Morgunblaðið - 08.01.2005, Síða 37
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 8. JANÚAR 2005 37
MINNINGAR
✝ Ragnhildur Guð-jónsdóttir fædd-
ist í Reykjavík 30.
júní 1951. Hún and-
aðist að heimili sínu í
Grindavík laugar-
daginn 1. janúar síð-
astliðinn. Hún var
dóttir hjónanna Guð-
jóns Ólafssonar frá
Reykjavík f. 19. febr-
úar 1906, d. 13. júlí
1964, og Steinþóru
Þorvaldsdóttur frá
Torfastöðum í Grafn-
ingi f. 25. júlí 1922, d.
13. desember 1991.
Ragnhildur var yngst fjögurra
systra, hinar eru Málfríður f. 25.
október 1942, Vilborg f. 23. nóv-
ember 1943, Margrét f. 27. októ-
ber 1944, d. 22. ágúst 2003.
Ragnhildur giftist 6. nóvember
1971 Sævari Þórarinssyni f. 21.
júní 1950. Foreldrar hans eru Þór-
arinn Ólafsson frá Hraunkoti í
Grindavík f. 24. ágúst 1926 og
Guðveig Sigurlaug Sigurðardótt-
ir frá Stardal f. 9.
desember 1931.
Ragnhildur og
Sævar eiga þrjú
börn 1) Gunnlaugur
f. 9. nóvember 1970 í
sambúð með Auði
Örnu Guðfinnsdótt-
ur f. 28. janúar 1985,
sonur þeirra er Þór-
arinn f. 3. júlí 2004.
Áður á Gunnlaugur
Eyrúnu Gyðu f. 16.
október 1989, Sædísi
Ósk f. 28. febrúar
2000 og Heiðar Aris
f. 15. desember 2001.
2) Albert f. 18. október, í sambúð
með Eydna Fossadal f. 14. febrúar
1976, dóttir þeirra er Ragnhildur
Nína f. 2. desember 1999. 3) Stein-
þóra f. 24. október 1974, í sambúð
með Árna þór Sævarssyni f. 21.
mars 1969, sonur hennar er Sæv-
ar Leon f. 21. nóvember 1996.
Útför Ragnhildar verður gerð
frá Grindavíkurkirkju í dag og
hefst athöfnin klukkan 14.
Sorgin gleymir engum. Öll þekkj-
um við sorgina, bæði þeir sem ungir
eru sem og þeir eldri. Sumra vitjar
hún sjaldan en hjá öðrum er hún
nær viðvarandi, birtist aftur og aft-
ur. Sársaukinn við að missa ástvini
er alltaf erfiður, en glæður minn-
inganna ylja þar til yfir lýkur.
Ragnhildur tengdadóttir mín
greindist með krabbamein fyrir
rúmu ári, allan þann tíma sem hún
barðist við þennan illvíga sjúkdóm
heyrði ég hana aldrei kvarta. „Ég
hef það bara fínt,“ sagði hún er
spurt var um líðan hennar, sló
mann út af laginu því auðséð var að
hún var sársjúk. Það var ríkur eig-
inleiki hennar Röggu að vera sem
mest sjálfbjarga og gera hlutina
sjálf. Vera heima í sem flestu auk
þess að sjá um börn og bú, eig-
inmaðurinn fjarverandi vikum sam-
an. Þessu hlutskipti deildi hún með
mörgum öðrum sjómannskonum og
þótti ekki tiltökumál.
Það var alltaf grunnt á gaman-
semi hennar og uppátækjum. Þó
hún væri hæg og dagfarsprúð, var
hún líka dálítill prakkari í sér. Vinir
hennar og kunningjar fengu stund-
um að kenna á uppátækjunum, en
nú veit ég að þeir sakna þeirra. Því
þau voru aldrei illa meint eða sær-
andi heldur aðeins til gamans. Vina-
hópur þeirra Sævars og Röggu var
stór og samheldinn. Oft var mann-
margt á heimili þeirra og þau
rausnarlegir gestgjafar. Sama var,
og ekki síður, í sælureit þeirra í
sveitinni. Þar undi Ragga sér vel
enda eins og þeirra annað heimili.
