Morgunblaðið - 31.08.2006, Blaðsíða 22
matur
22 FIMMTUDAGUR 31. ÁGÚST 2006 MORGUNBLAÐIÐ
D
ómarar í keppninni voru há-
menntaðir í fræðunum. Formað-
ur dómnefndar, dr. Tryggvi Ber-
ing, à la Tryggvi Scheving
Thorsteinsson, bar vígalega
skjalatösku sem var rækilega merkt Alheims-
berjaráðinu en þar kom fram að hann væri
sérfræðingur í sultusmökkun og berjafræðum.
„Ég sótti um í alheimsráðinu fyrir tveimur
og hálfu ári og öðlaðist þá réttindi til þess að
dæma í sultukeppnum. Þetta er oft rosalega
spennandi og loftið oft lævi blandið í keppn-
unum. Ég tel nefnilega, þótt sumir vilji ekki
viðurkenna það að flestir séu sultumenn inn
við beinið.“
En hvað er það sem einkennir góða sultu?
„Það eru fjögur atriði, áferð í munni, litur og
lykt, hvernig hún hleypur og eins notagildi
hennar. Í nútímaþjóðfélagi vill fólk fá sultu
sem nýtist því bæði kvölds og morgna, á ristað
brauð og með steikinni, fólk er mikið fyrir slík-
ar alhliðalausnir,“ segir Tryggvi.
Meðdómari hans, Berhildur Bjartmars,
öðru nafni Brynhildur Guðjónsdóttir, er ekki
jafnmikill reynslubolti en segir að sér hafi þótt
það bæði ljúft og skylt að taka þetta verkefni
að sér. „Ég hef óskaplega gaman af vín-
smökkun og þetta hlaut að vera skemmtilegt
líka sem það og var. Ég mæli með að fólk
heimsæki sveitamarkaðinn á laugardögum því
hér er hægt að fá frábæra, íslenska, lífræna
ræktun sem er góð fyrir kroppinn.
Allar sulturnar sem sendar voru inn í
keppnina voru að sjálfsögðu E-efnafríar og
natnin og hugmyndaauðgin var stórkostleg og
það var erfitt að velja á milli en við höfðum til
hliðsjónar atriðin fjögur.
Dómsorðin vöktu athygli og þóttu mjög til-
finningarík en dómararnir segja að það eigi
sér vitaskuld sínar skýringar. „Bragð vekur
tilfinningar, svo það má eiginlega segja tilfinn-
ingar byrja jafnt í munni, sem hjarta og enda
svo kannski í maganum.“
„Virkilega hamingjusöm sulta“
Berin í garðinum hjá Ásgerði Gísladóttur
bónda á Hrísbrú í Mosfellsdal eru sennilega
sérstaklega hamingjusöm því úr einfaldri upp-
skrift bóndakonunnar varð „virkilega ham-
ingjusöm sulta“, eins og úrskurður dómnefnd-
arinnar hljóðaði og hlaut hún fyrir vikið 1.
verðlaun.
„Í garðinum mínum eru gömul tré en þau
hljóta að gefa þetta einstaka bragð,“ segir Ás-
gerður og brosir.
Hún hefur fjórum sinnum tekið þátt í
keppninni og er þetta í þriðja sinn sem hún
sigrar og nú með sólberjasultu.
„Það er skemmtileg stemmning í kringum
keppnina og við erum mörg sem leggjum
metnað okkar í sultugerðina. Einu sinni lagði
ég til hrútaberjasultu og öðru sinni epla- og
chílisultu sem hrepptu fyrsta sætið,“ upplýsir
Ásgerður aðspurð en segist þó lítið hugsa um
alhliðalausnir í sultugerðinni, ólíkt dómnefnd-
inni.
„Ég hef samt gaman af því að prófa mig
áfram með uppskriftir, breyta þeim og bæta.“
Dómsorð: „Winner í lit og hleypi, frábær
áferð, sól í heiði, morgunroði.
