Morgunblaðið - 12.05.2007, Blaðsíða 22
22 LAUGARDAGUR 12. MAÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ
ERLENT
Eftir Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
HANN ER aðeins toppurinn á ísjak-
anum fangelsisdómurinn yfir tveim-
ur víetnömskum lögfræðingum í höf-
uðborginni Hanoi í gær og var áhugi
erlendra fjölmiðla og diplómata til
marks um vaxandi ólgu í Víetnam.
Stjórn kommúnista þótti slaka á
klónni á meðan hún beið inngöngu í
Heimsviðskiptastofnunina, WTO, en
svo hafa tekið upp fyrri háttu eftir að
umsóknin var samþykkt 11. jan. sl.
Þrír aðgerðasinnar mættu í rétt-
arsal á fimmtudag vegna gruns um
að hafa átt í samstarfi við Cong
Thanh Do á Netinu, en þar ræðir um
víetnamskan innflytjanda sem er bú-
settur í San Jose, Kaliforníu, og vís-
að var úr landi í september fyrir til-
raunir til að grafa undan stjórninni.
Lögfræðingarnir, Nguyen Van
Dai, 38 ára, og Le Thi Cong Nhan, 27
ára, voru dæmdir í fimm og fjögurra
ára fangelsi og gefið að sök að hafa
tekið þátt í undirróðri gegn stjórn
kommúnista. Tóku þau bæði fullan
þátt í starfi neðanjarðarhreyfingar-
innar Víetnamski framfaraflokkur-
inn og samtökin 8406, sem berst fyr-
ir lýðræðislegum umbótum.
Einn stofnenda hreyfingarinnar,
kaþólski presturinn Thadeus Nguy-
en Van Ly, eitt þekktasta andlit and-
ófsins, var í mars dæmdur í átta
mánaða fangelsi fyrir andóf og voru
áðurnefndir lögfræðingar sakaðir
um að hafa átt í samstarfi við hann.
Hreyfingin dregur nafn sitt af
stofndeginum, 8. apríl 2006, og hafa
aðgerðir yfirvalda til að brjóta hana
á bak aftur sætt mikilli gagnrýni al-
þjóðasamfélagsins. Þær hafa einnig
aukið spennuna í samskiptunum við
Bandaríkjastjórn og þær kröfur
heyrst úr röðum þingmanna vestan-
hafs að beita beri refsiaðgerðum
gegn stjórninni í Hanoi.
Ekki er langt síðan bandarísk
stjórnvöld tóku Víetnam af svörtum
lista yfir ríki þar sem mannréttinda-
brot eru framin og sagðist repúblik-
aninn Edward Randall Royce
hneykslaður yfir því hversu hægt
gengi að auka frelsi almennra borg-
ara í landinu. Nú væri ljóst að
kommúnistar hefðu sagt ósatt þegar
þeir lofuðu bót og betrun í mannrétt-
indamálum, sjónarmið sem alþjóð-
legu mannréttindasamtökin Am-
nesty International taka undir.
ESB þrýstir á stjórnina
Jafnframt hvetja fulltrúar Evr-
ópusambandsins, ESB, stjórnina til
að láta lögfræðingana og aðra
stjórnarandstæðinga lausa, mál-
frelsi sé tryggt í víetnömsku stjórn-
arskránni og kærurnar því ólögmæt-
ar.
Kommúnistar segjast hins vegar
ekki refsa neinum fyrir stjórnmála-
skoðanir, málið snúist um dreifingu
undirróðurs gegn stjórnvöldum.
Gaf dómsforsetinn, Nguyen Huu
Chinh, þeim Dai og Nhan þannig að
sök að hafa „afskræmt lýðræðið og
mannréttindi í Víetnam, og mælt
gegn sósíalisma“. Saksóknarar tóku
í sama streng, lögfræðingarnir hefðu
brotið 88. grein víetnamskra refsi-
laga með því að hvetja landa sína til
að sniðganga næstu kosningar til
þjóðþingsins. Tilraunir til að hvetja
starfsfólk lögfræðingastofu til að
styðja málstað hreyfingarinnar
væru einnig sakarverðar, í samfélagi
þar sem viðleitni til að koma á fjöl-
flokkakerfi jafnast á við landráð.
Dai og Nhan hefðu að auki verið í
sambandi við lýðræðissinna utan
landsins, uppfrætt samborgara sína
um mannréttindi og notað Netið til
að koma boðskap sínum á framfæri.
Vart þarf að taka fram að slíkt er lit-
ið afar alvarlegum augum, enda
gegn flokkslínunni í ríkismiðlunum.
