Morgunblaðið - 20.11.2004, Page 22
22 LAUGARDAGUR 20. NÓVEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
MINNSTAÐUR
LANDIÐ
Selfoss | „Það fyrsta sem ég gerði var að
hreyfa tærnar og ég man að ég varð mjög
feginn að geta það og hugsaði að þetta væri
fyrsta skrefið og fyrsti sigurinn í þeirri bar-
áttu sem ég vissi einhvern veginn strax að
væri framundan,“ segir Einar Rúnar Ein-
arsson, verslunarmaður á Selfossi, sem ligg-
ur á Sjúkrahúsi Heilbrigðisstofnunar Suður-
lands á Selfossi eftir bílslys sem hann lenti í
29. október í Draugahlíðarbrekkunni fyrir
ofan Litlu kaffistofuna. Hann fékk mikla
áverka á fætur auk þess sem hann hlaut
handleggs- og viðbeinsbrot.
Einar var á leið til Reykjavíkur í inn-
kaupaferð á Benz-jeppa með tóma vél-
sleðakerru aftan í bílnum. Honum hafði
gengið vel það sem af var ferðarinnar þrátt
fyrir að nokkuð rok væri og það tæki í bílinn
og kerruna. „Þegar ég kem fram á
Draugahlíðarbrekkuna fyrir ofan Litlu kaffi-
stofuna þá er eins og rifið sé í kerruna og
bílinn. Kerran fer á loft og slengist utan í
bílinn svo framendi hans vísar inn á veginn
og beint á bíl sem kom á móti. Ég reyndi að
beygja undan en lenti utan í bílnum. Þá ein-
beitti ég mér að því að beygja útaf en þá
kom allt í einu önnur hviða og þeytti bílnum
og kerrunni framan á fóðurflutningabíl sem
kom á móti. Ég man augnablikið rétt áður
en ég lenti á fóðurbílnum og það næsta sem
ég man er þegar ég kíkti upp fyrir líknar-
belginn og upp í brekkuna,“ segir Einar
þegar hann rifjar upp atburðarásina.
Fara þarf gætilega í umferðinni
„Svo kom fljótlega til mín ungur maður
sem breiddi yfir mig peysu, hlúði að mér og
hringdi á hjálp. Ég missti víst ekki meðvit-
und en finnst eins og allt hafi gengið mjög
hratt fyrir sig frá því ég vissi af mér og þar
til sjúkrabíllinn kom. Það kom til mín kona
þar sem ég var í brakinu og sagðist vera
læknir og hún sagði mér að það væri verið
að klippa bílinn til að ná mér út. Ég heyrði
ekkert í klippunum og fann aldrei neitt fyrir
þeirri vinnu. Ég bara lá þarna og beið, fékk
heiftarlegt sársaukakast en man annars lít-
ið,“ segir Einar og leggur áherslu á nauðsyn
þess að fara gætilega í umferðinni, nota
skynsemina og vera viðbúinn. Hann sagði
þetta hafa flogið í gegnum hugann þar sem
hann lá í brakinu.
Hann sagðist á einhvern hátt hafa gert
sér grein fyrir því að hann væri alvarlega
slasaður en verið alveg rólegur yfir því og
tilbúinn að taka öllu sem að höndum bæri.
„Ég fann að ég myndi hafa þetta án þess að
vita nokkuð hvað ég var slasaður, þetta var
bara tilfinning sem ég hafði. Svo hitti ég
mitt fólk á gjörgæslunni og það var auðvitað
dásamleg stund,“ segir Einar.
Guð var greinilega með mér
Einar og kona hans, Guðbjörg Emma Ing-
ólfsdóttir, voru að selja verslun sína á Sel-
fossi, Allt í hund og kött, og var gengið frá
sölunni viku eftir slysið. Einar segist því
hafa nægan tíma til að einbeita sér að bat-
anum.
„Það er nú einu sinni þannig að maður
ásakar sjálfan sig þegar svona kemur upp
og mér fannst þetta vera mér að kenna en
ég varð auðvitað mjög feginn þegar ég fékk
að vita að aðrir hefðu ekki slasast og lent á
sjúkrahúsi en auðvitað er svona lagað áfall
fyrir fólk að fá bíl framan á sig. Það má
segja að ég sé ótrúlega heppinn að lifa af
þetta sem gerðist. Guð var greinilega með
mér og augljóst að ekki var komið að mér að
fara,“ segir Einar R. Einarsson sem ásamt
því að selja verslunina var að undirbúa
rekstur nýs bíóhúss á Selfossi í byrjun des-
ember ásamt félaga sínum. Hann segir að
um nóg sé að hugsa en aðalmálið sé að kom-
ast á fætur á nýjan leik.