Undir það síðasta kaus hún að vera
þar eina helgi, kveðja fallega húsið
sitt í sveitinni þar sem hún átti svo
margar gleðistundir frá liðnum ár-
um. Ég gæti haldið áfram að rifja
upp atvik frá 35 ára kynnum okkar
en læt hér staðar numið. Það er sár
söknuður yfir fráfalli hennar en þó
mestur hjá syni mínum og börnum
þeirra, líka systrum hennar sem
hafa misst tvær systur sínar á rúmu
ári. Guð huggi og þerri tárin okkar
sem þekktum Röggu. Blessuð sé
minning hennar.
Guðveig Sigurðardóttir.
Fyrstu orðin sem ég heyrði á ný-
ársdagsmorgun voru, að Ragga
væri dáin.
Ósjálfrátt fór ég að rifja upp
kynni okkar. Kímni, heiðarleiki,
væntumþykja og ósérhlífni
koma strax í hugann er ég horfi
til baka yfir þau 10 ár frá því að
fundum okkar bar fyrst saman. Það
var því erfitt að tilkynna syni mín-
um Sævari Leon að amma hans
væri dáin, en einhvernveginn gát-
um við feðgar brosað gegnum tárin
yfir öllum góðu minningunum um
hana. Hún var prakkari og maður
vissi aldrei hverju maður gæti átt
von á, en aldrei öðru vísi en allt í
góðu. Umfram allt var hún afskap-
lega góð manneskja, með góða nær-
veru, en þannig er það oft með góð-
ar manneskjur, þær eru oftast
teknar of snemma.
Elsku Sævar og fjölskylda, hugur
minn er hjá ykkur á þessum erfiðu
stundum.
Að endingu vil ég þakka þér
Ragga mín fyrir allt sem þú hefur
gert fyrir mig.
Guð geymi þig.
Höskuldur.
Þegar Ragga kom fyrst til
Grindavíkur leist mér ekkert á það,
ég vildi bara eiga bróður minn fyrir
mig. Stundum var ég hundleiðinleg
við hana, en aldrei sagði hún neitt
við mig enda var ég bara krakki.
Svo breyttist allt þegar hestarnir
komu til sögunnar og svo hundarn-
ir. Þá náðum við saman og Ragga
reyndi að kenna mér að temja hesta
en það gekk ekki vel hjá mér. En
hún kenndi mér vel að ala upp
hunda. Ekki gleymi ég kvöldinu
sem við grétum saman og ljóðinu
sem hún samdi daginn sem Tinna,
drottning drauma hennar, dó. Ég
minnist þess líka þegar við vorum
saman í siglingum hvað ég var oft
sjóveik en ekki hún. Þá stríddi hún
mér: Hvað ertu ekki systir skip-
stjórans bróður þíns? Og hvað hún
hló mikið þegar við vorum að fara í
útreiðartúr þegar Nasi snarstopp-
aði og ég flaug framfyrir hann og
lenti á maganum og náði ekki and-
anum, að mér fannst í nokkrar mín-
útur. Ragga stóð yfir mér á Þengli
og skellihló en hún vissi ekki að ég
gat ekki andað. Eins minnist ég
þess að fyrir nokkrum árum vorum
við og Ragna fyrir austan í nokkra
daga um hávetur og Ragga minnt-
ist á það að hún hefði ekki sett vor-
laukana sem hún átti, 300 stykki,
niður um haustið svo ég stakk upp á
því að skyldum gera það strax.
Ragna hló bara að okkur og sagði:
Stelpur það er snjór og frost í
jörðu, en ég lét nú ekki á mér
standa, fór í snjóbúning af Sævari
og Ragga á eftir og við kláruðum að
setja þá niður en það tók sinn tíma.
Ég var svo spennt að fá fréttir af
laukunum um vorið og hringdi oft í
Röggu frá Ameríku til að fá fréttir
en það var alltaf sama svarið: Engir
laukar, engin blóm. Hún komst svo
að því að mýsnar voru búnar að éta
alla 300 laukana. Við erum mikið
búin að hlæja að því og oft þegar
við vorum að spila Skip-Bo, þá fór
hún allt í einu að skellihlæja og ég
spurði hvað væri svona hlægilegt.
