Morgunblaðið - 07.07.2004, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 07.07.2004, Blaðsíða 26
MINNINGAR 26 MIÐVIKUDAGUR 7. JÚLÍ 2004 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Lára Inga Lárus-dóttir fæddist á Gilsá í Breiðdal 16. febrúar 1924. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópa- vogi 30. júní síðastlið- inn. Foreldrar hennar voru Þorbjörg R. Pálsdóttir, f. 11. des- ember 1885, d. 6. febrúar 1978, og Lár- us Kristbjörn Jóns- son, f. 31. maí 1892, d. 29. mars 1933. Systk- ini Láru eru Stefán Ragnar, f. 6. maí 1917, d. 24. maí 1940, Páll, f. 20. janúar 1919, d. 10. nóvember 1979, og Sigurður, f. 23. mars 1921. Hinn 27. maí 1944 giftist Lára Sigurgeiri Frímanni Jónatanssyni, f. 27. apríl 1902, d. 8. janúar 1996. Þau bjuggu á Skeggjastöðum í Fremri-Torfustaðahreppi í Vest- ur-Húnavatnssýslu til ársins 1964 og síðan í Reykjavík. Börn Láru og Sigurgeirs eru: 1) Sævar Þór, end- urskoðandi, f. 24. apríl 1945, kvæntur Unni Magnúsdóttur, verslunarrekanda. Synir Sævars eru: a) Arnar Þór, f. 16. nóvember 1971, sonur Arnar Freyr. b) Ívar Sturla, f. 21. febrúar 1980. Synir Unnar eru: a) Pétur Hjaltested, f. 16. október 1969, í sambúð með Sigurlaugu M. Guðmundsdóttur, þeirra dætur: Laufey og Unnur. b) Magnús Jens Hjaltested, f. 28. september 1976, í sambúð með Emilíu Þórðardótt- ur. 2) Hafdís Stef- anía, sérkennari, f. 20. júní 1948, gift Sigmundi Stefáns- syni, viðskiptafræð- ingi. Börn Hafdísar eru: a) Þröstur Freyr, f. 22. júlí 1972, í sambúð með Auði Þórisdóttur, þeirra dætur: Þór- unn Bríet og Stef- anía Salka. b) Lára Inga, f. 23. apríl 1980, sonur Hlynur Blær. c) Sigurgeir Atli, f. 7. mars 1983. Lára stundaði nám við Héraðs- skólann á Núpi í Dýrafirði og við Kvennaskólann á Blönduósi. Hún var kennari í Bitrufirði á Strönd- um veturinn 1942 til 1943. Á ár- unum 1944 til 1964 var hún hús- freyja á Skeggjastöðum í Fremri- Torfustaðahreppi í V-Hún., auk þess sem hún var kennari í sveit- inni frá 1950. Lára hóf störf á skrifstofu fræðslumálastjóra árið 1964 en varð starfsmaður fræðslu- máladeildar menntamálaráðu- neytisins þegar skrifstofan var færð þangað. Lengstan hluta starfstíma síns í ráðuneytinu var hún ritari íþróttafulltrúa ríkisins. Hún lét af störfum vegna aldurs árið 1994. Útför Láru verður gerð frá Dómkirkjunni í dag og hefst at- höfnin klukkan 15. Haustdag fyrir rúmlega 60 árum kom ung stúlka gangandi í hlað Hérðsskólans á Núpi í Dýrafirði eftir göngu yfir fjallvegi frá Ísafirði. Stúlk- an var komin austan úr Breiðdal. Þetta var Lára Inga Lárusdóttir sem hugðist hefja nám við skólann. Það hlýtur að teljast býsna sérstakt að ung stúlka skyldi ákveða að fara til náms í skóla svona fjarri átthögum sínum á tíma þegar allar samgöngur voru erfiðar og ferðalög milli lands- hluta tóku oftast marga daga. Okkur sem þekktum Láru þykir þetta ferða- lag þó býsna dæmigert fyrir hana. Hún var alin upp á miklu menningar- heimili þar sem börnin voru hvött til að afla sér þekkingar og menntunar. Eftir einn vetur á Núpi var Lára ráðin barnakennari í Bitrufirði á Ströndum. Sýnir þetta glöggt hve mikils álits hún naut strax á nýjum slóðum. Þarna var henni treyst til að sjá um fræðslu barna í heilli sveit að- eins átján ára að aldri. Þarna kynntist hún mannsefni sínu, Sigurgeiri Jón- atanssyni, sem þá annaðist póstferðir á