Morgunblaðið - 27.04.2006, Qupperneq 18
18 FIMMTUDAGUR 27. APRÍL 2006 MORGUNBLAÐIÐ
ERLENT
PRASKOVÍJA Nezhívova heldur á andlitsmynd
af syni sínum, Viktor, sem lést eftir að hafa tekið
þátt í hreinsunaraðgerðum í kjölfar Tsjernobyl-
slyssins. Er hún fyrir framan minnismerki um
fórnarlömb slyssins í Kænugarði, höfuðborg
Úkraínu. Fjölsóttar minningarathafnir vegna
þessa versta kjarnorkuslyss sögunar fóru fram í
gær. Viktor Jústsjenko, forseti landsins, fór fyrir
hundruðum fyrrverandi og núverandi starfs-
manna kjarnorkuversins að kjarnakljúfi númer
fjögur, sem sprakk að morgni hins örlagaríka
dags, 26. apríl 1986. Sagði forsetinn, eftir einnar
mínútu þögn, að íbúar landsins stæðu í ævarandi
þakkarskuld við þá sem hefðu reynt að stöðva
útgeislun frá kjarnorkuverinu strax eftir slysið.
Minnast Tsjernobyl-slyssins
AP
Stokkhólmi. AP. | Sænska fyrirtækið
NCC hefur boðað byltingu í íbúða-
byggingum. Hjá því munu fjórir
menn geta komið upp fjögurra hæða
blokk á einum mánuði. Galdurinn er
sá að raða húsunum saman eins og
púsluspili úr tilbúnum einingum.
Göran Persson, forsætisráðherra
Svíþjóðar, var viðstaddur vígslu
fyrstu einingaverksmiðju fyrirtæk-
isins en stefnt er að því að stytta
byggingartímann um helming að
minnsta kosti með því að framleiða
90% bygginganna, veggi, loft, gólf,
pípulagnir, loftræstikerfi og eldhús,
í sérstökum einingum, sem síðan eru
fluttar á byggingarstað.
„Ný framtíð“
Alf Göransson, forstjóri NCC,
sagði við verksmiðjuvígsluna, að
með henni myndi framleiðnin stór-
aukast og alls konar milliliðakostn-
aður sparast. Samkeppnisgetan yrði
því góð, sagði Göransson, og Pers-
son sagði, að hér væri um að ræða
„nýja framtíð og boðbera betri
tíma“.
Einingaverksmiðjan, sem vígð var
á þriðjudag, er í Hallstahammar, um
100 km austur af Stokkhólmi, og er
áætlað að framleiða þar 200 íbúðir á
þessu ári. Liggja þegar fyrir pant-
anir á 600 íbúðum á næsta ári.
Boða bylt-
ingu í íbúða-
byggingum
Kaíró. AFP. | Tvær sjálfsvígsárásir
voru gerðar á Sínaí-skaga, nálægt
Gaza-svæðinu, í gær og þær beind-
ust að egypskum lögreglumönnum
og erlendum friðargæsluliðum.
Sprengingarnar urðu nálægt
bækistöð fjölþjóðlegs friðargæslu-
liðs sem stofnað var í tengslum við
friðarsamning Ísraels og Egypta-
lands árið 1979. Löndin tvö og
Bandaríkin fjármagna friðargæsl-
una.
Tilræðismennirnir sprengdu sig í
loft upp en engir aðrir biðu bana eða
særðust.
Að minnsta kosti átján manns
féllu í þremur sprengjuárásum í
ferðamannabænum Dahab á mánu-
daginn var. Lögreglan yfirheyrði í
gær um 30 manns sem eru í haldi
hennar, grunaðir um aðild að árás-
unum.
Egypska dagblaðið Al-Ahram
sagði að tilræðismennirnir hefðu lát-
ið lífið í árásunum. Þeir hefðu falið
sprengjurnar í leðurtöskum.
Tvær sjálfs-
vígsárásir í
Egyptalandi
London. AP, AFP. | Hart var sótt að Tony Blair,
forsætisráðherra Bretlands, á þingi í gær vegna
hneykslismála. Koma þau á slæmum tíma fyrir
hann og Verkamannaflokkinn þar sem mikil-
vægar sveitarstjórnarkosningar verða í næstu
viku.
Erfiðasta málið varðar Charles Clarke innan-
ríkisráðherra, en komið hefur í ljós, að meira en
1.000 erlendum afbrotamönnum, þar á meðal
mönnum, sem dæmdir voru fyrir morð og
nauðganir, var sleppt að lokinni afplánun án
þess að vera sendir til síns heima. Gagnrýndi
David Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins, Blair
og stjórnina harðlega fyrir þetta og sagði, að
Clarke hefði reynt að villa um fyrir almenningi í
málinu og ætti að segja af sér.
Bresku blöðin harðorð
Blair brást hart til varnar fyrir Clarke og
sagði, að vissulega hefði komið í ljós alvarleg
brotalöm í kerfinu en nú væri búið að kippa því í
liðinn. Bresku blöðin voru hins vegar ekkert að
skera utan af því í fyrirsögnum um málið. Af
þeim má nefna „Fábjánar“, „Skömm“ og „Glæp-
samleg vanræksla“.
Hitt málið er sú játning Johns Prescotts að-
stoðarforsætisráðherra, að hann hafi átt í ástar-
sambandi við ritara sinn, Tracey Temple, sem
er 24 árum yngri en hann. Sagði hann, að því
hefði lokið fyrir allnokkru.
