Morgunblaðið - 15.05.2004, Page 51
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 15. MAÍ 2004 51
hans og dugnaður var einstakur og
hann gat jafnvel fengið daufgerða
menn til að beita sér. Hann var for-
ingi og hann átti auðvelt með að fá
fólk á sitt band. Fyrir austfirska
verkalýðshreyfingu var ómetanlegt
að njóta starfskrafta Sigfinns í svo
langan tíma sem raun ber vitni.
Fyrir hönd Alþýðusambands
Austurlands og stéttarfélaganna í
landshlutanum vil ég þakka Sigfinni
Karlssyni innilega allt það mikla
starf sem hann innti af hendi í þágu
verkalýðshreyfingarinnar. Þá vil ég
votta eiginkonu hans, Valgerði
Ólafsdóttur, og öðrum aðstandend-
um innilega samúð. Minningin um
merkan verkalýðsfrömuð mun lifa.
Jón Ingi Kristjánsson.
Í dag er kvaddur Sigfinnur Karls-
son, félagi okkar frá Norðfirði. Með
Sigfinni er horfinn af vettvangi einn
farsælasti verkalýðsforingi síðustu
aldar. Sigfinnur hóf ungur maður af-
skipti af verkalýðsmálum, því hann
var kjörinn formaður Vélstjóra-
félagsins Gerpis í Neskaupstað árið
1942, þá 27 ára að aldri. Sigfinnur
stóð vaktina óslitið frá þessum tíma,
til ársins 1994, er hann lét af störf-
um fyrir aldurs sakir.
Sigfinnur gegndi fjölmörgum
trúnaðarstörfum á vegum verka-
lýðshreyfingarinnar þá rúmu hálfu
öld sem hann tók virkan þátt í bar-
áttunni. Lengst sat hann í stjórn
Verkalýðsfélags Norðfirðinga, eða
41 ár. Sigfinnur var formaður fé-
lagsins í aldarfjórðung. Þar var
hann, ásamt eftirlifandi eiginkonu
sinni, gerður að heiðursfélaga árið
2000. Sigfinnur var formaður Al-
þýðusambands Austurlands í 17 ár
og sat enn lengur í stjórn þess.
Hann sat næstum aldarfjórðung í
stjórn Verkamannasambands Ís-
lands og var formaður fiskvinnslu-
deildar. Ennfremur var Sigfinnur í
stjórn Sjómannasambandsins í 20
ár.
Sigfinnur lét því víða til sín taka á
vettvangi verkalýðshreyfingarinnar.
Auk margvíslegra formlegra trún-
aðarstarfa, var hann mjög virkur í
hinni daglegu baráttu. Í störfunum á
vettvangi verkalýðshreyfingarinnar
lágu leiðir okkar Sigfinns oft saman
og með okkur tókust ágæt kynni.
Þar komst ég að raun um að þar fór
ekki aðeins dugmikill talsmaður ís-
lensks launafólk, vakinn og sofinn
yfir viðfangsefnunum, heldur einnig
frábær félagi. Hann var skemmti-
legur félagi í persónulegri viðkynn-
ingu sem gott var að umgangast.
Sigfinnur var útsjónarsamur við
lausn vandamála og virtur jafnt af
samherjum sínum í verkalýðshreyf-
ingunni, sem og forystumönnum at-
vinnurekenda sem áttu við hann
samskipti.
Alþýðusamband Íslands þakkar
Sigfinni samfylgdina og það starf
sem hann innti af hendi í þágu
bættra kjara íslenskrar alþýðu. Það
munar sannarlega um slíka menn.
Grétar Þorsteinsson,
forseti ASÍ.
Merkur maður er fallinn frá, mað-
ur sem hafði mikil áhrif á samfélag
sitt. Allir sem kynntust Sigfinni
Karlssyni á lífsleið hans skynjuðu að
hann skar sig úr fjöldanum. Hann
hafði ríka réttlætiskennd, bjó yfir
miklu baráttuþreki og var vinnu-
samur með afbrigðum. Sigfinnur
kynntist snemma mótlæti í lífinu
þegar hann missti föður sinn sjö ára
að aldri og hugsanlega skýrir sú lífs-
reynsla að einhverju leyti það ein-
kenni hans að taka ávallt afstöðu
með þeim sem minna máttu sín í
samfélaginu.