Strandir. Lára og Sigurgeir hófu búskap á Skeggjastöðum í Miðfirði. Láru var fljótlega falið að annast barnakennslu í hreppnum sem fór fram á heimili hennar. Stór hluti barnanna var þarna líka í heimavist svo að vinnu- dagurinn hefur oft verið langur á þessum árum. Eftir að Lára og Sigurgeir fluttu til Reykjavíkur bauðst henni vinna á skrifstofu fræðslumálastjóra og hófst þar nýr kafli í lífi hennar. Það var lán fyrir hana að fá þetta starf. Lára kunni vel að meta ýmsa litríka og skemmtilega samstarfsmenn þarna á skrifstofunni sem auðguðu lífið með gamanmálum og áttu létt með að snara fram vísum um samstarfsmenn eða líðandi stund. Skrifstofan var sameinuð menntamálaráðuneytinu og var Lára síðan starfsmaður ráðuneyt- isins. Leiðir okkar Láru lágu fyrst saman þegar ég kom inn í fjölskyldu hennar. Það sem vakti athygli mína við fyrstu kynni var hlýleg framkoma hennar, glaðværð og víðsýni. Heimili þeirra Sigurgeirs einkenndist af smekkvísi, snyrtimennsku og einstakri gestrisni. Lára hafði mikinn áhuga á að kynna sér sögu og menningu annarra þjóða og fór í margar utanlandsferðir, oftast til meginlands Evrópu. Þessar ferðir veittu henni ómælda ánægju sem má að miklu leyti þakka því hvernig hún undirbjó þær. Hún viðaði að sér fróðleik um áfangastaði þannig að stundum þegar hún var komin í er- lendar stórborgir rataði hún þar um allt og gat gengið hiklaust til þeirra staða sem hún vissi að voru áhuga- verðir. Þegar heim kom lýsti hún ferðum þannig að maður sá staðina ljóslifandi fyrir sér. Lára hafði til að bera listræna hæfi- leika í ríkum mæli og eftir að hún sett- ist að í Reykjavík gafst henni tæki- færi til að rækta þessa hæfileika. Hún sótti námskeið í postulínsmálun og seinna í tréskurði og keramikmálun. Liggur eftir hana fjöldi af munum sem hún skar út og málaði á meðan hún vann enn fullan vinnudag sem lýsir vel eljusemi hennar. Hin síðari ár sat hún löngum við keramikmálun þar sem listfengi hennar kom vel í ljós. Afkomendur hennar nutu í rík- um mæli góðs af þessari iðju. Lára hafði alla tíð mikið yndi af ljóðum og kveðskap. Varla átti maður samræður við hana öðruvísi en að hún færi með vísu eða brot úr kvæði sem féll að umræðuefninu. Það var eins og ljóðin opnuðu henni nýjar víddir og efldu skilning hennar á lífinu og til- verunni. Áður en Lára lagði upp í sína ör- lagaríku ferð vestur að Núpi sagði roskinn nágranni hennar að hún mætti búast við því að þeir sem hún hitti á Vestjörðum myndu dæma aðra Austfirðinga út frá kynnum af henni. Þessi heilræði munu hafa verið henni ofarlega í huga alla tíð. Lífshlaup hennar bar þess líka merki að henni var kappsmál að vera hvarvetna verð- ugur fulltrúi æskustöðva sinna og annars sem hún stóð fyrir. Nú þegar Lára hefur lagt upp í hinstu ferð sína langar mig að senda henni sérstaka kveðju með þessum ljóðlínum: Ferð þín er hafin. Fjarlægjast heimatún. Nú fylgir þú vötnum sem falla til nýrra staða og sjónhringar nýir sindra þér fyrir augum. (Hannes Pét.) Á kveðjustund er mér þá efst í huga þakklæti fyrir að hafa átt sam- leið með þessari vel gerðu konu sem bar með sér hlýlegt viðmót og hafði einstaklega góða nærveru svo ekki sé minnst á allt sem hún gerði fyrir fjöl- skyldu mína. Við sem næst henni stóðum söknum hennar sárt en við munum alla tíð njóta þess sem hún veitti okkur. Blessuð sé minning hennar. Sigmundur