Morgunblaðið - 30.09.2003, Qupperneq 41
FRÉTTIR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 30. SEPTEMBER 2003 41
Bláu húsunum Faxafeni • Sími 553 6622 • www.hjortur.is
OPIÐ laugard. kl. 11-16, sunnud. kl. 11-16,
mánud. kl. 11-18 og þriðjud. kl. 11-18.
30% AF ÖLLUM VÖRUM
Síðustu dagar
VIÐ FLYTJUM...
Fjórir nemendur Páls Ísólfs-
sonar enn starfandi organistar
Í frétt um aðalfund Félags ís-
lenskra organleikara í blaðinu sl.
föstudag var sagt að þrír fyrrverandi
nemendur Páls Ísólfssonar væru enn
starfandi organistar, Kjartan Sigur-
jónsson, Árni Arinbjarnarson og Jón
Stefánsson. Í þennan hóp vantaði
Birgi Ás Guðmundsson.
LEIÐRÉTT
AÐALFUNDUR smábátafélagsins
Eldingar hefur sent frá sér ályktun
þar sem fordæmd eru þau „lúalegu
vinnubrögð andstæðinga línuívilnun-
ar að ráðast með persónulegum
hætti á formann Eldingar, Guðmund
Halldórsson. Vinnubrögð af þessu
tagi eru alkunn af hendi þeirra sem
glíma við rökþrot og málefnafátækt.
Nauðvörn slíkra aðila er að gera
andstæðinga sína tortryggilega og
gildir þá einu hvað er rangt eða rétt.
Guðmundur Halldórsson hefur stað-
ið í eldlínu þeirrar umræðu sem fram
hefur farið um komandi línuívilnun
og lýsir fundurinn fullu trausti á
hans störf og framgöngu. Jafnframt
vill fundurinn þakka einurð hans og
heilindi sem formaður Eldingar,
vestfirskum byggðum til heilla.“
Fordæmir
vinnubrögðin
EFTIRFARANDI ályktun var sam-
þykkt hjá stjórn Verslunarmanna-
félags Húsavíkur um álver í ná-
grenni Húsavíkur:
„Stjórn Verslunarmannafélags
Húsavíkur fagnar þeim áfanga sem
náðst hefur með undirritun viljayfir-
lýsingar Húsavíkurbæjar og Atl-
antsáls vegna fyrirhugaðrar upp-
byggingar álvers við Húsavík.
Stjórnin væntir þess að unnið
verði af fullri einurð og festu við
þetta mikilvæga mál – af þeim að-
ilum sem að málinu koma.
Stjórnin hvetur þessa aðila og
stjórn Landsvirkjunar til að flýta
vinnu við þetta verkefni eins og kost-
ur er, þannig að uppbygging hefjist í
samræmi við óskir Atlantsáls árið
2006–2007.
Samfélagið á norðausturhluta
landsins þarfnast fleiri, stærri og
fjölbreyttari atvinnukosta á svæð-
inu, svo íbúaþróun verði aftur já-
kvæð á svæðinu.“
Fagna álveri
við Húsavík
Listasafn Íslands kl. 12.10–12.40
Dagný Heiðdal verður með hádegis-
leiðsögn um sýninguna Vef lands og
lita – yfirlitssýningu á verkum Júl-
íönu Sveinsdóttur.
Fræðslufundur um blöðruháls-
kirtilskrabbamein. Krabbameins-
félag Hafnarfjarðar efnir til fræðslu-
fundar í Hásölum, safnaðarheimili
Hafnarfjarðarkirkju við Strandgötu,
í dag, þriðjudaginn 30. september,
kl. 20. Eiríkur Jónsson yfirlæknir og
Bjarni Magnússon fv. bankaútibús-
stjóri flytja erindi.
Í DAG
Lagadeild Háskóla Íslands og
Orator, félag laganema, halda
málstofu um dóm Hæstaréttar í
meiðyrðamáli Magnúsar Þórs Haf-
steinssonar gegn Árna M. Mathie-
sen. Málstofan verður haldin á
morgun, miðvikudaginn 1. október
kl. 12.15 – 14, í stofu L–101 í Lög-
bergi.
