Morgunblaðið - 20.09.2005, Blaðsíða 45

Morgunblaðið - 20.09.2005, Blaðsíða 45
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 20. SEPTEMBER 2005 45 MENNING BANDARÍSKI rithöfundurinn Siri Hustvedt, sem var einn gesta Bók- menntahátíðar, segir bernsku sína hafa endað á Íslandi, eitt sumar seint á sjöunda áratugnum. Hvernig skyldi standa á því? Hustvedt sest fram í leðurstólinn í setustofunni á Hótel Holti, sýpur á kaffinu, brosir og segist fagna því að vera loksins komin aftur til Íslands. Segir það hafa staðið til í mörg ár að hún og eiginmaðurinn, rithöfund- urinn Paul Auster, skoðuðu söguslóð- ir hennar í Vesturbænum. Svo hefst sagan: „Þegar ég var þrettán ára vorum við fjölskyldan einn vetur í Bergen í Noregi en faðir minn var þar í rann- sóknarleyfi.“ Þess ber að geta að for- eldrar Hustvedt voru norskir og móðurmál hennar er norska, en hún fæddist og ólst upp í Minnesota-ríki, þar sem faðir hennar kenndi norsku við St. Olaf College, þar sem hún lagði síðar stund á nám í sögu. En áfram með frásögnina. „Faðir minn var að rannsaka Ís- lendingasögurnar og um sumarið fékk hann styrk til að koma til Ís- lands. Við komum til Reykjavíkur um vorið og leigðum hús við Hávallagötu. Nú langar mig til að finna þetta hús. Áður en ég flaug hingað hringdi ég í móður mína og spurði hana um núm- erið á húsinu en hún mundi það ekki. Faðir minn, sem er látinn, hefði mun- að það. Hann gleymdi engu. Þetta var eitt yndislegasta sumar sem ég hef lifað. Faðir minn fór með okkur í ferðir út í sveit, að skoða gamla sögustaði, staði sem koma fyr- ir í Íslendingasögunum. Stundum ók hann að einhverjum stað þar sem voru engin skilti, engar byggingar, en hann hafði lesið sér til og vissi ná- kvæmlega hvert hann átti að fara; hann lét okkur stíga út úr bílnum og sagði okkur frá atburðum sem höfðu átt sér stað þar sem við stóðum. Hann útskýrði sögurnar fyrir okkur, stundum voru þetta blóði drifnir og hræðilegir atburðir, og við vorum al- veg dolfallin yfir atburðarásinni. Ég man vel þegar pabbi sýndi okk- ur hvar Snorri lét lífið og sagði okkur söguna af þessari hrottalegu aftöku. En það var líka þetta sumar sem ég gerði mér grein fyrir því að ég gæti lesið svo að segja hvað sem er. Nú er vitað að einskonar umbreyting á sér stað í heila unglinga, venjulega um 14 ára aldur, þegar skyndilega verður aukinn skilningur á abstrakt hugsun og vitrænum tengingum. Það gerðist hjá mér þetta ár og ég fór á bókasafnið hér og tók út bækur sem móðir mín hafði mælt með. Faðir minn var að rannsaka sögurnar og móðir mín að útbúa fyrir mig leslista, aðallega með enskum skáldsögum frá 19. öld. Ég las og las og las. Þetta sumar las ég David Copperfield, Jane Eyre, Greifann af Monte Christo, Hroka og hleypidóma, hverja frá- bæru bókina á fætur annarri. Fannst sem ég gæti aldrei aftur skrifað skáldskap Í janúar kemur út greinasafn eftir mig, þar segi ég söguna af því þegar ég var á Íslandi og las og las. Um tíma var svo bjart á næturnar og þá átti ég í fyrsta skipti bágt með svefn. Ég vakti því og las og man eftir áhyggjunum yfir því að geta ekki sofnað. Ég man eftir því að hafa farið