Morgunblaðið - 14.07.2006, Blaðsíða 32
32 FÖSTUDAGUR 14. JÚLÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
Móðir mín flutti í
Jökulgrunn árið 1992.
Fimm ár voru liðin frá
andláti föður míns og
mamma búin að koma sér þægilega
fyrir í nýja húsinu og við heimsóttum
hana oft og áttum þar góðar stundir
saman. Einhverju ári síðar fór
mömmu að vera tíðrætt um nágranna
sinn handan götunnar. „Hann heitir
Einar, á Mjöll og er fyrrverandi for-
maður KR,“ var það fyrsta sem við
heyrðum um manninn. Fljótlega fóru
sögurnar af Einari að verða ýtarlegri
og sögumaðurinn hafði greinilega
miklar mætur á þessum nýja vini sín-
um. Einar hafði fangað hug mömmu
minnar og ánægjan skein af henni.
Tíminn leið, sambandið þróaðist og
mamma var aldrei heima. Hún var
alltaf „úti að leika“ með Einari! Það
var mjög gaman að sjá þau njóta fé-
lagsskapar hvort annars, enda lífs-
sýnin og áhugamálin mjög áþekk.
Golf, sund, ferðalög, spilamennska og
félagsskapurinn gerði það að verkum
að maður þurfti helst að panta tíma til
að hitta á þau heima. Einari kynntist
ég svo smám saman og hefur hann
verið hluti af fjölskyldu minni í rúm
tíu ár.
Einar sagði skemmtilega frá og
fannst mér gaman að spjalla við hann
um heima og geima. Hann hafði lifað
marga sögulega atburði og jafnvel
sjálfur tekið þátt í þeim. Þarna fékk
ég persónulega frásögn af hlutum
sem aðrir lesa um í bókum, s.s. Öld-
inni okkar. Íþróttir voru oft umræðu-
efni okkar og fannst mér gaman að
horfa á þær í sjónvarpinu með Einari,
ekki bara íþróttanna vegna, heldur
einnig vegna þess að hann hafði upp-
lifað svo margt á þeim vettvangi um
allan heim sem frammámaður í ís-
lensku íþróttalífi.
Þar sem ég hef komið við á manna-
mótum tengdum íþróttum hefur verið
gaman að heyra hve vel bæði sam-
herjar og andstæðingar bera honum
söguna og var ég stoltur af því að vera
tengdur honum.
Það er ótal margt sem kemur upp í
hugann þegar ég hugsa þau ár sem ég
þekkti hann, samverustundir heima, í
bústaðnum, Þýskalandsferð og fleira.
Alltaf hafði Einar sömu góðu nær-
veruna og heillaði bæði unga sem
aldna. Ég tel mig farsælan að hafa
fengið að kynnast Einari. Einar,
minningin um þig lifir!
Hafliði Halldórsson
Kveðja frá Íþrótta- og
ólympíusambandi Íslands
Félagi okkar og einn af farsælustu
leiðtogum íþróttahreyfingarinnar,
Einar Sæmundsson, er látinn hátt á
níræðisaldri. Einar var forystumaður
í KR í mjög langan tíma og formaður
félagsins í 17 ár. Hann var vel liðinn
og traustur forystumaður sem lét sér
annt um hag heildarinnar. Eins og
sönnum leiðtoga sæmir lagði Einar
með starfi sínu grunn að starfi
íþróttahreyfingarinnar í dag með
áræðni, heiðarleika og virðingu að
leiðarljósi. Hann var einn af þeim for-
ystumönnum sem sköpuðu þau góðu
gildi sem við viljum starfa eftir.
Einar var kjörinn Heiðursfélagi
Íþróttasambands Íslands fyrir frá-
bær störf sín í þágu íþróttahreyfing-
arinnar. Auk þess fékk hann fjölda
annarra viðurkenninga fyrir störf sín
í þágu hreyfingar okkar. Einar Sæ-
mundsson var mannkostamaður og
glæsimenni.
