Morgunblaðið - 14.04.2003, Blaðsíða 14
LISTIR
14 MÁNUDAGUR 14. APRÍL 2003 MORGUNBLAÐIÐ
KIRKJULISTAHÁTÍÐ verður
haldin í Hallgrímskirkju í Reykjavík
29. maí – 9. júní. Yfirskrift hátíð-
arinnar er: „Ég ætla að gefa regn á
jörð“, en tilvitnunin, sem er úr síðari
Konungabók tengist aðalverki hátíð-
arinnar, Elía eftir Mendelssohn,
sem flutt verður 30. maí af sér-
stökum afmæliskór Mótettukórs
Hallgrímskirkju og Sinfóníu-
hljómsveit Íslands. Með því er
minnt á hlutverk listarinnar í því að
gera jarðveg trúar og kirkju frjóan
og uppskera með listinni von og
auðga trúarlíf, að því er segir í
kynningu á hátíðinni. Fjölbreytni,
nýsköpun og gæði eru einkunnarorð
Kirkjulistahátíðar. Hörður Áskels-
son organisti og kórstjóri í Hall-
grímskirkju er listrænn stjórnandi
hátíðarinnar, en framkvæmdastjóri
hennar er Inga Rós Ingólfsdóttir,
sem segir að hátíðin verði óvenju
fjölbreytt í ár, og taki til margra list-
greina.
„Einn stærsti viðburðurinn verð-
ur flutningur Mótettukórsins á
óratoríunni Elía eftir Mendelssohn
með einsöngvurum og Sinfóníu-
hljómsveit Íslands. Móettukórinn
fagnar líka 20 ára afmæli sínu um
þessar mundir og þess vegna munu
gamlir kórfélagar syngja með og
kórinn stór. Við erum afar stolt af
einsöngvurunum. Elín Ósk Ósk-
arsdóttir hefur óskað þess í mörg ár
að syngja sópranhlutverkið undir
stjórn Harðar Áskelssonar. Alina
Dubik syngur althlutverkið, en hún
er söngkona sem heyrist allt of
sjaldan í. Við vorum mjög lengi að
finna tenór, en það náðust loks
samningar við Anthony Rolfe John-
son sem er æðislegt og gaman að fá
mann í þetta með svo mikla sögu og
reynslu. Hann er eitt stærsta tenór-
nafnið í dag og er í toppformi. Það
var Andreas Schmidt sem syngur
hlutverk Elía, sem mælti með Anth-
ony Rolfe Johnson. Andreas
Schmidt söng þetta hlutverk með
kórnum síðast þegar við fluttum
verkið, árið 1989, og við erum mjög
stolt af því að fá hann aftur. Þetta
verður fjölmennasti viðburðurinn,
um 200 flytjendur.“
Annar stórviðburður að sögn Ingu
Rósar er koma kammersveitarinnar
Das Neue Orchester frá Köln, sem
Kirkjulistahátíð flytur hingað alfarið
á eigin kostnað. „Okkur var mikið í
mun að kynna hér enn betur vand-
aðan flutning á barokkhljóðfæri. Á
lokatónleikunum verða allar mót-
ettur Bachs fluttar, og þær krefjast
þessara skrýtnu, gömlu hljóðfæra
sem Íslendingar hafa lítið spilað á til
þessa. Hljómsveitin leikur á tvenn-
um tónleikum, á mótettutónleik-
unum með Mótettukórnum, en einn-
ig á tónleikum með Schola cantorum
þar sem flutt verður Hvítasunnu-
kantatan eftir Bach og Gloria eftir
Vivaldi sem hefur oft verið flutt hér
á landi, en ekki með upprunalegum
hljóðfærum.“ Það vekur athygli að
meðal gesta Kirkjulistahátíðar er
organistinn Olivier Latry í Notre
Dame-kirkjunni í París. „Það er bú-
ið að taka okkur mörg ár að fá hann,
því hann er einn eftirsóttasti kons-
ertorganisti í heiminum í dag. Loks-
ins núna tókst það, og við hlökkum
mikið til.“
Trúarleg ljóð og Bachbrýr
Inga Rós segir það mikilvægt fyr-
ir Kirkjulistahátíð að erlendir lista-
menn sem hingað koma skapi tengsl
við íslenska kollega sína og skilji
eitthvað meira eftir sig en bara
spilamennskuna. Þannig munu til
dæmis nokkrir íslenskir tónlist-
armenn leika með Neue Orchester
frá Köln, og sérstakt námskeið verð-
ur haldið fyrir íslenska organista í
túlkun barokktónlistar. Það verður
barokksérfræðingurinn Jon Lauk-
vik sem sér um það, en hann mun
jafnframt halda fyrirlestur með tón-
dæmum við barokkorgel Langholts-
kirkju, og tónleika. „Orgelið þar
hentar þessari tónlist vel, og með
því erum við líka að víkka hátíðina
út, þannig að hlutirnir geti notið sín
sem best á hverjum stað. Annar
samstarfsaðili verður Salurinn, en
þar verða ljóðatónleikar með Andr-
easi Schmidt og Helmut Deutsch,
þar sem þeir flytja prógramm með
trúarlegum ljóðum, sem þeir hafa
flutt í Austurríki og fengið góða
dóma fyrir. Okkur fannst kjörið
fyrst Andreas kemur á Kirkju-
listahátíð, að fá hann til að flytja líka
annars konar prógramm.“
Það er líka áhersla á nýsköpun á
hátíðinni eins og endranær. Á loka-
tónleikunum, þar sem mótettur
Bachs verða fluttar heyra tónleika-
gestir einnig Bachbrýr, – en brúa-
smiðurinn er Atli Heimir Sveinsson.