Einar R. Einarsson lenti framan á tveimur bílum í Draugahlíðarbrekku
„Ég var ótrúlega heppinn
að lifa af það sem gerðist“
Morgunblaðið/Sigurður Jónsson
Brotinn Einar Rúnar Einarsson í rúmi sínu á
Sjúkrahúsi Heilbrigðisstofnunarinnar.
Bolungarvík | Mikil andstaða kom
fram við hugmyndir um sameiningu
við nærliggjandi byggðarlög á íbúa-
þingi sem bæjarstjórn Bolungarvík-
ur efndi til í fyrrakvöld. Ekki er þó
útlit fyrir að bæjarstjórn geri at-
hugasemdir við fyrirhugaða at-
kvæðagreiðslu.
Til fundarins var boðað til að
kynna niðurstöður vinnuhópa sem að
tilstuðlan bæjaryfirvalda unnu að því
síðastliðið vor að greina kosti og
galla þess að Bolungarvík gengi til
sameiningar við Ísafjarðarbæ, eða
Bolvíkingar verði áfram í sjálfstæðu
sveitarfélagi en unnið verði að frek-
ari samvinnu við Ísfirðinga á ýmsum
sviðum. Þröstur Sigurðsson frá ráð-
gjafarfyrirtækinu ParX kynnti
skýrslu með niðurstöðum verkefna-
vinnunnar.
Fækkun og lækkun
tekna bæjarsjóðs
Fór Þröstur yfir íbúaþróunina
undanfarinn áratug og áhrif hennar
á rekstur bæjarfélagsins. Undanfar-
inn áratug hefur orðið veruleg fækk-
un íbúa í kaupstaðnum sem leitt hef-
ur til tekjulækkunar fyrir bæjarsjóð
og aukinna skulda.
Sala eignarhluta bæjarins í
Orkubúi Vestfjarða hefur leitt til
þess að veltufjárstaðan er viðunandi
en reikna má með því að þeir pen-
ingar klárist á næstu þremur árum
ef ekkert verður að gert.
Árið 2002 voru skuldir á hvern
íbúa í Bolungarvík 881 þúsund krón-
ur, 718 þúsund á Ísafirði og á lands-
vísu samsvöruðu skuldirnar 627 þús-
und kr. á íbúa að meðaltali.
Fram kom að helsti kostur sam-
einingar væri sparnaður í stjórnsýsl-
unni og samþjöppun stjórnunar
hinna ýmsu málaflokka, en ókostir
helstir þeir að störfum muni fækka
og kostnaður aukast fyrir íbúa þar
sem þjónusta mun færast í stærra
bæjarfélagið.
Þá var á fundinum kynnt tillaga
sameiningarnefndar félagsmálaráð-
herra þar sem lagt er til að íbúum
Súðavíkur, Ísafjarðar og Bolungar-
víkur verði gefinn kostur á því að
kjósa um sameiningu þessara sveit-
arfélaga í apríl á næsta ári.
Áttatíu manna þing
Um 80 manns sótti fundinn og
voru skoðanir þeirra fjölmörgu sem
til máls tóku mjög á sama veg, sem
sé að við sameiningu töpuðust störf í
stjórnsýslu og á félags- og mennta-
sviðum. Einnig kom fram ótti við að
þjónusta við íbúana færðist úr
byggðarlaginu og þar með yrði dreg-
ið verulega úr því þjónustustigi sem í
boði hefur verið í Bolungarvík.
Þá komu fram sjónarmið um að
jarðgöng sem leystu af núverandi
vegasamband milli byggðarlaganna
um Óshlíð væru forsenda fyrir því að
til sameiningar við önnur sveitar-
félög gæti komið. Samskipti ríkis og
sveitarfélaga voru talsvert rædd og
voru fundarmenn sammála um að
tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga
væri ekki rétt og verulega vantaði
uppá að sveitarfélögunum hefði verð
bætt tekjumissir sem þau hefðu orð-
ið fyrir, til dæmis vegna laga um
einkahlutafélög og fleira.
Heyra mátti á fundarmönnum að
nokkur bjartsýni ríkti meðal bæjar-
búa þar sem ýmislegt benti til þess
að Bolvíkingar væru að ná aftur
vopnum sínum á sviði sjávarútvegs
en aflaheimildir útvegsmanna í
byggðarlaginu hafa verið að aukast
verulega að undanförnu.
Bæjaryfirvöld voru gagnrýnd fyr-
ir að hafa sig ekki meira í frammi og
að ekkert hefði verið gert í því til
dæmis að kynna kosti þá sem Bol-
ungarvík hefur uppá að bjóða, svo
sem ódýrara húsnæði, fjölskyldu-
vænt umhverfi, háhraða netteng-
ingu, góðan skóla og góða heilsu-
gæslu.
