Morgunblaðið - 20.02.2004, Side 12
FRÉTTIR
12 FÖSTUDAGUR 20. FEBRÚAR 2004 MORGUNBLAÐIÐ
ROKKHLJÓMSVEITIN Mínus er væntanleg
til Ísafjarðar innan tíðar og verður þá með tón-
leika í íþróttahúsinu á Torfnesi. Það þætti svo
sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess
að skipulagning tónleikanna er í höndum ungs
Ísfirðings, Gunnars Atla Gunnarssonar, sem
er nemandi í 10. bekk Grunnskólans á Ísafirði.
Þetta eru ekki fyrstu tónleikarnir sem
Gunnar Atli sér um því í febrúar á síðasta ári
skipulagði hann tónleika með hljómsveitinni
Írafári og í september sl. stóð hann fyrir góð-
gerðartónleikum þar sem vestfirskar hljóm-
sveitir tróðu upp. Þá var hann langt kominn
með að skipuleggja stórtónleika í Laugardals-
höll með hljómsveitinni Metallica en segir að
það verkefni bíði nú betri tíma.
Afskaplega ákveðinn
Þegar reynt var að hafa samband við Gunn-
ar Atla til að forvitnast frekar um þennan at-
hafnasama unga mann varð mamma hans,
Kristín Hálfdánardóttir, fyrir svörum og tjáði
blaðamanni að strákurinn væri í skólanum en
góðar líkur væru á hægt yrði að ná í hann í
gsm-síma. Aðspurð hvað henni fyndist um at-
hafnasemi sonarins hló hún við og sagði að for-
eldrarnir bæru fullt traust til hans og reyndu
að styðja hann eftir bestu getu. Hún yrði þó að
játa að stundum hefði hún smááhyggjur ef
henni þætti hann vera að færast of mikið í fang
og þá væri reynt að stíga á bremsurnar enda
væri hann ekki nema fimmtán ára. „Hann er
afskaplega ákveðinn. Hann er líka ótrúlega
kaldur því hann hringir alltaf beint í toppana
en talar aldrei við neinar undirtyllur,“ sagði
hún og bætti við að hann skipulegði allt út í
hörgul, nema þá helst herbergið sitt.
Sér um alla skipulagningu
Eins og mamman hafði gefið í skyn náðist í
Gunnar Atla í hádegishléinu í skólanum og
með glymjandi köll og hróp skólafélaganna á
bak við sig var hann spurður frekar um þá tón-
leika sem hann hefur staðið fyrir og ástæðu
þess að hann lagði út á þessa braut upp-
haflega. „Þetta byrjaði eiginlega fyrir rúmu
ári þegar Guðjón Þorsteinsson hjá Körfu-
knattleiksfélagi Ísafjarðar talaði við mig og
bað mig að skipuleggja eitthvað sérstakt til
fjáröflunar fyrir KFÍ. Þegar ég var búinn að
hugsa málið aðeins ákvað ég að hafa samband
við hljómsveitina Írafár og athuga hvort þau
væru ekki til í að koma vestur og halda tón-
leika hérna. Þau tóku því vel og voru tónleik-
arnir haldnir í íþróttahúsinu á Ísafirði og
heppnuðust mjög vel en hátt á fimmta hundr-
að manns mættu. Ég sá um alla skipulagningu
nema hvað KFÍ sá um fjármálin enda er ég
ekki fjárráða. Svo sá ég líka um aðra tónleika
síðastliðið haust fyrir 10. bekk sem voru haldn-
ir í félagsmiðstöðinni og þar komu fram sex
vestfirskar hljómsveitir. Framkvæmd þeirra
tónleika var alfarið í mínum höndum, líka fjár-
málin, en ágóðinn rann í ferðasjóð 10. bekkjar
og sömuleiðis til Krabbameinsfélagsins Sig-
urvonar.“
Eru oft smáskrýtnir til að byrja með
Mínus er ein af skærustu stjörnum íslensks
tónlistarlífs um þessir mundir og fyrir for-
göngu Gunnars Atla er hljómsveitin nú á leið-
inni vestur á Ísafjörð. „Ég ætlaði að fá þá til að
koma og spila á balli en þeir spila eingöngu á
tónleikum þannig að úr varð að ég bað þá að
halda tónleika hér í íþróttahúsinu á Ísafirði.
Það er talsverð skipulagning í kringum þetta
og ég byrjaði á því að gera fjárhagsáætlun til
að vinna út frá. Síðan þarf að auglýsa og ráða
fólk til að vinna á tónleikunum, t.d. við að und-
irbúa húsnæðið, miðasölu, dyragæslu o.fl.
