Morgunblaðið - 12.09.2006, Side 14
14 ÞRIÐJUDAGUR 12. SEPTEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
ERLENT
Eftir Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
ALLT AÐ 43 milljónir barna í stríðs-
hrjáðum löndum um allan heim fara
á mis við skólagöngu vegna átaka og
samfélagslegra afleiðinga þeirra.
Þetta kemur fram í nýrri rannsókn-
arskýrslu alþjóðasamtakanna Save
the Children, sem starfa á Íslandi
undir merkjum Barnaheilla, þar sem
áhrif stríðsátaka á menntun barna í
30 löndum eru tekin til athugunar.
Ástandinu í þessum löndum er lýst
sem vítahring. Skólar séu eyðilagðir,
kennarar ýmist drepnir eða þeir
reknir á flótta og alþjóðlegir styrkt-
araðilar tregir til að skuldbinda sig
til að veita fé til menntunar. Í of-
análag séu börn víða neydd í her-
mennsku, enda séu þau berskjölduð
fyrir ofbeldi og misnotkun.
Þessi þróun er hörmuð af skýrslu-
höfundum sem minna á að menntun
sé einmitt oft nauðsynleg til að rjúfa
vítahring fátæktar. Skýrslan leiði
hins vegar í ljós að árið 2003 hafi
barnahermenn undir 15 ára aldri
verið notaðir í meira en helmingi
þeirra átaka sem þá voru í gangi.
Til að sporna gegn þessari ugg-
vænlegu þróun kynna samtökin í dag
alþjóðaverkefni um menntun barna í
stríðshrjáðum löndum, undir yfir-
skriftinni „bætum framtíð barna“.
Minna gert en þörf er á
Petrína Ásgeirsdóttir, fram-
kvæmdastjóri Barnaheilla, var stödd
á vegum samtakanna í indversku
borginni Chennai við Bengal-flóa
þegar blaðamaður Morgunblaðsins
sló á þráðinn til hennar í gær. Spurð
um ástæður þessa vanda segir Petr-
ína marga þætti hafa áhrif, ríkis-
stjórnir í stríðshrjáðum löndum séu
gjarnan lamaðar og nokkuð skorti á
að ríki heims og alþjóðastofnanir
fylgi eftir yfirlýsingum sínum í þessa
veru.
„Það er búið að undirrita marga
sáttmála sem leggja áherslu á mik-
ilvægi menntunar. Viljinn virðist því
vera fyrir hendi. Hins vegar kemur
oft fyrir að honum sé ekki fylgt eftir
af Sameinuðu þjóðunum og þeim
stofnunum og ríkisstjórnum sem
skuldbinda sig til að styðja þróun-
araðstoð. Því er minna gert í þessum
málaflokki en þörf er á.“
Styður uppbyggingu í Úganda
Petrína leggur jafnframt áherslu á
að átök leiði gjarnan til þess að
stjórnvöld setji menntunarmál til
hliðar. Það sé því mikil áskorun að
halda starfi skóla gangandi á átaka-
svæðum. Reynslan gefi hins vegar
tilefni til bjartsýni.
„Mörg dæmi frá ýmsum löndum
sýna að þegar alþjóðasamtök, á borð
við Save the Children, og íbúar á við-
komandi svæðum taka höndum sam-
an er hægt að gera góða hluti og hafa
jákvæð áhrif á menntun barna. Til
þess að þetta geti orðið að veruleika
víðar þarf hins vegar meira fjár-
magn og auknar skuldbindingar al-
þjóðasamfélagsins og ríkisstjórna
víða um heim.“
Innt eftir helstu verkefnum Save
the Children segir Petrína þau ætla
sér að mennta þrjár milljónir barna í
20 stríðshrjáðum löndum á næstu
fimm árum og að auka gæði mennt-
unar fimm milljóna barna til viðbót-
ar. Þá muni Barnaheill styðja upp-
byggingu í Kambódíu, Afganistan og
Úganda. „Svo dæmi sé tekið er nú
væntanlega að ljúka stríði í Úganda
sem hefur staðið yfir í tvo áratugi.
Alþjóðasamfélagsins bíður þar gríð-
arlegt verkefni, enda þörf á að gera
börnum, sem hafa tekið þátt í her-
mennsku, kleift að lifa eðlilegu lífi.“
Átök svipta milljónir skólagöngu
Reuters
Á flótta Súdönsk fjölskylda sem hefur þurft að yfirgefa heimili sitt ferðast á asna í leit að vatni í norðurhluta Darf-
ur-héraðs í síðustu viku. Líkt og í nágrannaríkinu Úganda hafa súdönsk börn farið á mis við menntun vegna átaka.
