Morgunblaðið - 12.09.2006, Síða 10
10 ÞRIÐJUDAGUR 12. SEPTEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
UM TUTTUGU vísindamenn frá Ís-
landi og sex öðrum löndum koma að
ráðstefnunni sem framhaldið verður í
dag. Markmiðið er að kynna helstu
þekkingu um samspil hafsins og lofts-
lags á Norður-Atlantshafinu og leita
svara við spurningum sem varpað
hefur verið fram um hugsanleg áhrif
loftslagsbreytinga m.a. á Golfstraum-
inn.
Umhverfisráðuneytið stendur fyrir
ráðstefnunni í samvinnu við mennta-
málaráðuneytið, sjávarútvegsráðu-
neytið og utanríkisráðuneytið. Ríkis-
stjórnin og Norræna
ráðherranefndin styrkja framkvæmd
ráðstefnunnar.
Ráðstefnan hófst á erindi hins fær-
eyska Boga Hansen sem ræddi al-
mennt um Golfstrauminn og hegðun
hans. Á eftir honum steig Leif Toudal
Pedersen upp í pontu og fór yfir
minnkun og þynningu á hafís á Norð-
urskautssvæðinu. Hann fór einnig vel
yfir hvernig gervihnettir hafa verið
nýttir til að fylgjast með heims-
skautssvæðunum með mun meiri ná-
kvæmni á undanförnum þrjátíu árum
en áður – og að nú sé hægt að fara
rannsaka breytileika á hafísnum.
Sýna tiltölulega nýlegar mælingar
mikla þynningu á ísnum á Norður-
skautssvæðinu.
Hætta á umturnun
Golfstraumsins?
Breski vísindamaðurinn Meric
Srokosz kynnti rannsókn en niður-
stöður hennar hafa gefið til kynna að
breytingar séu í gangi á straumakerfi
N-Atlantshafsins sem auki hættu á
umturnun Golfstraumsins. Sam-
kvæmt niðurstöðum rannsóknarinn-
ar, sem nefnist RAPID, eru þessar
breytingar hugsanlega merki um að
minni hiti berist með Golfstraumin-
um sem geti haft slæmar afleiðingar í
för með sér fyrir lönd Evrópu. Í allra
versta falli muni straumurinn hætta
að flæða. Frekari rannsóknir eru hins
vegar í gangi og munu niðurstöður úr
þeim að öllum líkindum verða kynnt-
ar á ráðstefnu RAPID sem haldin
verður í október nk. í Bretlandi.
Íslenskir vísindamenn héldu einnig
erindi í gær. Ingibjörg Jónsdóttir,
dósent við Jarðvísindastofnun Há-
skóla Íslands, hélt erindi um hafís við
Íslandsstrendur í sögulegu ljósi. Ingi-
björg fór yfir magn hafíss við landið
frá 1850 til dagsins í dag og þær
breytingar sem orðið hafa. Ljóst er
að hafís við Grænland hefur minnkað
gríðarlega í gegnum árin og sér í lagi í
mildu veðri á síðustu tveimur áratug-
um. Ingibjörg fór sérstaklega yfir
vorið 2005 en í marsmánuði var
óvenju mikill hafís í kringum Ísland
og mældist m.a. meiri úti fyrir norð-
anverðum Vestfjörðum og Norður-
landi en síðan árið 1979. Var það
vegna langvarandi vestanáttar í
Grænlandssundi og norðan við land-
ið.
Trausti Jónsson, veðurfræðingur
hjá Veðurstofu Íslands, fór yfir hlýn-
un veðurfars á Íslandi á sl. 200 árum.
Trausti fór m.a. yfir mælingar á hita-
stigi í Stykkishólmi í gegnum árin en
samkvæmt niðurstöðum mælinga
hefur hitastig hækkað um 0,65° á
undanförnum hundrað árum og 0,5°
sl. tíu ár. Einhvern hluta þessarar
hækkunar má rekja til minnkandi
hafsís við strendur Austur-Græn-
lands.
Að lokum fjallaði Héðinn Valdi-
marsson, haffræðingur hjá Hafró, um
m.a. ástand sjávar við landið á und-
anförnum áratugum og breytingar á
saltmagni miðað við hitastig.
Þekking á samspili hafsins
og loftslags á N-Atlantshafi
Morgunblaðið/Ásdís
Áhugi Fjölmenni var á Hótel Nordica þar sem ráðstefnan fer fram og voru gestir almennt ánægðir með erindin.
Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson
orsi@mbl.is
SKIPULÖGÐ alþjóðleg glæpastarfsemi hefur
aukist gríðarlega innan ESB-landa samhliða
frjálsu flæði á vörum, fjármagni og vinnuafli og
þeir tímar eru liðnir að hægt var að hafa ein-
hverja stjórn á „innlendri“ glæpastarfsemi að
mati dr. Viktoras Justicjis prófessors við
Mycolas Romeris-háskóla og Kaunar Vytaut-
as-háskóla í Litháen. Hann er gestakennari hjá
lagadeild Háskóla Íslands og hélt erindi í gær
þar sem hann fjallaði um gjörbreytt landslag í
glæpamálum og hvort hægt væri að samræma
löggæslu milli landa.
„Hér áður fyrr voru það litháískir glæpa-
menn sem frömdu litháíska glæpi, voru eltir af
litháískri lögreglu og sátu í litháísku fangelsi,“
sagði Justickis. Hann kallaði þetta gömlu tím-
ana þar sem landamæri héldu alþjóðlegri
glæpastarfsemi frá. Þá þekktist varla að menn
stælu bílum einhvers staðar í Evrópu og
keyrðu þá land úr landi, öðruvísi en nú tíðkast
svo dæmi sé tekið. Vandinn er vissulega sam-
eiginlegur með Evrópusambandslöndunum og
rökrétta svarið virðist vera óheft rannsókn og
ferðir lögreglu milli landa til að vinna á svip-
uðum nótum og glæpamennirnir sjálfir. Just-
ickis tók dæmi af lögreglumanni í Litháen sem
veitir grunuðum manni eftirför sem stefnir í
átt að landamærum nágrannaríkis. Glæpamað-
urinn fer yfir en lögreglumaðurinn snýr hins
vegar við og fer á lögreglustöðina sína og hefst
handa við að skrifa skýrslu um málið sem send
er milli yfirmanna og til Interpol og Europol
þar sem málið heldur áfram í rannsókn. Þarna
er um að ræða ferli sem tekur mánuði. Það sem
hefði virst einfaldast hefði verið að lögreglu-
maðurinn héldi áfram yfir landamærin á eftir
hinum grunaða og handtæki hann þar eftir at-
vikum. En tilfellið er að ráðstafanir sem stuðla
einmitt að svona samræmdum aðgerðum Evr-
ópuríkja hafa mætt mikilli andstöðu í Litháen
og leitt til stöðugra átaka milli þeirra sem vilja
samruna og hinna sem eru á öndverðum meiði.
En Justickis kennir ekki endilega ESB og hinu
frjálsa flæði um þessa þróun, heldur nútíman-
um í heild sinni. Við sjálfstæði Eystrasaltsríkj-
anna hefði kapítalíska kerfið hafið innreið sína
með gríðarlegri tilheyrandi umferð inn og út úr
landinu. Hann telur að menn verði að horfast í
augu við að glæpastarfsemin er nú orðin al-
þjóðleg og þess vegna verði lögreglan að vinna
alþjóðlega líka.
En hvernig stendur á þessari andstöðu við
lögregluaðgerðir land úr landi?
Justickis bendir á að jafnvel þótt það sé til-
tölulega auðvelt að útskýra það fyrir löndum
sínum hvers vegna t.d. þýska lögreglan væri
skyndilega komin inn í landið til að handtaka
grunaðan glæpamann, myndi almenningur
engu að síður reiðast slíku rétt eins og myndi
væntanlega gerast ef erlend lögregla kæmi til
Íslands til að handtaka Íslending fyrir meint
afbrot erlendis. „Hugmyndir almennings um
rétt og rangt eru svo mismunandi og endur-
spegla hugmyndir um að það sé ekki hægt að
koma á fót samræmdum aðgerðum.“ Inn í
þetta spilar líka tortryggni lögreglumanna
sjálfra milli landa. Við rannsóknir þarf nefni-
lega að gefa nágrannalögreglu leynilegar upp-
lýsingar um glæpamál og stundum gruna lög-
reglumenn starfsbræður sína um spillingu og
samvinnu við glæpamenn. Þess vegna fylgir
því mikil áhætta að leggja spilin á borðið í
þessu tilliti segir Justickis. „Þetta er mjög erf-
itt en það hafa verið tekin skref í þá átt að láta
löggæsluyfirvöld kynnast hvert öðru og skapa
gagnkvæman skilning. Nú þarf að halda áfram
og ég held að aukinn gagnkvæmur skilningur
muni aukast og leyfa okkur að taka fleiri
skref.“ Og andstaðan býr um sig í öllum lögum
þjóðfélagsins, bendir hann á.
