Pressan - 24.09.1992, Blaðsíða 28

Pressan - 24.09.1992, Blaðsíða 28
28 FIMMTUDAGUR PRESSAN 24. SEPTEMBER 1992 PRESSAH/JIM SMART Hlín Agnarsdóttir leikstjóri kemur móð og másandi innúr dyrunum. Hún hefur hlaupið milli bæjarhluta. Hún hleypur þrisvar í viku, æfir Hræðilega hamingju hjá Alþýðuleikhúsinu, er með námskeið í Kramhúsinu sem heitir Leyndir draumar og ætlar að opna nýtt leikhús í bæn- um. Þegar ég spyr hana alvarlegra spurninga endar hún skellihlæj- andi einhverstaðar úti í móa. SPINNIÐ FERÐALAG EÐA SPINNIÐ SEKTARKENND Afhverju heitir það Leyndir draumar? „Það er leyndi draumurinn um að leika á sviði. Námskeiðið er fýr- ir fólk sem elur þann draum í brjósti en hefúr ekki þorað að láta hann rætast. Við byrjum strax að vinna með texta, Mávinn eftir Tjekov. Það hefur of Iítið verið gert afþví á leiklistarnámskeiðum að kynna texta og áherslan hefur verið meiri á líkamlega tjáningu, spuna og aðra tækni þar sem reynir á ímyndunarafl og sköpun- argáfu. Ef fólk á að fá eitthvað út úr spuna þarf það að vera vel und- irbúið. Markmið, aðstæður og persónur þurfa að vera skýr. En með leikritinu er ég komin með aðstæður og persónur og þá má kanna með spuna ýmislegt um þessar persónur. Mig langar til að leikritið verði þannig uppspretta, brunnur. Oft er fólki bara hent út á gólf og sagt: Spinnið ferðalag eða spinnið sektarkennd. Spuni er flókin tækni og mikið af honum verður yfirborðslegt — sama hvort leikarar eða amatörar eiga í hlut — þegar fólki er hent svona útá gólf. Spuni er erfiðari en fólk vill vera láta. Mávurinn er eitt af uppáhaldsleikritunum mínum og mér finnst aðalþema þess vera „hvað er að vera listamaður?“.“ Er það eitthvert mál að vera listamaður? „f Mávinum kristallast spurn- ingar um listina, frægð og hégóma og kynslóðaátök. Hver kynslóð á eifitt með að láta af hendi þau ítök sem hún hefur áunnið sér. Per- sónur í Mávinum eru miklar manneskjur að því leyti að þær eru fullar af mannlegum breysk- leika; þær rífast, hata, elska og eru hégómlegar. Þarna eru aðalper- sónur fræg leikkona og tveir rit- höfundar, annar frægur og full- orðinn en hinn ungur og óreynd- ur. Og maður fer að velta fyrir sér hvað er sannur listamaður og að það að vera listamaður er ekkert dularfúllt. Það er oft eitthvað ann- að sem er drifkraftur listamanna en að skapa ódauðleg listaverk, einsog frami og, ekki síst, viður- kenning í hópi annarra lista- manna. Heimur listarinnar er flókinn. Ef það er leyndur draum- ur að standa uppi á sviði og syngja fölnar sá draumur pínulítið þegar þú þarft að fara að læra að syngja. Söngnám er vinna og þú ferð ekki á námskeið til að verða listamað- TÁRIN FRJÓSA A ÍSLANDI Ég er ósammála því að það sé ekkert dularfullt við listina. „Ég efast ekki um að það eru til listamenn sem skapa af dularfull- um krafti og svo eru sumir sem skreyta sig með þessari mystík. En mér finnst það einkenni góðra leikskálda að maður veit ekki hve- nær persónurnar ljúga eða segja satt og þær vita það ekki einusinni sjálfar. Það er spennandi. Þannig er það líka í leikritinu Hræðilegri hamingju eftir Lars Norén sem ég er að æfa núna hjá Alþýðuleikhús- inu. Við erum síljúgandi. Við virðumst ekki komast af öðruvísi. Við ljúgum að okkur hvað snertir tilfinningar okkar og þarfir, því við viljum bera okkur svo vel. Annars væru allir grátandi. f Suð- ur-Evrópu er þetta öðruvísi. Ég man eftir í Grikklandi, þegar ég var að versla í stórmarkaði, að ein kassadaman var hágrátandi því hún og kærastinn höfðu misst íbúðina og hún grét og barmaði sér við alla viðskiptavinina og allir fóru að klappa henni á bakið. En það er svo erfitt að gráta á íslandi því tárin geta ffosið eða það sem er hættulegra er: Augun geta ffos- ið saman.