Í HNOTSKURN
»Samtökin Save the Childrenskora á alþjóðasamfélagið að
veita aukalega 415 milljörðum
króna til menntunar barna í
stríðshrjáðum löndum.
» Jafnframt er skorað á al-þjóðasamfélagið að tryggja að
nauðsynlegir innviðir séu alltaf til
staðar.
»Þá er skorað á ríki heims aðtryggja að hermenn og
skæruliðar sem beita kennara of-
beldi verði saksóttir.
»Barnaheill hvetja ein-staklinga, fyrirtæki og op-
inbera aðila á Íslandi til að styðja
menntun barna í Afganistan,
Kambódíu og Úganda.
Eftir Svein Sigurðsson
svs@mbl.is
FJÖLMIÐLAR víða um heim fjöll-
uðu í gær mikið um atburðina í
Bandaríkjunum fyrir fimm árum og
var rauði þráðurinn í leiðurum
þeirra hörð gagnrýni á ríkisstjórn
George W. Bush Bandaríkjaforseta.
Var hún sökuð um að hafa klúðrað
hryðjuverkastríðinu og fyrirgert
samúðinni með innrásinni í Írak.
Hryðjuverkanna fyrir fimm árum
er alls staðar minnst með hryllingi
og öfgamenn, sem eru reiðubúnir að
drepa saklaust fólk, fordæmdir harð-
lega. Langflestir fjölmiðla eru hins
vegar sammála um, að heimurinn sé
hættulegri staður en hann áður var,
þrátt fyrir hryðjuverkastríðið. Í
Mið-Austurlöndum og í Evrópu er
Bush gagnrýndur fyrir að hafa ráð-
ist inn í Írak með baráttuna gegn
hryðjuverkum að yfirvarpi og
bandaríska dagblaðið The New York
Times sagði, að ekki væri lengur fyr-
ir að fara þeirri einingu, sem verið
hefði með Bandaríkjamönnum fyrst
eftir árásirnar. Því miður hefðu hver
mistökin rekið önnur.
„Bush-stjórnin hefur troðið á al-
þjóðalögum og ákvæðum Genfar-
sáttmálans, skert réttindi þegnanna
en aukið sín eigin völd. Með þessu
hefur hún stórlega dregið úr virð-
ingu manna fyrir Bandaríkjunum og
ekki aðeins það, heldur líka fyrir
vestrænum gildum,“ sagði breska
blaðið Financial Times og í öðrum
blöum kom fram, að Bush hefði nýtt
sér árásirnar til að gera utanríkis-
stefnu ný-íhaldsmanna að veruleika.
Hvergi var gagnrýnin á Banda-
ríkjastjórn harðari en í löndum
múslíma og mörg blöð sögðu, að inn-
rásin í Írak hefði aukið hættu á al-
varlegum átökum milli menningar-
heima, íslams og Vesturlanda.
„Í stað þess að einangra og þurrka
út al-Qaeda, hefur Bush lagt fram
lista með nýjum óvinum í hryðjuver-
kastríðinu. Með því hefur hann
styrkt ýmsa í þeirri trú, að Banda-
ríkin séu í krossferð gegn íslam og
það hefur al-Qaeda svo sannarlega
kunnað að notfæra sér,“ sagði líb-
anska dagblaðið Daily Star.
Segja stefnuleysi
einkenna stríðið
Hið hálfopinbera Al-Ahram í
Egyptalandi var ekkert að skafa ut-
an af gagnrýninni á Bush-stjórnina.
„Fyrir fimm árum breyttist heim-
urinn tvisvar. Einu sinni af völdum
Osama bin Ladens og svo aftur af
völdum „Bin Bush“ og ríkisstjórnar
hans,“ sagði blaðið.
Í leiðara The Los Angeles Times
var Bush sakaður um að grafa undan
hryðjuverkastríðinu:
„Bush hefur gerst sekur um
barnalega einföldun og gengið allt of
langt í „fasista-líkingum“ sínum. Það
er hins vegar fagnaðarefni, að hann
skuli aftur vera farinn að tala um bin
Laden og minna á, að hugmynda-
fræði hans sé ógnun við vestræn
gildi.“
Í USA Today sagði, að hryðjuver-
kastríðið einkenndist nú af stefnu-
leysi.