Stefánsson. Við viljum minnast konu sem var í okkar huga skemmtileg, jákvæð og raunsæ. Þegar litið er til baka standa upp úr góðar stundir sem við áttum með Láru, t.d. fyrsta sunnudag í að- ventu ár hvert. Þann dag bauð hún allri fjölskyldunni heim til sín í Berg- staðastrætið í jólaboð. Hún var snið- ug hún Lára, með því að hafa jólaboð- ið svona snemma náði hún yfirleitt allri fjölskyldunni saman. Fyrir okk- ur voru jólaboðin hennar Láru byrj- unin á jólahátíðinni. Í vetur átti Lára 80 ára afmæli og af því tilefni kom fjölskyldan saman á Hótel Glym. Þar áttum við góðar samræður við Láru og eins og svo oft áður leið okkur vel í návist hennar. Hún hafði lag á því að láta manni líða vel, hún var góður hlustandi og gat bent á aðrar hliðar á málunum á skýr- an hátt. Þegar við heimsóttum Láru á líkn- ardeildina sáum við hve veik hún var orðin. Ekki vottaði fyrir vonbrigðum eða öðru slíku á neinn hátt hjá henni heldur þvert á móti þakklæti og létt- leika. Það var stutt í grínið hjá Láru og spurði hún m.a. hvernig Sævar og Unnur hefðu það í Danmörku eða karl og kerling eins og hún orðaði það. Hún var svo þakklát fyrir að hafa fengið að leggjast inn á líknardeildina og sagðist hvílast svo vel. Þetta lýsir Láru vel, þ.e. þakklætið, jákvæðnin og raunsæið. Elsku Lára, við viljum þakka þér fyrir allar þær stundir sem við áttum með þér. Við söknum þín. Guð veri með þér. Magnús Jens og Emilía. Þegar sprek hrekkur í tvennt lifa bæði brotin, annað sem minningar hér á jörðu og hitt sem áframhaldandi líf og vitund á öðrum sviðum þar sem ekkert getur glatast í heimi sem er óendanlegur. Elsku amma mín. Þegar ég frétti að þú værir orðin veik og líkur á að þú ættir ekki langt eftir ólifað, flugu ótal hugsanir um kollinn minn. Fyrstu minningabrotin mín eru þegar þú passaðir okkur frændurna, mig og Þröst Frey, í Bergstaðastræt- inu. Það voru góðar stundir. Kannski er hægt að segja að þær hafi verið of fáar þegar maður horfir til baka en eitt er víst að þær stundir sem við átt- um saman, amma mín, voru góðar og eftirminnilegar. Í samræðum okkar hafðir þú ein- stakt yndi af því að spyrja um dvöl mína í sveitinni; eftir þau fjölmörgu sumur sem ég dvaldi austur á Héraði á Mýrum í Skriðdal. Oft hafði ég á til- finningunni að þú saknaðir austfirsku fjallanna, hinnar einstöku veðurblíðu sem einkennir Austurland og fólksins sem þar býr og bjó enda var sögusvið- ið það sama og þú ólst upp við. Á síðari hluta ævi þinnar ferðaðist þú mikið til útlanda. Þú hafðir ávallt frá mörgu að segja úr þessum ferða- lögum þínum enda vel að þér í sögu og menningu þeirra landa sem þú heim- sóttir. Frásagnarlist þín var einstök enda var hver frásögn hlaðin eldmóði og áhuginn slíkur að skein úr augum þínum. Þér var annt um að miðla reynslu þinni til annarra og lést ekki þitt eftir liggja í þeim efnum. Er ég þér ævinlega þakklátur fyrir það. Að lokum vil ég þakka fyrir allar okkar stundir sem við áttum saman og megir þú ásamt afa dansa á rósum í nýjum heimkynnum óendaleikans. Ég er viss um að afi bíður eftir þér með fararskjótana sem munu þeytast með ykkur út í hina undurfögru nátt- lausu veröld, þar sem birkilmurinn berst að vitum, ljúfur lækjaniður að eyrum og sumardýrðin skartar sínu fegursta ykkur til dýrðar. En farið ekki of langt, því þannig eru sveitirn- ar fyrir austan á sumrin. Arnar