Ritskoðunin nær víðar, erlendum
fjölmiðlum var meinaður aðgangur
að réttarhöldunum en þeir fylgdust
með þeim í gegnum lokaða sjón-
varpsrás, hljóðgæðin voru svo léleg
að lítill hluti þeirra heyrðist.
Rúm tvö ár eru síðan presturinn
Van Ly, þrír félagar hans og um
8.000 fangar fengu sakaruppgjöf. Nú
er annað uppi á teningnum og meðal
þeirra sem hafa sætt ákærum er
saksóknarinn Le Quoc Quan, sem
var tekinn höndum í mars eftir að
hafa lagt stund á nám í uppbyggingu
lýðræðissamfélaga í Bandaríkjun-
um. Sakir saksóknarans kunna að
verða gerðar upp í gálganum.
Dæmd fyrir andóf
gegn stjórnvöldum
Í HNOTSKURN
»Víetnam varð 150. aðildar-ríki Heimsviðskiptastofn-
unarinnar 11. janúar sl.
»Mikill efnahagsuppgangurhefur verið í landinu og
rætt um nýjan Asíu „tígur“.
»Stjórnin lítur Netið afartortryggnum augum, rétt
eins og kommúnistar í Kína.
»Aðgerðirnar eru taldar ámeðal þeirra hörðustu í
um tvo áratugi.
Kommúnistar í Víetnam taka hart á lýðræðishreyfingu
Kröfur vakna um refsiaðgerðir á Bandaríkjaþingi
Reuters
Í réttinum Dai og Nhan (fyrir aftan) með hermönnum. Erlendum fjöl-
miðlum var ekki hleypt í dómsalinn og er myndin úr sjónvarpsupptöku.
ÞÚSUNDIR sænskra ungmenna
eiga nú í vandræðum vegna svo-
kallaðra SMS-skyndilána, sem eru í
raun ekkert annað en okurlán, að
minnsta kosti á sænska vísu. Hefur
málum af þessu tagi fjölgað mikið
það sem af er ári en lánin eru yfir-
leitt tekin til að fjármagna einka-
neyslu og ósjaldan vegna spilafíkn-
ar.
Lánin, sem eru veitt á korteri í
gegnum símann eða netið, eru oft-
ast á bilinu 10.000 til 40.000 ísl. kr.
og algengast er, að þau séu notuð
til að greiða fyrir vín og mat og
aðra einkaneyslu. Kemur það fram
í finnskri skýrslu en þessi lána-
starfsemi hófst fyrst í Finnlandi.
Kom þetta fram á fréttavef Dagens
Nyheter í gær.
„Fók, sem annars ætti að láta
það ógert að taka lán, gerir það
samt og notar það í einkaneyslu.
Það lætur sig ekki muna um að
kaupa 30.000 kr. fyrir 36.000 kr.,“
segir Janne
Åkerlund, sem
starfar í for-
varnadeild sýslu-
mannsembætt-
anna.
Tvöfaldast
á skömmum
tíma
Bendir hann á,
að standi fólk
ekki í skilum,
geti skuldin
næstum tvöfaldast á tveimur mán-
uðum. Ef mál er höfðað til að inn-
heimta skuldina, vex kostnaðurinn
enn og þá er fólk komið á svartan
lista. Það veldur því síðan erfið-
leikum á húsnæðis- og vinnumark-
aði.
Nú hillir undir, að 10.000 ungir
Svíar verði búnir að koma fyrir hjá
sýslumanni bara á þessu ári en þeir
voru aðeins 1.407 um síðustu ára-
mót. Annað, sem vekur athygli, er,
að svo ósvífin eru lánafyrirtækin,
að þau halda áfram að lána fólki,
sem þegar er í verulegri skuld.
Eitt af þessum fyrirtækjum heit-
ir Pokerfinans, sem segir sína
sögu, og það hefur nú verið kært.
Stærsta fyrirtækið er Mobillån
Sverige og hefur það að sögn lánað
120.000 manns. Á það nú í tvennum
málaferlum, annars vegar vegna
markaðssetningar og vaxta og hins
vegar vegna okurlánastarfsemi.
Önnur tvö fyrirtæki, Recator og
SMS Finans, hafa ekki verið skráð
hjá sænska fjármálaeftirlitinu, sem
er ólöglegt. Er það mál nú í athug-
un hjá eftirlitinu.
Þessi starfsemi vekur æ meiri
áhyggjur og hefur hún mikið verið
rædd innan samtaka fyrrverandi
spilafíkla. Skora þau á ríkisvaldið
að skerast í leikinn og ungir jafn-
aðarmenn krefjast þess, að starf-
semi af þessu tagi verði bönnuð.
