Morgunblaðið - 15.06.2003, Blaðsíða 22
22 SUNNUDAGUR 15. JÚNÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ
ÞEIR rækta kartöflur íRauðárdalnum í Norður-Dakóta í Bandaríkjun-um. Og mikið af þeim.„Íslenska“ fjölskyldufyr-
irtækið J. G. Hall & Sons er
stærst en það selur kartöflur vítt
og breitt um Bandaríkin. Hjónin
Johann G. Hall og Hosianna hófu
reksturinn í Gardar 1915 og börn-
in þeirra ellefu hjálpuðu til þegar
fram liðu stundir, en synirnir fimm
stofnuðu fljótlega fyrirtæki um
reksturinn með föður sínum. Elsti
sonurinn, Joseph Walter, kvæntist
Christine Geir, en hún hélt upp á
94 ára afmælið sitt á dögunum og
er hin hressasta.
„Foreldrar mínir voru meira í
hveitinu,“ segir Christine, sem
fæddist í Mountain 5. júní 1909, en
foreldrar hennar voru Kristján
Geir Halldórsson og Sólveig Þor-
gilsdóttir. Föðurafi hennar og
amma, Jóhann Geir Jóhannesson
og Anna Jónsdóttir, fluttu frá Ís-
landi til Gimli og þaðan til Mount-
ain 1880, en móðurafi hennar og
amma voru Þorgils Halldórsson og
Kristín Jónsdóttir. Christine var
elst ellefu systkina og eru allir
fimm bræðurnir dánir en fimm af
sex systrum eru lifandi. Hún var
kennari í sjö ár áður en hún giftist
Joseph og eignuðust þau fjóra
syni. „Það er einkennileg tilviljun
að við Joseph vorum elst ellefu
systkina og í báðum hópum voru
fimm bræður og sex systur,“ segir
hún.
Harðduglegur maður
Kristján Níels Jónsson fæddist
á Akureyri 7. apríl 1860, en 18 ára
gamall flutti hann til Vesturheims,
tók þar upp ættarnafnið Júlíus og
gekk undir nafninu K.N. Júlíus.
Lengst af bjó hann hjá Christine
og fjölskyldu í Gardar eða í um 40
ár, en hann var einhleypur og
eignaðist engin börn.
„Þetta er löng saga,“ segir
Christine. „Hann kom hingað sem
ungur maður 1894 í atvinnuleit. Þá
var Anna Geir, amma mín, ekkja
með fjögur börn heima og átti
mjög erfitt, en Káinn bauð fram
aðstoð sína og var sem einn af fjöl-
skyldunni það sem eftir var. Vet-
urinn 1895 veiktust þrjár dætur
hennar og þau reyndu allt sem þau
gátu til að hjálpa þeim. Káinn fór
af bæ í slæmu veðri til að ná í
lækni en allt kom fyrir ekki og
þær dóu innan tveggja vikna um
áramótin. Ári áður dó stjúpsonur
hennar, sem hafði verið hennar
stoð og stytta eftir lát afa, svo það
var mikið á hana lagt á skömmum
tíma.“
Lauga Geir, föðursystir
Christine, fæddist vorið eftir að
faðir hennar dó og vegna erfiðra
heimilisaðstæðna tóku nágrannar
þeirra, Thordis og David Jonsson,
hana að sér og ólu hana upp. Thor-
dis eignaðist fjórtán börn og var
með átta heima þegar þetta var.
„Ekkert nema góðmennskan,“
sagði Lauga Geir síðar og minnti á
að móðir sín hefði verið eins.
Margir hefðu sagt að hefði hún
ekki veitt Káinn húsaskjól og
hvatt hann til dáða hefðu Íslend-
ingar aldrei eignast K.N., því hann
hefði verið heimilislaus, peninga-
laus og lítilsvirtur. En hann hefði
líka kunnað vel að meta þessa góð-
mennsku og aðstoðað hana af mik-
illi trúmennsku til æviloka.