“ Svo best er að bera harm sinn í poka á bakinu? „Við ljúgum ekki bara, við þegjum líka, segjum ekki. Þá verð- um við rosalega dularfull. í Hræðilegri hamingju er fólk að segja allan fjandann hvert við annað en það er á kafi í neyslu. Fólk segir ekkert fýrren það er bú- ið að fá sér í glas. Og man svo ekk- ert útaf blakkátinu. Svo segir maður daginn eftir, heyrðu þú varst að segja mér frá því í gær að... Þá stífnar fólk upp og sta- mar. f drykkjunni hoppa leyndu draumarnir uppúr glösunum. Við verðum svo innhverf nema þegar við drekkum. Ég hef upplifað það með alka sem verða edrú að þeir eru einsog ljósmynd sem fram- kallast. Og ef maður segir klikkaða hluti bláedrú heldur fólk að mað- ur sé að hrökkva uppaf standin- um. Ég hef oft lent í því.“ SANNLEIKSSÝK3N JAFN- HÆTTULEG OG LYGIN Ert þú svona klikkuð? Eða heiðarleg? „Nei, allsekki. Ég á bara svo erf- itt með að ljúga. En maður verður að passa sig á sannleikssýkinni. Ég er hrædd við þá sálfræði að fólk eigi alltaf að segja sannleikann hvert um annað, botnlaust. Ég held það sé miklu betra að fara út að hlaupa. Hlaupa úr sér sann- leiksáráttuna. Það er heilt búnt sem fer af manni. Svo fer mikil orka í að tala um þjóðfélagið í staðinn fyrir að gera eitthvað í því.“ Byltingu kannski? „Mér finnst skemmtilegra þeg- ar eitthvað mikið er að. Einsog þegar maður er búinn að ganga á milli lækna og fær aldrei lausn. Þótt maður sé þjakaður og þjáður er fyndnara að sjá öll þau lyf og ráð og leiðir sem læknarnir hafa gefið og ekkert hefur dugað. Mikl- ir erfiðleikar eru kómískir. Þessi kómísku kvein. Tjekov er alltaf leikinn alvarlega en hann skrifaði Mávinn t.d. sem kómedíu. Ég held hann hafi hugsað það þannig að áhorfendur ættu að hafa gaman af því að sjá hvað fólk getur flækt sig. Einsog Ljósvíkingurinn sagði: „Mikið væri lífið einfalt efþví væri lifað rétt.“ — Ef maður gæti ekki séð það fyndna við erfiðleikana yrði lífið óbærilegt." Ertu að vestan? „Já, reyndar. Móðurættin er að hluta úr Aðalvík á Hornströnd- um. Ég veit ekki hvort ég hef vest- firskan húmor. Mér skilst að hann sé sérstakur og þessi óblíðu nátt- úruöfl og hrikalegt landslagið hafa átt þátt í að búa til vestfirska húm- orinn. En húmor er náðargáfa sem vert er að þroska.“ ÞAÐ VANTAR S VONA LEIK- HÚS Er það satt að þú sért að opna nýtt leikhús hér í bce? „Það er leyndarmál ennþá. En það er verið að breyta Hafnarhús- inu í Tryggvagötu og safna tiilög- um um framtíðarlíf í miðbænum. Hræðileg hamingja verður sýnd uppá lofti þar og þegar ég fór að æfa fæddust tvær hugmyndir. I fyrsta lagi að nýta húsnæðið fýrir leikhús og menningarstarfsemi; óperu, dans, kvikmyndaklúbba og fyrirlestra. f öðru lagi að safna peningum og búa til kaffi- og söngleikhús sem væri rekið í tengslum við Gallerí Knúts Bruun. Það á að heita KAFFI Á. SÍMON- AR og ætlunin að söngvarar og leikarar geti troðið upp með smærri verkefni. Það vantar svona leikhús. Þarna yrði kaffihús á dag- inn og vínveitingar á kvöldin. All- skyns stuttar uppákomur; örverk, einleikir og söngur. Leikhúsið hér er þungt í vöfum, þú droppar ekki inn í leikhús. Þarna geturðu droppað inn. Einn af mínum leyndustu draumum er í burðar- liðnum. Þetta er mikið fyrirtæki og ég gæti þetta aldrei nema vegna þess að ég hef góða stuðnings- menn á bakvið mig. Við stefhum að því að opna í nóvember og frumsýna þá leikþáttinn: Eitthvað ósagt eftir Tennessee Willams. Hann gerist einfaldlega við borð og er magnað verk um samband tveggja kvenna. Svo verður lögð áhersla á góðan og klassískan söng. Mikið af söngvurum er að koma heim frá námi, en ég vil ekki bara fá þetta unga fólk heldur líka gömlu söngvarana okkar.