Fréttablaðið - 02.12.2005, Síða 32
2. desember 2005 FÖSTUDAGUR32
KÍNA Nú er ljóst að yfir 160 verka-
menn biðu bana í Dongfeng-kola-
námunni nærri borginni Qitaihe í
Heilongjiang í norðaustanverðu
Kína á sunnudaginn þegar neisti
hljóp í kolaryk með þeim afleið-
ingum að mikil sprenging varð
djúpt ofan í dimmri og þröngri
námunni. Þetta slys er ekkert
einsdæmi því á hverju ári bíða
yfir fimm þúsund verkamenn
bana í kínverskum námum.
Zhang Xianzhe kom úr fjöl-
skyldu sem hefur haft lifibrauð
sitt af námagreftri í margar
kynslóðir. Þrátt fyrir að vera
aðeins 23 ára gamall hafði hann
stritað í Dongfeng-námunni í
sjö ár fyrir rúmar tíu þúsund
krónur á mánuði. Á þriðjudag-
inn voru fjölskyldu hans færð
tíðindin um að Zhang hefði verið
á meðal þeirra sem týndu lífi í
sprengingunni.
„Það er ekkert sem við getum
gert,“ sagði Zhang Yaowu, faðir
hans, sjálfur fyrrverandi náma-
verkamaður, kaldri röddu í sam-
tali við fréttamann AP-frétta-
stofunnar. „Við verðum að vinna
og vinnan er hættuleg. Lífið
heldur áfram.“ Xianchen, bróð-
ur Zhangs, var hins vegar heit-
ara í hamsi. „Ég get ekki lýst því
hvernig mér líður.“
Námuslys kostuðu á síðasta
ári yfir sex þúsund mannslíf, eða
sextán á dag, og þetta ár virð-
ist ætla að taka svipaðan toll.
Félagasamtök frá Hong Kong
sem berjast fyrir bættum aðbún-
aði verkamanna telja að bana-
slysum í námum fari fjölgandi
með hverju árinu. Gögn þeirra
benda til að sjö af þeim níu námu-
slysum sem fleiri en hundrað
hafa farist í frá 1949 hafi orðið á
síðustu fimm árum. Þannig fór-
ust 214 verkamenn í sprengingu í
febrúar síðastliðnum í Liaoning-
héraði.
Flest slysin verða í litlum
námum sem oft og tíðum hafa
ekki tilskilin starfsleyfi. Örygg-
istilskipanir eru sjaldnast í
hávegum hafðar og loftræsting
og brunavarnir eru yfirleitt með
slælegra móti. Enda þótt kínversk
stjórnvöld hafi lokað yfir 12.000
námum á þessu ári, stórhert eftir-
lit og hert refsingar þeirra sem
hundsa tilmæli um bætt öryggi
virðist lítið breytast. Efnahags-
uppgangur síðustu ára kallar á
stóraukna orkuframleiðslu og því
hefur hagkerfið heldur ekki efni
á að halda námunum lengi lok-
uðum eða láta fylgja eftirlitinu
fast eftir. „Kínverskir kolanámu-
menn greiða með blóði sínu til að
Kína geti sýnt fram á átta pró-
senta hagvöxt,“ segir í skýrslu
samtakanna frá Hong Kong. „Það
er of grimmilegt og of hátt verð
að greiða.“
Rétt eins og ummæli föður
Zhangs að ofan sýna eru margir
Kínverjar vonlitlir um að nokk-
uð muni breytast. „Þetta land er
óréttlátt,“ er dómur frænku hans.
Aðrir í herberginu sem viðtalið
við hana fer fram í segja henni að
gæta sín, slíkt geti verið hættu-
legt að segja í viðurvist erlends
blaðamanns.
sveinng@frettabladid.is
Sorgin sækir
Qitaihe heim
Að minnsta kosti 161 verkamaður fórst í námuslysi í
Qitaihe í Kína í vikunni. Hver og einn þeirra á fjöl-
skyldu og vini sem syrgja þá meira en orð fá lýst.
MANNLEGUR HARMLEIKUR Ættingi eins verkamannanna frá Qitaihe brestur í grát þegar hún heyrir um örlög ástvinar síns. Slys á fjarlægum slóðum eru oft meðhöndluð eins og hver önnur tölfræði í vestrænum fjölmiðlum. Á bak við
hvert einasta dauðsfall eru hins vegar manneskjur sem verða aldrei samar eftir að ógæfan hefur dunið yfir. NORDICPHOTOS/AFP
550 5000
AUGLÝSINGASÍMI