Sigfinnur hóf á unga aldri að
starfa að verkalýðsmálum og í meira
en hálfa öld var saga hans og saga
norðfirskrar verkalýðshreyfingar
samofin. Að auki sinnti Sigfinnur
trúnaðarstörfum fyrir austfirska
verkalýðshreyfingu um áratuga
skeið ásamt því að gegna mikilvægu
hlutverki innan Verkamannasam-
bands Íslands og Sjómannasam-
bands Íslands. Alls staðar þar sem
Sigfinnur kom að málum innan
verkalýðshreyfingarinnar valdist
hann til forystu enda ávann hann sér
mikils trausts og virðingar jafnt
samherja sem mótherja. Sigfinnur
hafði einstaka hæfileika til að meta
hvaða kröfur væri raunhæft að gera
til atvinnurekenda á hverjum tíma
vegna þess að hann fylgdist með af-
komu fyrirtækjanna og gangi efna-
hagslífsins af mikilli nákvæmni.
Hann gat af þessari ástæðu fært
haldgóð rök fyrir kröfunum og bæði
samherjar hans og vinnukaupendur
hlustuðu vel þegar hann tjáði sig um
hagsmunamál fólksins. Sigfinni var
ávallt mikið kappsmál að bæta kjör
alþýðunnar eins og frekast var unnt
en samtímis var honum umhugað
um að atvinnufyrirtækin gætu þrif-
ist og eflst. Sýn hans á málefni
verkalýðs og atvinnulífs var því
óvenju víð og því gat hann talað máli
sem allir skildu.
Fyrir utan það að starfa fyrir
verkalýðshreyfinguna um áratuga
skeið tók Sigfinnur nokkurn þátt í
rekstri fyrirtækja. Í því sambandi
má nefna að hann gegndi ekki laun-
uðu starfi fyrir verkalýðshreyf-
inguna á árunum 1967–1970 en þá
var hann framkvæmdastjóri síldar-
söltunarstöðvarinnar Sæsilfurs.
Hann var einnig framkvæmdastjóri
flutningafyrirtækisins Viggós hf.
um árabil. Reynsla Sigfinns af fyrir-
tækjarekstri hefur án efa haft tölu-
verð áhrif á viðhorf hans til hags-
munamála verkalýðsins og eins
hefur hún gert það að verkum að
hann gat rætt við atvinnurekendur
með öðrum hætti en ýmsir aðrir for-
ystumenn verkalýðshreyfingarinn-
ar.
Sigfinnur leit ávallt á verkalýðs-
baráttu og pólitíska baráttu sem
eina órjúfanlega heild. Að hans mati
var nauðsynlegt að forsvarsmenn
verkalýðshreyfingarinnar hefðu
sem víðtækust áhrif í samfélaginu
og þess vegna ættu þeir að starfa af
krafti á sviði sveitarstjórnarmála og
þjóðmála. Sigfinnur skipaði sér
ávallt í lið með þeim sem lengst voru
til vinstri á sviði stjórnmálanna. Um
langt árabil tók hann virkan þátt í
bæjarmálapólitíkinni í Neskaupstað
og var varabæjarfulltrúi fyrir Sósí-
alistaflokkinn og síðar Alþýðu-
bandalagið í yfir 30 ár og sat í bæj-
arstjórn kjörtímabilið 1974–1978. Á
sviði sveitarstjórnarmálanna nýtt-
ust eiginleikar hans vel ekki síður en
á sviði verkalýðsmálanna. Hann
hafði mikinn metnað fyrir bæjar-
félagið sitt og barðist af hörku og
ákveðni fyrir framgangi mikilvægra
mála. Áhugi Sigfinns og dugnaður
smitaði gjarnan út frá sér og virkj-
aði samstarfsmenn til margra góðra
verka.
Undirritaðir vilja þakka Sigfinni
Karlssyni giftusamlegt starf í þágu
norðfirsks og austfirsks samfélags.
Störf hans á sviði verkalýðs- og bæj-
armála verða lengi í minnum höfð.
Eiginkonu hans, Valgerði Ólafsdótt-
ur, skulu hér sendar innilegar sam-
úðarkveðjur svo og börnum þeirra
hjóna, fjölskyldum þeirra og öðrum
aðstandendum.
Smári Geirsson,
Guðmundur Bjarnason.
Látinn er í Neskaupstað á nítug-
asta aldursári Sigfinnur Karlsson
verkalýðsforingi og baráttumaður.
