Morgunblaðið - 13.04.2005, Qupperneq 11

Morgunblaðið - 13.04.2005, Qupperneq 11
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 13. APRÍL 2005 11 FRÉTTIR AXELSBÚÐ er miklu meira en verslun. Líklega væri nær að kalla hana þjónustu- og félagsmiðstöð þar sem ýmislegt fæst. Búðin á marga trygga kúnna. Það er ekki aðeins að þeir fái þar flest sem þarf til að dytta að bátum og húsum, skjólfatnað og skó, veiðistangir og vettlinga svo fátt eitt sé nefnt. Þeir sækja þangað fé- lagsskap og fréttir. Karlarnir fá sér kalda kók úr goskælinum sem einu sinni var allur rauður en nú orðinn svo snjáður á lokinu að skín í bert stálið. Svo tylla þeir sér á afgreiðslu- borðið og skrafa um aflabrögð og tíð- arfar og hvað annað sem helst ber á góma þann daginn. Axel Gústafsson, kaupmaður í Ax- elsbúð og barnabarn og nafni stofn- andans, sinnir viðskiptavinum af stakri alúð. Sé varan ekki til er tekinn upp síminn og hún umsvifalaust pönt- uð. „Kemur í síðasta lagi á morgun,“ segir Axel og málið er afgreitt. Ef hann er upptekinn snarast heima- vanir kúnnar á bakvið, sækja það sem þá vanhagar um og færa jafnvel út- tektina sjálfir á nótu. Margir kaupa í reikning og greiða svo mánaðarlega. Hér ríkir gagnkvæmt traust frá þeim tíma þegar orð stóðu og handsal var gulltrygging. Fékk lán út á andlitið Axel Sveinbjörnsson, afi Axels Gústafssonar kaupmanns, stofnaði verslunina 18. desember 1942. Hann hafði verið skipstjóri og gerðist versl- unarstjóri í Haraldarbúð, verslun Haraldar Böðvarssonar. Eftir fimm ár í Haraldarbúð keypti Axel lítið pakkhús frá versluninni Frón, sem þá var hætt starfsemi. Pakkhúsið var flutt að höfninni, skáhallt á móti nú- verandi verslun Axels, sem er rétt of- an við höfnina á Akranesi. Axel fór til Reykjavíkur og hitti þar Ellingsen, eiganda samnefndrar verslunar. „Hann keypti vörur af Ellingsen fyrir 11 þúsund krónur og fékk allt lánað út á andlitið. Við höfum síðan átt mik- il viðskipti við Ellingsen og marga fleiri,“ segir Axel verslunarstjóri. Ax- elsbúð var vel tekið og fyrsta daginn seldist fyrir heilar 700 krónur, sem þótti ekki lítið á þeim árum. Axel Sveinbjörnsson flutti versl- unina úr gömlu búðinni í pakkhúsinu árið 1950 í núverandi húsnæði, sem byggt var 1927 og stækkað 1937. Þar hafði þá verið rekin verslunin BOCO, sem var í eigu Bjarna Ólafssonar, skipstjóra og útgerðarmanns, og fleiri. Í afgreiðslu búðarinnar er enn svipað umhorfs og þegar verslunin BOCO var þar til húsa. Axel Sveinbjörnsson veiktist og dró sig smám saman út úr daglegum rekstri síðustu árin, þótt hann væri með hugann við hann fram á síðasta dag. Hann lést 1995, þá níræður að aldri. Búinn að vera þungur róður Í Axelsbúð hafa starfað um 60 manns í gegnum tíðina, eftir því sem Axel kaupmaður kemst næst. Nokkr- ir starfsmenn áttu þar langa starfs- ævi. Guðjón Finnbogason, sem meðal annars gerði garðinn frægan með gullaldarliði ÍA, hóf störf í búðinni 1943 og starfaði þar sleitulaust til 1999, eða í 56 ár. Axel segir að Guðjón hafi sett mikinn svip á starf versl- unarinnar. Axel Gústafsson segist hafa verið smástrákur þegar hann fór að hjálpa til í