Að leiðarlokum þakkar Íþrótta- og
ólympíusamband Íslands Einari fyrir
frábær trúnaðarstörf og sendir fjöl-
skyldu hans og ástvinum samúðar-
EINAR
SÆMUNDSSON
✝ Einar Sæmunds-son fæddist í
Reykjavík 29. októ-
ber 1919. Hann lést
á deild G-12 á Land-
spítala - háskóla-
sjúkrahúsi hinn 3.
júlí síðastliðinn og
var jarðsunginn frá
Hallgrímskirkju 11.
júlí.
kveðjur. Megi minn-
ingin um góðan dreng
lengi lifa.
Stefán Konráðsson
Nú þegar sómamað-
urinn Einar Sæmunds-
son hefur kvatt þessa
jarðvist lítum við yfir
samfylgdina við hann,
sem hefur varað allt
okkar líf.
Það var gæfa fjöl-
skyldunnar að Einar
kvæntist ungur Guð-
rúnu föðursystur okkar og bjó með
henni í farsælu hjónabandi allt til and-
láts hennar árið 1992.
Við gerðum engan greinarmun á
Einari og föðursystkinum okkar.
Hann var einbirni og alinn upp hjá
móður sinni og fagnaði því að koma
inn í stóra og samhenta fjölskyldu
sem tók honum opnum örmum.
Fjölskyldan safnaðist saman á öll-
um hátíðum og afmælum, stórum og
litlum, undir styrkri stjórn ömmu
Tótu. Það og dvölin í sumarbústöð-
unum á Þingvöllum hefur tengt okkur
órjúfanlegum böndum við Einar,
Gunnu, Ásbjörn og Sigrúnu.
Einar var sannur orkubolti, síhlæj-
andi og segjandi brandara. Hann leit
alltaf út fyrir að vera glaður og ljóm-
aði þegar talað var til hans. Einar
kom eins fram við alla, börn sem full-
orðna, sem varð til þess að við hænd-
umst ung að honum og fannst gaman
að tala við hann.
Mörg okkar eiga sínar bestu minn-
ingar tengdar Einari og Gunnu frá
Þingvöllum. Þar var komið saman á
kvöldin og þau standa okkur ljóslif-
andi fyrir sjónum, Einar segjandi
sögur, kannski ekki allar fullkomlega
sannar en bráðskemmtilegar, og
Gunna hlæjandi með kaffibollann.
Einar átti fjölmörg áhugamál og
hafði um margt að tala. Hann var á
heimavelli í knattspyrnu, stangveiði,
golfi, bridds, sundi svo eitthvað sé tal-
ið. Gunna deildi flestum áhugamálum
hans og þau voru sífellt á ferð og flugi.
Þessir eiginleikar þeirra hafa skilað
sér til Ásbjörns og Sigrúnar.
Einar og Gunna voru óþreytandi í
að hvetja og aðstoða börn sín og
barnabörn. Þau hjón unnu saman í
áratugi og voru mjög samhent í
rekstri Mjallar. Gestrisni þeirra var
einstök og nutum við og aðrir vinir
hennar oft. Gamlárskvöldin hjá þeim í
Skerjafirðinum eru sérstaklega eftir-
minnileg. Þegar kom að sprengingun-
um sást vel hve Einar var ungur í
anda en í því eins og öðru hreif hann
aðra með sér.
Einu skiptin sem við sáum Einari
brugðið var í tengslum við erfið og
langvarandi veikindi Gunnu, sem
komu eins og þruma úr heiðskíru
lofti. Hann sinnti henni af miklum
kærleika og natni.
Eftir lát Gunnu hóf hann sambúð
með Auði. Þau voru mjög samhent og
stunduðu saman golf og önnur áhuga-
mál innanlands og utan. Auður hugs-
aði mjög vel um Einar og sást það vel í
veikindum hans síðasta árið og erum
við þakklát fyrir það.
