Réttur


Réttur - 01.08.1986, Page 33

Réttur - 01.08.1986, Page 33
Skúli Guðjónsson frá Ljótunnarstöðum Æviminning og kveðja Með Skúla Guðjónssyni er fallinn í valinn einn besti fulltrúinn, sem sósíalism- inn hefur átt í íslenskri bændastétt, og rithöfundur af sérstakri gerð, sem stund- um nær í einstökum greinum sínum hátindi þess, sem ritað hefur verið á íslenskri tungu á þessu sviði, svo sem í greininni „Tveir á báti“, einstakri í sinni röð vegna hvortveggja í senn „humors“ þess sem yfir greininni hvílir og hins djúpa skilnings á mannlífinu, er bak við býr. Skúli var fæddur 30. janúar 1903 að Ljótunnarstöðum í Hrútafirði. Hann kvæntist 1936 Þuríði Guðjónsdóttur frá Heylæk. Hófu þau búskap á Ljótunnar- stöðum, en Þuríður andaðist 1963. Skúli varð fyrir þeirri ógæfu að missa sjónina 1946, en við þeim mikla missi brást hann með einstæðum hetjuskap. Reit hann síðan á blindraritvél allt til dauðadags, 21. júní 1986. Skúli hóf snemma afskipti sín af þjóð- félagsmálum, bæði að rita og reyna að skipuleggja menn til baráttu fyrir sósíal- isma. Einhver fyrsta grein, sem ég þekki eftir hann er „Jósafat og Jukki“ í 2. hefti Rétt- ar 1934, þessi vægðarlausa, en leiftrandi snjalla skilgreining á stéttaskiptingunni á Islandi. Og síðan rekur hver greinin aðra, — og seinna hver bókin aðra. Hitt er almenningi minna kunnugt hver skipulagsstörf hann vann í þjónustu hins góða málstaðar, sósíalismans, og skal hér nokkuð frá því starfi greint. Arið 1933, þann 22. júlí stofnar hann „Félag róttækra alþýðumanna“ að Borð- eyri. Er í lögum þess ákveðið að „tilgang- ur félagsins sé að glæða stéttarvitund al- þýðu og kynna sósíalismann.“ Ennfremur segir að breyta megi félaginu í deild úr Kommúnistaflokki íslands, ef samþykkt sé á tveimur félagsfundum í röð. Félagssvæðið er Bæjarhreppur. Skúli setti fundinn og tilnefndi Guðmund Ben- onýsson Laxárdal sem fundarstjóra, en ritari var Friðbjörn Benonýsson, Laxár- dal. Auk þessara voru stofnendur: Guð- mundur Sigfússon, Stóru Hvalsá, Hjörtur Guðjónsson, Ljótunnarstöðum, Ólafur Pórðarson, Hrafnadal, Guðmundur Þórðarson, Bæ, Steingrímur Sigfússon, Bæ, Jón Kristjánsson, Hjörseyri, Jónatan Einarsson, Borðeyri, og Jónas Benonýs- son, Borðeyri. Og á næsta fundi bættust 3 félagar við: Björn Kristmundsson, Borð- eyri, Ólafur Stefánsson, Kolbeinsá og Lárus Sigfússon, Stóru Hvolsá. — Björn varð formaður Verkalýðsfélagsins á Borðeyri, er átti í hinni sögulegu og hörðu deilu 1934. 145

x

Réttur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Réttur
https://timarit.is/publication/319

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.