Morgunblaðið - 26.02.2004, Qupperneq 57
ÍÞRÓTTIR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 26. FEBRÚAR 2004 57
„ÉG verð bara að vinna leikinn í Madrid upp á
eigin spýtur,“ sagði Oliver Kahn, markvörður og
fyrirliði Bayern München, í viðtölum við þýska
fjölmiðla í gær. Kahn var helsta skotmark þýsku
íþróttapressunnar í gær í kjölfar herfilegra mis-
taka í leik Bæjara og Real Madrid í Meistara-
deildinni í fyrrakvöld þegar hann missti undir
sig skot Carlosar af 30 metra færi.
„Skólastrákamistök kostuðu Bayern sigurinn“
sagði í fyrirsögn Bild og í AZ-blaðinu í München
var fyrirsögnin: „Kahn kom í veg fyrir krafta-
verk“.
Svipuð mistök hentu Kahn í úrslitaleik Þjóð-
verja og Brasilíumanna á HM í S-Kóreu fyrir
tveimur árum þegar hann missti undir sig laust
skot Rivaldos þegar Brassar fögnuðu sigri, 2:0,
og nudduðu þýskir fjölmiðlar salti í sár Kahns
með því að rifja það upp.
„Ég verð auðvitað að spyrja sjálfan mig hvað
sé að gerast hjá mér þessa dagana. Ég hef sjald-
an eða aldrei verið í betra formi og nú enda hef
ég aldrei æft eins mikið. En það er eitthvað sem
bjátar á og ég verð að leita skýringanna hjá mér
sjálfum,“ sagði Kahn við fréttamenn í gær. Í síð-
ustu viku gerði þessi frábæri markvörður sig
sekan um mistök í landsleik Þjóðverja og Króata
og í leikjum Bæjara í þýsku deildinni hefur hann
ekki þótt of sannfærandi á milli stanganna.
Kahn nýtur stuðnings þjálfara og forráða-
manna Bayern-liðsins. „Hann hefur unnið marga
leiki fyrir okkur og ég er alveg sannfærður um
að hann gerir það í Madrid,“ sagði Karl-Heins
Rummenigge, stjórnarmaður Bayern, en Kahn
var hetja Bæjara í Meistaradeildinni vorið 2001
þegar hann varði þrjár vítaspyrnur í vítaspyrnu-
keppninni í úrslitaleiknum gegn Valencia.
Kahn hefur ekki gengið heill til skógar og til
að mynda missti hann af leik Bayern gegn
Hamburger um síðustu helgi vegna bakmeiðsla.
Kahn kennir þó ekki þeim meiðslum um ófar-
irnar gegn Real Madrid. „Þetta skot átti ég að
stöðva jafnvel þó svo ég hefði engar hendur né
fætur,“ sagði Kahn.
Þýsku götublöðin hafa undanfarna mánuði
birt ótt og títt fréttir af markverðinum eftir að
hann skildi við ófríska eiginkonu sína á síðasta
ári og tók í stað hennar ástfóstri við gengilbeinu
á þrítugsaldri.
„Verð að vinna leikinn í Madrid,“
segir Oliver Kahn, fyrirliði Bayern
Reuters
Oliver Kahn eftir mistökin.
NÍNA K. Björnsdóttir er byrjuð að
æfa á nýjan leik með Íslandsmeist-
urum ÍBV í handknattleik en hún
hefur ekkert leikið með Eyjaliðinu
eftir áramótin bæði vegna meiðsla
og anna í vinnu.
„Ég fagna því mjög að vera búinn
að fá Nínu aftur í liðið. Hún styrkir
hópinn og ekki veitir af í þeim verk-
efnum sem eru framundan hjá okk-
ur,“ sagði Aðalsteinn Eyjólfsson,
þjálfari ÍBV, við Morgunblaðið í
gær.
Aðalsteinn reiknar með að tefla
Nínu fram í úrslitaleiknum í bikar-
keppninni á lugardaginn, en þá
mæta Eyjastúlkur liði bikarmeist-
ara Hauka úr Hafnarfirði gegn bik-
armeisturum Hauka. Nína lék með
Haukum og þar áður Stjörnunni.
Nína aftur
með ÍBV
SKÍÐAKONAN Emma Furuvik
tók þátt í heimsbikarmóti í stórsvigi í
Åre í Svíþjóð á sunnudaginn. Hún
var ein fjölmargra sem komust ekki
áfram í aðalkeppnina.