Sigfinnur var í framvarðarsveit sósí-
alista í Neskaupstað. Hann setti
sterkan svip á baráttuna fyrir bætt-
um lífskjörum launafólks og réttlát-
ara samfélagi þar í bæ sem og innan
fjórðungs og á landsvísu um áratuga
skeið. Í framvarðarsveit með hinum
landsfrægu þremenningum, Bjarna,
Jóhannesi og Lúðvík átti hann stór-
an þátt í að skapa það vígi róttækra
sjónarmiða í stjórnmálum, verka-
lýðsmálum og félagslegri uppbygg-
ingu atvinnulífs sem samþætt gerði
Neskaupstað að stórveldi fé-
lagshyggjunnar á Íslandi. Sjálfur
var Sigfinnur dæmigerður fyrir þá
hugmyndafræði sem einkenndi
norðfirska sósíalismann. Hann
gegndi mikilvægum forustustörfum
í verkalýðshreyfingunni um áratuga
skeið, en var jafnframt virkur þátt-
takandi í uppbyggingu atvinnulífs-
ins og atvinnurekandi sjálfur auk
þess að sinna bæjarmálum og ýmsu
öðru stjórnmála- og félagsmála-
starfi.
Ég minnist Sigfinns Karlssonar
fyrst af pólitískum fundum frá því
fyrir um 25 árum. Hann gat verið
ómyrkur í máli og sagði mönnum
hispurslaust til syndanna ef svo bar
undir. Engum duldist að hjartað var
stórt og heitt, sérstaklega þegar
Sigfinnur ræddi þau hugðarefni sem
mest brunnu á honum eins og að-
búnað og kjör verkafólks og sjó-
manna.
Það gladdi okkur mikið sem stóð-
um að stofnun Vinstrihreyfingarinn-
ar – græns framboðs og síðan fram-
boði til alþingis á fyrri hluta árs
1999 að Sigfinnur skipaði sér ódeig-
ur þar í sveit og prýddi heiðurssæti
listans í Austfjarðakjördæmi í þeim
kosningum. Síðast þegar við rædd-
um saman var elli kerling tekin að
herða tökin en hugurinn óbilaður og
Sigfinni efst í huga hvert stefndi í
verkalýðsbaráttunni og með málefni
verkalýðshreyfingarinnar. Baráttu-
manninum tókst að varðveita eldinn
þannig að mörgum okkar sem yngri
erum mætti verða til eftirbreytni.
Ég kveð Sigfinn Karlsson með
virðingu og þakklæti og votta eft-
irlifandi eiginkonu hans, börnum og
öðrum aðstandendum samúð mína
og fjölskyldu minnar.
Steingrímur J. Sigfússon.
Mikil kempa er horfin af sjónar-
sviðinu. Sigfinnur Karlsson var stoð
og stytta í austfirskri verkalýðs-
hreyfingu í hartnær hálfa öld. Eng-
inn einn einstaklingur setti mark
sitt á störf hennar eins og hann,
fyrst sem forystumaður í Verkalýðs-
félagi Norðfirðinga og síðar jafn-
framt sem forseti Alþýðusambands
Austurlands. Dugnaður hans og
starfsþrek var með ólíkindum og
stundum gekk hann nær sér en
skyldi. Hann var ötull liðsmaður í
hreyfingu sósíalista á Norðfirði allt
frá æskuárum en tókst að halda póli-
tískum afskiptum aðgreindum frá
störfum sínum að verkalýðsmálum.
Þannig hélt hann trausti umbjóð-
enda sinna óháð stjórnmálaskoðun-
um þeirra.
Síðast er ég átti tal við Sigfinn sjö
vikum fyrir andlát hans sagði hann
mér frá æskuárum sínum sem ekki
voru alltaf dans á rósum. Faðir hans
Karl Árnason var sjómaður ættaður
frá Búlandsborgum í Norðfirði en
móðir hans úr Landeyjum og
bjuggu þau við kröpp kjör í Nes-
þorpi. Faðir hans dó er hann var sjö
ára og flutti þá móðir hans suður
með tvíburasystur Sigfinns en hon-
um var komið í fóstur hjá Jóni
Bjarnasyni á Skorrastað og Soffíu
Stefánsdóttur seinni konu hans. Ótt-
aðist drengur að verða niðursetn-
ingur en svo fór þó ekki og reyndust
þau Skorrastaðarhjón honum vel.
Þar eignaðist hann líka góða félaga
og minntist sérstaklega á Ottó
Níelsson, sem einnig var tekinn í
fóstur þar í næsta húsi.
Veturna 1933–35 var Sigfinnur í
Eiðaskóla en skólastjóri var þá Jak-
ob Kristinsson og meðal kennara
Þórarinn Þórarinsson og bar Sig-
finnur þeim vel söguna sjötíu árum
síðar. Herbergisfélagi hans á Eiðum
var Gísli Friðriksson frá Seldal,
mikill námsmaður. Í sama árgangi
var Einar Björnsson frá Mýnesi og
gengu þeir saman í Kommúnista-
flokk Íslands. Upp frá því sagðist
Sigfinnur ætíð hafa átt samleið með
þeim sem stóðu traustustum fótum
til vinstri, síðast sem stuðningsmað-
ur Vinstrihreyfingarinnar – græns
framboðs en hann skipaði heiðurs-
sæti á lista þess flokks á Austur-
landi við alþingiskosningarnar 1999.