Málshefjendur verða Björg Thor-
arensen prófessor, Róbert R. Spanó,
lektor og aðstoðarmaður umboðs-
manns Alþingis, og Snorri Stefáns-
son, laganemi og funda- og menning-
armálastjóri Orators. Fundarstjóri
verður Eiríkur Tómasson, prófessor
og forseti lagadeildar.
Málstofa Hagfræðistofnunar Há-
skóla Íslands. Á morgun, miðviku-
daginn 1. október, kl. 16.15 að Ara-
götu 14. Stefán Bjarni
Gunnlaugsson, frá Háskólanum á
Akureyri mun fjalla um hvort verið
hafi samband á milli daga, mánaða,
hátíða og ávöxtunar íslensku úrvals-
vísitölunnar frá janúar 1993 til maí
2003.
Margar rannsóknir á erlendum
hlutabréfamörkuðum hafa sýnt að
ávöxtun hefur verið lægri á mánu-
dögum en aðra daga, ávöxtun hefur
verið óvenjulega há í janúar og mjög
há daginn fyrir lokanir markaða
vegna hátíða.
Á MORGUN
Landsþing Ungra jafnaðarmanna
verður haldið 3. – 5. október. Þema
landsþingsins verður ,,Glæpir 2003“
þar sem m.a. verður rætt um glæpi,
refsingar, klámvæðingu, vændi, man-
sal, forvarnir og siðferði. Landsþingið
verður sett kl. 17 í Hressingarskál-
anum í Austurstræti föstudaginn 3.
október og þá fara fram kosningar til
framkvæmdastjórnar. Landsþingið
mun svo starfa áfram alla helgina í
húsnæði Kvennaskólans í Reykjavík,
í Uppsölum, í Þingholtsstræti 37.
Á NÆSTUNNI
HELGIN gekk ágæt-
lega hjá lögreglu þrátt
fyrir ýmsan eril. 41 um-
ferðaróhapp með eigna-
tjóni var tilkynnt lögreglu. Sjö öku-
menn voru grunaðir um ölvun við
akstur, voru 23 teknir fyrir of hraðan
akstur og fimm ökumenn fyrir akst-
ur gegn rauðu ljósi.
Um kl. 20 á föstudagskvöld hafði
lögregla afskipti af tveimur bifreið-
um vegna gruns um fíkniefnamis-
ferli. Þegar lögregla reyndi að hafa
tal af öðrum ökumanninum ók hann
bifreiðinni af stað með miklu offorsi
og næstum á lögreglumann. Bifreið-
inni var veitt eftirför og hún stöðvuð
við Arnarbakka. Við eftirförina sást
hvar ökumaður kastaði út böggli sem
í var ætlað hass. Var því framkvæmd
húsleit hjá ökumanni. Þar fannst
meira af fíkniefnum, neysluáhöldum
og talsvert af peningum.
Rétt eftir miðnætti aðfaranótt
laugardags var tilkynnt um sam-
kvæmi þar sem allt hafði farið úr
böndunum. Lögreglumenn aðstoð-
uðu húsráðanda við að rýma húsið.
Um svipað leyti var bifreið stöðvuð
við Höfðabakka. Ökumaður reyndist
ekki vera með ökuréttindi og voru
stolnar númeraplötur á bifreiðinni.
Ökumanni og farþega var ekið heim
og rætt við foreldra þeirra.
Um kl. 2.30 var tilkynnt um bruna
í miðborginni. Íbúðin var full af reyk,
en eldur ekki sjáanlegur. Þarna hafði
eldur komið upp í milligólfi en ekki
er vitað út frá hverju kviknaði.
Slökkviliðið sá um að slökkva eldinn.
Um 10 mínútum síðar var tilkynnt
um áflog á Lækjartorgi. Þarna höfðu
menn verið að ganga Austurstræti
þegar ungur maður hrifsaði veski af
einum þeirra. Náðist til þjófsins á
Lækjartorgi en honum tókst að
hlaupa á brott. Veskið fannst hins
vegar rétt hjá.
