Fréttablaðið - 25.07.2008, Page 46
22 25. júlí 2008 FÖSTUDAGUR
UMRÆÐAN
Kári Stefánsson
skrifar um hesta-
mennsku
Íslenski hesturinn er sérstakur um margt
fleira en fegurð og
fjölbreyttan gang.
Hann hefur til dæmis
lagt töluvert að mörk-
um til sögu Íslendinga og hefur
þar leikið hlutverk hins óræða
afls sem enginn skilur til fulln-
ustu. Til dæmis, hvaðan kom
þessi hestur til landsins? Hann á
engan sinn líkan hvorki í Noregi
né annars staðar í Skandinavíu.
Hvaðan fékk hann allar þessar
gangtegundir?
Sagan segir að íslenskar konur
hafi í gegnum tíðina verið hallar
undir franska sjómenn og síðar
ameríska hermenn og hafi á
þann hátt aukið á fjölbreytni
meðal íslenskrar þjóðar. Ekki vil
ég leggja dóm á sannleiksgildi
þessara sagna en eitt er víst að
við íslenskir karlmenn höfum
aldrei staðist samanburð við
íslenskar konur svo það væri
skiljanlegt, ef rétt reyndist, að
þær hafi leitað sér fanga annars
staðar.
Svo eru það þeir sem halda því
fram að íslenskar hryssur hafi
fylgt fordæmi íslenskra kvenna
og hafi fallið fyrir nykrum sem
eiga það til að ganga á land í
skjóli nætur og að ýmsir eigin-
leikar íslenska hestsins séu frá
þeim komnir. Þessari kenningu
til stuðnings er svo gjarnan bent
á að skeiðið sem er sérstakast
gangtegunda íslenska hestsins
sé vel til þess fallið að ferðast á
því um hafsbotninn umhverfis
landið á mikilli ferð.
Ég er einn af tugþúsundum
Íslendinga sem eiga hross. Ég er
að vísu nýbúi í heimi hesta-
manna, innflytjandi sem sté á
land fyrir fjórum árum eða rétt
eftir Landsmót hestamanna árið
2004.
Ég keypti mér nokkrar góðar
hryssur af því að mig langar til
þess að leggja að mörkum til
ræktunar stofnsins. Síðan keypti
ég Guðna frá Heiðarbrún sem er
búinn að ferja mig víða en nú
orðinn fótafúinn fyrir aldur
fram og Sprota frá Ketu sem er
glæsilegastur íslenskra hrossa
en ekki jafn flinkur og hann er
fallegur. Síðast en ekki síst
keypti ég Stakk frá Halldórs-
stöðum sem hafði heillað marg-
an áhorfandann á Landsmóti
2004, afburða alhliða hest með
magnaða útgeislun og kraft sem
á sér engan líkan. Ég keypti
Stakk af Páli Bjarka Pálssyni á
Flugumýri í Skagafirði, sem
hafði keypt hann af Magnúsi B.
Magnússyni sem einnig bjó í
Skagafirði en var að flytja suður
en hann hafði hins vegar keypt
Stakk af Bjarna bónda á Hall-
dórsstöðum en Stakkur er honum
fæddur. Stakkur er undan Fána
frá Hafsteinsstöðum sem varð
fyrir því óláni að vera fluttur til
Þýskalands fyrir allnokkru en
hann er undan Feyki frá sama
bæ sem var undan Rauði 618
sem var skotinn á færi út í haga.
Þegar ég keypti Stakk var
hann orðinn frægur af kostum
sínum og hafði unnið marga góða
sigra og þótti hesta líklegastur
til þess að vinna marga í viðbót.
Ég get því ekki haldið því fram
að ég hafi séð í Stakki eitthvað
sem duldist öðrum og hafi á þann
hátt sýnt að ég væri með næmt
auga fyrir hrossum. Ég var það
ekki þá og er það litlu frekar
núna. Ég átti bara svolítinn pen-
ing og keypti hest sem aðrir
höfðu sýnt að væri stórkostleg-
ur.
Ári síðar tókst samvinna milli
mín og Sigurbjörns Bárðarsonar
um Stakk. Í þeirri samvinnu
hefur það verið hlutverk Sigur-
björns að þjálfa Stakk og keppa
á honum, mitt hefur verið að
dást að þeim báðum.
Sigurbjörn er mesti
knapi sem uppi hefur
verið á þessu landi og
einn afkastamesti
íþróttamaður sem
þjóðin hefur átt. Hann
er 56 ára að aldri og
gæti þess vegna verið
afi sumra þeirra knapa
sem hann etur kappi
við þessa dagana.