MALMÖ FF, lið Ásthildar Helga-
dóttur, landsliðsfyrirliða í knatt-
spyrnu, sigraði enska liðið Arsenal,
3:1, í æfingaleik í London í gær. Ást-
hildur missti af leiknum þar sem hún
veiktist eftir fyrsta leik sænska liðs-
ins í Englandsferðinni. Hann var
gegn Charlton í fyrrakvöld og end-
aði 3:3.
HANNES Þ. Sigurðsson lék allan
leikinn með Viking frá Stavanger
sem sigraði bandaríska liðið Metro-
stars, 1:0, í æfingaleik á La Manga á
Spáni í gær.
HELGI Sigurðsson, landsliðs-
framherji í knattspyrnu, lék hins-
vegar ekki með danska liðinu AGF
sem vann Wisla Plock frá Póllandi,
2:1, á Kýpur.
FELIX Magath, þjálfari Stutt-
gart, framlengdi samning sinn við
félagið um tvö ár í gær – hann er
samningsbundinn því til sumarsins
2007.
EMILE Heskey mun ekki leika
með Liverpool gegn Levski Sofía á
Anfield í kvöld í UEFA-leik liðanna.
Hann er meiddur í baki. Salif Diao
og Vladimir Smicer eru einnig úr
leik vegna meiðsla.
GERARD Houllier, knattspyrnu-
stjóri Liverpool, segist viss um að
hann verði við stjórnvölinn hjá liðinu
á næstu leiktíð. Houllier situr undir
vaxandi gagnrýni um þessar mundir
þar sem árangur Liverpool hefur
verið lakari en vonir stóðu til. Houll-
ier segist viss um að Liverpool takist
að ná 4. sæti í ensku úrvalsdeildinni
og öðlast rétt til þátttöku í Meist-
aradeild Evrópu næsta vetur.
BIXENTE Lizarazu verður ekki
með Bayern München þegar liðið
mætir Real Madrid í síðari viðureign
liðanna í Meistaradeildinni í Madrid
10. mars. Frakkinn varð fyrir
meiðslum í læri og er reiknað með að
hann verði frá æfingum og keppni
næstu tvær til þrjár vikurnar.
MALCOLM Glazer, bandarískur
viðskiptajöfur, jók í gær eignarhlut
sinn í Manchester United. Glazer
keypti milljón hluti í félaginu á 265
pens hvern og á nú 16,69% í United,
en átti fyrir viðskiptin í gær 16,31%.
Stærstu hluthafar eru sem fyrr Ír-
arnir John Magnier og JP McManus
en þeir eiga samtals 28,9%.
KEVIN Blackwell, þjálfari hjá
Leeds, hefur verið orðaður við fram-
kvæmdastjórastólinn hjá South-
ampton.
CHRISTOPHE Dugarry, leik-
manni Birmingham, hefur verið boð-
ið að samningur hans við félagið
verði greiddur upp þannig að hann
geti farið strax frá félaginu.
FÓLK
„AUÐVITAÐ er aldrei hægt að full-
yrða neitt fyrirfram, en ég tel að ef
allt er eðlilegt þá eigum við að verða
í baráttu við Armeníu um efsta sæt-
ið í 3. deild,“ segir Magnús Jón-
asson, formaður íshokkífélagsins
Bjarnarins og íshokkífrömuður,
þegar leitað var til hans í gær vegna
fyrirhugaðrar keppni í 3. deild
heimsmeistaramótsins í íshokki sem
fram fer í Skautahöllinni í Laug-
ardal 16. til 21. mars nk. Þá keppir
íslenska landsliðið við Armena, Íra,
Tyrki og Mexíkó í 3. deild heims-
meistaramótsins. Efsta þjóðin
tryggir sér þátttökurétt í 2. deild
heimsmeistaramótsins.
Írar og Armenar hafa ekki
spreytt sig í fullorðinsflokki í ís-
hokkí á alþjóðlegum mótum síðustu
ár. Mexíkóar kepptu hér á landi fyr-
ir tveimur árum og þá voru þeir lak-
ari en Íslendingar. Tyrkir eiga að
vera með lakasta liðið enda reka
þeir lestina á styrkleikalista Alþjóða
íshokkísambandsins.
„Það er samt aldrei að vita hversu
sterkt Mexíkó er. Það getur vel ver-
ið að það hafi fengið Bandaríkja-
menn með mexíkósk vegabréf til
liðs við sig, en að öllu jöfnu eigum
við að vera með sterkara lið,“ segir
Magnús sem telur að það megi bú-
ast við sterku liði frá Armeníu
vegna þess að þar sé hefð fyrir
íþróttinni frá Sovét-tímanum. Arm-
enar voru útilokaðir frá keppni á al-
þjóðlegu móti í fyrra þegar þeir
hugðust tefla fram liði leikmanna
sem allir voru með rússnesk vega-
bréf. „Þá setti Alþjóða íshokkísam-
bandið Armenum stólinn fyrir dyrn-
ar. Síðan hafa Armenar örugglega
kippt sínum málum í liðinn, víst er
að þeir mæta með löglegt lið núna,
þótt það verður kannski skipað fyrr-
verandi Rússum,“ segir Magnús.
