Morgunblaðið - 20.02.2004, Side 38

Morgunblaðið - 20.02.2004, Side 38
MINNINGAR 38 FÖSTUDAGUR 20. FEBRÚAR 2004 MORGUNBLAÐIÐ  Fleiri minningargreinar um Mar- gréti Ólafsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. ✝ Margrét Ólafs-dóttir fæddist að Butru í Fljótshlíð 7. mars 1911. Hún lést á Elli- og hjúkrunar- heimilinu Grund 11. febrúar síðastliðinn. Hún var dóttir hjón- anna Ólafar Hall- dórsdóttur f. í Kot- múla í Fljótshlíð 18. febrúar 1881, d. 29. mars 1953 og Ólafs Einarssonar bónda að Butru í Fljótshlíð, f. í Húnakoti í Þykkvabæ 16. janúar 1879, d. 4. ágúst 1918. Systkini Margrétar voru Jóhanna (1908- 2000), Halldór (1909-1925), Sveinn Óskar (1913-1995), Aðalheiður Ingibjörg (1914-1995) og Ólafur Konráð (1920-1988). Eftir lát föð- ur síns, er Margrét var aðeins 7 ára gömul var hún send í fóstur að Sámsstöðum í Fljótshlíð þar sem hún var til 14 ára aldurs er hún fór aftur til móður sinnar. Margrét giftist hinn 4. janúar 1936 Torfa Þorbjörnssyni málara og járnsmið, f. í Skálatungu í Melasveit í Borgarfirði 11. nóvem- ber 1909, d. 3. apríl 1981. Foreldr- ar hans voru Helga Helgadóttir, f. í Skálatungu 28. september 1882, d. 13. október 1956 og Þorbjörn Halldórsson, f. á Signýjarstöðum í Þverárhlíð í Borgarfirði 6. maí 1883, d. 3. júní 1944. Margrét og Torfi eignuðust tvö börn, þau eru: 1) Helga Þorbjörg, f. 29. júlí 1935, var gift Oddgeiri Kristni Her- maníussyni, f. 28. maí 1932, d. 4. febrúar 1974, börn þeirra eru Margrét f. 1954, Valdimar Ástþór, f. 1956 og Sigríður, f. 1963. Helga er í sambúð með Guð- mundi Guðnasyni, f. 15. febrúar 1937. 2) Ólafur Halldór, f. 28. júlí 1936, kvæntur Margréti Sæmunds- dóttur f. 28. janúar 1926, börn þeirra eru Ragnheiður f. 1956, Kristín Þor- björg f. 1959, Ólína Margrét f. 1961 og Torfi Jóhann f. 1965. Fósturdóttir Mar- grétar og Torfa er Sesselja Benediktsdóttir f. 30. maí 1944, dóttir Jóhönnu systur Mar- grétar. Sesselja er gift Gunnari Haraldssyni f. 22. mars 1947, börn þeirra eru Guðrún f. 1963, Rúnar f. 1968, María f. 1971 og Grétar Torfi f. 1981. Margrét á 26 lang- ömmubörn og 1 langalangömmu- barn. Margrét og Torfi bjuggu allan sinn búskap í Reykjavík, lengst af í Nökkvavogi 12 þar sem þau byggðu sér hús í félagi við Ólaf bróður Margrétar og Dóru konu hans. Þau stunduðu frístunda- fjárbúskap í nokkra áratugi, sér til ánægju og voru í ferðahópi sem kallaði sig Mópokana sem stund- aði fjallaferðir í mörg ár sem oft voru miklar svaðilfarir. Margrét sinnti lengst af húsmóðurstörfum, en vann um tíma á prjónastofunni Malín. Hún flutti á Elli- og hjúkr- unarheimilið Grund við Hring- braut í mars 1997. Útför Margrétar fer fram frá Langholtskirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 13.30. Nú þegar sól fer hækkandi á lofti og vorið er á næsta leiti, hefur sólin hennar ömmu hnigið til viðar. Hún er frjáls á ný. Ég man ekki eftir mér öðru vísi en að hún amma mín væri til staðar þeg- ar ég þarfnaðist hennar og engum hef ég kynnst sem hefur haft eins mikil áhrif á mig og hún. Hún kenndi mér svo margt og skildi mig svo vel og ég fann alltaf frið og vellíðan í návist hennar. Líf okkar ömmu hefur verið sam- tvinnað frá því að ég fæddist. Hún fékk mig í hendur þegar ég var 2ja mánaða gömul og hafði mig hjá sér í 5 mánuði meðan foreldrar mínir fóru í ferðalag til Bandaríkjanna. Eftir það losnaði hún aldrei við mig. Ég vildi bara alltaf vera hjá henni og var svo heppin að búa í næsta nágrenni við hana og sótti meira þangað en heim til mín. Þegar ég var enn á barnsaldri og