Komið í skuldakreppu
vegna SMS-okurlána
Okurlán Nú er auð-
velt að steypa sér í
skuldir á korteri
með því að taka
SMS-lán.
BÁLREIÐIR eigendur forláta
Trabant-bifreiða munu þeyta
bílflautur í miðborg Berlínar á
morgun í mótmælaskyni við ný lög
um útblástur gróðurhúsaloftteg-
unda, sem óttast er að séu dauða-
dómur yfir einu helsta framlagi
austur-þýsks iðnaðar til sósíalism-
ans á tuttugustu öld, á sjálfu hálfr-
ar aldar afmælisári bifreiðarinnar.
Lögin, sem koma frá Evrópusam-
bandinu, ESB, ganga í gildi á ný-
ársdag 2008 og telja unnendur
fornbíla þau munu koma harðast
niður á eldri sjálfrennireiðum.
Loftgæði í koladrifnum iðnaðar-
borgum Austur-Evrópu voru gjarn-
an afar slæm. Engu að síður segja
kunnugir að alltaf hafi mátt greina
útblásturinn frá Trabant-bílunum,
kokkteil efnasambanda frá bifreið
sem sögð er menga nífalt á við
Volkswagen Golf. Af rúmum þrem-
ur milljónum Trabant-bíla sem
smíðaðir voru eru enn um 52.432
skráðir, en plastfákarnir urðu að
einu helsta tákni sósíalismans eftir
að Berlínarmúrinn féll í nóvember
1989 og forvitnir A-Þjóðverjar
streymdu til vestursins.
Ekki kunnu þó allir Austur-
Þjóðverjar að meta bílinn og upp-
nefndu illmælgir hann „kappakst-
urs pappakassa“ (þ. Rennpappe),
sem ól af sér þá goðsögn að plastyf-
irbyggingin væri úr léttum pappa.
Niðurlæging Trabantsins varð
svo tímabundið algjör er fyrrum
eigendur losuðu sig við hann fyrir
fáein þýsk mörk – eða jafnvel gáfu
hann – í sameinuðu Þýskalandi.
Undrasmíðin fékk síðan uppreisn
æru eftir að hún stóðst hið fræga
elgspróf, getu bifreiðar til að halda
jafnvægi í krappri beygju, sem hin
rándýra frumgerð A-Class, smábíls
Mercedes Benz, kolféll á.
Fyrirtækið Sachsenring hóf
smíði Trabant í borginni Zwickau
árið 1957 á sömu slóðum og Audi
var framleiddur fyrir síðari heims-
styrjöldina, 1939 til 1945.
Frægasta útgáfan var Trabant
601, sem var frá 1967 vinsælust allt
þar til framleiðslunni var hætt árið
sem Sovétríkin liðu undir lok.
Yfirbyggingin var sem áður segir
úr plasti til að spara dýra málma til
þarfari nota. Kom plastið sér vel,
beyglurnar réttu sjálfar úr sér eins
og fyrir töfra. Vélin var tveggja
strokka, samsett úr aðeins fimm
hlutum og svo létt að meðalmaður
gat borið hana. Hámarkshraðinn
100 km á klukkustund og vélinni
síðar skipt út fyrir aðra úr
Volkswagen Polo árið 1990.
Áætla yfirvöld í Berlínarborg að
allt að 80.000 bílar kunni að verða
gerðir útlægir af götunum eftir að
lögin umdeildu ganga í gildi.
Trabantinum
úthýst í Berlín
Lúxux Þýsk Trabant-limmúsína. Margur hefur eflaust öfundað eigandann.
Vinsæl Hin sígilda 601-útfærsla var
framleidd allt fram til ársins 1991.
Strætisvagn Sérsmíðuð Trabant-
hópferðabifreið til ýmissa nota.
Allt í drasli
Til eigenda og ábyrgðarmanna lausamuna
á hafnarsvæðum Hafnarfjarðarhafnar.
Hafnarfjörð til fyrirmyndar
Til athugunar með hækkandi sól.
Vinsamlega fjarlægið lausamuni af hafnarsvæðum
Hafnarfjarðarhafnar sem eru á víð og dreif um
hafnarsvæðin, sem fyrst og ekki síðar en
21. maí nk.
Sé þessum tilmælum ekki sinnt, verða viðkomandi munir
fjarlægðir og fargað á ábyrgð og kostnað eigenda
og/eða umráðamanna.
Látum hendur standa fram úr ermum
og höfum Hafnarfjörð til fyrirmyndar.
Hafnarstjóri