Morgunblaðið - 12.03.2007, Blaðsíða 16
16 MÁNUDAGUR 12. MARS 2007 MORGUNBLAÐIÐ
VESTURLAND
Blönduós | Það var frábært úrval
gæðinga á Svínavatni á ísmótinu á
laugardaginn, Svínavatn 2007, sem
hestamannafélögin Þytur í V-
Húnavatnssýslu og Neisti í A-
Húnavatnssýslu stóðu fyrir. Það
voru alls 170 skráningar og keppt
var í fimm mismunandi flokkum.
Vegleg peningaverðlaun voru í boði
og fóru nokkrir knapar með verald-
legan auð af ísnum, en vonandi allir
með mikla ánægju og gleði að hafa
tekið þátt í þessu stóra móti.
Segja má að Sigurður Sigurð-
arson hafi komið, séð og sigrað, en
hann náði efsta sæti, bæði í opnum
flokki í tölti og í A-flokki gæðinga.
Fékk hann að launum, auk bikara
og bókaverðlauna, 100 þúsund
krónur fyrir hvorn sigur. Þá varð
hann í þriðja sæti í B-flokki gæð-
inga og fékk þar 10 þúsund kr.
verðlaun eftir að hafa tapað hlut-
kesti um annað sætið.
Framkvæmd mótsins tókst mjög
vel og voru bæði knapar og áhorf-
endur á því að þarna væri frábær
aðstaða. Ísinn var traustur og góð-
ur og snjóþekja afmarkaði brautir
vel.
Morgunblaðið/Jón Sigurðsson
Tilþrif Þórður Þorgeirsson með glæsihestinn Ás frá Ármóti en þeir lentu í öðru sæti í A-flokki gæðinga á ísmótinu.
Úrval gæðinga á stórmóti
hestamanna á Svínavatni
Eftir Guðrúnu Völu Elísdóttur
gve@ismennt.is
Borgarnes | Um 15 km frá Borgarnesi við
Ólafsvíkurveg er merkið SÓLA sem vísar á
handverk Snjólaugar Guðmundsdóttur á Brú-
arlandi. Snjólaug hefur búið þar frá árinu 1975
en opnaði vinnustofuna 1997. Þar vinnur hún í
ull, tré, skeljar, steina, og hefur ýmsa muni til
sýnis og sölu. ,,Áður en ég opnaði hafði ég
unnið við eldhúsborðið heima, en þegar feðg-
arnir byggðu bílskúr fékk ég 20 fm aðstöðu í
öðrum endanum. Það skipti sköpum þó að sú
aðstaða sé í rauninni orðin of lítil. Áður var ég
víða með vörur, t.d. í Ullarselinu á Hvanneyri,
í Reykjavík og á Ísafirði. Nú er ég er alveg
hætt þessu, sel bara hér og eftir pöntunum.“
Ein hugmynd býr til aðra
Snjólaug sem er fædd og upp alin á Ísafirði,
er menntaður vefnaðarkennari og þegar hún
var tvítug kom hún að Varmalandi til að kenna
í Hússtjórnarskólanum. Ekki leið á löngu
þangað hún hitti draumaprinsinn Guðbrand
Brynjólfsson sem var nemandi á Hvanneyri.
,,Það var þannig að nemendur í Bændaskól-
anum og á Varmalandi hittust gjarnan við há-
tíðleg tækifæri. Nemendur í framhaldsdeild-
inni á Hvanneyri voru oft eldri en við
kennararnir og þeir fengu okkur stundum sem
borðdömur. Ég hitti Brand einmitt við slíkt
tækifæri og tók eftir að hann ruglaði mér sam-
an við aðra konu. Ég var staðráðin í að skoða
þennan mann betur og þegar ég leit í augun á
honum varð ekki aftur snúið, það var ást við
fyrstu sýn.“ Þau giftu sig 1972 og fóru að búa
á Brúarlandi 1975 og eiga tvo syni. ,,Ég trúi
því ekki að þetta hafi verið tilviljun, maður
ræður kannski ekki alveg sínum örlögum en
getur haldið utanum þau. Eins er með hug-
myndir, ef maður segir frá hugmyndum sín-
um, fara þær af stað og maður, já, eða einhver
annar framkvæmir eða ný hugmynd kviknar.
Maður á ekki að halda hugmyndum sínum
leyndum, mér finnst það vera oft þannig í mín-
um geira, fólk eignar sér hugmyndir en ein
hugmynd býr til aðra, fólk fær innblástur og
þess vegna finnst mér um að gera að henda
öllum hugmyndum út í loftið, sérstaklega ef
þær eru góðar.“
Kvenfélagið bjargaði
mér frá léttgeggjun
Snjólaug sinnti barnauppeldi og heim-
ilisstörfum um hríð og kenndi í tvö ár við útibú
grunnskólans á Varmalandi á Lyngbrekku.
,,En ég get ekki sagt að ég hafi verið dugleg í
bústörfunum, ég sinnti skepnunum aldrei
neitt en tók þátt í heyskap. Svo eftir að Brand-
ur var kosinn oddviti var skrifstofan hér og
fundir. Ég var alltaf eitthvað að vefa meðfram
heimilisstörfum, og tók þátt í félagsstörfum.
Ég fór í kvenfélagið og það bjargaði mér frá
að verða léttgeggjuð, ég var svo einöngruð fé-
lagslega. Svo fór ég að kynnast fólkinu hérna,
og starfaði í Kvennalistanum.“ Snjólaug tók
sæti á lista og fór í hálfan mánuð á Alþingi.