Hann keppir meira en
flestir knapar landsins og það
heyrir til undantekninga þegar
hann blandar sér ekki í toppbar-
áttuna á þeim mótum sem hann
tekur þátt í. Hann er hins vegar
býsna harður keppnismaður og
gefur aldrei neitt eftir og er því
ekki endilega vinsælastur manna
meðal þeirra sem hann hefur
unnið hvað eftir annað í gegnum
tíðina.
Það tókst fljótlega gott sam-
band milli Stakks og Sigurbjörns
sem markaðist frekar af gagn-
kvæmri virðingu og dálítilli fjar-
lægð en kjassi og faðmlögum.
Þeir eru ótrúlega líkir félagarn-
ir, rauðir á hár og hvítir í framan
og báðir stríðin ólíkindatól. Þeir
hafa keppt mikið saman og unnið
margt en alls ekki allt en alltaf
hefur það verið ljóst að Stakkur
sé afburða gæðingur með brokk
sem er óvanalegt fyrir spyrnu
sakir, svifs og hraða. Hann er
flugvakur og með glæsilegt
skeiðsnið. Töltið er silkimjúkt og
fjaðurmagnað, skrefstórt og
rúmt, var alltaf frábært og hefur
batnað töluvert á síðustu tveim-
ur árum. Stundum hafa mér
fundist dómarar á mótum vera
nokkur nískir á tölur fyrir Stakk
en því hefur ekki verið fyrir að
fara upp á síðkastið.
Stakkur er hestur einrænn,
blandar lítt geði við önnur hross
eða menn. Hann er góður í hross-
um en lætur engan stjórna sér.
Hann fer ávallt síðastur í rekstri.
Hann er fyrst og fremst villidýr
sem leyfir okkur að bregða upp í
sig beisli og leggja á sig hnakk
svo fremi að það sé ljóst að þótt
hann hafi uppi í sér beisli sé
hann óbeislaður. Þess vegna er
eins gott að ríða honum nokkuð
frjálsum.
Nú veit ég auðvitað ekki hvort
Sigurbjörn sé sammála þessari
lýsingu en einhvern veginn hef
ég það á tilfinningunni að þeirra
samband sé samkomulag jafn-
ingja frekar en að annar ráði
yfir hinum. Þeir eru báðir harðir
í keppni og allt öðruvísi í keppni
en utan, ótrúlega hæfileikaríkir
og gefast aldrei upp.
Víkur nú að ástæðu þess að ég
skrifaði þennan pistil.
Við Sigurbjörn höfðum stefnt
að því í þrjú ár að fara með Stakk
á Landsmót í ár og það stóð
aldrei annað til en að vinna A-
flokkinn. Sigurbjörn þjálfaði
Stakk af mikilli kostgæfni og ég
held að það láti nærri að hann
hafi eytt í það 800 klukkustund-
um.
Þegar kom að úrtökumóti fyrir
Landsmót hjá Fáki í vor var
Stakkur í góðu formi og vann A-
flokkinn. Í öðru sæti var hins
vegar Aris frá Akureyri undan
Gruni frá Oddhóli í eigu Sigur-
björns, setinn af Árna Birni Páls-
syni, tengdasyni Sigurbjörns.
Það má ekki gleyma því að Grun-
ur er hesturinn sem Sigurbjörn
vann á Landsmót í tölti árið 2006.
Í þriðja sæti var Kolskeggur frá
Oddhóli, einnig í eigu Sigurbjörns
og setinn af syni hans Steinari.
Þetta voru svo sannarlega glæsi-
leg úrslit fyrir Sigurbjörn, hann
reið Stakki til sigurs og átti hest-
ana í öðru og þriðja sæti og sá
síðari var úr hans eigin ræktun.
Og síðan kom Landsmótið.
Kolskeggur með Sigurbjörn á
baki og Aris með Árna Björn
flugu inn í A-úrslit með hæstu og
næst hæstu einkunnir. Eitthvað
tókst illa til með Stakk í milliriðli
og hann lenti í B-úrslitum. Sigur-
björn reið frábæra sýningu á
Stakki í B-úrslitum og sigraði þau
með hæstu einkunn sem gefin
var í A-flokki á þessu Landsmóti.
Stakkur var betri en ég hef áður
séð hann.
Þar af leiðandi var hann búinn
að vinna sér sæti í A-úrslitum.