Nýlega valdi Peter Bolin, lands-
liðsþjálfari Íslands í íshokkí, hóp 23
leikmanna en auk þess hyggst hann
velja til viðbótar nokkra leikmenn
sem búa og leika í Evrópu, aðallega
á Norðurlöndunum. Reiknað er með
að þegar endanlegur æfingahópur
verði klár þá skipi hann 26 leik-
menn. Af þeim þarf Bolin síðan að
velja 20 leikmenn, 18 útileikmenn
og tvo markverði til þess að leika
fyrir hönd Íslands í 3. deildar
keppninni.
Íslendingar sterkastir
Birgir tók við formennsku af PáliHreinssyni á ársþingi SÍL um
síðustu helgi. Birgir hefur verið í
stjórn SÍL sl. tíu ár og sagðist ekki
hafa getað skorist undan að taka að
sér formannsstarfið þegar eftir var
leitað þegar ljóst var að Páll gæfi
ekki kost á sér til endurkjörs.
Birgir Ari segir það skipta íþrótt-
ina hér á landi miklu máli að eiga
keppanda á Ólympíuleikunum í sum-
ar og því verði staðið þétt við bakið á
Hafsteini Ægi á næstu vikum og
mánuðum. Hann eigi nokkuð góða
möguleika á að taka þátt í leikunum,
en hann var einnig með á ÓL í Sydn-
ey fyrir fjórum árum. Hafsteinn hafi
æft í Frakklandi í vetur, sé heima í
fríi um þessar mundir en haldi á ný
út í mars þar sem hann stundar æf-
ingar og keppni af krafti fram að
heimsmeistaramótinu sem fram fer í
Tyrklandi í maí. Þá kemur í ljós
hvort hann verður á meðal þeirra
fjörutíu siglingamanna sem keppa í
laser-kænuflokki á leikunum. „Hver
þjóð fær aðeins eitt sæti á leikunum
og þegar hafa 32 þjóðir tryggt sér
keppnisrétt. Hafsteinn er einn
þeirra sem kemur til með að berjast
um eitt þeirra átta sæta sem eftir á
að ráðstafa og ég tel möguleika hans
á því að tryggja sér eitt þeirra vera
raunhæfa, en þetta kemur allt í ljós
að heimsmeistarakeppninni lokinni,“
segir Birgir sem var Hafsteini til
halds og trausts á Ólympíuleikunum
í Sydney.
Nú eru sjö siglingafélög virk á
landinu en þau eru á höfuðborgar-
svæðinu, á Suðurnesjum, á Akureyri
og Ísafirði. Alls eru skráðir um 1.500
iðkendur hjá félögunum sjö og sagði
Birgir að áhugi hefði aukist mikið á
undanförnum árum, ekki síst vegna
vaxandi áhuga á róðri. „Það hefur
sannkölluð sprenging átt sér stað í
róðraíþróttinni víða um land enda til-
tölulega þægileg íþrótt að eiga við,“
segir Birgir sem ætlar ásamt stjórn
sinni að leggja ríka áherslu á út-
breiðslumál í vor og sumar. „Draum-
ur okkar er að fara með nokkra báta
á kerrum um landið og kynna sigl-
ingaíþróttina sem víðast því úti um
landið er öll aðstaða fyrir hendi og
einnig áhugi, það er bara spurningin
um að virkja hann,“ segir Birgir Ari
Hilmarsson, nýkjörinn formaður
Siglingasambands Íslands.
Birgir Ari Hilmarsson, nýkjörinn formaður Siglingasambands Íslands
Mikilvægt
að eiga
keppanda
í Aþenu
„ÞAÐ verður engin kúvending í stjórn sambandsins en ljóst er að
við höfum í hyggju að leggja aukinn þunga í útbreiðslu- og kynning-
armál íþróttarinnar. Fyrst um sinn verður hins vegar megináhersla
lögð á að styðja við bakið á Hafsteini Ægi Geirssyni til að geta náð
því markmiði að keppa á Ólympíuleikunum í Aþenu í sumar,“ segir
Birgir Ari Hilmarsson, nýkjörinn formaður Siglingasambands Ís-
lands (SÍL), í samtali við Morgunblaðið.
Birgir Ari Hilmarsson, formaður Siglingasambands Íslands.