,,Ég kom meira að segja með tillögu sem var
samþykkt, en hún var á þá leið að farið væri
ofan í gamalt handverk og áhersla lögð á að
varðveita það og ferja til nútímans. Hér áður
ferjaðist kunnáttan frá einni kynslóð til ann-
arrar, en ekki lengur, þessi þráður nánast
slitnaði. Á þessum tíma var líka samdráttur í
landbúnaði og handverkið var það sem konur
horfðu til, sem gæti orðið þeim atvinna jafnvel
þó að þær gætu ekki lifað af því, en margt
smátt gerir eitt stórt.“ Í framhaldi af tillögu
Snjólaugar var sett á laggirnar nefnd og fjár-
magn veitt til verkefnisins Handverk og hönn-
un.
Heldur námskeið í flóka
Um 1986 fór Snjólaug að vinna skartgripi.
,,Ég fann skeljabrot í fjörunni sem mér fannst
svo flott, boraði í það gat og hengdi í eyrað.
Það var byrjunin með skartgripina en ég hef
alltaf ofið og unnið í flóka. Mér finnst voða
gott að nota það sem er við fæturna á manni,
nýta náttúruna og umhverfið.“ Fyrir utan að
hanna, sýna og selja heldur Snjólaug nám-
skeið í flóka. ,,Því held ég áfram á meðan fólk
vill koma. Ég tek mest fjóra í einu og minnst
tvo. Fólk lærir undirstöðuatriðin í flóka og
getur haldið áfram sjálft. Ég reyni að gera
kennsluna þannig að fólk geti byggt ofan á. Ég
kenni fyrst að þæfa sléttan hlut, þæfa á mót,
og svo á snið. Þæfing er aldagömul aðferð við
meðferð ullar. Hirðingjar í Asíu hafa t.d. þæft
húsin sín úr ull, þessi aðferð er eldri en vefn-
aður og spuni, og hefur kannski uppgötvast
fyrir tilviljun. Á Íslandi var þessi aðferð ekki
mikið notuð, samt í reiðsessur, skikkjur, hatta
og húfur, þetta er þrælsterkt þegar búið er að
lemja þetta sundur og saman. Þessi aðferð var
alltaf meira notuð á Norðurlöndunum en hér.
En auðvitað var það alþekkt hér að þæfa
sokka og vettlinga, þeir urðu miklu hlýrri.“
Snjólaug segið að traffíkin hjá sér sé þokka-
leg, aðallega þó á sumrin. ,,Það er opið allan
sólarhringinn, allt árið ef ég er heima,“ segir
Snjólaug og hlær. Hún bætir við að sér finnist
mjög gaman að taka á móti fólki og tekur
gjarnan á móti hópum. ,,Ég safna líka hand-
verki frá öðrum og þá kynni ég það og sýni.
Og býð upp á kleinur og kaffi, kleinurnar mín-
ar þykja góðar.“ Hún hefur sýnt verkin sín
víða um land og næst liggur fyrir að sýna á
Hrafnseyri. ,,Mér finnst það mikill heiður að
vera boðið að sýna verkin mín þar í sumar, en
þar verður opnað 17. júní. Á næsta ári er búið
að bjóða mér að vera með sýningu á heimilis-
iðnaðarsafninu á Blönduósi svo ég má halda
vel á spöðunum.“
Opið allt árið, allan sólarhringinn
Morgunblaðið/Guðrún Vala
Mannblendin Snjólaug segir að sér finnist mjög gaman að taka á móti fólki.
LANDIÐ
KYNFERÐSLEGT ofbeldi á börnum
á Íslandi hefur um langt skeið verið
viðkvæmt umfjöllunarefni, en fé-
lagasamtökin Blátt áfram hafa opn-
að fyrir umræður og sinnt öflugu
forvarnarstarfi sem vakið hefur at-
hygli. Blátt áfram heldur námskeið
og fyrirlestra, heimsækir skóla og
leikskóla og nýtur fulltingis Brúðu-
leikhússins við að nálgast viðkvæmt
umfjöllunarefnið og gera yngstu
kynslóðinni kleift að tjá sig án sekt-
arkenndar.
Alcoa-Fjarðaál hefur afhent Blátt
áfram styrk upp á hálfa milljón
króna til forvarnarstarfs í skólum á
Austurlandi. Sigríður Björnsdóttir
hjá Blátt áfram segir styrkinn mjög
mikilvægan starfi samtakanna og að
peningarnir komi að góðum notum.
„Alcoa Fjarðaál er svo sannarlega
að sýna bæjarfélagi sínu og um-
hverfi hvað fyrirtækið er tilbúið að
leggja af mörkum til samfélagsins.
Þetta er samfélagslegur vandi sem
hægt er að leysa og gjöf Alcoa
Fjarðaáls er skref í þá átt,“ segir
Sigríður en Blátt áfram og Brúðu-
leikhúsið munu innan skamms
leggja upp í sýningarferð um Aust-
urland þar sem rætt verður um þessi
mál við börnin.
Styrkur Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa-Fjarðaáls, og Sigríður
Björnsdóttir hjá Blátt áfram, með leikurum Brúðuleikhússins.
Hálf milljón til styrktar
forvarnarstarfi gegn
kynferðislegu ofbeldi