Sigfinnur eignaðist traustan lífs-
förunaut þar sem er eftirlifandi eig-
inkona hans Valgerður. Þau gengu í
hjónaband í árslok 1938, og stofnuðu
brátt heimili á Hlíðargötu 23 í Nes-
kaupstað þar sem þau bjuggu alla
tíð síðan, eignuðust mannvænleg
börn og bættu hús og umhverfi. Vala
og niðjar eiga óskipta samúð okkar
Kristínar.
Á mildum útmánuðum liðins vetr-
ar horfði Sigfinnur til baka og hug-
urinn hvarflaði til bernskuáranna
þegar hann var í sumardvöl hjá afa
sínum og ömmu á Borgum. Árni
bóndi var við slátt inn með Norð-
fjarðará og amman Guðlaug vísaði
sonarsyni sínum inn tröðina svo að
hann gæti hitt afa sinn í flekknum.
En í stað þess að ganga troðna slóð
hélt piltur á brekkuna og fannst í
hlíðum Búlands eftir nokkra leit.
Alla tíð síðan reyndist Sigfinnur
Karlsson brekkusækinn og sparaði
sig hvergi við að rétta öðrum hjálp-
arhönd. Samfélagið við Norðfjörð er
svipminna að honum gengnum.
Hjörleifur Guttormsson.
Þeir hverfa einn af öðrum sem átt
var með góð samfylgd um lífsins
veg. Baráttukempan knáa hefur nú
kvatt og það leita á hug margar góð-
ar minningar frá liðnum samveru-
stundum. Á vettvangi verkalýðs-
mála en jafnframt stjórnmála voru
okkar fyrstu kynni og það var sann-
arlega gott að eiga Sigfinn Karlsson
að, þegar ég var í forystu verkalýðs-
félags á heimastað í nokkur ár, þar
var hollt að leita ráða og fá leiðsögn.
Sigfinnur var trúr varðmaður áunn-
inna réttinda verkafólks, en ekki síð-
ur sókndjarfur til frekari réttarbóta
og betri kjara, honum enda falinn
mikill og margvíslegur trúnaður í
samtökum verkalýðs, á heimavelli
sem á landsvísu, þeim trúnaði brást
hann aldrei, skeleggur en jafnframt
raunsær, gjörþekkti sviðið og hafði
þar glögga yfirsýn, hversu langt
skyldi sækja hverju sinni, en alltaf
freistað þess að tryggja hið mesta
mögulega. Það var líka ómetanlegt
fyrir sósíalista í Neskaupstað að
eiga Sigfinn fremstan í forystusveit,
forystumann verkafólks sem allir
treystu og einnig í bæjarmálunum
var honum trúnaður falinn og hvergi
slegið af þar frekar en annars stað-
ar. Sigfinnur Karlsson átti afar far-
sæla sögu á ferli sínum, vösk fram-
ganga hans og baráttuhugur vöktu
hvarvetna athygli, hann var vin-
margur á starfsvettvangi, ekki að-
eins meðal samherja í verkalýðsbar-
áttunni heldur einnig meðal
viðsemjenda sem virtu einlægni
hans og trúmennsku. Hans orðum
var alltaf hægt að treysta, sagði einn
sá fremsti í þeirra röðum eitt sinn
við mig. Alla ævi skipaði Sigfinnur
sér í sveit þeirra róttækustu sem
vildu samhjálp og félagshyggju í
öndvegi í samfélaginu, einbeittur
talsmaður þeirra góðu gilda sem
meta mannauðinn ofar öllum verald-
arauði.
Lífslán Sigfinns var í hans miklu
öndvegiskonu sem traust og staðföst
var ætíð við hlið hans og henni nú
sendar einlægar samúðarkveðjur
sem og börnum þeirra hjóna.
Ég er þakklátur fyrir að hafa
mátt kynnast Sigfinni Karlssyni
sem ég mat því meir því betur sem
ég kynntist honum, lífsverki hans,
hugsjónum og gjöfulli vináttu með
ívafi kersknislausrar kímni og
mannlegrar hlýju. Fylgd hans við
málstaðinn, fylgd hans við mig á
stjórnmálasviðinu var ómetanleg
eins og svo margra annarra félaga
eystra, þar var hann ævinlega í
fremstu röð, fylginn sér og hollráður
um leið.