áttaði mig á því að enginn lifir að ei- lífu fannst mér vissara að reyna að tryggja það að hún færi ekki frá mér og reyndi að fá hana til að lofa mér því oftar en einu sinni. Hún sagði mér að lífið yrði að hafa sinn gang og það væri ekki í hennar valdi að ákveða sinn brottfarartíma. Við skyldum bara sjá til og vona það besta. Árin liðu og mér varð að ósk minni, hún fór ekki frá mér fyrr en ég var orðin nokkuð vel sjálfbjarga. Já, í næstum hálfa öld átti ég hana og hún mig og ég var orðin vön því að hafa hana ná- lægt mér. Það voru því blendnar til- finningar að kvöldi 11. febrúar sl. þegar við mamma, Sirrý og Helga Birna sátum við dánarbeð hennar. Gleði yfir því að nú fengi hún að hvíla sig, og sorg yfir því hafa hana ekki lengur hjá okkur. Hún amma var stór kona í öllum skilningi þess orðs. Hún var fróð og skemmtileg og hafði hæfileika til að leiðbeina öðrum. Hún var aldrei skoðanalaus og hafði ríka réttlætis- og jafnréttiskennd. Hún skipti sjald- an skapi en var föst fyrir og henni var sjaldan haggað þegar hún var búin að mynda sér skoðun. Hún var mikill dýravinur og skipti þá engu hvort dýrin voru villt eða tamin, henni tókst alltaf að laða þau að sér. Villikettir urðu kostgangarar hjá henni, hund- arnir í fjölskyldunni, sem eru orðnir nokkuð margir nutu allir góðs af gæsku hennar, svo ekki sé minnst á allar gibburnar sem hún átti og þótti svo vænt um. Ef hún gat látið öðrum líða vel þá leið henni vel. Að þekkja hana ömmu mína var mannbætandi. Að vera nákomin henni voru forrétt- indi. Það var henni ömmu erfitt þegar heilsu hennar hrakaði nú síðustu ár- in. Hún sem alltaf hafði verið svo sterk og sjálfbjarga varð nú háð öðr- um. Þar sýndi sig að við uppskerum það sem við sáum, enda fékk hún amma þann besta stuðning sem hægt er að hugsa sér frá sínum nánustu, en þar fór fremst meðal jafningja mamma mín, hún Helga, en hún var vakin og sofin yfir velferð hennar ömmu þar til yfir lauk. Hafi hún mín- ar bestu þakkir fyrir. Ég trúi því að hún amma sé nú komin á góðan stað, þar sem hún get- ur fylgst með okkur öllum sem henni þótti svo vænt um. Blessuð sé minn- ing hennar. Hún er ljósið í lífi mínu. Margrét. Hún amma í Nökkvavoginum er dáin. Hún hafði lifað langa ævi og hefði orðið 93 ára 7. mars nk. Amma fæddist og ólst upp í Fljótshlíðinni sem henni var alla tíð mjög kær og henni þótti allra sveita fegurst. Hún flutti ung kona til Reykjavík- ur og bjó þar allan sinn búskap og lengst af í Nökkvavogi 12 með Torfa afa okkar. Amma og afi voru alltaf mikil náttúrubörn og bændur í eðli sínu enda stunduðu þau alltaf dálítinn búskap meðfram venjulegri vinnu. Þau héldu nokkrar kindur, fyrst við Grensásveginn en þegar borgin þandist út var ekki lengur pláss fyrir þau þar og fluttu þau þá aðstöðu sína uppi í Fjárborgir þar sem frístunda- bændur bjuggu búum sínum. Ömmu þótti alltaf mjög vænt um kindurnar sínar og var það örugglega gagn- kvæmt því ærnar þekktu hana þegar hún kom til þeirra. Ömmu þótti vænt um fleiri dýr og nutu villikettirnir í hverfinu gæsku hennar þar sem hún gaf þeim reglulega; fór jafnvel út í búð til að kaupa handa þeim fisk. Amma var heimavinnandi húsmóð- ir en hún fór samt stundum út að vinna. Hún vann þá á prjónastofunni hjá Soffíu í Peysunni. Þar nutum við góðs af og fengum þá peysur í jóla- gjöf. Amma lagði alla tíð mikla áherslu á að halda sterkum fjölskylduböndum og skipuðu jólin stærstan sess. Jólin hjá ömmu og afa voru okkur krökk- unum mjög eftirminnileg. Allt var svo fágað og fínt og eplalyktin út úr dyr- um. Afi