út að glugganum, sem var á bakhlið þessa húss, og horft yfir þögla en samt uppljómaða borgina. Ég hef svo oft hugsað um þessa sýn, og velt fyrir mér hvers vegna hún birtist mér aft- ur og aftur, en núna skil ég að þetta kemur alltaf aftur til mín, því ég gerði mér grein fyrir því að þetta var endirinn á bernsku minni. Á vissan hátt endaði bernska mín því á Ís- landi. Sem er afar persónuleg upp- lifun en mikilvægur viðburður tilfinn- ingalífinu. Ég minnist tiltekinna daga á Ís- landi. Ég minnist þess að hafa farið út í sveit og litirnir voru grænir, svo undur grænir og svo ógurlega svart- ir“ – hún lækkar róminn og lygnir aftur augunum – „og blár himinn. Svo einfaldar en berangurslegar lita- andstæður. Það hafði ótrúlega mikil áhrif á mig.“ Siri Hustvedt hefur skrifað þrjár skáldsögur sem allar hafa vakið um- talsverða athygli og verið þýddar á fjölda tungumála. Fyrsta skáldsagan, Blindfold, kom út árið 1992, The Enchantment of Lily Dahl, 1996, og What I Loved kom út árið 2003. Áður hafði Hustvedt sent frá sér ljóðabók- ina Reading to You árið 1982. Þá hef- ur hún gefið út tvö greinasöfn með umfjöllun um myndlist, Yonder, 1998, og Mysteries of the Rectangle sem kom út í síðustu viku. En ákvað Hustvedt þegar á unga aldri að verða rithöfundur? „Það gerðist hérna, eftir að ég las David Copperfield! Ég man ég hugs- aði, þetta vil ég gera. Héðan fórum við aftur heim til Minnesota og þar var þetta litla staðarfréttablað og í hverri viku var viðtal við einhvern ungling, ljósmynd af honum og spurt um áhugamálin. Ég upplýsti les- endur þessa blaðs um það að ég hygðist verða rithöfundur. Ein- hverjir brostu en sá hlær best sem síðast hlær,“ segir hún og leggur höndina á bækur eftir sig sem eru á borðinu. „Þar á undan hafði ég lengi ætlað mér að verða myndlistarmaður.“ – En þú hefur líka komið að mynd- listinni í skrifum. „Það er rétt, ég sinni myndlist í dag en á annan hátt en ég ætlaði upp- haflega. Nú skrifa ég um málverk. Þegar ég skoða málverk þá skissa ég þau oft á tíðum, ég finn fyrir þeim með höndunum. Það er ekki eins og ég geri fallegar teikningar en ég móta formin, tilfinninguna að baki, þannig að glósurnar mínar eru oft þaktar þessum litlu skissum. Á þenn- an hátt skil ég verkin betur.“ Myndrænt ímyndunarafl Við Hustvedt hittumst fyrst á nor- rænni ljóðahátíð í New York fyrir þrettán árum og ég minnist þess að heyra hana lesa ljóð og hluta af fyrstu skáldsögu sinni og þar gerði hún mikið af því að draga upp myndir með orðum. „Ég hef mjög myndrænt ímynd- unarafl. Þegar ég er að skrifa sé ég alltaf aðstæðurnar og fólkið fyrir mér. Það er ákveðin skörun milli þessara heima. Og ég man eftir bók- um í myndum.