„Klúðrið í Írak, sem hafði ekkert
með hryðjuverkin að gera, er alvar-
legustu mistökin. Ríkisstjórnin hef-
ur gerst sek um að líða pyntingar og
að sýna öðrum ríkjum hroka og það
verður að breytast. Raunar hefur
það heldur breyst til batnaðar á síð-
ara kjörtímabili Bush.“
Hörð gagnrýni á
Bush víða um heim
Reuters
11. september Minningarspjöld um hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum
eru með ýmsu móti. Þetta er frá Pristina, höfuðborg Kosovo-héraðs í Serbíu.
Íraksinnrás sögð
hafa spillt hryðju-
verkastríðinu
Vínarborg. AFP. | Ónafngreindur
heimildarmaður AFP-fréttastofunn-
ar fullyrti í gær, að Ali Larijani,
helsti samningamaður Írana á sviði
kjarnorkumála, hefði á fundi sínum
með Javier Solana, aðaltalsmanni
Evrópusambandsins (ESB) í utan-
ríkismálum, í Vínarborg í fyrradag,
boðið að gera tveggja mánaða hlé á
umdeildri úranauðgun Írana.
Að sögn heimildarmannsins, sem
er embættismaður hjá ESB, lét Lar-
ijani þess þó ógetið hvort slíkt hlé
yrði gert áður en samningaviðræður
um kjarnorkuáætlun landsins færu
fram. „Hann bauð tveggja mánaða
hlé en [...] það var ekki ljóst hvenær
það myndi hefjast.“
Ali Asghar Soltanieh, sendiherra
Írana hjá Alþjóðakjarnorkustofnun-
inni (IAEA) í Vínarborg, vísaði því
hins vegar á bug að Larijani hefði
lagt slíkt boð fram. Á sama tíma
sagði Gregory Schulte, sendiherra
Bandaríkjamanna hjá IAEA í Vínar-
borg, að Írönum nægði ekki að gera
hlé á úranauðgun í þennan tíma, hléið
yrði að vara eins lengi og samninga-
viðræður stæðu yfir. Jafnframt
minnti hann Írana á, að stjórnvöld í
Washington myndu þrýsta á um
refsiaðgerðir hættu þeir ekki úra-
nauðgun.
Mohamed El-
Baradei, yfirmað-
ur IAEA, tjáði sig
einnig um deiluna
í Vínarborg í gær,
þegar hann lýsti
því yfir að best
væri að fara
samningaleiðina í
deilunni.
Solana var
ánægður að lokn-
um fundinum í fyrradag og sagði
hann hafa greitt úr „misskilningi“
varðandi kjarnorkuáætlun Írana.
Olíuverð fer lækkandi
Tíðindi af Íransdeilunni höfðu
áhrif á olíuverð á mörkuðum í New
York og London í gær, þegar það
hafði ekki verið lægra frá því síðla
mars á þessu ári. Þannig lækkaði
verðið á hráolíu í New York um 62
sent í 65,63 dollara tunnuna, sbr. við
78,40 dollara 13. júlí sl. Hinum megin
við Atlantshafið lækkaði verðið á
Brent Norðursjávarolíu um 53 sent í
64,80 dollara tunnuna í London, en
verðið fór hæst í 78,64 dollara 7.
ágúst sl. Þá tilkynntu talsmenn
OPEC, samtaka olíuframleiðsluríkja,
að þau myndu halda framleiðslu stöð-
ugri í 28 milljónum tunna á dag.
Segir Írana bjóða
hlé á úranauðgun
Ali Larijani
Kaupmannahöfn. AFP. | Sprengiefnið
sem danska lögreglan lagði hald á í
aðgerð í Óðinsvéum í síðustu viku er
sömu gerðar og efnið í sprengjunum
sem notaðar voru í hryðjuverkaárás-
unum í London í júlí á liðnu ári.
Þessu er haldið fram í frétt danska
dagblaðsins BT í gær. Þar er fullyrt
að efnið hafi verið af gerðinni TATP,
en það hefur víða komið við sögu í
hryðjuverkum.
Í frétt sinni um málið vísar blaðið
til greiningarskýrslu rannsóknar-
stofu í Kaupmannahöfn, sem vegfar-
andi fann fyrir tilviljun á laugardag
fyrir utan stofuna.
Hafa ekki tjáð sig um málið
Hvorki njósnadeild dönsku lög-
reglunnar, PET, eða lögreglan í Óð-
insvéum hafa viljað tjá sig um fréttir
af skýrslunni.
Sex Danir og erlendur ríkisborg-
ari á aldrinum 18 til 33 ára, sem voru
allir íslamstrúar, voru handteknir í
aðgerð lögreglunnar í Óðinsvéum
vegna gruns um að hafa lagt á ráðin
um hryðjuverkaárás í Danmörku.
Sprengiefnið í Óðinsvéum
sömu gerðar og í London?