Morgunblaðið - 20.09.2005, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 20.09.2005, Blaðsíða 4
4 ÞRIÐJUDAGUR 20. SEPTEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ FRÉTTIR MANNANAFNANEFND hefur endurskoðað fyrri ákvörðun um að hafna kvenmannsnafninu Eleonora. Nefndin telur í nýjum úrskurði rétt að nafnið njóti vafans og að það verði skráð í mannanafnaskrá. Samkvæmt lögum um mannanöfn skal nafn ritað í samræmi við al- mennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Í fyrri úrskurðum mannanafnanefnd- ar telst rithátturinn Eleonora (í stað Eleonóra) ekki vera í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. „Við mat á hefð hefur nefndin stuðst við vinnulagsreglur samþykktar á fundi 1. júlí 2004 og uppfyllir rithátt- urinn Eleonora ekki ákvæði 1. liðs a, b, c í vinnulagsreglunum. Sam- kvæmt útgefnum upplýsingum úr manntali 1910 kemur rithátturinn Eleonora ekki fyrir þar, heldur að- eins Eleónóra, en ritháttur í mann- talinu 1910 og eldri gögnum er um margt óáreiðanlegur, einkum er varðar notkun broddstafa. Með tilliti til þess þykir rétt að láta úrskurð- arbeiðanda njóta þess vafa sem ríkir um rithátt nafnsins í þessum gögn- um,“ segir í úrskurðinum. Samþykkti að lokum nafnið Eleonora ÍSLENSKU framrásarfyrirtækin ættu að taka höndum saman og verja orðstír íslensks viðskiptaumhverfs og koma þannig í veg fyrir að þau hitamál sem nú eru uppi skaði meira en orðið er. Þetta kom fram í ræðu Björgólfs Guðmundssonar, formanns bankaráðs Landsbanka Íslands, sem hann hélt við stofnun dótturfélags bankans, Lex Life, í Luxemburg á sl. föstudag. Í ræðu sinni sagði Björgólfur ábyrgðarlaust að ætla að velgengni fyrirtækja á íslenskum fjármála- markaði á undanförnum árum ríkti um ókomna framtíð. Sagði hann mik- ilvægt að hlúa vel að því sem vaxið hefur á síðustu árum og tryggja áframhaldandi velgengni með að- haldssemi í rekstri og útsjónarsemi í fjárfestingum og vexti. Hann sagði langtímahagsmuni ís- lenskra fyrirtækja liggja í tiltrú hins alþjóðlega viðskiptaheims á ís- lenskan efnahag, trú hans á íslensk fyrirtæki og trausti á íslenskt við- skiptaumhverfi. „Það er mikið hags- munamál okkar allra að íslensku framrásarfyrirtækin taki höndum saman og verji orðstírinn og komi í veg fyrir að þau hitamál sem nú eru uppi skaði íslenskt viðskiptaumhverfi meira en orðið er. Enginn íslenskur aðili hefur, þegar til framtíðar er horft, hag af því að draga í efa ágæti íslenskra stofnana og eftirlitsaðila því þar með er höggvið að rótum alþjóðlegrar tilveru okkar, sem bygg- ist á trausti og trúverðugleika. Þá er ekki síður mikilvægt að ís- lenskar valda- og eftirlitsstofnanir valdi hlutverki sínu og hafi fullan skilning á eðli nútíma viðskiptahátta. Smæð okkar samfélags og persónu- leg nálægð má ekki setja svip sinn á störf opinberra aðila heima á Íslandi. Stofnanir, sem hafa nú á tímum í hendi sér gífurlega hagsmuni fyrir- tækja og einstaklinga sem ná langt út fyrir strendur okkar ágæta lands, verða alltaf að vera hafnar yfir öfund og flokkadrætti,“ sagði Björgólfur. Helmingur tekna verði af starfsemi erlendis Sagði Björgólfur að á þeim tveim- ur árum sem liðin eru frá því að Landsbankinn komst úr forsjá ríkis í hendur einkaaðila hefði verið sótt stíft inn á alþjóðamarkað. Nú þegar væru meira en 25% tekna bankans af erlendri starfsemi og um þriðjungur útlána til aðila utan Íslands. Stefnt væri að því að árið 2007 yrði helm- ingur af tekjum bankans af starfsemi erlendis. Á tímabilinu hefði gengi hlutabréfa í bankanum hækkað úr 2 í 21 og markaðsverðmæti hans aukist úr um 25 milljörðum króna í nærri 190 millj- arða. Rækilega hefði verið þaggað niður í þeim röddum sem gagnrýndu hvað mest einkavæðingu bankanna og spáðu lokunum útibúa og fjölda- uppsögnum. Raunin væri aftur á móti sú að starfsemi hefði aukist, starfsmönnum fjölgað og bankinn nyti trausts meðal almennings á Ís- landi. Björgólfur Guðmundsson vill efla tiltrú og traust á íslensku viðskiptalífi Framrásarfyrirtækin taki höndum saman Morgunblaðið/Þorkell „Stofnanir, sem hafa nú á tímum í hendi sér gífurlega hagsmuni fyrirtækja og einstaklinga sem ná langt út fyrir strendur okkar ágæta lands, verða alltaf að vera hafnar yfir öfund og flokkadrætti.