“ Hún fer að segja frá því hvernig hún skrifar, að hún hafi tilhneigingu til að treysta því fyrsta sem hún setji á blað og hafi alltaf unnið með flæði sem hún viti varla fyrr en í lokin hvert muni leiða sig. Hún vinni nú að nýrri skáldsögu og þar vinni hún í fyrsta skipti með framvindu sem hún hafi sett niður á blað fyrirfram. „Eftir að ég lauk við síðustu skáld- sögu, What I Loved, var ég örmagna og fannst sem ég gæti aldrei aftur skrifað skáldskap. Ég gæti ekki aftur leitt tilbúnar persónur fram fyrir annað fólk, þá fór ég að skrifa greinar og ritgerðir. Ég hef afskaplega gam- an af slíkum skrifum og ég hélt mér alfarið við það um tíma, þar til ég var farin að hugsa svo mikið um söguna og fólkið sem verður í nýju bókinni að ég varð að byrja að skrifa. Mig dreymir persónurnar og hvað kemur fyrir þær, ég heyri þær tala, en ég þarfnast alltaf svona aðlögunartíma. Það tók mig sex ár að skrifa síðustu bók – ég trúi því varla sjálf hvað lang- ur tími fór í verkið. Ég skrifaði hana fjórum sinnum upp frá byrjun. Það var svo sannarlega kvalafull reynsla,“ segir hún, hlær og hristir höfuðið. Sýpur svo aftur á kaffinu. Listir afhjúpa sannleikann „Ég upplifi karaktera í sögum bara svo sterkt, hvort sem ég skrifa þá eða les. Þegar ég var í framhaldsnámi í Columbia-háskóla man ég eftir að hafa grátið við að skrifa um Djöflana eftir Dostojevskí; það er auðvitað fá- ránlegt að vera að gráta yfir slíku í skóla, en ég sökkvi mér bara svona niður í söguheiminn. Ég fyllist ástríðu fyrir sögunni, fyrir fólkinu í henni … “ – … er þetta ekki galdurinn við góðan skáldskap? „Jú! Þegar ég las David Copper- field heima á Hávallagötu var ég al- veg í tætlum tilfinningalega. Ég þjáð- ist svo með David að ég snökti. En það var yndislegt. Slík listræn upp- lifun er bæði persónuleg og sam- mannleg, þetta er mjög áhugaverð upplifun. Listin afhjúpar sannleik- ann, flytur hugsanir milli manna og er birtingarmynd fyrir þá þrá sem býr í brjóstum okkar. Þess vegna er list ekki það sem fólk hugsar oft að hún sé, eintóm afþreyingariðja, hún er hluti af mannlegri löngun og á sér rætur í sálum okkar. Þetta er ákveðin rómantík en ég trúi því að svona sé þetta. Listir eru mannleg þörf. Við höfum heyrt svo margar sögur sem stað- festa þetta; eins og úr útrýming- arbúðum nasista, þar sem fólk fór með ljóð og söngva fyrir hvað annað. Ekki sem einhvern munað heldur sem minningu um sammannlega upp- lifun, vegna mennskunnar sem birtist í listinni. Listin tengir okkur saman.“ Á vissan hátt endaði bernska mín á Íslandi Þegar rithöfundurinn Siri Hustvedt var þrettán ára dvaldist hún sumarlangt á Ís- landi. Hún sagði Ein- ari Fal Ingólfssyni frá bóklestri við Hávalla- götu, upplifunum á sögustöðum og skiln- ingi sínum á listinni. efi@mbl.is Morgunblaðið/Einar Falur „Nú langar mig til að finna þetta hús við Hávallagötu.“ Rithöfundurinn Siri Hustvedt í haustsólinni á Bergstaðastræti, á leið vestur í bæ. MÍMISBRUNNUR sígildrar kammertónlistar á Íslandi, Kamm- ermúsíkklúbburinn, var stofnaður 1957 og mætti því hvað úr hverju fara að hugsa sér til pöntunar- hreyfings, ef halda skal upp á fimmtugsafmælið með nýju ís- lenzku kammerverki. Sagt sisvona í framhaldi af því að 48. starfsvet- urinn fór veglega af stað sl. sunnu- dagskvöld með að vanda fjölsótt- um tónleikum á fastaheimilinu í Bústaðakirkju. Ólíkt algengasta mynztri var að þessu sinni rismesti hlutinn fremst. Trúlega einkum vegna tímaskalans, því Kvintett Franz Schuberts í C-dúr fyrir tvær fiðl- ur, víólu og tvö selló (1828) er meðal allra lengstu kammerverka – tekur nærri