“ Afhverju heitir það Kafft Á. Símonar? Kaffisöngleikhúsið heitir í minningu Guðrúnar Á. Símonar, þessarar ágætu söngkonu sem elskaði ketti og var einn af okkar bestu listamönnum á sinni tíð en endaði líf sitt í sárustu fátækt og mér finnst það umhugsunárefni hvernig við hlúum að listamönn- um okkar, sem gefa þjóð sinni svo mikið. En kona og köttur; það verður aðalsmerki söngleikhúss- ins.“ YFIRGEFIN BÖRN SEM KVEINA OG VEINA OG DREKKAVÍN Nýja leikhúsið? Er það hug- sjón? „Ef það er hugsjón að skapa sér atvinnu og hafa gaman þá er það hugsjón.“ En hvað er svona hrœðilegt við þessa hamingju? „Fólkinu í leikritinu finnst hræðileg hamingja betri en engin hamingja. Það er reynsla þess af hamingjunni. Þetta er partí í sjúskaðri íbúð, par býður öðru pari heim. Þá byrjar lítil helgiat- höfh sem felst í því að þau afhjúpa sig og sálarlíf sitt, gera upp málin, gamlir bömmerar eru grafiiir upp, þau lemja og strjúka blíðlega til skiptis. Mér finnst leikritið vera saga parasambanda á íslandi síð- ustu tíu árin. Það lýsir vanmætti til að takast á við ást og sambúð. Allar þessar persónur hafa verið óvelkomin börn og yfirgefna bamið í þeim kveinar og veinar." HVAÐ ER EÐLILEGT í KYN- LÍFI? Hverjar eru þínar hugmyndir um hamingjuna? „Við gerum svo miklar vænt- ingar til hamingjunnar en mínar hugmyndir um hamingjuna eru kannski ekki stórar. Þær sem ég held á lofti núna eru að komast í gegnum daginn og fá eina heita máltíð á dag. Ég held það sé voða mikil hamingja. En til að það sé hægt þarf eiginlega þjóðfélagsbylt- ingu. Hefurðu lesið um öll lykla- börnin og pokabörnin? Mörgum finnst óþarfi að opna einkalífið uppá gátt einsog Lars Norén gerir en hann lætur grímurnar falla, hann berst við tabúin og það er auðvitað óþægilegt. Hann flettir ofan af kynlífi fólks, kynórum og veltir því upp hvað sé eðlilegt. Og hann er einsog Tjekov, spyr: Hve- nær er manneskjan að ljúga og hvenær að segja satt?“ ÉG GLEYMIMÉR VIÐ AÐ HORFAÁFÓLK Hvað hefur mótað þig setn leikstjóra? „Tækifærin eru svo fá sem maður fær til að vinna af viti í leik- húsi að það er á mörkunum að ég kalli mig leikstjóra. Ég er hrein- skilin með það. Erlendar sýningar hafa mótað mig en sú sýning sem hafði mest áhrif á mig var Strompleikur í Ieikstjórn Maríu Kristjánsdóttur árið 1971. Það var líka styrkur að finna að það var kona á bak við þetta. En sú sýning henti mér út í iðu. Öll reynsla hef- ur mótað mig, að umgangast alls- konar fólk og ég held það sé gott að ég lokaðist ekki inní leikhúsinu of snemma, ég hef unnið ólík störf og ég sæki kraft og hugmyndir í tónlist og myndlist. Það er hættu- legast þegar listamenn lokast í fag- inu og vita ekkert um aðrar Iist- greinar. Og að fara í skóla og svo beint á sviðið má líkja við að fara beint úr foreldrahúsum í hjóna- band ánþess að skoða heiminn fýrst. En mér finnst leikhús vera tónlist og hreyfing og sálfræðin heillar mig mest. Mér finnst fólk alveg rosalega skemmtilegt. Ég get gleymt mér við að horfa á fólk.“ ElisabetJökulsdóttir

x

Pressan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Pressan
https://timarit.is/publication/298

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.