Við sendum Sigrúnu og Gunnari,
Ásbirni og Jónu, Helgu og Ólafi, Auði
og barnabörnunum og barnabarna-
börnum innilegustu samúðarkveðjur.
Einari færum við kærar þakkir fyrir
samfylgdina og biðjum Guð að geyma
hann.
Systkinabörnin.
Í samheldinni stórfjölskyldu eru
þeir eldri mikilvægar fyrirmyndir
sem móta og þroska yngra fólkið. Ég
er svo lánsamur að vera einn þeirra
sem hafa átt Einar Sæmundsson sem
slíka fyrirmynd alla ævi.
Fyrsta minning mín um Einar er
að ég stend hjá honum í jólaboði á
sjötta áratugnum og hann er að næla
KR-merki í jakkaboðunginn minn.
Ætlaði að gera mig að KR-ingi. Síðan
kitlaði hann mig eins og hann var van-
ur að gera við börn þar til ég hafði
hlegið allan mátt úr líkamanum og
ekki hló hann minna sjálfur. Enn hvað
hann Einar gat hlegið alla ævi og eng-
an veit ég sem átti jafnauðvelt með að
töfra fram hlátur og gleði. Meistari
skemmtilegra frásagna.
Einar var kvæntur Guðrúnu, föð-
ursystur minni, sem lést fyrir fjórtán
árum. Hann var ekki aðeins mágur og
vinur, heldur einnig laxveiðifélagi föð-
ur míns í áratugi. Það var einstaklega
hollt ungum dreng að fá tækifæri til
að fylgja þeim í veiðiferðir.
Ég þakka Einari fyrir allar
ánægjustundirnar í Búðavík við Þing-
vallavatn þar sem sumarbústaðir fjöl-
skyldunnar eru. Þar hefur kynslóða-
bilið aldrei verið til.
Fjölskylda mín öll þakkar sérstak-
lega fyrir samveruna í sveitinni.
Fyrsta sumarvinna mín var hjá
Einari og Gunnu í Sápugerðinni Mjöll
og vann ég þar alls í fimm sumur á
mótunartíma unglingsins. Þar fékk
ég einnig tækifæri til að umgangast
þau enn meira, ásamt því að starfa
með Sigrúnu frænku og Ásbirni
frænda. Það auðgaði mig að tengjast
þeim ekki aðeins í leik heldur einnig í
starfi.
Fyrir rúmum tíu árum var ég svo
heppinn að Einar leyfði mér að fylgj-
ast með sér og verða síðan liðsfélagi
hans í pílukasti hjá Píluvinafélagi KR.
Betri og skemmtilegri keppnisfélaga
er ekki mögulegt að óska sér. Þar
lauk hann endanlega því ætlunar-
verki að gera mig að KR-ingi.
Einar hefur verið mér ættingi,
vinnuveitandi, veiðifélagi, keppnis-
félagi og kær vinur. Ég þakka þessum
lífsglaða og þróttmikla manni fyrir
samferðina.
Ég og fjölskylda mín sendum fjöl-
skyldu Einars okkar innilegustu sam-
úðarkveðjur.
Guðmundur Jón Elíasson.
Húbbarnir eru hópur sem fór sam-
an á skíði um margra ára skeið til
Lech í Austurríki. Þótt skíðaferðum
lyki hefur félagsskapurinn haldist
óslitinn í tæp 30 ár, en nú kveðjum við
einn úr hópnum, Einar okkar Sæ-
mundsson. Einar var einstaklega ljúf-
ur og skemmtilegur maður og eigum
við skíðafélagarnir eftir að sakna
hans mikið.
Við látum öðrum eftir að rekja lífs-
feril hans og störf sem voru ærin í
sambandi við íþróttir og félagsstörf.
Hins vegar viljum við þakka þann
tíma sem við áttum með honum á
skíðum og ferðalögum, og aðrar sam-
vistir.
