Fréttablaðið - 24.02.2006, Blaðsíða 57
KVIKMYNDIR
[UMFJÖLLUN]
Íslenskur hversdagsleiki hefur
ekki verið mikið til umfjöllunar í
íslenskum kvikmyndum. Þær
hafa frekar beint sjónum sínum
að kynlegum kvistum í þjóðlífinu.
Í kvikmyndinni Blóðböndum
kveður við annan tón því fjöl-
skyldan í næsta húsi er umfjöll-
unarefnið.
Hjónin Pétur og Ásta eru ákaf-
lega hamingjusöm. Hann er augn-
læknir og hún læknir. Þau eru
búin að koma sér vel fyrir í lífinu,
eiga glæsilegt hús, jeppa og tíu
ára gamlan son, Örn. Nýr fjöl-
skyldumeðlimur er á leiðinni og
hamingjan svífur yfir vötnunum.
Í knattspyrnuleik fellur sonurinn
í yfirlið og er fluttur á sjúkrahús.
Það sem í fyrstu virðast vera sak-
leysisleg blóðsýni reynast síðar
hafa alvarlegri afleiðingar. Hul-
unni er svipt af tíu ára gömlu
leyndarmáli: Örn er ekki sonur
Péturs.
Við þessi tíðindi hrynur tilvera
Péturs. Hann glatar öllu trausti
til eiginkonu sinnar og telur sig
hafa lifað í lygi síðastliðinn ára-
tug. Hann á erfitt með að horfast
í augu við staðreyndirnar og flyt-
ur á hótel til að átta sig. Hann
tekur upp ástarsamband við
Önnu, huggulega aðstoðarkonu
sína, sem er nánast helmingi
yngri, en þegar Ásta kemur til
hans með pappíra sem firra Pétur
allri ábyrgð verður honum ljóst
að Örn er mikilvægari en hans
eigið stolt.
Þegar hversdagsleikinn er við-
fangsefnið þarf gott handrit og
nánast óaðfinnanlegan leik. Hið
mannlega þarf að vera í for-
grunni og áhorfandinn verður að
geta samsamað sig söguþræði-
num og séð sjálfan sig í þeim
aðstæðum sem brugðið er upp á
hvíta tjaldinu. Það er því kannski
engin tilviljun að rangfeðrun
skuli vera umfjöllunarefnið í
Blóðböndum enda er það minni
sem hefur lifað lengi með okkur
Íslendingum.
Leikurinn í Blóðböndum er
mjög traustur og leikhópurinn
vel skipaður. Hilmar Jónsson
leikur Pétur en það er hálfgerð
synd að þessi mikli gæðaleikari
skuli ekki leika meira en raun ber
vitni. Margrét Vilhjálmsdóttir fer
létt með hlutverk Ástu og Elma
Lísa er skemmtileg sem hin
ákveðna systir Lilja. Laufey
Elíasdóttir leikur ástkonuna Önnu
og er samleikur þeirra Hilmars
mjög eðlilegur. Þá er Aron Brink
öruggur sem hinn tíu ára gamli
sonur. Senuþjófurinn er hins
vegar Ólafur Darri Ólafsson.
Hann er sannfærandi sem mágur
Péturs og sýnir sterkan leik sem
hinn óöruggi en góðhjartaði Börk-
ur. Allt útlit myndarinnar er með
besta móti, hljóðið skýrt og klipp-
ingar góðar. Kvikmyndataka
Tuomo Hutri er flott og þá verður
að minnast á tónlist Jóhanns
Jóhannssonar sem notuð er á hóg-
væran en réttan hátt.
Leikstjóranum Árna Ólafi
Ásgeirssyni tekst vel upp með
frumraun sinni og það verður
spennandi að fylgjast með honum
í framtíðinni. Myndin rúllar
áfram nokkuð örugglega en hand-
ritið er kannski full flatt og hefði
mátt krydda atburðarásina enn
frekar. Blóðbönd er hins vegar
fersk viðbót við íslenska kvik-
myndagerð vegna þess að hún
fjallar um venjulega Íslendinga,
fólkið í næsta húsi og þá erfið-
leika sem það glímir við. Fjöl-
skylduna sem við þekkjum öll.
Freyr Gígja Gunnarsson
BLÓÐBÖND
LEIKSTJÓRI: ÁRNI ÓLAFUR ÁSGEIRSSON
Aðalleikarar: Hilmar Jónsson, Margrét Vil-
hjálmsdóttir og Laufey Elíasdóttir
Niðurstaða: Blóðbönd er mynd um venjulega
Íslendinga, fjölskylduna sem við þekkjum
öll. Þrátt fyrir full bragðdauft handrit er
kvikmyndin mjög góð frumraun ungs leikstjóra
sem spennandi verður að fylgjast með í
framtíðinni.
Um fjölskylduna
sem við þekkjum öll
550 5000
AUGLÝSINGASÍMI