Langri og góðri ævigöngu er lokið
og saknað er hins trúfasta drengs
sem hvarvetna vildi láta gott af sér
leiða. Blessuð sé björt minning Sig-
finns Karlssonar.
Helgi Seljan.
Jónas Svafár. Gamli
seigur. Nú ert þú
kvaddur og sértu vel
kvaddur. Lengi vorum
við vinir og alltaf góðir
kunningjar þegar við
hittumst hin síðari
mörgu ár. Sá vinskapur var á ann-
arri öld, fyrir Thatcher og löngu fyr-
ir Davíð og hannesið og öll dindil-
menni dagsins í dag.
Við sáumst víst á Ellefu, þegar ég
kom fyrst suður til dvalar, þá sextán
ára og drakk stóreygur molakaffi
innan um alla snillingana, skáldin og
listamennina og hommana. Síðan í
Tjarnargötu tuttugu og á verka-
mannakaffinu Miðgarði, þar sem nú
er fínumannahótel. Þar sast þú
langa daga og vikur og mánuði yfir
síendurnýjuðum svartkaffibollanum
og molasykurkarinu að semja upp
aftur og aftur þessi ótrúlegu ljóð
þín, þessi sönnu atómljóð, þú enda
hið eina sanna atómskáld, sögðum
við. Og ekki síður tóku tímann þess-
ar myndir, enn ótrúlegri, dögum
saman varst þú að teikna sömu
myndina, strokaðir aftur út með
JÓNAS
SVAFÁR
✝ Jónas SvafárEinarsson fædd-
ist í Reykjavík 8.
september 1925.
Hann lést á Stokks-
eyri 27. apríl síðast-
liðinn og var útför
hans gerð frá Foss-
vogskapellu 6. maí.
mjúku leðrinu, dróst
feitar línurnar fast og
lengi, aftur og aftur og
enn á ný, strokaðir og
dróst. Ég hef aldrei
nokkurn tíma vitað
mann vanda svo vinnu
sína, af þolinmæði hins
sanna listamanns, sem
getur ekki lagt frá sér
verkið fyrr en allt er
gert og sagt, dregið og
ort, fullkomið. Þess
vegna eru þessi ljóð
fullkomin í flæktum
einfaldleika sínum,
myndirnar svo endan-
legar í samslungnum djúpum drátt-
um sínum, hörðum en þó svo mjúk-
um.
Seinna bjó ég á Garði og fyrir
kom að við kíktum í glas þar, sjaldan
voru þó aurar fyrir dropanum hjá
blönkum námsmanni og einu frum-
legasta skáldi sem við höfum eign-
ast. Enn seinna hittumst við sjaldn-
ar enda ég þá með fjölskyldu en
fyrir kom að þú gistir hjá mér, þeg-
ar fátt var um staði handa þér í til-
verunni. Þær urðu aldrei margar
gistinæturnar, í lítilli íbúð með ung-
um börnum og foreldrum í vinnu.
Fyrir kom og að ég ók þér upp í
Víðines og einu sinni fékk ég þar
skammir fyrir að koma of seint með
þig. Ég þekkti ekki vitjunartímann
þar á bæ, mér var svo sem sama um
skammirnar, það eina skipti máli að
ég hafði komið þér heilum heim.
Um tíma var ég úti á þessari und-
arlegu Landsbyggð og fékk þó frá
þér bréf og bréf, síðan ég fyrir sunn-
an og þú á Landsbyggðinni. Þá kom
skemmtilegt bréf þar sem þú baðst
mig að fara í Vatnsmýrina og bjarga
þaðan gömlu tjaldi þínu, í því hafð-
irðu búið um hríð, og svo sem víða
um land, einkum í gömlum kirkju-
görðum, sagðirðu mér eitt sinn. Ég
fór um alla mýrina, stóra þá, fann
ekkert tjald. Þeirri staðreynd
tókstu af vanalegri heimspekilegri
rósemi þinni.
Og nú ertu farinn úr þessu víð-
inesi okkar allra, hvert veit ég ekki,
helst á vit móðurinnar okkar miklu,
sem öllum tekur jafnblítt. Nema þú
hafir fundið gamla tjaldið og sért að
slá því upp í einhverri vatnsmýrinni,
já, eða frekar á þeim hefðartindi,
þar sem þú átt heima og áttir alltaf
heima. En það blæðir enn úr morg-
unsárinu, Jónas minn, nú sem sjald-
an fyrr.
Eyvindur P. Eiríksson.