setti upp jólahúsið með jólatré sem hann bjó til sjálfur og stóð í einu horni stofunnar. Með því komu jólin. Allir borðuðu saman jóla- matinn og heimatilbúinn ís sem var hennar sérgrein og fengum við börn- in hann í sérstökum formum. Með kvöldkaffinu á aðfangadagskvöld bar hún fram ekta súkkulaði sem hún lag- aði af einskærri natni. Á efri hæðinni hjá þeim bjó bróðir ömmu og komu þau oft niður í súkkulaðið á aðfanga- dagskvöld þannig að æði mannmargt gat verið í stofunni, en þó var alltaf pláss fyrir alla. Þannig vildi amma alltaf hafa alla hjá sér á tyllidögum. Á sunnudögum var auk þess skyldumæting í kaffi og rjómatertur og pönnukökur. Afi og amma voru alltaf talsvert pólitísk og þegar mannmargt var í sunnudagskaffinu brá oft fyrir um- ræðum um stjórnmál, sem stundum urðu nokkuð háværar. Þegar ömmu þótti nóg komið tók hún af skarið og batt enda á talið og því hlýddu allir. Amma ólst upp við þau kjör að hún skildi þörfina fyrir samtakamátt verkafólks og samtryggingu í þjóð- félaginu. Hún studdi alla tíð Alþýðu- flokkinn og vissi alltaf hvar í stétt hún var og má segja að hennar kynslóð hafi byggt grunnin að þjóðfélagi nú- tímans á Íslandi. Við systurnar eigum í huga okkar ótæmandi brunn minninga um ömmu og viljum þakka henni fyrir að fá að eiga samfylgd með henni. Hverfur margt huganum förlast sýn þó er bjart þegar ég minnist þín. Allt er geymt allt er á vísum stað engu gleymt, ekkert er fullþakkað. (Oddný Kristjánsdóttir í Ferjunesi.) Ragnheiður, Kristín og Ólína Margrét. Samskipti okkar ömmu voru mikil lengst af og á ég vissulega ótalmarg- ar góðar minningar frá okkar sam- verustundum. Upp úr stendur ógleymanleg ferð sem við, ásamt Brynhildi og vinkonu hennar Rakel, fórum til Þýskalands, Austurríkis og Ítalíu. Þar kynntist ég ömmu enn betur og þá hversu góður og skemmtilegur ferðafélagi hún var. Mjög áhugasöm um alla skapaða hluti sem fyrir augu bar og alltaf létt og kát. Hún var sannur náttúruunn- andi og kunni svo sannarlega að njóta þeirrar fegurðar sem þessi lönd hafa upp á að bjóða. Eftirminnilegt er þeg- ar við skoðuðum Arnarhreiður Hit- lers í Suður-Þýskalandi og mann- gæskukonan Margrét varð móð af ákafa að skoða þetta furðuverk nas- ismans sem hún að sjálfsögðu fyrir- leit. Þá var hún ekki síður áköf þegar við fórum í erfiða jeppaferð um Dó- lomítaafjöllin í Suður-Tíról þar sem ekið var um erfiða klettastíga utan í þverhníptu bjarginu. Þar skyldi hún ekki af neinu missa og lagði hún á sig mikið erfiði til að njóta hins stór- brotna útsýnis. Margrét Ólafsdóttir minning Þá er lokið rúmlega nítíu ára veg- ferð ömmu minnar Margrétar Ólafs- dóttur sem einnig var afar góður vin- ur minn og félagi sem og sterkur áhrifavaldur í mörgum efnum. Amma var í sjálfu sér ekkert merkilegri en gerist og gengur með konur af þess- ari kynslóð, elskaði sinn ektamann og studdi á alla lund, kom börnum sínum á legg eins og gerist og gengur og gaf barnabörnum rausnarlega af mann- gæsku sinni. Amma var afar traust og jafnlynd manneskja án þess þó að vera skaplaus. Hún var mjög réttsýn, með sterka réttlætiskennd og jafn- aðarmennskan var henni í blóð borin. Gilti þar einu hvort um var að ræða pólitískar skoðanir eða almenna skiptingu á jarðar og manna gæðum. Allir skyldu bera jafnt úr býtum þar sem amma stjórnaði og það var nokk- uð víða sem hún gerði það þótt ekki færi mikið fyrir því svona á ysta borði. Mínar fyrstu minningar um ömmu voru af mér sitjandi í kjöltu hennar þar sem ég oftar en ekki fékk að hlusta á söng hennar. Efstar voru