Brýrnar tengja saman þessi sex
verk og það verður Einar Jóhann-
esson klarinettuleikari sem leikur. Í
hátíðarmessu við upphaf Kirkju-
listahátíðar verður einnig frumflutt
nýtt verk eftir Elínu Gunnlaugs-
dóttur, Guðspjallamótetta fyrir
uppstigningardag, og jafnframt
frumsýnt nýtt dansverk eftir Ólöfu
Ingólfsdóttur.
Trúlega Bergman
Hátíðin í ár sækir reyndar mjög
til fleiri listgreina, og þar er margt
forvitnilegt.
„Kvikmyndir hafa til dæmis ekki
verið sýndar á Kirkjulistahátíð áður,
en við efnum til samstarfs við Kvik-
myndasafn Íslands og verðum með
málþing um trúarstef í kvikmyndum
Ingmars Bergmans. Tvær mynda
hans verða sýndar í Bæjarbíói í
Hafnarfirði. Ég held að fyrirlestr-
arnir verði mjög spennandi og
áhugaverðir og sem dæmi um um-
ræðuefni er Bach og Bergman.
Hingað kemur Maaret Koskinen
sem er einn fremsti Bergmanfræð-
ingur heims.“
Passíusálmaplús er uppákoma
sem dr. Sigurður Árni Þórðarson
hefur umsjón með, en þar hafa
fimmtán íslensk skáld verið fengin
til að yrkja í framhaldi af, eða til
hliðar við Passíusálma Hallgríms
Péturssonar. Enn er ónefnd sýning
á verkum Guðjóns Ketilssonar í for-
dyri Hallgrímskirkju, en sýningin er
gerð sérstaklega fyrir hátíðina.
Norski karlakvartettinn Quattro
stagioni syngur með Karlakórnum
Fóstbræðrum á tónleikum með and-
legri tónlist, og segir Inga Rós það
nýtt að bjóða upp á karlakórssöng á
hátíðinni. Á hverjum degi verður svo
tónlistarandakt í hádeginu í Hall-
grímskirkju og ókeypis aðgangur.
Inga Rós segir að þótt tónlistin sé
plássfrek á Kirkjulistahátíð sé stefn-
an að ná til fleiri listgreina og víkka
sjóndeildarhringinn. „Ég held að við
höfum svolitla sérstöðu með þetta, –
kirkjulistahátíðir eru yfirleitt tón-
listarhátíðir, en okkar metnaður
stendur til þess að hafa allar list-
greinar með.“
Kirkjulistahátíð hefst í Hallgrímskirkju í lok maí
Nýtur sérstöðu
með fjölda listgreina
Morgunblaðið/Jón Svavarsson
Elía æfður. Hörður Áskelsson og Mótettukór Hallgrímskirkju.
SJÖTTA kirkjulistahátíð Seltjarn-
arnarneskirkju verður sett við guðs-
þjónustu í kirkjunni kl. 8 á páska-
dagsmorgun. Yfirskrift hátíðar-
innar að þessu sinni er Hirðir og
hjörð og verður sérstök áhersla lögð
á 23. sálm Davíðs, Drottinn er minn
hirðir. Leifur Breiðfjörð sýnir verk
sín á hátíðinni og dr. Pétur Péturs-
son prófessor flytur erindi um
kirkjulist Leifs. Þann 26. apríl kl. 17
verða tónleikar Kammerkórs Sel-
tjarnarneskirkju undir stjórn Vieru
Manasek organista og Pavels Man-
asek. Þar verða flutt tvö af stór-
virkjum tónlistarsögunnar, Magnif-
icat eftir Bach og áttunda sinfonía
Dvoraks.
Hinn 3. maí kl. 13:30 verður mál-,
tón- og sjónþing í kirkjunni þar sem
Sálmur 23 verður í brennidepli. Þar
munu skáld flytja ljóð sem þau hafa
ort út af sálminum, skáldin eru Árni
Þ. Árnason fyrrv. ráðuneytisstjóri,
Ingvar Gíslason fyrrv. menntamála-
ráðherra og Matthías Johannessen
fyrrv. ritstjóri Morgunblaðsins.
Þrjú stutt erindi verða flutt um
sálminn af cand. theol. Árna Svani
Daníelssyni, dr. Gunnlaugi A. Jóns-
syni prófessor og dr. Kristni Óla-
syni. Einnig verður flutt tónlist
tengd sálminum, m.a. frumflutt nýtt
tónverk eftir Arnþór Helgason.
Dagskráin verður innrömmuð af
myndum gerðum undir áhrifum frá
sálminum, af börnum úr Mýrar-
húsa- og Valhúsaskóla. Ljósmynda-
sýning verður einnig, tengd sálm-
inum. Fundarstjóri á þinginu verður
Ásgerður Halldórsdóttir, forseti
bæjarstjórnar Seltjarnarness.
Formaður kirkjulistanefndar Sel-
tjarnarneskirkju er dr. Gunnlaugur
A. Jónsson prófessor.
Sjötta kirkjulistahátíðin
í Seltjarnarneskirkju