fulla klukkustund í flutningi – og gat þannig notið góðs af ólúnum eyrum áheyrenda strax í byrjun. Þetta sérkennilega meistaraverk hins vegar ekki að- eins fullþroska heldur einnig feigðarmarkaða þrítuga Vínartón- skálds, er vissi sennilega hvert stefndi þegar það bar kyndil við útför Beethovens ári áður, var líkt og mörg seinni verk þess lengi að ná útbreiðslu, en er nú löngu al- þekkt, og hljóðritaðar úrvals- viðmiðanir á hverju strái. Það var því varla árennilegt fyr- ir snöggskipaðan „ad hoc“ hóp eins og ofangreinda hljómflutn- ingsmenn, sem fæstir höfðu leikið saman að staðaldri, að keppa við klipptan og skorinn upptökuár- angur langspilaðra erlendra at- vinnukammerhópa, er hlaut að klingja fyrir í vitund reyndari hlustenda. Nú vill hins vegar svo skemmti- lega til, og er þaðan af síður verra frá að herma, að flutningur þeirra fimmmenninga fór fram úr björt- ustu vonum. Satt að segja er langt síðan að undirritaður hefur heyrt jafn innlifaða, spennandi og áhugavekjandi túlkun á C-dúr kvintetti Schuberts. Þeim félögum tókst hér á undraverðan hátt að stýra fram hjá jafnt groddadrunga sem tilgerðarlegri væmni, er stundum hafa viljað loða við með- ferð á kvintettinum. Í staðinn fékk sköpunarkyndill meistarans að upphefjast og endurtendrast í sinni tærustu mynd fyrir sam- stillta frumlega mótun, ekki sízt í slyngri dýnamík, sem bar með sér að yfir verkefninu hafi verið legið og úr því unnið eftir markvissu leiðarljósi. Það er segin saga, að þegar tíminn virðist æða úr stað í jafnlöngu verki og þessu, þá hljóta túlkendur að hafa gert eitthvað rétt. Enda var bravóað að leiks- lokum, og hefðu hlustendur að ósekju mátt rísa úr sætum í virð- ingarskyni. Strengjasextettinn úr síðustu óperu Richards Strauss, Capriccio (1941) þykir nógu burðugur til að vera leikinn einn sér á kamm- ertónleikum þótt aðeins einþættur sé (um 11 mín.) Hann slær mann samt varla sem sjálfstætt kamm- ermeistaraverk, enda ekki hugs- aður til einlífis utan óperusviðsins, en naut sín samt vel í þokkafullum flutningi allra sexmenninganna. Þaðan af síður var Es-dúr Kvint- ett Dvoráks frá Ameríkudvölinni (1893) hálfdrættingur á við Schu- bert, þótt gustað gæti af flutningi, einkum í II. þætti og fínalnum (IV). 1. fiðlan var þó stundum heldur óhrein á toppnótusviðinu, og sellóið vildi æða fram úr félög- unum í tremólókafla sínum í III. Hitt var engum um að kenna nema höfundi hvað tjúlli- rallireiskulegt aðalstef lokaþáttar er fram úr hófi rislágt. Stóð því langsamlega hæst upp úr heildinni mögnuð frammistaðan í Schubert- kvintettinum. En hún nægði líka til að tryggja eftirminnilegt kammerkvöld. Endurtendraður kyndill TÓNLIST Bústaðakirkja Schubert: Strengjakvintett í C.* R. Strauss: Strengjasextett úr „Capriccio“. Dvorák: Strengjakvintett í Es B180**. Guðný Guðmundsdóttir og Sigurbjörn Bernharðsson fiðla, James Dunham* og Ásdís Valdimarsdóttir** víóla og Nina Flyer og Gunnar Kvaran* selló. Sunnu- daginn 18. september kl. 20. Kammertónleikar Ríkarður Ö. Pálsson Morgunblaðið/Ásdís Bústaðakirkja er fastaheimili Kammermúsíkklúbbsins.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.