Hann var hrókur alls fagnaðar hvar
sem hann var og hafsjór af skemmti-
legum og velsögðum sögum. Meðan
Guðrún Jónsdóttir eiginkona hans
lifði, var hún samstiga honum og ekki
síðri gleðigjafi í okkar hópi. Auður
Einarsdóttir, sambýliskona Einars
hin síðari ár, féll ekkert síður inn í
hópinn, og var einstakt og fallegt
þeirra samlíf þar til yfir lauk og var
hún hans stoð og stytta í veikindum
hans, en Einar átti við nokkra van-
heilsu að stríða síðustu árin.
Stutt er síðan þessi hópur hittist og
mætti Einar þar með sitt glaða sinni
og gerði ekki mikið úr veikindum sín-
um. Við eigum einstaklega ljúfar
minningar um Einar og þökkum
ógleymanlegar samverustundir.
Við sendum Auði, börnum hans og
ættingjum samúðarkveðjur.
Kveðja
Húbbahópurinn.
Látinn er Einar Sæmundsson,
fyrrum formaður Knattspyrnufélags
Reykjavíkur, eftir erfið veikindi.
Einari kynntist ég þegar ég var
unglingur í KR, en þar var hann í for-
ystu eftir að hafa verið í ýmsum störf-
um fyrir félagið.
Einar var hægur maður, hlátur-
mildur og naut sín vel á meðal vina
sinna á góðum stundum. Hann hafði
mikið gaman af starfi sínu fyrir KR,
sem var tímafrekt. Þá naut hann
dyggilegrar aðstoðar konu sinnar,
Guðrúnar, sem stýrði fyrirtæki þeirra
hjóna, sápugerðinni Mjöll, af mikilli
röggsemi.
Guðrún lést árið 1992.
Einar miklaðist aldrei af störfum
sínum fyrir félagið, sem var mjög sig-
ursælt undir hans stjórn. Alltaf lítil-
látur, vinsæll og hvers manns hug-
ljúfi.
Á þessari stundu eru Einari þökk-
uð góð kynni og við hjónin sendum að-
standendum samúðarkveðjur.
Kristinn Jónsson.
Með sorg í hjarta og söknuði, kveð
ég kæran vin í dag. Mín fyrstu kynni
af Einari voru þau, að leiðir okkar
lágu saman í landsliði í sundknattleik
og fórum við til Noregs árið 1951 í
keppnisferð. Þar hófst áratuga löng
vinátta, sem aldrei bar skugga á.
Hann hafði einstaklega þægilegt við-
mót, hlýleika og hjartsemi til að bera,
sem ég þá, sem ungur maður, naut
góðs af og allar götur síðan.
Aldrei líður mér úr minni þó hálf
öld sé nú liðin, þegar hann kom að
máli við mig og spurði, hvort ég hefði
áhuga á að koma ásamt fleirum í lax-
veiði. Það var ekki laust við að ég
fyndi svolítið til mín við þetta boð og
þáði það með þökkum. Þessi ferð var
upphaf árlegra veiðiferða í 40 ár, þar
sem gleðin ríkti og lífsgátan var leyst.
Einar var ákaflega gamansamur og
hafði fádæma gott skopskyn, enda
var hann hrókur alls fagnaðar hvar
sem hann kom. Ýmislegt hefur á dag-
ana drifið, og margs er að minnast –
spilaklúbbanna, samveru okkar í
Lionsklúbb Reykjavíkur og
Krummaklúbburinn og alla tíð var
hans heimili öllum opið, hvort heldur
var í gleði eða sorg.
Nú þegar leiðir skilja um sinn, kæri
vinur, gleðst ég yfir innihaldsríkum
minningum um góðan dreng, sem öll-
um vildi gott gera.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
(V. Briem.)
Ástvinum Einars öllum sendum við
Gunnur okkar innilegustu samúðar-
kveðjur og biðjum þeim Guðs bless-
unar.
Pétur.
Í dag er kvaddur öðlingurinn Einar
Sæmundsson.