Þór Sævarsson. Elsku Lára langamma. Þó að við höfum bara þekkst í fáein ár er svo margs að minnast. Við munum svo vel stundirnar þegar við sátum í róleg- heitunum og fórum með kvæði. Ófá eru ljóðin og vísurnar sem þú kenndir okkur og þú virtist kunna endalaust af þeim. Uppáhaldsvísan okkar var þegar við sátum saman og horfðumst í augu grafalvarlegar í fyrstu en end- uðum alltaf í skellihlátri. Horfumst við í augu sem grámyglur tvær. Sá skal vera fíflið sem fyrr hlær, músin sem mælir, kötturinn sem skælir, og folaldið sem fyrr lítur undan. Elsku langamma. Við eigum eftir að sakna þín mikið. Þínar Þórunn Bríet og Stefanía Salka. Miðvikudaginn 7. júlí verður jarð- sungin frá Dómkirkjunni Lára Inga Lárusdóttir, sem lengi hefur búið að Bergstaðastræti 28 í Reykjavík og starfað rúmlega þrjá áratugi sem stjórnarráðsfulltrúi í íþrótta- og æskulýðsdeild menntamálaráðuneyt- isins. Ég undirritaður fékk að njóta samstarfs við Láru fyrst sem æsku- lýðsfulltrúi og síðan sem íþrótta- fulltrúi og reyndist hún mér ómetan- leg stoð í fjölbreytilegu starfi. Lára var einstaklega traust og alúðleg kona og mat ég mikils hve vinsamlega hún tók á móti öllum þeim sem leituðu til deildar okkar með fyrirspurnir og beiðnir. Reyndi hún ævinlega að leysa vanda hvers og eins og leiðbeina þeim þó að verkefnin væru ekki öll á verk- efnaskrá deildarinnar. Þó að minningar mínar um sam- starfið við Láru gætu fyllt heila bók vona ég að þessi fáu kveðjuorð lýsi þakklæti mínu fyrir þriggja áratuga samstarf við hana sem reyndist mér svo vel, og votta ég aðstandendum hennar mína dýpstu samúð. Kveðja. Reynir G. Karlsson, fv. æskulýðs- og íþróttafulltrúi. Undirritaður væri síðastur manna til að mæla hvers kyns stríði bót, hvað þá viðurkenna, að nokkuð gott gæti af þeim hlotist. Þó er það nú svo, að á ár- um síðari heimsstyrjaldarinnar tíðk- aðist það mjög að senda börn frá Reykjavík og fleiri þéttbýlisstöðum til sumardvalar í sveitum landsins. Þannig get ég tekið undir orð leik- skáldsins: „Ó, þetta er indælt stríð,“ þegar þessi hildarleikur, sem fór þó blessunarlega framhjá okkur að flestu leyti, varð til þess, að ég, tíu ára Reykjavíkurstrákur, lenti norður að Skeggjastöðum í Miðfirði og var þar næstu fjögur sumrin. Fyrst bjó þar ókvæntur fertugur bóndi, Sigurgeir Jónatansson, ásamt öldruðum for- eldrum sínum. En þegar ég kom í sveitina þriðja vorið hafði aldeilis orð- ið breyting á heimilishögum á bæn- um. Þá var þar komin tvítug stúlka, gullfalleg í þokkabót, Lára Inga Lár- usdóttir, austan af landi og höfðu þau Sigurgeir þá nýlega gengið í hjóna- band. Lára hafði þá nýlokið námi við Kvennaskólann á Blönduósi og er ekki örgrannt um, að matarvenjur á Skeggjastöðum hafi borið þess merki þau tvö sumur, sem ég átti þá eftir að vera þar. Það heitir víst matarást, sem þarna kviknaði, en síðar á ævinni lærði ég svo sannarlega að meta fleiri hæfileika Láru en þá sem nýtast við matargerð. Þrátt fyrir 22ja ára aldursmun þeirra hjóna, var sambúð þeirra ætíð einstaklega farsæl, enda bæði miklar öndvegismanneskjur, þótt ólík væru. Þau fluttu ásamt börnum sínum tveimur suður til Reykjavíkur 1964 og varð þá hægara um vik fyrir okkur Kristínu að heimsækja þau, fyrst á Vesturgötu, síðan í mörg ár á Berg- staðastræti 28, þar sem Lára bjó ein eftir andlát Sigurgeirs fyrir átta ár- um. Alltaf var