Varðandi margumræddan straum fíkniefna
frá Litháen til Íslands segir Justickis að lykill-
inn að betri árangri gegn þeirri vá gæti fólgist í
að taka upp aukna samvinnu við litháíska lög-
reglumenn sem í áraraðir hafa glímt við lithá-
íska glæpahópa sem nú eru farnir að leita sér
að ungum fórnarlömbum hér á landi.
Gjörbreytt landslag í glæpamálum
Hvernig verður barist gegn andstöðu við samræmdar aðgerðir lögreglu milli landa?
Morgunblaðið/Eyþór
Aðgát Viktoras Justicjis segir áhættusamt að
afhenda nágrannalögreglu leyniupplýsingar.
RÁÐSTEFNUNNI verður fram haldið í dag á Hótel
Nordica og verður sjónum aðallega beint að vistkerfi
sjávar og áhrifum loftslagsbreytinga á það. Á meðal
fyrirlesara eru Philip C. Reid sem mun fjalla um áhrif
loftslagsbreytinga á þörungavöxt í N-Atlantshafinu
auk þess að ræða um súrnun hafsins vegna gróður-
húsaáhrifa. Ólafur Karvel Pálsson og Hjálmar Vil-
hjálmsson, fiskifræðingar frá Hafrannsóknastofnun,
munu fara yfir þær breytingar sem orðið hafa á út-
breiðslu loðnustofnsins á síðustu áratugum ásamt því
að velta fyrir sér hverju hægt sé að búast við af henni í
framtíðinni. Einnig mun Jón Ólafsson, haffræðingur
hjá Hafró, gera grein fyrir grundvallaratriðum í vist-
kerfi Íslandshafs og Ken Drinkwater flytur erindi um
hvernig lífríki sjávar bregst við breytingum í umhverf-
inu og áhrif loftslagsbreytinga á vistkerfið í hafinu.
Áhrif loftslagsbreytinga á sjávarvistkerfi
Þriggja daga ráðstefna
um loftslagsbreytingar,
hafstrauma og vistkerfi
hófst í gær á Hótel Nord-
ica. Andri Karl sat fyr-
irlestra um veðurfar á Ís-
landi og hafís í sögulegu
ljósi, svo fátt sé nefnt.
andri@mbl.is
ÖLLUM leigjendum íbúða í Skugga-
görðum, nýjum stúdentagörðum við
Lindargötu, hefur borist bréf frá
skrifstofu Stúdentagarða undir fyr-
irsögninni „Umgengni í Skugga-
görðum – óásættanleg.“
Í bréfinu kemur fram að skrifstof-
unni hafi borist kvartanir undan því
að íbúar Skuggagarða hendi sígar-
ettustubbum, tómum bjórflöskum og
öðru rusli niður af svölum sínum.
Umgengni við ruslagáma hefur einn-
ig verið ábótavant, heimilissorp ver-
ið skilið eftir annars staðar en í gám-
unum og svalirnar notaðar til að
geyma rusl, tómar flöskur og aðrar
umbúðir.
Skrifstofa Stúdentagarða hvetur
íbúa garðanna til að tilkynna ónæði
frá öðrum íbúðum. „Partíhald fram
eftir nóttu verður ekki liðið í
Skuggagörðum frekar en á öðrum
stúdentagörðum í okkar eigu,“ segir
í lok tilkynningarinnar.
Baldvin Ólason, rekstrarstjóri
Stúdentagarða, segir að bréfið hafi
verið sent leigjendum til þess að
vekja þá til umhugsunar.
Verði ekki eftirpartístaður
„Við viljum ekki að þetta verði
svokallaður eftirpartístaður, að fólk
komi þarna við og lepji síðasta bjór-
inn. Staðsetningin býður vissulega
upp á það en með bréfinu erum við
að reyna að stoppa það við fæðingu,“
segir Baldur. Hann telur umgengn-
ina á Skuggagörðum ekki verri en
annars staðar, þótt mikið hafi verið
um glerbrot og alls kyns sóðaskap á
lóðinni um síðustu helgi.
Aðspurður til hvaða úrræða Stúd-
entagarðar geti gripið gegn leigjend-
um sem séu með ólæti, segir Baldvin
að uppsagnarákvæði séu í leigu-
samningum stofnunarinnar við stúd-
enta og því úrræði hafi áður verið
beitt á öðrum stúdentagörðum.
„Partíhald
fram eftir
nóttu verður
ekki liðið“
Morgunblaðið/Jim Smart