Árið 1962 kynntist ég Einari er ég
hóf hlutastörf hjá Sparisjóði vél-
stjóra, þá nýstofnuðum. Þannig hag-
aði til að sparisjóðurinn hóf starfsemi
sína við lítil efni og byggði starfsemi
sína í upphafi aðallega á sjálfboða-
vinnu forvígismanna sem stóðu að
stofnun hans. Þeir höfðu tekið á móti
nokkrum innlánum án þess að leggja í
að lána út fjármunina, þrátt fyrir það
að á þessum tíma væri gífurlegur
lánsfjárskortur. Slíkt er að sjálfsögðu
ekki vænlegt hjá peningastofnun sem
þarf að ávaxta fé. Var þeim þá bent á
Einar sem traustan aðila til viðskipta
en hann rak Verksmiðjuna Mjöll hf.
Haft var samband við Einar og hon-
um boðið að selja sparisjóðnum við-
skiptavíxla, en slíkir pappírar voru á
þessum tíma langalgengasta útlána-
formið í viðskiptum. Það að hringja í
menn að fyrra bragði og bjóðast til að
kaupa af þeim víxla var nánast óþekkt
á þessum tíma hjá fjármálafyrirtækj-
um. Var þetta upphafið að afar far-
sælum viðskiptum milli sparisjóðsins
og Einars og sýndi hann sparisjóðn-
um tryggð alla tíð síðan. Einar var
einstaklega vel látinn af starfsfólki
sparisjóðsins. Það var ekki síst
hressileg og hlý framkoma hans sem
gerði hann að einum vinsælasta við-
skiptamanni sparisjóðsins.
Einar var alla tíð félagslyndur og
örlátur á tíma sinn og fjármuni þegar
félagsmál áttu í hlut. Hann sat í stjórn
KR í fjölda ára og sem formaður í
sautján ár. Fyrir störf hans í íþrótta-
hreyfingunni hlaut hann æðstu heið-
ursmerki hennar. Hann var lengi fé-
lagi í Lionsklúbbi Reykjavíkur og var
áhugasamur bridgespilari í Krumma-
klúbbnum. Í þessum tveimur síðast-
nefndu félögum áttum við mikil sam-
skipti til fjölda ára. Minnist ég
margra gleðistunda með Einari og
Guðrúnu fyrri konu hans sem og Auði
seinni konu hans. Betri félagi er vand-
fundinn.
Árið 1979 áformuðu Einar og sonur
hans Ásbjörn að byggja verksmiðju-
hús undir starfsemi Mjallar, en lóð
sem þeim var úthlutað gerði ráð fyrir
að byggt væri á henni stærra hús en
þeir höfðu þörf fyrir. Þá vildi svo til að
fjölskyldufyrirtæki sem ég var aðili
að var í þörf fyrir stærra húsnæði.
Varð þá að ráði að byggja húsið í fé-
lagi við þá feðga. Byggingarfram-
kvæmdir gengu mjög vel og voru ein-
staklega hnökralausar. Betri
samstarfsaðila var ekki hægt að
hugsa sér. Fyrirtækin störfuðu síðan
í fjölda ára í húsinu í góðu sambýli.
Einar var gæfumaður í lífinu, átti
góða að og naut mikilla vinsælda fyrir
góðlátlega gamansemi, heiðarleika og
félagslyndi. Það er gæfa að hafa átt
slíkan samferðamann. Hann fær góð-
ar móttökur á æðra tilverustigi.
Auði, Ásbirni, Sigrúnu, Helgu og
öðrum vandamönnum sendi ég sam-
úðarkveðjur.
Hallgrímur Jónsson.
Góðvinur einstakur er horfinn af
vettvangi dagmálanna.
Höfðinginn og glæsimennið Einar
Sæmundsson er farinn á vit forfeðr-
anna í austrinu eilífa, austur yfir í
Borgarfjörð eystri, vissulega feg-
urstu sveit Íslands að hans mati.
