Fréttablaðið - 16.10.2004, Síða 39
LAUGARDAGUR 16. október 2004
Banvænn
rafstraumur
HVERNIG DREPUR RAF-
STRAUMUR LIFANDI VEF?
SVAR: Rafstraumur getur valdið
minniháttar skaða í lifandi vefj-
um en einnig verið banvænn. Þeg-
ar straumur hleypur gegnum lík-
amann myndast hiti og staðbund-
in skemmd verður í vefjum sem
er í raun brunadrep. Raflost, það
er að segja mikill straumur í
snöggu höggi af völdum há-
spennu, getur líka orðið mönnum
að fjörtjóni. Hvort heldur um er
að ræða aftöku í rafmagnsstóln-
um, lost af eldingu eða rafstuð úr
leiðslu eða biluðu rafmagnstæki
er það rafstraumurinn eftir lík-
amsvefjunum sem veldur skaðan-
um og getur leitt til dauða við
ákveðin skilyrði. Til þess að svo
verði þarf líkaminn að verða hluti
straumrásar úr leiðara í leiðara
eða í jörð. Þetta er útskýrt frekar
á Vísindavefnum í svari við
spurningunni Hvers vegna geta
fuglar setið á háspennuvír án þess
að fá raflost?
Rök húð - meiri skaði
Rafstraumsskaði í vefjum verður
með ýmsum tilbrigðum eftir
kringumstæðum. Skaðinn ræðst
einkum af straumstyrk, stærð
snertiflatar, eðli straumsins (rið-
straumur eða jafnstraumur),
lengd tímans sem straumurinn
varir og leið hans gegnum lík-
amann. Straumstyrkurinn ákvarð-
ast síðan af spennunni milli stað-
anna þar sem straumurinn fer inn
í líkamann og út úr honum. Ólík-
legt er að spenna sem er minni en
um það bil 20 volt valdi skemmd-
um en 220 voltin sem algeng eru í
húsum geta valdið skaða. Ekki er
þó alveg sama hver spennugjaf-
inn er því að straumurinn verður
mestur ef innra viðnám hans er
lítið eins og yfirleitt er í spennu-
gjöfum sem ætlað er að skila
miklu afli eða afköstum. Einnig
verður straumurinn meiri ef húð-
in er rök því að þá verður hann
fyrir minna viðnámi á leið sinni
inn í húðina og út úr henni.
Riðstraumur er skaðlegri en
jafnstraumur
Tvær ástæður eru einkum til þess
að riðstraumur er skaðlegri en
jafnstraumur miðað við sömu
spennu, og byggjast báðar á því að
í riðstraumnum sveiflast raf-
hleðslan fram og aftur í stað þess
að berast stöðugt í sömu átt. Í
fyrsta lagi getur riðstraumurinn
inni í líkamanum orðið meiri en
ella af því að rafhleðslur myndast
á víxl innan við húðina í stað þess
að fara gegnum hana. Í öðru lagi
hafa sveiflur riðstraumsins meiri
truflandi áhrif á taugaboð og
heilastarfsemi en jafnstraumur.
Straumurinn hefur brunaáhrif
á líffæri sem hitna við það að taka
við varmaorkunni á sama hátt og
ýmsir hlutir í umhverfi okkar
hitna þegar rafstraumur fer um
þá. Mesta hættan tengist þó því að
starfsemi lífsnauðsynlegra vefja
byggist á rafvirkni, það er að
segja einhvers konar rafstraumi
eða rafboðum. Þetta á meðal ann-
ars við um taugavef og hjarta-
vöðva, sem geta truflast af fram-
andi rafstraumi, og stöðvun á
starfsemi þeirra valdið dauða.
Þetta á ekki síst við um riðstraum
eins og áður er sagt. Ef um há-
spennu er að ræða (til dæmis
meiri en 1.000 volt) getur straum-
urinn haft áhrif á heilastarfsemi
og valdið öndunarlömun. Raf-
straumur sem leiðir eftir hand-
legg í brjóstkassann á leið niður
eftir ganglim og í jörð getur trufl-
að hjartað og valdið hjartsláttaró-
reglu og leitt þannig til dauða.
Vefjaskemmdir af völdum hita
Skaðinn þar sem rafstraumurinn
fer í gegnum hörund sést sem grá-
hvítir blettir á yfirborði húðarinn-
ar og einnig vottar fyrir roða.
Fölvinn er vegna æðaskemmdar
sem orðið hefur við hitamyndun
þegar straumurinn fór gegnum
húðina. Í húðinni mætir hann yfir-
leitt mestu viðnámi á leið sinni og
þess vegna myndast þar mestur
varmi og hitun verður mest. Nán-
ar tiltekið verða vefjaskemmdir
af völdum hita af því að eggja-
hvítuefnin sem eru meginuppi-
staðan í frumum líkamans hlaupa
í kökk í stað þess að vera í upp-
lausn í fryminu. Frumurnar sem
þannig skemmast deyja og mynda
skorpu sem hreytist af eftir
nokkurn tíma. Eftir situr sár sem
getur leitt til óásjálegrar örmynd-
unar sem kallar á lýtaaðgerðir ef
sárið er til dæmis í andliti. För
rafstraums í blóðríkum vefjum
undir húðinni er hins vegar greið
og skemmdir þar eru fátíðar
nema við mikinn straumstyrk.
Rafmagnsslys eru fátíð
Miðað við hina miklu notkun raf-
magns í lífi okkar og starfi verða
slys af völdum þess að teljast
blessunarlega fátíð. Rafmagns-
slys verða oftast á vinnustöðum
og heimilum en hér á landi hafa
ekki orðið dauðsföll vegna elding-
ar sem slær niður þótt slíkt sé vel
þekkt í nágrannalöndum okkar.
Sérstaklega er ástæða til þess
að vara við því að börn stingi „raf-
magnsgjafa“ í munn sér. Rök og
þunn þekja varanna er góður leið-
ari og rafbruni getur orðið um-
talsverður með örvefsmyndun. Af
þessum ástæðum er sérstök
ástæða til að fara varlega með
rafmagn í umhverfi barna.
Gunnlaugur Geirsson, prófessor í
réttarlæknisfræði við HÍ.
Vísindavefurinn þakkar eðlisfræð-
ingunum Þorsteini Vilhjálmssyni
og Ara Ólafssyni yfirlestur og góð-
ar ábendingar.
VÍSINDAVEFUR
HÁSKÓLA ÍSLANDS
Á Vísindavef Háskóla Íslands er að finna svör við fjölmörgum spurningum um raf-
magn og efni tengt því, meðal annars: Hvað er rafmagn, hvernig framleiðir hrökkáll
rafmagn, er hægt að breyta örbylgjum í rafmagn og hvers vegna fær maður stund-
um straum þegar stigið er út úr bíl í frosti? Hægt er að lesa svörin við þessum
spurningum og fjölmörgum öðrum með því að setja efnisorð í leitarvél vefsins á
slóðinni www.visindavefur.hi.is.
ELDING Í nágrannalöndum okkar er það vel þekkt að dauðsföll geti orðið vegna eldingar
sem slær niður.