. Nú hafa rúm-
lega 3.000 manns smitast í yfir
30 löndum til þessa en lang-
flestir eða um 90% ná sér aftur
eftir um það bil viku veikindi.
Talið er að 130 manns hafi látist
úr HABL-veikinni.
Alþjóðaheilbrigðismálastofn-
unin, WHO, hefur hvatt þá sem
hafa hug á að ferðast til Hong
Kong eða Guangdong-héraðs í
Kína, þar sem HABL hefur
einkum herjað, til að fresta
ferðinni.
Ekki er alveg ljóst hvernig
veikin berst milli manna en vís-
indamenn óttast að hún geti
stundum borist með andrúms-
loftinu.
HABL-
tilfellum
fjölgar
í Hong
Kong
Hong Kong. AFP.
KAFARAR og björgunarsveitar-
menn hafa fundið að minnsta kosti
14 lík eftir að ferja, með 150 farþega
innanborðs, sökk í slæmu veðri í
norðurhluta Bangladesh á laugar-
dagskvöld. Talið er að fjöldi látinna
eigi enn eftir að hækka.
Slysið varð í Kishoreganj, sem er
80 km norður af höfuðborginni
Dhaka.
Um 10 farþegar náðu að synda í
land eftir að ferjan sökk. Meðal
þeirra sem fórust með ferjunni eru
konur og börn. Ferjan liggur á
þriggja metra dýpi í ánni Nakchini
og er talið að fólk hafi lokast inn í
henni þegar hún sökk.
Ferjuslys hafa verið mjög tíð í
Bangladesh á undanförnum árum.
Síðan 1997 hafa að minnsta kosti
3.000 manns farist í um 260 ferju-
slysum.
Ferjuslys í
Bangladesh
Kishoreganj. AFP.
UNGVERJAR samþykktu aðild að
Evrópusambandinu með miklum
meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu
sem fram fór á laugardag. Yfir 84%
kjósenda voru hlynnt aðild.
Um átta milljónir Ungverja voru á
kjörskrá, en kjörsókn var aðeins
47%. Aðeins nokkrir dagar eru þar
til fulltrúar níu landa skrifa formlega
undir stækkunarsamninga í Brussel.
Áður hafa íbúar í Slóveníu og Möltu
samþykkt að ganga í Evrópusam-
bandið en sjö ríki til viðbótar eiga
eftir að greiða atkvæði um aðild.
Framkvæmdastjórn Evrópusam-
bandsins fagnaði miklum stuðningi
Ungverja við aðild að ESB. Sagði
framkvæmdastjórnin að niðurstaðan
væri fagnaðarefni og Ungverjar
hefðu gert það upp við sig að þeir
teldu evrópska sameiningu bestu
leiðina til að viðhalda friði og hag-
sæld í álfunni. Þá sagði fram-
kvæmdastjórnin að Ungverjar gætu
verið þess fullvissir að fullveldisrétt-
ur þeirra yrði virtur innan ESB.
AP
Hópur íbúa Búdapest fagnaði í gær niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar.
Ungverjar sam-
þykkja ESB-aðild
Búdapest. AFP. TUTTUGU og fjórir biðu bana þegar
timburfarmur flutningabíls lenti á
rútubifreið í Grikklandi í gær. Flestir
hinna látnu voru börn sem voru á
skólaferðalagi, að sögn lögreglunnar.
Slysið átti sér stað með þeim hætti
að timburfarmur rann af flutningabíl
og á rútu sem var á ferð um sama
þjóðveg, nærri bænum Tembi, um
450 km norður af Aþenu. Fjörutíu og
níu börn voru í rútunni, auk þriggja
kennara. Lögreglan sagði að slasaðir
hefðu verið fluttir á sjúkrahús í bæn-
um Larissa, ekki fjarri slysstaðnum.
24 biðu bana
í bílslysi í
Grikklandi
Aþenu. AFP.