Fréttablaðið - 30.10.2007, Blaðsíða 32
fréttablaðið austurland 30. OKTÓBER 2007 ÞRIÐJUDAGUR10
Hátíðin Dagar myrkurs verður nú
haldin á Austurlandi í áttunda sinn.
Hátíðarhöldin standa yfir frá 8.-18.
nóvember um allt Austurland og kennir
þar ýmissa grasa.
„Upprunalega er þetta sameiginleg hug-
mynd ýmissa aðila á Austurlandi um að
lyfta upp skammdeginu með hátíðarhöldum.
Þetta hefur tekist það vel að hátíðin nær nú
frá Vopnafirði, yfir alla firðina, Fljótsdals-
hérað, Djúpavog og Breiðdalsvík og er þetta
í rauninni allt Austurland sem tekur þátt í
þessu,“ segir Ásta Hafberg, verkefnastjóri
á Markaðsstofu Austurlands, um hátíðina
Dagar myrkurs sem stendur frá 8. til 18.
nóvember. Dagskráin er afar fjölbreytt og
verða ýmsar uppákomur.
„Það er allt í gangi. Búðirnar eru með opið
lengur og ýmis tilboð í gangi, það verða alls
konar tónleikar, göngur, leikskólar og skólar
taka þátt og það er hellingur að gerast. Það
verða kertaljós og notalegheit í sundlaugun-
um, myrkrakvöld á kránum, ýmsar skemmt-
anir og svo framvegis,“ útskýrir Ásta, sem er
greinilega spennt fyrir hátíðinni.
„Markaðsstofa Austurlands hefur haldið
utan um skipulag hátíðarinnar sem er viða-
mikil en öllum er velkomið að vera með. Í
raun stendur þó allt Austurland fyrir hátíð-
inni,“ segir Ásta og er það undir hverjum og
einum komið hvort hann vilji vera með.
Hátíðin er orðin fastur liður á Austurlandi
og er líka til þess gerð að lengja ferðamanna-
tímann. Flugfélagið hefur til að mynda verið
með tilboð í sambandi við Daga myrkurs.
Erfitt er að telja upp alla dagskrárliði þar
sem dagskráin er afar viðamikil. Ásta nefnir
þó nokkur atriði sem dæmi:
„Á Dögum myrkurs hefur alltaf verið bíla-
bíó á Eskifirði og hefur það fallið vel í kram-
ið. Á Djúpavogi er síðan svokölluð Sviða-
messa sem er ákaflega skemmtileg. Hún
byggist á hinni gömlu hefð sem tengist Allra
heilagra messu en þá var boðið upp á svið til
hátíðarbrigða eftir messu og hefur nafninu
nú verið breytt í Sviðamessu. Þá eru í boði
sviðahausar og -lappir og fyrir þá sem þora
ekki eru pitsur. Það er aðeins búið að poppa
þetta upp og fólk mætir í búningum og það
er mikil hrekkjavökustemning,“ útskýrir
Ásta kímin og segir hlæjandi að þegar svona
uppákomur séu úti á landi þá taki allir þátt í
því og fríki út þegar þeir fá loks tækifæri til.
Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á
www.east.is. hrefna@frettabladid.is
Fríkað út á
landsbyggðinni
Kertafleytingar við Voginn.
Ekki stóð öllum á sama þegar draugar fóru á stjá í
hinu árlega Faðirvorhlaupi í Skógræktinni. Nafnið á
hlaupinu er tilkomið vegna þess að Stefán Jónsson
heitinn, rithöfundur og alþingismaður, sagði frá
því að sem unglingur hefði hann hlaupið í myrkri
frá bænum Teigarhorni heim að Rjóðri á þremur
faðirvorum en Stefán var mjög myrkfælinn.
Lugtir lýsa upp myrkrið á Afturgöngunni á Seyðisfirði.
Gestir ylja sér við Ástareldinn á Mjóeyri á Eskifirði.
Bílabíóið á Mjóeyri á Eskifirði nýtur mikilla vin-
sælda á hátíðinni.