“ Eftir Helga Mar Árnason hema@mbl.is FLUGSVEIT Harrier-flugvéla breska flughersins sem hafði við- dvöl hér í Reykjavík yfir helgina hélt brott frá Reykjavíkurflugvelli í gær. Að ósk foringja bresku flug- sveitarinnar lentu vélarnar á Reykjavíkurflugvelli vegna þess hve lágskýjað var á Keflavíkur- flugvelli á föstudag. Þorgeir Pálsson, flugmálastjóri, segir að herflugvélar séu ekki endi- lega eins vel búnar til blindflugs og farþegavélar, sem geti lent þó skýjahæð sé ekki nema 100 fet. Skýjahæð mun hafa verið 350 fet í Keflavík á föstudaginn var þegar vélarnar komu til lendingar, en talsvert meiri hér í Reykjavík. Morgunblaðið/RAX Harrier-vélarnar farnar HÆSTIRÉTTUR hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Austurlands um að karlmaður frá Litháen, sem grunaður er um að hafa reynt að smygla miklu magni af fíkniefnum hingað til lands, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 21. október. Mað- urinn var handtekinn ásamt öðrum litháískum karlmanni í júní. Sá situr einnig í gæsluvarðhaldi. Ákæra hefur verið gefin út á hendur mönnunum tveimur en þeim er gefið að sök, að hafa í hagn- aðarskyni flutt til landsins tæplega fjögur kíló af metamfetamíni. Mennirnir voru handteknir á Seyðisfirði 30. júní sl. þegar þeir komu hingað til lands með Nor- rænu. Við leit í bíl mannanna kom í ljós mikið magn fíkniefna er reynd- ust vera 3.968,80 g af metamfeta- míni. Áfram í gæslu- varðhaldi ♦♦♦ FLUTNINGASKIPIÐ Haukur lagðist að nýju landfyllingunni við höfnina á Bíldudal síðdegis í gær til að lesta kalkþörung, eða „Bíldu- dalsgullið“ eins og hann er nú kall- aður meðal heimamanna, til prufu- vinnslu í Írlandi. Haugurinn sem sanddæluskipið Perlan hefur dælt á land utan af Langanesgrunni í Arn- arfirði er um 5.000 tonn og fer helmingur í skip nú. Eigendur námaréttindanna, Björgun ehf. og írska félagið Celtic Minerals, hyggjast byggja verk- smiðju á Bíldudal innan skamms og hafa gert skuldbindandi samning þar um en þessir tveir farmar sem nú verða sendir til Írlands eru til- raunaverkefni til að kanna enn frekar samsetningu og mögulega úrvinnslu á kalkþörungnum í Arn- arfirði. Magnið af þörungi í firð- inum er ekki fullkannað en fullvíst er að um óhemju magn er að ræða sem dugar til margra áratuga vinnslu. Morgunblaðið/Kristinn Benediktsson Haugurinn sem dælt hefur verið á land er um 5.000 tonn og fer helm- ingur nú í skip. „Bíldudalsgull- ið“ til Írlands ÍSLAND er í fyrsta sæti í les- endakönnun bresku dagblað- anna Guardian og Observer yf- ir vinsælasta ferðamannalandið og Icelandair var valið fjórða besta flugfélagið á styttri vega- lengdum. Í frétt frá Icelandair kemur fram að þetta sé mikil viður- kenning fyrir markaðsstarf fé- lagsins, en það hafi staðið fyrir landkynningu í Bretlandi lengi. Þetta staðfesti árangur í þeim efnum og skapi jafnframt ný tækifæri. Undanfarin þrjú ár hafi félagið verið í einu af þrem- ur efstu sætunum, auk þess sem það sé nú í fjórða sæti yfir bestu félögin en hafi verið í fjórtánda sæti í fyrra. Næsta vor mun félagið bæta við nýjum áfangastað í Bret- landi, Manchester, og mun þá fljúga tuttugu og eina ferð á viku frá Bretlandi til Íslands. Ísland í fyrsta sæti UNDIRSKRIFTASÖFNUN fyrir því að fá tvenn jarðgöng á norðanverðum Vestfjörðum hefur verið í gangi á vefsíðunni www.vikari.is. Pálína Vagnsdóttir fór af stað með söfnunina og í gær voru hátt í 1.400 manns búnir að skrá nafn sitt og kennitölu. Pálína segir við Morg- unblaðið að ávallt í kjölfar atvika eins og í Óshlíð um helgina, þegar stórir hnullungar féllu á veg- inn, komi kippur í söfnunina. Á vefnum er yfirskriftin „Við viljum jarðgöng“ og þar er skorað á stjórnvöld að setja jarðgöngin á vegaáætlun. Bent er á að samgöngur séu for- senda eflingar atvinnulífs, menntunar, menning- ar og landssvæða. Skorað er á stjórnvöld að beita sér fyrir gerð jarðganga annars vegar frá Bol- ungarvík til Ísafjarðar, þ.e. úr Syðridal í Vest- fjarðagöngin sem fyrir eru, og hins vegar frá Súðavík til Ísafjarðar við flugvöllinn. Pálína segir að almenningur á Vestfjörðum muni ekki ákveða hvort, hvenær eða hvar jarð- göngin komi. Vonast hún jafnframt til þess að forráðamenn sveitarfélaganna á norðanverðum Vestfjörðum muni ljá nöfn sín á undirskriftalist- ann. Pálína segist ekki vilja sjá neinar skyndilausn- ir í samgöngubótum, brýn þörf sé á framtíð- arlausnum. „Maðurinn minn keyrir daglega um Óshlíðina og mér er hreint ekki sama. Þetta er í raun bara tifandi tímasprengja,“ segir Pálína, sem hvetur ekki aðeins Vestfirðinga til að setja nöfn sín á listann heldur einnig ferðamenn um allt land, sem heimsótt hafa Bolvíkinga og Ísfirðinga. Samgöngubætur séu fyrir alla sem á svæðið koma, hvort sem það eru heimamenn eða ferða- menn. Safna áskorunum um jarðgöng á Vestfjörðum Pálína Vagnsdóttir vill ekki neinar skyndilausnir.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.