Það stóð ekki á svarinu: Manstu
eftir laukunum?
Fyrstu 18 árin mín hér sagði hún
alltaf það sama þegar ég spurði
hvenær hún ætlaði nú að koma í
heimsókn til mín í Bandaríkjunum:
Aldrei, fer ekki til Ameríku, en svo
kom hún loksins og mikið var það
nú gaman. Mamma og hún voru
góðar í spilavítunum. Við Scott átt-
um virkilega góðar stundir með þér
þá, stundir sem við erum afskap-
lega þakklát fyrir að hafa fengið að
njóta.
Mikið á ég nú eftir að sakna þín
elsku vinkona en ég veit að þú ert
komin á góðan stað og guð geymir
þig. Megi Guð blessa hann Sævar
þinn, börnin ykkar, barnabörnin og
aðra sem eiga um sárt að binda.
Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð
hjartans þakkir fyrir liðna tíð.
Lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,
leiðir sjálfur Drottinn þig við hönd.
(Guðrún Jóhannsdóttir.)
Ingibjörg Þórarinsdóttir
Bartley.
Elsku Ragga mín.
Á nýársdag slokknaði á ljósi
þínu, þú varst búin að berjast
hetjulega við illvígan sjúkdóm. Við
kynntumst þegar þú komst til
Möggu systur þinnar heima í Ólafs-
firði og vorum saman í gagnfræða-
skóla, síðan héldum við sambandi
eftir það. Þú varst lítil hnellin
hnáta, alltaf til í prakkarastrik og
stríðnin fylgdi þér til loka en bak
við stríðnina sló viðkvæmt og hlýtt
hjarta sem kannski ekki allir vissu
um. Ég talaði við þig síðast á jóla-
dag, þá fann ég að þú gerðir þér
ljóst að stundaglasið væri óðfluga
að tæmast. Við töluðum um það en
ekki kvartaðir þú frekar en áður.
Guð geymi þig, elsku vinkona
mín, þú munt alltaf eiga stað í mínu
hjarta.
Á kertinu mínu ég kveiki í dag
við krossmarkið helgi og friðar
því tíminn mér virðist nú standa í stað
en stöðugt þó fram honum miðar.
Ég finn það og veit að við erum ei ein
að almættið vakir oss yfir,
því ljósið á kertinu lifir.
Við flöktandi logana falla nú tár,
það flýr enginn sorgina lengi.
Hún braut allar vonir, hún braut allar þrár,
hún brýtur þá viðkvæmu strengi,
er blunda í hjarta og í brjósti hvers manns.
Nú birtir, og friður er yfir,
því ljósið á kertinu lifir.
Sá einn þekkir gleðinnar gáska og fjör
sem gist hefur þjáning og pínu.
Sá einn getur sigrast á ótta og kvöl
sem eygir í hugskoti sínu,
að sorgina við getum virkjað til góðs,
í vanmætti sem er oss yfir,
ef ljósið á kertinu lifir.
(Kristján Stefánsson frá Gilhaga.)
Elsku Sævar, Gulli, Albert, Þóra
og fjölskylda. Það er skarð fyrir
skildi og tómarúm mikið en minn-
ingin hennar lifir og ljósið hennar
lýsir ykkur öllum um alla framtíð.
Elín í Litlu-Gröf.
Í dag kveðjum við kæra vinkonu.
Stórt skarð hefur verið höggvið í
hópinn okkar sem hefur staðið sam-
an í yfir 30 ár. Því er margs að
minnast.
Ragga var hrókur alls fagnaðar
og stríðnispúkinn í hópnum. Það
var hún sem stóð að mörgum
óvæntum uppákomum innan hóps-
ins. Við erum búin að fara ótal ferð-
ir saman, bæði erlendis og innan-
lands. Flestar helgar hefur verið
farið á sumrin, enda erum við
gjarnan kölluð „útilegugengið“.
Fólk hefur haft á orði að þetta væri
einstakur vinahópur.