á vinsældalistanum Guttavísur en einnig söng hún af mikilli innlifun „Vorvindar glaðir, glettnir og hraðir“ og svo „Kibba, kibba, komið þið greyin, kibba, kibba, græn eru heyin“. Það síðastnefnda var okkur báðum afar hugleikið enda snerist okkar vinskapur síðar meir að stórum hluta um rollur. Amma og Torfi afi voru svo lengi sem ég man með rollur og má segja að þeirra líf hafi snúist meira og minna um þær. Var það satt besta að segja mikil synd að þau skyldu ekki uppgötva bú- skaparáráttuna fyrr því bæði voru þau búmenn í húð og hár, dýravinir af guðs náð og hefðu orðið ágætis bænd- ur. Þau voru komin á fimmtugsald- urinn þegar þau meðgengu þessa ár- áttu sína en þótti of seint að fara að hefja búskap í sveit og því var hálft hundrað fjár í Fjárborg í Reykjavík látið duga til að fá útrás fyrir þessar sterku kenndir. Fékk ég að fljóta með í þessu fjárvafstri og áttum við amma og afi margar góðar stundir með þeim öllum; Rjúpu, Snuddu, Móru, Hít, Botnu og stolti þeirra, verðlaunahrútunum Krúsa og Ými. Æðruleysi var ríkjandi þáttur í fari ömmu og var hún ekki að velta sér mikið upp úr því sem ekki var hægt að breyta heldur reyndi að horfa fram á veginn. Mér er minnisstætt þegar ég heimsótti ömmu á Landakot eftir að hún hafði hrasað og misst sjónina á betra auganu og allt virtist stefna í að hún yrði nánast blind þar sem sjónin á hinu hafði um langa tíð verið lítil. Þegar ég var sestur hjá henni segi ég við hana: „Jæja, amma mín, þetta var nú ljóta klúðrið og nú getur þú ekki lesið Moggann ef að lík- um lætur,“ en sú gamla svaraði af bragði: „Þetta er allt í lagi, góði minn, ég er búin að sjá allt sem ég þarf að sjá. Það er meira um vert að þú skyldir halda sjóninni,“ en ég hafði nokkrum mánuðum áður slasast lít- illega á auga. Svipað var upp á ten- ingnum þegar fannst krabbamein- sæxli í öðru brjósti hennar fyrir um áratug síðan. Brjóstið var fjarlægt og átti síðan að hefja lyfjameðferð en sú gamla sagði „nei takk“, hún væri búin að lifa nógu lengi og hún ætlaði ekki að fara að veslast upp í erfiðri með- ferð. Þetta skyldi bara hafa sinn gang en ekki var það nú krabbinn sem lagði hana að velli. Amma hafði til að bera afar sterk- an persónuleika og lærðist mér fljótt að vera ekki að þrátta við hana. Þögn hennar gat verið þrúgandi þegar hún horfði fjarrænum augum út í loftið, með hökuna örlítið framsetta og trommaði gjarnan létt með fingrun- um á eldhúsborðið. Leið þá ekki löng stund þar til maður lét í minni pok- ann fyrir þeirri gömlu og játaði sig sigraðan. Jafnaðarhugsjón ömmu átti sér engin takmörk. Aldrei kom það til greina að ég fengi eins og svo sem eitt lamb hjá þeim til eignar. Slíkt var ekki til umræðu því þá þurfti að gefa öllum barnabörnunum lamb jafnvel þótt ég væri sá eini sem sinnti bú- skapnum með þeim að einhverju ráði. Annað gott dæmi um jafnaðarhug- sjón hennar var þegar ég eitt sinn kom til hennar í Nökkvavoginn með hundana Brúnó og Lottu og hafði hún þá látið tvo nýsoðna sláturkeppi á eldhúsborðið. Lotta, sem gat verið dálítið óforskömmuð, skaust eld- snöggt að borðinu og læddi sér með framlappirnar upp á borðið og tók annan keppinn. Amma brást ókvæða við og skipaði mér af mikilli ákveðni að bjarga keppnum en breytti skip- uninni snarlega þegar hún sá að ekki yrði þetta mannamatur úr því sem komið var. Hrópaði hún þá að ég yrði að ná keppnum og skipta á milli þeirra hundanna því auðvitað mátti ekki mismuna hvorki mönnum né skepnum og Brúnó varð að fá sinn skerf úr því svona fór. Á kvöldin var gjarnan tekið í