„Káinn var sérstakt góðmenni,“
segir Christine. „Það hefur mikið
verið skrifað um Káinn og því sér-
staklega haldið á lofti að hann hafi
verið mikill drykkjumaður og
kvennamaður. Ég viðurkenni að
hann var drykkjumaður en sú lýs-
ing á frekar við hann á yngri árum
og hann drakk aldrei fyrir framan
okkur krakkana. Ég þekkti hann
ekki sem slíkan og þvert á móti
var Káinn harðduglegur maður
sem gekk í hvaða verk sem var,
hvort sem það var úti á akrinum, í
byggingavinnu eða við það að taka
grafir. Hann var alltaf til staðar
þegar á þurfti að halda og tók að
sér verk fyrir aðra. Hann passaði
okkur krakkana, fór með vísur fyr-
ir okkur og þótti vænt um okkur.
Hann var einn af fjölskyldunni og í
mínum huga var hann ekki alkó-
hólisti heldur mikill sómamaður,
sem allir elskuðu og dáðu. Hann
missti móður sína ungur og ég
held að amma hafi að mörgu leyti
komið honum í móður stað.
Hann gat verið háðskur en þeir
sem áttu um sárt að binda áttu
alla hans samúð.“
Óbirt kvæði
Christine segir að það hafi verið
mikil forréttindi að fá að alast upp
með skáldinu. „Lífið var erfitt á
þessum tíma og útlitið oft svart, en
það var alltaf bjart í kringum Ká-
inn og hann sýndi okkur ekki ön-
uglyndi. Hann átti sitt herbergi
uppi og sat alltaf á sama stólnum á
sama stað við matarborðið. Við
sátum oft hjá honum og hlustuðum
á raulið í honum. Hann raulaði
mikið en hvað hann var að raula
man ég ekki lengur. Hann sat
gjarnan í ruggustólnum sínum í
stofunni með mig á hnjánum og
raulaði. Sú minning er mér sér-
staklega minnisstæð, en síðan hélt
hann uppteknum hætti með systk-
ini mín. Hann var einstaklega
barngóður, blíður og þolinmóður.“
Í þessu sambandi má geta þess
að kvæðið Til Stínu litlu Geir er
eitt af mörgum sem Káinn orti til
Christine: Síðan fyrst ég sá þig
hér,/sólskin þarf ég minna./
Gegnum lífið lýsir mér/
ljósið augna þinna./
„Þetta er skemmtilegt og lýsir
honum vel,“ segir hún og bætir við
að Káinn hafi kunnað vel við sig í
góðra vina hópi. „Hann skrafaði
mikið þegar fólk kom í heimsókn
og kunni vel að meta heimsóknir
til sín. Hann skemmti fólki og fólk
skemmti honum, en hann kastaði
fram vísum við öll tækifæri. Einu
sinni var hann að taka gröf í jan-
úar en það var kalt og hann gekk
heim að næsta bæ þar sem Petra
og Roseman bjuggu til að hlýja
sér. Þau gáfu honum ekki aðeins
kaffi heldur buðu honum í mat, en
þegar hann fór sagði Roseman að
Petra ætti afmæli. Daginn eftir
lauk Káinn við gröfina og kom aft-
ur við hjá þeim með afmælisvísu.
Svona var hann, lét aldrei neinn
eiga neitt inni hjá sér og víst er að
ekki hefur allt verið prentað sem
Káinn orti og skrifaði.“
Gamli bærinn í Gardar er enn í
eigu fjölskyldunnar og Christine
er þar á sumrin en býr í smábæn-
um Hoople á veturna. „Lífið var
oft erfitt þegar ég var barn en við
fengum samt nóg að borða og átt-
um föt, þótt við höfum ekki verið
fjarskalega fín. Ég hef oft leitt
hugann að því hvað amma þurfti
að leggja mikið á sig og svo
mamma. Í raun allar landnema-
konur. Það var fjarskalega erfitt
hjá þeim. Þetta var strax betra
þegar ég komst til vits og ára.