Reikna ekki með að
gera athugasemdir
Elías Jónatansson, forseti bæjar-
stjórnar, sagðist í samtali við Morg-
unblaðið vera ánægður með fundinn
og það hversu margir tjáðu hug sinn
og skoðanir til þessa máls.
Hann sagði ljóst að mikill meiri-
hluti fundarmanna vildi halda í sjálf-
stæði bæjarfélagsins en hann sagðist
jafnframt skynja það að íbúar teldu
það sjálfsagt að kosið yrði um tillögu
sameiningarnefndarinnar þannig að
vilji þeirra lægi skýrt fyrir. „Bolvík-
ingar vita hvað þeir hafa en óljóst er
um hvað fólk á að kjósa, til dæmis
liggur ekkert enn fyrir hvað gæti
komið út úr umræðunni um tekju-
skiptingu ríkis og sveitarfélaga,“
sagði hann.
Elías sagði að bæjarstjórnin
myndi ræða málin og niðurstöðu
þessarar vinnu á næsta fundi sínum.
Bæjarstjórnir hafa frest til 1. desem-
ber til að gera athugasemdir við til-
lögur sameiningarnefndar. Sjálfur
sagðist Elías hafa það á tilfinning-
unni, í ljósi umræðna á íbúafundin-
um, að ekki yrði gerð athugasemd
við það að íbúarnir fengju að kjósa
um tillögur sameiningarnefndarinn-
ar á næsta ári.
Skýr andstaða við sameiningu sveitarfélaga kom fram á íbúaþingi í Bolungarvík
Óttast að störf tapist
og þjónustan minnki
Morgunblaðið/Gunnar Hallsson
Andstaða Bolvíkingar virðast almennt ekki kjósa sameiningu við önnur sveitarfélög. Það var niðurstaða þingsins.
ÁRBORGARSVÆÐIÐ
Selfoss | Bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborg-
ar segir nauðsynlegt að byggja nýja brú ofar á
Ölfusá til að beina þungaumferð fram hjá Sel-
fossi. Vonast hann til að það verði gert á næstu
fjórum til átta árum. Umdæmisstjóri Vega-
gerðarinnar segir nauðsynlegt að lagfæra
hringtorgið við núverandi Ölfusárbrú.
Aðalfundur Samtaka sunnlenskra sveitarfé-
laga samþykkti á aðalfundi sínum að óska eftir
því að byggð verði ný brú á Ölfusá. Einar
Njálsson, bæjarstjóri Árborgar, segir miklar
umferðarteppur skapist á álagstímum við
brúna og hringtorgið sem við hana er og bæj-
aryfirvöld hafi áhuga á að losna við þungaum-
ferðina úr þéttustu byggðinni.
Tvö brúarstæði í umræðunni
Á núgildandi aðalskipulagi er tekið frá land
sem miðar við að vegurinn fari yfir ána hjá
Efri-Laugardælaeyju, norðan við Selfoss. Ein-
ar reiknar með að ákvarðanir um brúarstæði
verði teknar í tengslum við afgreiðslu nýs að-
alskipulags Árborgar og Hraungerðishrepps
sem áformað er á næsta ári.
Svanur G. Bjarnason, umdæmisstjóri Vega-
gerðarinnar á Selfossi, segir að tvær leiðir
komi einkum til greina en Vegagerðin hafi enn
ekki lagt fram sína tillögu. Annars vegar að
fara yfir Efri-Laugardælaeyju og hins vegar
meðfram Búrfellslínu sem er nokkru norðar en
þar þyrfti styttri brú. Báðir staðirnir eru við
golfvöll Selfyssinga. Vegurinn myndi aftur
tengjast Suðurlandsvegi nálægt vegamótum
Gaulverjabæjarvegar, austan við Selfoss.
Ný Ölfusárbrú er ekki á vegaáætlun eða
langtímaáætlun til 2014. Svanur segir að um-
ferðartalning sem gerð var á síðasta ári sýni að
umferðin um Ölfusárbrú sé að stórum hluta til
og frá Selfossi og tiltölulega lítill hluti gegn-
umakstur um Selfoss. Því sé brýnna úrlausn-
arefni að greiða fyrir umferðinni þar en að
byggja nýja brú. Hann segir svæðið við brúar-
sporðinn þröngt og erfitt að leysa umferðar-
hnútinn en það yrði helst gert með því að fjölga
akreinum í hringtorginu eða út úr því.
Brúarstæði
Ölfusár ákveðið
í aðalskipulagi