Guðjón Þorsteinsson hefur aðstoðað mig í
þessu og er líka ábyrgðarmaður tónleikanna
þar sem ég er ekki fjárráða.Tónleikarnir verða
miðvikudaginn 25. febrúar og þarna verður að
sjálfsögðu um að ræða vímulausa skemmtun
sem er opin öllum,“ segir Gunnar Atli og hvet-
ur fólk til að mæta. En hvernig er fyrir fimm-
tán ára strák að standa í samningaviðræðum
við þessar hljómsveitir, er hann tekinn alvar-
lega? „Þeir sem ég tala við verða yfirleitt dálít-
ið hissa en ég byrja alltaf á því að kynna mig
og segja hvað ég er gamall. Þeir eru oft smá-
skrýtnir til að byrja með en yfirleitt jákvæðir
gagnvart erindinu og enginn hefur skellt á mig
ennþá,“ segir hann sposkur.
Metallica var tilbúin að koma
Eitthvað hefur líka heyrst af því að Gunnar
Atli hafi ekki ætlað að ráðast á garðinn þar
sem hann er lægstur því hann hafi verið að
skipuleggja stórtónleika með hljómsveitinni
Metallica í Laugardalshöllinni í Reykjavík.
Hann segir það rétt vera en það dæmi hafi
ekki gengið upp af ýmsum ástæðum. „Ég var
búinn að hafa samband við Metallica og þeir
voru alveg til í að koma þannig að það var ekki
málið. Ég var líka búinn að gera fjárhags-
áætlun og leggja drög að því að fá húsnæði
undir tónleikana. Þetta er hins vegar rosalega
stór framkvæmd og öll þessi vinna hefði verið
á sama tíma og samræmdu prófin þannig að ég
treysti mér ekki til að fara út í þetta núna. Ég
geri það bara seinna og verð þá væntanlega
með meiri reynslu að baki.“
Langar til að starfa við fjölmiðlun
Gunnar Atli er með ýmislegt fleira á prjón-
unum. Þegar Mínus-tónleikarnir verða að baki
hefst af fullum krafti vinna við skipulagningu
brettamóts en hann er nú þegar búinn að fá
Sprite til að styrkja mótið sem haldið verður á
Skíðaviku Ísfirðinga. Þá er Gunnar Atli um-
boðsmaður fyrir hljómsveitina Appollo sem
spilar á skólaböllum og skemmst er að minnast
þess að hann átti sæti í þriggja manna liði sem
komst í úrslit í spurningakeppni grunnskól-
anna síðasta haust. Auk þess æfir hann körfu-
bolta með KFÍ í drengjaflokki og er óhætt að
segja að körfuboltinn sé eitt af stórum áhuga-
málum Gunnars Atla því jafnframt því að æfa
íþróttina hefur hann til nokkurra ára verið
fréttaritari heimasíðu KFÍ, sem er að sögn
kunnugra einn besti íslenski körfuboltavef-
urinn á Netinu. Hann skrifar sömuleiðis um
alla heimaleiki liðsins fyrir Morgunblaðið og
hefur verið fréttaritari fyrir heimasíðu Skíða-
vikunnar á Ísafirði. Gunnar Atli segir tals-
verða vinnu fara í að uppfæra heimasíðu KFÍ.
„Síðan ég byrjaði að skrifa fyrir KFÍ hef ég
tekið viðtöl við alla í meistaraflokki liðsins,
stjórnarmenn og marga fleiri. Þetta tekur
mikinn tíma en ég hef gaman af þessu og
finnst líka fínt að geta þannig lagt mitt af
mörkum fyrir KFÍ. Ég lít líka á þetta sem
góða reynslu því í framtíðinni langar mig til að
starfa við fjölmiðlun einhvers konar, helst sem
blaðamaður eða fréttamaður í sjónvarpi,“ seg-
ir Gunnar Atli og stefnir á að fara í fjölmiðla-
fræði þegar hann hefur klárað 10. bekkinn og
lokið námi í Menntaskólanum á Ísafirði.