Minnisstæð er páskaferð sem
farin var til Dublin í tilefni þess að
flest okkar áttu 25 ára brúðkaups-
afmæli það árið.
Að morgni páskadags fengu allir
páskaegg með morgunverðarbakk-
anum. Héldum við að ferðaskrif-
stofan stæði að þessari sendingu og
urðu allir mjög hrifnir þar til eggin
voru opnuð, þá hvarf hrifningin. Því
innihaldið voru plastpöddur af ýms-
um toga ásamt piparbrjóstsykri.
Seinna kom í ljós að það var Ragga
sem hafði látið pakka þessum eggj-
um í sælgætisgerð hér heima áður
en farið var í ferðina.
Ragga var einstök persóna, allt
sem hún tók sér fyrir hendur leysti
hún bæði hratt og vel. Hún var t.d.
frumkvöðull að árlegum þorrablót-
um vinanna, var hún þar potturinn
og pannan bæði í innkaupum og
matseld. Hún átti til að leysa fólk út
með gjöfum, t.d. hakki í poka sem
laumað var í frakkavasa nokkurra
vina og fóru fataskáparnir að lykta
illa þegar frá leið.
Ragga okkar var frábær bílstjóri,
ók hún jafnt á fjöllum sem í byggð
og mátti margur öfunda hana af
færninni.
Fyrir nokkrum árum byggðu
Ragga og Sævar sér sumarbústað
sem var þeirra paradís. Dvöldum
við þar oft hjá þeim í góðu yfirlæti.
Hér hefur aðeins verið stiklað á
stóru, minningarnar gætu fyllt
heila bók.
Síðasta ár er búið að vera erfitt,
hún greindist með krabbamein fyr-
ir rúmu ári síðan. Er baráttan búin
að vera bæði erfið og hörð. Lífsvilj-
inn var mikill en að lokum hafði
sjúkdómurinn betur.
Röggu var það mikils virði að fá
að vera heima til hinstu stundar.
Sævar og fjölskyldan lögðust öll á
eitt til að svo gæti orðið. Það ber að
þakka.
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
Héðan skal halda
heimili sitt kveður
heimilisprýðin í hinsta sinn.
Síðasta sinni
sárt er að skilja,
en heimvon góð í himininn.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(V. Briem.)
Elsku Ragga, við þökkum þér af
alhug allar góðu samverustundirn-
ar, hópurinn verður aldrei samur
án þín.
Elsku Sævar, okkar innilegustu
samúðarkveðjur til þín og fjölskyld-
unnar.
Margrét, Guðmundur,
Sigurbjörg, Hörður, Björg,
Ólafur Þór, Elísabet, Daníel,
Svava, Benóný, Björk
og Þorsteinn.
Okkur langar að kveðja með
miklum söknuði kæra vinkonu sem
fallin er frá, langt um aldur fram.
Okkar kynni hófust fyrir um 35 ár-
um, skömmu eftir að leiðir þeirra
Sævars og Röggu lágu saman. Það
er margs að minnast í gegnum árin,
en upp úr standa alltaf góðu stund-
irnar sem við áttum saman. Það
voru ófáar ferðirnar sem við fórum
saman yfir hafið á sjó og í lofti og
dvöldum saman erlendis í leik og að
störfum, einkum hér fyrr á árum.
Röggu var margt til lista lagt, átti
alltaf auðvelt með flest sem hún
sneri sér að, hvort sem var stjórnun
ökutækja, hesta, sem hún hafði
miklar mætur á, og öll dýr hændust
að henni. Hún var með afbrigðum
hrekkjótt og hafði gaman af að
stríða okkur, kunningjum sínum, og
fengum við oft að finna fyrir ótrú-
legum uppátækjum hennar, en það
var allt vel meint og í góðu og hin
mesta skemmtun. Að lokum bið ég
og mín fjölskylda algóðan Guð að
vernda og styrkja þig, Sævar, og
þína fjölskyldu. Hvíl í friði.
Hörður Helgason
og fjölskylda.