jafngott að koma á það heimili og hefðu heimsóknirnar sann- arlega mátt vera miklu fleiri. Lára var mjög skemmtileg kona, fróð og víðlesin. Hún hafði næma og góða kímnigáfu og frásagnarhæfi- leika, sem unun var að njóta. Hún var kona, sem gott var að hafa nálægt sér og enga manneskju veit ég sem frek- ar verðskuldar hinn alkunna titil: „Vinur vina sinna“. Nú er stríði Láru lokið og er hún hér kvödd með söknuði. Ég þakka henni fyrir 60 ára góð kynni og vin- áttu og forsjóninni fyrir hennar hlut í þessu öllu saman. Þeim Sævari og Hafdísi og fjöl- skyldum þeirra vottum við hjónin ein- læga samúð okkar. Blessuð sé minning Láru frá Skeggjastöðum. Sigurður Jónsson tannlæknir. Lára, mín kæra og góða vinkona, er látin. Hugur minn hvarflar til fyrstu kynna okkar sem urðu með nokkuð óvenjulegum hætti. Ég var stödd ásamt hópi Íslendinga á listasafni í Parísarborg þar sem m.a. voru skoð- uð þekkt og söguleg málverk. Ég hvíslaði í hljóði að manni mínum smá- viðbótum við frásagnir leiðsögu- mannsins þar sem mér voru verkin og saga þeirra allvel kunn. Síðar um dag- inn vindur sér að mér stillileg og hljóðlát kona, íbyggin á svip, kynnir sig og segist þurfa að gera smájátn- ingu fyrir mér. Ég varð mjög undr- andi, er hún sagði að þennan sama dag hefði hún gert nokkuð sem ekki væri hennar vandi. Hún hefði reynt að hlera það sem ég hefði verið að segja um myndir nokkrar á safninu en ekki heyrt allt nógu vel. Því langaði hana að spyrja mig um nokkur atriði sem henni væru hug- stæð. Það var auðsótt mál og í fram- haldi af umræðunni kom í ljós að við áttum margt sameiginlegt. Upp frá þeirri stundu urðum við vinkonur og höfum verið síðan, þótt samverustundir hefðu mátt vera miklu fleiri. Saman fórum við margar ógleym- anlegar ferðir til útlanda, bæði ásamt mökum okkar, meðan þeir lifðu, í hóp- ferðum og á eigin vegum. Fyrir kom að við höfðum báðar pantað okkur farseðla í sömu ferðina, án þess að hafa samráð um það svo vel fóru áhugamál okkar saman. Lára var góður félagi og heilsteyptur persónu- leiki, ákaflega minnug og fróð, gædd einstakri frásagnargáfu, þar sem grunnt var á góðlátlegri kímni. Aldrei lagði hún illt til nokkurs manns en hafði samt næma tilfinningu fyrir spaugilegum hliðum mála og kunni mikið af ljóðum og stökum sem gam- an var að hlýða á í meðförum hennar. Lára var hreinskilin, eins og fram kom við okkar fyrstu kynni, skemmti- leg, glaðlynd og tryggur vinur vina sinna. Það var alltaf tilhlökkunarefni að líta við á Bergstaðastræti 28. Sigur- geir og Lára voru höfðingjar heim að sækja og fram í hugann koma margar notalegar stundir við eldhúsborðið þeirra þar í kvöldsólarskini. Hryggð og söknuður ríkir í huga mínum yfir því að slíkar stundir verða ekki fleiri. Ég vil senda börnum Láru, Sævari og Hafdísi, ásamt fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur frá mér og mínum. Ég bið Láru blessunar og farar- heilla um ókunnar slóðir og sakna vin- ar í stað. Edda Kristjánsdóttir. LÁRA INGA LÁRUSDÓTTIR Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, ÞURÍÐUR JÓNSDÓTTIR (Hulla), Meistaravöllum 7, lést á Landspítalanum Fossvogi sunnudaginn 4. júlí. Jón Bergmann Ingimagnsson, Þórdís Karlsdóttir, Guðrún Erla Ingimagnsdóttir, Valdimar Stefánsson, Eiríkur Ingimagnsson, Sigríður Sigurðardóttir, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.