Það sem upphófst í lífi okkar Sig-
urbjörns að loknum B-úrslitum
voru fjölmargar samræður okkar
á milli um það hvernig við ættum
að leysa þann vanda sem fólst í
því að hann væri með tvo hesta í
úrslitunum og að okkar mati á
þeim tíma, þá tvo bestu. Þessar
samræður mörkuðust af óskýr-
um skilaboðum þar sem hvorug-
ur tjáði hug sinn fyllilega af tillit-
semi við hinn. Og þetta endaði
með því að Stakkur var skráður
úr keppni sem var slys því hann
átti það skilið að fá að spreyta
sig. Áhorfendur á Landsmótinu
áttu það líka skilið að fá að sjá
hann keppa til úrslita og meiri
hluti þeirra var líklega á þeirri
skoðun að hann hefði unnið. Við
Sigurbjörn erum í það minnsta
vissir um að hann hefði gert það
þótt Árni Björn sé á annarri skoð-
un og hafi fullan rétt til þess að
hlæja að okkur gömlu mönnun-
um.
Það er mikilvægt að gera sér
grein fyrir því að það skráir eng-
inn hest úr svona keppni nema
eigandinn eða einhver í hans
umboði. Þess vegna ber þeim
sem eru svekktir út af því að
Stakkur var dreginn úr keppni að
beina reiði sinni og gagnrýni að
mér. Ég get meira að segja fallist
á að það ættu að vera lög í þessu
landi sem bönnuðu mönnum eins
og mér að eiga gæðinga eins og
Stakk.
Þegar upp var staðið og búið
var að draga Stakk út úr keppn-
inni sá ég eftir því og brást við
því með því að álasa Sigurbirni
sem var barnalegt, heimskulegt
og rangt. Ég bar óskipta ábyrgð á
þessu öllu saman. Ég gekk meira
að segja svo langt að segja við
mann sem stóð við hliðina á mér í
brekkunni að ég óskaði þess að
Sigurbjörn missti skeifu undan
Kolskeggi í úrslitunum og yrði
síðastur. Ég skammast mín fyrir
þetta og á langt í land með að
fyrir gefa mér fyrir það því í
fyrsta lagi er Sigurbjörn vinur
minn og á mína bók á hann alltaf
að vinna þegar hann keppir og í
annan stað er Kolskeggur aldeilis
frábær gæðingur, þótt ég sé á
þeirri skoðun að Sigurbjörn hafi
riðið röngum hesti í úrslitunum.
En svona fór þetta, við Sigur-
björn brugðumst Stakki og áhorf-
endum á Landsmóti og ég brást
Sigurbirni með því að sjá ekki til
þess að hann veldi þann hest sem
hann vildi valið hafa. En við erum
byrjaðir að vinna úr þessu. Ég
fór með allar mínar bestu hryssur
undir Kolskegg af því að hann er
að mínu mati mestur keppnis-
hestur allra alhliða graðhesta á
Íslandi og mig langar til þess að
rækta alhliða keppnishross. Það
er líka svolítill Hornfirðingur í
honum sem mér finnst spenn-
andi. Mér fannst mér bæri líka
skylda til þess að sjá honum fyrir
fögrum félagsskap í skaðabætur
fyrir að hafa hugsað svona illa til
hans í úrslitunum.
Og síðan er það Stakkur sem ég
vona að fallist á að halda áfram
að umgangast Júdasana tvo enn
um sinn. Sigurbjörn er byrjaður
að þjálfa hann fyrir næsta Lands-
mót, enda veitir ekki af, það eru
ekki nema tvö ár í það. Ég sit
gjarnan einhvers staðar nærri á
þúfu eða steini og læt mig dreyma
um þann dag þegar þjóðin öll
gerir sér grein fyrir því að það
hefur aldrei áður verið annar
eins hestur og Stakkur frá Hall-
dórsstöðum.
Höfundur er hrossaræktandi.
Mea Culpa: Sagan um Stakk frá Halldórsstöðum á Lands-
móti 2008
STAKKUR OG SIGURBJÖRN Hér eru félagarnir Stakkur og Sigurbjörn á tölti og eru ótrúlega líkir í útliti þótt annar sé með hjálm og
hinn legghlífar
KÁRI STEFÁNSSON
Ég skammast mín fyrir þetta
og á langt í land með að fyrir-
gefa mér fyrir það því í fyrsta
lagi er Sigurbjörn vinur minn
og á mína bók á hann alltaf að
vinna þegar hann keppir ...
SEND IÐ OKK UR LÍNU
Við hvetj um les end ur til að senda
okk ur línu og leggja orð í belg um
mál efni líð andi stund ar. Grein ar
og bréf skulu vera stutt og gagn-
orð. Ein göngu er tek ið á móti efni
sem sent er frá Skoð ana síð unni
á vis ir.is. Þar eru nán ari leið bein-
ing ar. Rit stjórn ákveð ur hvort efni
birt ist í Frétta blað inu eða Vísi eða
í báð um miðl un um að hluta eða
í heild. Áskil inn er rétt ur til leið rétt-
inga og til að stytta efni.