Hrækti á leigubílstjóra
Um kl. hálfsex á laugardags-
morgni óskaði leigubifreiðarstjóri
eftir aðstoð lögreglu. Hann var í
vandræðum með farþega sem hafði
sóðað út leigubifreiðina, hrækt fram-
an í hann og neitaði að greiða áfallið
ökugjald. Málið var leyst á staðnum.
Um klukkustund síðar var tilkynnt
rán í Lækjargötu. Tveir menn höfðu
veist að tilkynnanda og heimtað af
honum peninga. Þegar hann lét sig
ekki hrifsuðu þeir af honum seðla-
veskið og stálu úr því 1–2.000 krón-
um. Tilkynnandi slapp ómeiddur,
mannanna var leitað en þeir fundust
ekki.
Tilkynnt var um 24 eignaspjöll og
19 innbrot um helgina. Um kvöld-
matarleyti á laugardag var brotist
inn í bíl í Hlíðahverfinu. Stolið var úr
honum geislaspilara, geisladiskum
og skemmdir unnar á innréttingu.
Um kl. 23 voru tilkynnt ólæti og
skemmdarverk á skemmtistað. Mað-
ur hafði brotið plexigler í spilakassa.
Hafði hann síðan farið upp á þak á
húsinu. Þar grýtti hann starfsmenn
skemmtistaðarins með steinum, en
þeir höfðu veitt honum eftirför. Mað-
urinn var handtekinn og vistaður í
fangageymslu.
Rétt fyrir kl. 5 um morguninn var
tilkynnt um konu sem hafði fallið
milli hæða á skemmtistað í miðborg-
inni. Konan var meðvitundarlítil,
hafði sár á höfði og var ölvuð. Var
hún flutt á slysadeild með sjúkrabíl.
Úr dagbók lögreglunnar 26. til 29. september
Nokkuð um innbrot og
ofbeldi um helgina
UM 80 nemendur í Grunnskólanum
á Hólmavík létu slagviðrið á föstu-
daginn ekki aftra sér frá því að
taka þátt í Norræna skólahlaupinu.
Hlaupið er árviss viðburður í skóla-
starfinu og hægt er að velja um 2,5
km, 5 km eða 10 km vegalengdir.
Tóku allir nemendur sem mættir
voru í skólann þennan dag þátt í
hlaupinu ásamt kennurum. Ekki er
um keppni að ræða, heldur er
markmiðið að allir séu með og var
það til marks um stemninguna í
hlaupinu að tveir fyrstu þátttak-
endur í 10 km vegalengdinni urðu
samferða yfir marklínuna.
Hins vegar hefur verið venjan í
Grunnskólanum á Hólmavík að
veita viðurkenningu þeim bekk sem
nær lengstu meðalvegalengdinni.
Tilkynnt verður um árangur hvers
bekkjar síðar í haust.
Morgunblaðið/Kristín Sigurrós
Nemendur 10. bekkjar voru ákveðnir í að ná hæsta meðaltalinu. Saga
Ólafsdóttir, Anna Þórunn Guðbjörnsdóttir og Jakob Már Snævarsson. Á
bak við þau er Steinar Ingi Gunnarsson að hvetja þau til dáða.
Skólahlaup í slagviðri
Hólmavík. Morgunblaðið.
STARFSMENN Símans eru að
koma fyrir GSM-sendi á túninu
framan við Höfðabrekku í Mýrdal.
Sendirinn bætir sambandið á kafla
af þjóðveginum og á Hótel Höfða-
brekku sem hingað til hefur verið
sambandslaus í gegn um GSM-
síma, og í einhverjum tilfellum hef-
ur það valdið vandræðum hjá gest-
um hótelsins. Þar að auki er síminn
öryggistæki því björgunarsveit-
irnar nota GSM til að kalla út fé-
laga sína ef á þarf að halda og á
svona svæði þar sem búið er í
skugga Kötlu er nauðsynlegt að
vera í góðu sambandi.
Nýr GSM-
sendir við
Höfðabrekku
Fagradal. Morgunblaðið.
Morgunblaðið/Jónas Erlendsson
♦ ♦ ♦