spil og spiluð vist af miklum móð. Ég sagði heila á óséð spil og stóðst, þeim til mikillar undrunar, að vísu með smásvindli og skildu þær ekkert í því hvernig ég færi að þessu. Þegar svo Brynhildur leiddi þær í sannleikann var að sjálfsögðu hlegið og höfðu þær gaman af öllum fíflaganginum. Sam- band okkar ömmu var býsna náið og var með ólíkindum hvað hún gat allt- af séð í gegnum mig væri ég eithvað að laumast á bak við hana. Á það vel við þegar við vorum að yfirgefa bílinn sem leigðum í Lúxemborg og fara í flugið heim. Þegar amma er að fara út úr bílnum lítur hún snöggt á mig og horfir með ákveðnum rannsókn- arsvip og segir: „Valdimar, ef þú hef- ur sett eitthvað í töskurnar mínar og ég verð tekin þá segi ég þeim bara að þú eigir þetta,“ og þar með vippaði hún sér út úr bílnum. Ég hef oft velt fyrir mér hvers vegna hún sagði þetta og síðan ekki orð meir því þeg- ar heim var komið komu í ljós níu flöskur af góðu eðalvíni úr Mósel- dalnum þegar hún opnaði töskurnar. Hafði hún gaman af þessu svona eftir á þótt það væri auðvitað ekki stíllinn hennar Margrétar að standa í ein- hverju sem ekki samræmdist lögum og reglum. Þær eru margar góðar minning- arnar sem tengjast henni ömmu. Eft- ir að hún og afi hættu fjárbúskapnum fylgdist hún afar vel með hrossa- veseni okkar Brynhildar. Þekkti öll hrossin og vissi hvað var undan hverju og þótt hún hafi aldrei komið mikið nálægt hrossarækt sjálf leyndi sér ekki hversu gott auga hún hafði fyrir hvernig gott sköpulag hrossa ætti að vera og hið sama gilti um ganglagið, þar voru hlutirnir nokkuð á hreinu. Eftir að sjónin versnaði var sá háttur hafður á að Brynhildur keyrði ömmu meðan ég ég reið það nærri bílnum að hún sæi hrossið vel. Voru þessar skoðunarferðir afar vinsælar og vel þegnar og á eftir var farið heim í kaffi og þá spáð og spekúlerað í þeim hrossum sem vöktu mestan áhuga hjá henni hverju sinni. Að leiðarlokum fyllist ég þakklæti fyrir að hafa haft tækifæri til að alast upp í nábýli og undir verndarvæng þeirra heiðurshjóna Margrétar og Torfa. Njóta persónutöfra alþýðu- konunnar og kvenskörungsins sem hafði svo skýrar og einfaldar lífsskoð- anir. Ömmu sem alltaf var til staðar til að leita til í raunum eða bara til að njóta skemmtilegra og uppbyggi- legra samræðna, og allt þar á milli. Megi minning um Margréti Ólafs- dóttur lifa öðrum til eftirbreytni. Valdimar. Elsku amma, nú er komið að kveðjustundinni. Það auðveldar hana að nú ertu komin á betri stað. Okkur systkinin langar að þakka þér fyrir þær góðu stundir sem við áttum saman. Þinni veraldlegu vist er kannski lokið en við erum þess fullviss að nú eruð þið afi sameinuð á ný og fleiri ævintýri í vændum. Nú legg ég augun aftur, ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt. Æ, virst mig að þér taka, mér yfir láttu vaka þinn engil, svo ég sofi rótt. (Sveinbjörn Egilsson.) Með virðingu og þakklæti kveðjum við elsku ömmu, Guðrún, Rúnar, María, Grétar Torfi og fjölskyldur. Ég sendi þér kæra kveðju, nú komin er lífsins nótt. Þig umvefji blessun og bænir, ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því þú laus ert úr veikinda viðjum, þín veröld er björt á ný. (Þórunn Sigurðardóttir.) Hún langamma var hvunndags- hetja sem sóttist ekki eftir athygli eða hrósi. Að gera öðrum gott var henni nóg. Hafi hún þakkir fyrir allt sem hún gerði fyrir okkur. Guð geymi hana langömmu. Alfreð Mounir, Guðmundur Ottesen, Torfi Fannar, Vala Bjarney og Eydís Helga. MARGRÉT ÓLAFSDÓTTIR

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.