Þar er á vísan að róa, þar finnst hlé
eftir óvægna baráttu við óvininn sem
engu eirir, þar er sumar í góðu vari
bak við fjöllin bláu og næstu leiti.
Hvar sem hann kom vakti hann at-
hygli manna fyrir glæsileik, dreng-
skap og leiftrandi fas í allri fram-
komu. Hann var manna kátastur á
gleðistundum, ör, beinskeyttur og
einarður í íþróttum, en samt hógvær-
astur allra manna, sagt og skrifað.
Einar var sannarlega maður at-
hafna og forystumaður af guðs náð.
Þar sem nærvera hans og áhrif
komu til atvikaðist ávallt gott af og
verða minningarnar um hann til eft-
irbreytni og tilvitnana í framtíðinni.
Flestir vissu hver hann var, en
fæstir þekktu hann samt í raun. Hon-
um féllu kannski ekki mörg orð um
það sem gera skyldi, það var nú samt
bara gert og ekki orð sagt um það
meir.
Knattspyrnufélag Reykjavíkur
fékk að njóta krafta Einars, hann var
farsæll, virtur og elskaður formaður
KR í tæpa 3 áratugi, hann skilaði arf-
leifð fyrirrennara sinna með mestu
sæmd til þeirra sem við tóku.
Einar var sundmaður ágætur, iðk-
aði sundknattleik með KR árum sam-
an, skíðamaður einnig góður og
stundaði Skálafellið stíft þegar þann-
ig viðraði, þá var hann virkur í flestu
öðru félagsstarfi innan KR.
Fjallamennska við erfiðustu skil-
yrði átti við hann og hvers konar úti-
vist ef svo bar undir.
Krummaklúbburinn fékk einnig
notið nærveru Einars og er honum
hér þökkuð fjögurra áratuga þátttaka
í félagsstarfinu þar við grænu borðin.
Einari hlotnuðust flestar þær við-
urkenningar og vegsaukar sem til
falla fyrir frábærlega vel unnin störf í
almanna þágu, var hann vel að þeim
kominn.
Árstíðirnar koma og fara, myrkrið
og ljósið fylgjast að, en vísast er að
enginn fær örlög sín flúið.
Þegar að kveðjustundinni kemur
hrannast upp minningarnar um góð-
vininn einstaka og hvílíkt lán það var
okkur hjónum að hafa átt hann að
kærum vin í fulla þrjá áratugi.
Við stór- og smálaxaveiðar, sitt-
hvað smálegt er varðaði KR, í Lions-
hreyfingunni, við bridsborðin, á skíð-
um, í gönguferðum o.fl. o.fl. sem til
féll.
Vináttunni verða seint gerð nógu
góð skil, vináttan er vissulega það lím
sem fellir að hin ólíkustu efni.
Sönn vinátta er af göfugum meiði,
allt heilt og gott sem frá henni stafar.
Einar Sæmundsson var sannarlega
vinur vina sinna, það vitum við sem
nutum.
Einar var mikill gæfumaður í lif-
anda lífi, hann kvæntist æskuástinni
sinni Guðrúnu Jónsdóttur sem lést
árið 1992, eignaðist þrjú mannkosta
börn, þau Ásbjörn, Sigrúnu og Helgu,
og átta barnabörn og augasteinana
hans afa Einars, honum afar hjart-
fólgin og oftlega til frásagnar, enda
honum mikill sómi að.
Nú hin síðari ár eftir fráfall Guð-
rúnar átti Einar enn láni að fagna er
hann kynntist og tók upp sambúð
með Auði Einarsdóttur sem reynst
hefur honum afar vel í erfiðum veik-
indum hans. Við sendum ástvinum
öllum og fjölskyldu Einars innilegar
samúðarkveðjur, megi minningin um
góðan vin lifa að eilífu.
Hann var langflottastur.
Sigrún og Bjarni Ingvar Árnason.