Virkilega hamingjusöm sulta. Hún hentar
mjög vel með morgunkaffi, síðdegiskaffi,
kvöldkaffi og með steik. Er í raun heildarlausn
í sultum. Yes.“
Sólber 2005
Hráefni:
1 kg sólber
1 kg sykur
Þvoið berin og vigtið. Sjóðið berin og syk-
urinn við hægan hita í nokkrar mínútur eða
þar til berin eru orðin meyr og maukið farið að
hlaupa og hrærið í því á meðan. Takið þá
maukið, sigtið og hellið síðan sultunni sjóð-
heitri í krukku og setjið lokið á. Best er að
geyma sultuna í kæli.
„Ótrúlega frumlegt innlegg
í sultubransann“
Það fór undrunarhviða um hóp viðstaddra
þegar Guðrún Karlsdóttir, húsfreyja í Sigtúni,
upplýsti að upphafsstafir sultunnar RHK sem
lenti í 2. sæti í keppninni, stæðu fyrir rab-
arbara, hvönn og kerfil, einkum þegar síðasta
jurtin var nefnd.
„Kerfill er skyldur hvönn og getur orðið
rúmlega metri að hæð. Hann vex villtur í Esj-
unni þar sem ég tíni hann, svo mjög að hann er
að taka yfir lúpínuna. Blöð og stöngul kerf-
ilsins má nota í matargerð og fræin í brauð.
Það má eiginlega segja að hráefnið í sultuna
sé illgresið í dalnum nema náttúrulega syk-
urinn sem er innfluttur,“ segir Guðrún og
hlær.
„Ég er alin upp við að sulta á hverju hausti
og hef gert það sjálf alla mína búskapartíð og
er óhrædd við að prófa mig áfram. Þetta er í
annað sinn sem ég tek þátt í keppninni en síð-
ast, fyrir fimm eða sex árum, sigraði ég með
sultu sem í var, auk rabarbarans, gráfíkjur og
koníak.“
En hver skyldi vera galdurinn á bak við
góða sultu? Svarið er stutt og laggott „Að hug-
ur fylgi máli.“
Dómsorð: „Gróf áferð. Ótrúlega frumlegt
innlegg í sultubransann. Rosalega skemmti-
legt anísbragð af henni, hvönnin kemur sterk
inn. Nýnæmi í sultu, mjög athygliverð sulta og
hentar vel með ristabrauði og með steikinni.“
RHK-sulta
Hráefni:
2 kg rabarbari
200 g kerfill, leggir og blöð.
2 dl hvannarfræ
2 kg sykur
Takið blöðin af rabarbaranum, hreinsið
stiklana vel, skerið í litla bita. Saxið leggi og
blöð kerfilsins smátt niður og takið fræin af
hvönninni. Setjið dálítið af rabarbara í stóran
pott, þá sykur og rabarbara á víxl ásamt nið-
ursöxuðum kerflinum og hvannarfræjunum og
sjóðið við hægan hita. Hrærið öðru hvoru í
maukinu á meðan. Sultan er sett í glerkrukkur
þegar hún er fullsoðin. Þurrkið sultu sem kann
að fara á krukkubarmana af með heitum klút
og setjið lok ofan á krukkuna þegar hún hefur
kólnað. Geymið á köldum stað.
Verðlaunasultur sem vekja tilfinningar
Sultumeistarar | Það ríkti eftirvænting á meðal keppenda og gesta í súrefnisríku útiloftinu og ilmandi trjágróðrinum á
markaðstorginu að Mosskógum í Mosfellsdal á laugardag þegar úrslit voru kunngjörð í hinni árlegu sultukeppni. Nær tugur kvenna
og einn karlmaður tóku þátt í keppninni, flestir úr dalnum og var keppnin hörð. Hver yrði verðlaunasulta Mosskóga árið 2006?
Unnur H. Jóhannsdóttir brá sér á sveitamarkaðinn og sultukeppnina.
Morgunblaðið/Sverrir
Metnaður Ásgerður Gísladóttir tínir ber í sultu í garðinum á Hrísbrú.
Morgunblaðið/Golli
Anísbragð Hvannarfræ eru óvenjulegt en skemmtilegt hráefni í sultu.
Morgunblaðið/Golli
Frumlegt Guðrún Karlsdóttir býr til sultu úr illgresinu í Mosfellsdalnum.
Morgunblaðið/Sverrir
Verðlaun Sultur Ásgerðar á Hrísbrú hafa áður
lent í verðlaunasæti í sultukeppni í dalnum. uhj@mbl.is