Meiri þægindi.“
Hún býr í eina bleika húsinu í
Hoople, „til að fólk rati til mín“,
segir hún um litinn. Á ísskápnum
er kort af Íslandi og á vegg í eld-
húsinu hangir uppskrift að kjöt-
súpu. Christine talar íslensku, þótt
enskan sé henni tamari, og segir
að Anna amma sín hafi aldrei talað
annað en íslensku. „Amma talaði
aldrei ensku, en hún dó þegar ég
var þrettán ára, á svipuðum aldri
og Káinn var, þegar hann missti
móður sína. Hann tók andlát
ömmu mjög nærri sér og minning-
arljóðin hans um hana segja sína
sögu. … Þú vissir það ein, hvað eg
unni þér heitt,/og ást þín var stöð-
ug til mín;/ …
Við höfðum Káinn áfram og það
var nóg að sýsla heima en við
heimsóttum nágrannana um helg-
ar eða þeir komu til okkar. Þannig
að það var auðvelt að viðhalda ís-
lenskunni, en ég hef aldrei komið
til Íslands. Löngu áður en Joseph
dó sagði pabbi hans við okkur að
við ættum að fara áður en við vær-
um orðin of gömul, en svo missti
Joseph heilsuna og eftir það hafði
ég enga löngun til að fara til Ís-
lands. Og fór því ekki frekar en
Káinn. Reyndar hef ég stundum
hugleitt ferð til Íslands og ég er
sannfærð um að það yrði stórkost-
leg reynsla. En barnabarn mitt fór
með hlutverk í leikritinu In the
Wake of the Storm eða Í kjölfar
stormsins um íslensku landnemana
eftir Laugu Geir, þegar það var
sýnt á Íslandi haustið 1999.“
Minningin lifir
Káinn dó 25. október 1936 og
Christine afhjúpaði endurbætt
minnismerki um hann við kirkjuna
í Eyford 2. ágúst 1999, en þá var
Íslendingadagur haldinn hátíðleg-
ur í Mountain í 100. sinn og á með-
al viðstaddra var Ólafur Ragnar
Grímsson, forseti Íslands. „Ég hef
verið mjög kirkjurækin og reynt
að fara í messu á hverjum sunnu-
degi,“ segir Christine. „Kirkjan í
Eyford hefur verið stór hluti af lífi
mínu og ég eins og aðrir hér hef
misst mikið við brunann. Kirkjan
verður ekki endurbyggð en rætt
hefur verið um að reisa minnis-
merki um hana, frumherja safn-
aðarins og Eyford. Það skiptir
miklu máli að halda þessari minn-
ingu á lofti og minningin um Káinn
lifir áfram.“
Káinn var sérstakt góðmenni
Minnisvarði um skáldið Káinn við Thingvalla-
kirkju í Eyford í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum
slapp nánast óskemmdur þegar kirkjan brann til
kaldra kola fyrir skömmu. Steinþór Guðbjartsson
heimsótti Christine Hall í næsta nágrenni og for-
vitnaðist um hana og skáldið, sem bjó hjá henni
og fjölskyldu hennar í 40 ár.
Magnus Olafson, Christine Hall og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, við minnismerkið um Káinn við kirkjuna í Ey-
ford eftir að Christine afhjúpaði það 2. ágúst 1999, en þá var Íslendingadagur haldinn hátíðlegur í Mountain í 100. sinn.
Anna Geir fékk þetta bréf frá Káinn fyrir rúmlega 80 árum.
Morgunblaðið/Steinþór Guðbjartsson
Christine Hall fer með ljóð eftir Káinn
í eldhúsinu í Hoople.
steg@mbl.is
Káinn með Elenor, systur Christine, á hnjánum fyrir utan hús þeirra um 1930.