Ómetanleg reynsla
Þessi ungi athafnamaður virðist óneitanlega
hafa meira en nóg að gera og því er óhjá-
kvæmilegt að spyrja hvort hann hafi tíma til að
sinna skólanum? Eða hvort hann slappi nokk-
urn tímann af, leggist með tærnar upp í loft og
horfi sjónvarp eða myndbönd? „Ég reyni að
skipuleggja mig vel og hafa tíma fyrir lærdóm-
inn sem ég set auðvitað fremstan í forgangs-
röðinni. Ég sest líka oft niður og horfi á sjón-
varpið en upphaflega fór ég út í allt þetta stúss
til að hafa eitthvað að gera enda á það ekki við
mig að sitja auðum höndum. Stundum er þetta
vissulega mikil vinna en málið er að skipu-
leggja hlutina vel, þá gengur þetta allt saman
upp.“
Þegar Gunnar Atli er að lokum spurður að
því hvort hann fái eitthvað greitt fyrir þá
vinnu sem hann leggur á sig, t.d. í kringum
tónleika, segir hann að svo sé ekki en á móti fái
hann heilmikla reynslu sem hann telur ómet-
anlega.
Gunnar Atli Gunnarsson er athafnamaður í 10. bekk í Grunnskólanum á Ísafirði
Skipuleggur ýmsa stórvið-
burði þrátt fyrir ungan aldur
Morgunblaðið/Guðfinna M. Hreiðarsdóttir
Gunnar Atli Gunnarsson, athafnamaðurinn
ungi, fyrir framan Grunnskólann á Ísafirði.
Ísafjörður. Morgunblaðið.
VERIÐ er að vinna að gerð landfyll-
ingar við svonefndan Skarfabakka
við Sundahöfn í Reykjavík. Að sögn
Óskars Ásgeirssonar, verkfræðings
á tæknideild Reykjavíkurhafnar, er
nýlokið við að setja upp farghaug
sem er til þess ætlaður að ná fram
sigi með skjótum hætti. Stefnt er að
því að hefja þilrekstur í júní og
verður verkið boðið út í vor.
Jón Gunnar Guðlaugsson, frá
verkfræðistofunni Hniti, var að
vinna við GPS-mælingar á Skarfa-
bakka þegar myndin var tekin fyrr
í vikunni.
Morgunblaðið/Þorkell
Þilrekstur í Sundahöfn
verðurboðinn út með vorinu
ÞÓRÓLFUR Árnason borgarstjóri
sagði á borgarstjórnarfundi í gær
að kostnaðarmat fylgdi ekki laga-
frumvörpum, breytingum á lögum
og reglugerðum sem sneru að
hagsmunum og málefnum sveitar-
félaga þrátt fyrir samkomulag um
það fyrir einu og hálfu ári við fé-
lagsmála- og umhverfisráðuneytið.
„Þetta skiptir verulegu máli því
ef við lítum bara til reglugerð-
arsetningar og eingöngu til þeirra
tveggja ráðuneyta, sem þegar ætl-
uðu að vera búin að hefja kostn-
aðarmat á sínum reglugerðum, þá
hafa frá félagsmála- og umhverf-
isráðuneyti komið 75 reglugerðir
frá áramótum 2002-2003 og tals-
verður hluti þeirra snýr að sveit-
arfélögum,“ sagði Þórólfur.
„Reglugerðarútgáfa ráðuneyt-
anna er sífellt að aukast. Hún hef-
ur vaxið um helming frá árinu
1990 og nú eru gefnar út að jafn-
aði um 350 reglugerðir á ári. Sam-
kvæmt upplýsingum frá dóms-
málaráðuneytinu hafa verið settar
tæplega 4.400 reglugerðir frá
árinu 1990,“ hélt borgarstjóri
áfram.
„Hér verður því ekki mótmælt
að um framfaramál og réttarbætur
kunni að vera að ræða, en jafn-
framt hlýtur sú krafa að verða
skiljanlegri að með reglugerðunum
fylgi trúverðugt mat á kostnaði við
að framfylgja þeim. Kostnaði sem
oft á tíðum fellur bótalaust á sveit-
arfélögin.“
Óvanir að reikna út kostnað
„Þessi ráðuneyti eru óvön því,
og reyndar eru embættismenn yf-
irleitt óvanir því að reikna út
kostnað. Þeir hafa meiri skilning á
því hvernig eigi að eyða peningum
til ýmissa verkefna,“ sagði Vil-
hjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti
Sjálfstæðisflokksins og formaður
Sambands íslenskra sveitarfélaga.
„Það er vilji til þess að öll ráðu-
neytin verði látin kostnaðarreikna
reglugerðir og lög sem snúa að
hagsmunamálum sveitarfélaga,“
sagði Vilhjálmur og bætti við að
þessi framkvæmd væri í lögum í
Danmörku. Það hefði tekið langan
tíma að fá ríkið til að taka upp
þessa framkvæmd hér á landi en
hefði nú tekist.
Um 350 reglugerðir gefnar út á ári
Ráðuneyti hunsa
samning um
kostnaðarmat