Með nokkrum orðum viljum við
minnast Ragnhildar eða Röggu eins
og hún ávallt var kölluð. Ragga var
glettin, hljóðlát, prúð og lét litið
fyrir sér fara. Þannig var hún alla
tíð og nú hefur hún kvatt. Í miðri
hátíð ljóss og friðar þraut hana lífs-
kraftinn. Eftir stöndum við og
drúpum höfði.
Við eigum ljúfar minningar sem
gott er að ylja sér við. Ragga var
listræn og hafði gaman af teikna.
Hún hafði yndi af að dvelja í sum-
arbústaðnum, þar átti hún góðar
stundir hvort sem var að sumri eða
vetri til.
Efst í huga er nú þakklæti fyrir
vináttu okkar það er eins með vini
og stjörnurnar. Þeir sjást ekki allt-
af en þeir eru þarna. Hennar er
sárt saknað. Mestur er þó söknuður
hjá fjölskyldunni allri og sendum
við þeim okkar innilegustu samúð-
arkveðjur.
Röggu kveðjum við með virðingu
og þakklæti fyrir allt. Við biðjum
góðan Guð að geyma hana.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti,
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð.
Þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir.)
Ragna, Rannvá, Atli,
Helgi, Ásla og fjölskyldur.
Ég heyrði Jesú himneskt orð:
Kom, hvíld ég veiti þér.
Þitt hjarta’ er mætt og höfuð þreytt,
því halla’ að brjósti mér.
Ég leit til Jesú, ljós mér skein,
það ljós er nú mín sól,
er lýsir mér um dauðans dal
að Drottins náðarstól.
(Stefán Thorarensen.)
Að morgni og kvöldi minnst þess vel,
málsupptekt láttu þína:
Af hjarta ég þér á hendur fel,
herra Guð, sálu mína.
(Hallgrímur Pétursson.)
Blíðlynd eins og besta móðir
ber hann þig í faðmi sér.
Allir þótt þér aðrir bregðist,
aldrei hann á burtu fer.
Drottinn elskar – Drottinn vakir
daga’ og nætur yfir þér.
(Sigurður Kr. Pétursson.)
Ragga vinkona mín er látin. Ég
kynntist Röggu og Sævari fyrir
þremur árum þegar Úlli minn
kynnti mig fyrir þeim hjónum. Og
það voru góð kynni; hvort sem við
kíktum í heimsókn til þeirra hér í
Grindavík eða upp í sumarbústað
var alltaf jafnvel tekið á móti okkur
og einstaklega notarlegt að koma til
þeirra. Það besta við heimsóknir
mínar til Röggu var róin sem ég
fann hjá henni, við þurftum ekkert
mikið að tala, bara höfðum það
notalegt saman yfir sjónvarpinu,
spilum eða blaðalestri. Stundum
sátum við saman á miðvikudags-
kvöldum og horfðum á kerlinga-
þættina í sjónvarpinu á meðan karl-
arnir horfðu á fótboltann heima hjá
mér. Þá sátum við með nammiskál-
ina á milli okkar og létum okkur
líða vel.
Ein besta helgin sem við áttum
saman var fjallaferð Hjónaklúbbins
sumarið 2003. Þar kynntist ég öku-
leikni Röggu. Við Björk vinkona
hennar vorum hluta leiðarinnar í
jeppanum með Röggu en Úlli og
Sævar voru í bílnum hjá Steina.
Ragga gaf körlunum sannarlega
ekkert eftir í akstri yfir ár og tor-
færur, tætti fram úr þeim og gaf
þeim langt nef. Við skemmtum okk-
ur konunglega og hlógum mikið.
Skömmu síðar veiktist hún og al-
varan tók við. Þó var alltaf stutt í
grínið hjá Röggu og skemmtilegu
tilsvörin hennar. Við Úlli biðjum
góðan guð að geyma Röggu og
styðja Sævar, börnin þeirra og aðra
ástvini í þessari miklu sorg.
Lof sé mínum ljúfa herra lífið fyrir, gleði
og tár.
Hann mun græða, hreinsa, þerra, harma
þinna djúpu sár.
(Höf. ók.)
Kristín Gísladóttir.
RAGNHILDUR
GUÐJÓNSDÓTTIR