Af öðrum málum, sem íþyngja Blair, má nefna
lán ýmissa auðkýfinga til Verkamannaflokksins
og ásakanir um, að sumir hafi fengið lávarðstign
að launum. Er það mál nú til rannsóknar.
Í síðustu viku mældist stuðningur við Verka-
mannaflokkinn 32 prósent, sá minnsti í 19 ár, og
fari flokkurinn illa út úr kosningunum í næstu
viku, má búast við, að Blair láti af embætti fyrr
en ella.
Blair í vanda vegna
framhjáhalds Prescotts
CONDOLEEZZA Rice, utanríkis-
ráðherra Bandaríkjanna, og Donald
Rumsfeld varnarmálaráðherra
komu í gær í óvænta heimsókn til
Bagdad, höfuðborgar Íraks, til að
þrýsta á ráðamenn um að hraða
myndun þjóðstjórnar.
Heimsóknin kemur í kjölfarið á
útnefningu bandalags sjíta á Jawad
al-Maliki í embætti forsætisráð-
herra, en vonir eru bundnar við að
hún muni greiða fyrir stjórnar-
myndun.
„Nú þegar við förum inn í þetta
nýja tímabil hlökkum við mjög til að
færa ábyrgðina í hendur Írökum,“
sagði Rice í gær.
Á sama tíma ræddi Rumsfeld við
George Casey, yfirmann herafla
bandamanna í Írak, sem sagði að
enn væri gert ráð fyrir, að fyr-
irhuguð áætlun um brottför banda-
rískra hermanna frá Írak myndi
standast.
Aðeins nokkrum klukkustundum
eftir að ráðherrarnir komu til lands-
ins birtist myndband á netinu, þar
sem leiðtogi al-Qaeda í Írak, Abu
Musab al-Zarqawi, hvatti liðsmenn
sína til að halda áfram árásum gegn
Bandaríkjaher. „Bandaríkjamenn
verða flæmdir úr Tveggja fljóta
landinu [Írak], sigraðir og niður-
lægðir,“ sagði Zarqawi í myndband-
inu, sem batt enda á vangaveltur
um að hann væri látinn.
Kærður fyrir pyntingar
Steven Jordan, undirofursti í
Bandaríkjaher, varð í gær hæstsetti
meðlimur hersins til að sæta ákæru
vegna pyntinga á íröskum föngum í
Abu Ghraib-fangelsinu í Bagdad.
Jordan gegndi um hríð stöðu yf-
irmanns yfirheyrslumiðstöðvar
fangelsins, en búist er við að ákær-
urnar verði lagðar fram á morgun.
Í gær birtu svo bandarísk mann-
réttindasamtök skýrslu sem bendir
til að yfir 600 manns í Banda-
ríkjaher hafi komið nærri pynting-
um á föngum í Írak, Afganistan og
fangabúðunum í Guantanamo,
Kúbu, frá upphafi stríðsins gegn
hryðjuverkum. Segjast skýrsluhöf-
undar vonsviknir yfir því að ekki
skuli hafa verið hætt að pynta
fanga, líkt og lofað var þegar Abu
Ghraib-hneykslið komst í hámæli.
Þá fullyrti Claudio Fava, þing-
maður Evrópusambandsins (ESB), í
gær að flugvélar bandarísku leyni-
þjónustunnar, CIA, hefðu flogið
1.000 sinnum um evrópska lofthelgi
frá árinu 2001 án þess að leitað
hefði verið upplýsinga um ferðirnar.
Fer Fava fyrir sérstakri nefnd ESB
sem ætlað er að rannsaka ásakanir
um meint fangaflug CIA.
Mikið mannfall í Írak
Minnst 10 féllu í árásum í Írak í
gær, á sama tíma og Bandaríkjaher
tilkynnti að 12 meintir hryðjuverka-
menn hefðu verið felldir í árás hers-
ins í bænum Yusifiyah, suðvestur af
Bagdad.
Í fyrradag féllu svo 15 í árásum
uppreisnarmanna víðsvegar um
Írak, daginn eftir að á þriðja tug
féll og á annað hundrað særðist í
sjö sprengjuárásum í Bagdad.
Á þriðjudag tilkynnti Abdel Aziz
Mohammed, hershöfðingi í íraska
varnarmálaráðuneytinu, að í síðustu
viku hefðu 123 fallið og 153 særst í
469 árásum uppreisnarmanna.
Þrýst á leiðtoga Íraka
Eftir Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
AP
Condoleezza Rice í Írak í gær.
Zarqawi hvetur til
árása í myndbandi
FYRSTA farrými, almenningur og
stæði. Ekki er óhugsandi, að flug-
farþegum verði brátt boðið upp á
þessa þrjá kosti en framleiðendur
Airbus-vélanna hafa að undanförnu
verið að viðra þessa hugmynd við
áætlunarflugfélög í Asíu.
Hugmyndin um stæðin er sú, að
fólk standi með bakið við fóðraða
fjöl og noti að sjálfsögðu belti eins
og aðrir. Þannig væri hægt að stór-
auka farþegafjöldann í hverri ferð
og gæti það komið sér vel á fremur
stuttum flugleiðum í fjölmenninu í
Asíu að því er fram kom á fréttavef
The New York Times.
Þótt ekkert flugfélag sé enn farið
að bjóða upp á stæði, hafa þau grip-
ið til margra ráða í slagnum við
himinhátt eldsneytisverð. Meðal
annars hafa þau skipt út sætunum í
almenningnum og tekið inn ný, sem
eru hálfu léttari og miklu þynnri.
Boðið upp á
stæði í flug-
vélum?
♦♦♦
♦♦♦