búðinni í skólafríum og síðar í sumarvinnu. Að loknu námi, 17 ára gamall, var hann ráðinn til starfa og á nú að baki um 30 ára starf við verslunina. Vinnufélagi hans til tæpra 20 ára, Gísli Aðalsteinsson, hætti í búðinni um síðustu mánaðamót. Nú eru Axel og kona hans Kristín Halldórsdóttir ein eftir í áhöfn Axels- búðar og óðum að rifa seglin uns þau verða endanlega felld í sumar. Axel hefur ákveðið að hætta rekstri versl- unarinnar, er búinn að selja húsnæðið og lóðina og þarf að vera búinn að rýma búðina fyrir lok júnímánaðar. Verslunarhúsið verður rifið og lóðin notuð undir annað. „Þetta er búinn að vera þungur róður undanfarið, þótt ég eigi marga góða kúnna. Ég met þá mjög mikils,“ segir Axel. En hvað veldur því að svo hefur þyngst undir fæti í rekstri verslunarinnar? „Það hefur margt breyst í útgerð- inni á undanförnum árum og við höf- um fundið fyrir því. Eftir að Hval- fjarðargöngin komu er orðið styttra til Reykjavíkur í verslanir þar.“ Þeg- ar líður á spjallið nefnir Axel einnig að fyrir tveimur árum harðnaði mjög samkeppnin á sviði byggingarvöru þegar bæði Byko og Húsasmiðjan opnuðu verslanir á Akranesi. Það er erfitt að keppa við svo öflug fyrirtæki. Lager eða leikmynd Lagerinn og afgreiðslan í Axelsbúð eru ævintýri líkust og gætu sómt sér vel sem leikmynd frá fyrrihluta 20. aldar. Margir hafa enda gert sér ferð í Axelsbúð til þess eins að skoða verslunina. Á lagernum ægir saman ýmsum varningi, allt frá eldgömlu sísaltógi innpökkuðu í striga, reiðhjólavarahlutum, kanínufóðri og áburði, veiðivörum, pípulagningaefni og öðrum byggingavörum, skóm og skjólfatnaði, sælgæti og gos- drykkjum, málningarvörum og veið- arfærum. Víða má sjá gamla muni, skilti og myndir frá fyrri árum. Nú er verið að mæla búðina alla upp og skrá. Þegar hefur verið ákveð- ið að ýmsir munir úr henni fari á byggðasafnið á Akranesi. Axel segir þá hugmynd hafa vaknað að setja af- greiðslu búðarinnar í heilu lagi upp á safni, svo samgróin er hún tilverunni á Skaganum. Það er víst að með Ax- elsbúð hverfur athyglisverður fulltrúi liðinna ára í íslenskri verslunarsögu. Seglin rifuð í Axelsbúð Það er einhvers konar ferð til fortíðar að koma inn í Axelsbúð á Akranesi, eða Verslun Axels Sveinbjörnssonar ehf. eins og hún heitir formlega. Guðni Einarsson og Ragnar Axelsson heim- sóttu Axelsbúð í gær. Búðinni verður lokað í sumar. Manila- og sísaltóg fást óvíða í dag. Morgunblaðið/RAX Útgerðarvörur voru lengstum burðarás í vöruvali Axelsbúðar. Axel Gúst- afsson heldur á gamalli skútu sem er til minja um liðna tíma. Keðjur, stálvírar og önnur þungavara var vigtuð á stórri vigt. Gömul vigt hvílir uppi á hillu og hefur lokið hlutverki sínu. Í búðinni má sjá margar menjar liðinna ára. Þráinn E. Gíslason smiður (t.h.) sá að Axel verslunarstjóri var upptekinn við að afgreiða Ingólf Þorsteinsson (t.v.). Þráinn hvarf á bakvið og kom von bráðar með það sem hann vantaði. Svo sótti hann nótubókina og færði inn það sem hann keypti. „Maður kann á allt hér og afgreiðir sig bara sjálfur, ef með þarf,“ sagði Þráinn. gudni@mbl.is

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.