Morgunblaðið - 28.06.2007, Blaðsíða 33

Morgunblaðið - 28.06.2007, Blaðsíða 33
einstök enda býlið margverðlaunað fyrir snyrtimennsku. Það sást hvergi kusk, hvorki úti né inni og allt var á sínum stað í réttri röð. Fríða var ávallt létt á fæti og kvik í hreyfingum. Ég sá hana, komna á ní- ræðisaldur, hlaupa stiga eins og ung- lingsstúlku. Það er gæfa að hafa kynnst og verið samferða jafnmiklu sómafólki og þeim Skjaldfannarhjónum. Vandaðra fólk er vandfundið. Hjá þeim var hjálpsemin, tryggðin og trúin á landið í fyrirrúmi. Virðing borðin fyrir öllu sem lífsanda dregur jafnt mönnum og málleysingjum sem grösum og gróðri. Smávinir fagrir foldar skart fífill í haga rauð og blá. Brekkusóley við mættum margt muna hvort öðru að segja frá. Þannig kvað Jónas Hallgrímsson og er ég sannfærður um að Fríða tek- ur undir þessa fögru náttúrulýsingu. Fríða mín, ég sé þig í anda trítlandi um tún og engi í nýjum heimkynnum innan um smávinina okkar, fífla og brekkusóleyjar. Við sem ólumst upp hinum megin við ána sendum kveðjur og þakkir. Minningarnar eru margar og margs að minnast á slíkri stund sem þessari. Þessi fátæklegu orð eru ekki ætluð sem löng minningargrein þó af nægu sé að taka en er til að þakka þér fyrir samferðina og allan þann hlýhug, tryggð og vináttu sem þið sýnduð okkur fólkinu frá Lauga- landi og okkur í Laugarási, mér, Möggu og börnunum okkar. Þar eru minningar sem ekki gleymast þó að fenni í spor. Aðstandendum færum við innilegar samúðarkveðjur. Megi Guð vera með ykkur öllum um ókomin ár. Far þú í friði, Fríða mín, og hafðu þökk fyrir samfylgdina. Jón Fanndal frá Laugarási. Í dag verður kvödd merk kona, Hólmfríður Indriðadóttir, og er mér bæði kært og skylt að minnast hennar nokkrum orðum. Leiðir okkar lágu þó ekki oft saman, enda ekki næsti bær, en við ýmsar kirkjulegar athafnir hitt- umst við. Hún var að jafnaði mætt við messur á Melgraseyri, bæði í hinu gamla bænhúsi og síðar í hinni nýju kirkju, enda söngkona góð, sem henn- ar fólk. Einnig gisti ég eitt sinn að hennar er ég jarðsetti mágkonu henn- ar og fór það auðvitað ekki framhjá mér hve heimilið var allt snyrtilegt og vel um gengið. Bækur margar og um hin ýmsu efni, enda hún upp alin við bóklega iðju. Er enda heimilið enn í sama stíl hvað þetta hvorttveggja varðar nú á dögum á tíð sonar hennar Indriða og konu hans. Ekki veit sá er þetta ritar hvernig Hólmfríður hefur kunnað við sig fyrstu ár hér við Djúp, en óvíða er fal- legra bæjarstæði en á Skjaldfönn. Bærinn í grænu túninu með fjallið að baki og ána framundan en dalurinn grasi gróinn. Hún var alla tíð mikill unnandi íslenzkrar náttúru og mun henni lítt hafa getizt að óvæginni sókn peningaafla gegn landinu, er þau leita að skildingum, til hvers skildi hvorki ég né hún. Nægjusemi var henni í blóð borin sem þeirri kynslóð er hún var af. Fór vel með allt er hún hafði undir höndum. Börn voru í hennar umsjá á sumrum og veit ég um að vel þókti þeim og vænt um alla vist þar. Var heimilislífið og með þeim hætti að þar fór saman glaðværð og reglusemi. Í hennar skjóli var árum saman ein- stæðingskona og var það mikið álag á Hólmfríði með öðru því er sinna þurfti, því mikillar umönnunar og hjúkrunar þurfti hér við er aldur og hrörnun sóktu á. Hún var greind kona með afbrigð- um, vinavönd og vinaföst, hamingju- kona í einkalífi, þau hjón samhent, en mann sinn, Aðalstein, missti hún fyrir mörgum árum, börn þeirra þrjú far- sæl og minnist ég þeirra sem skemmtilegra nemenda hér við skóla héraðsins. Þessi fáu kveðjuorð eru rituð með þakklæti í huga fyrir góða viðkynn- ingu og vinsemd í okkar garð hér í Vatnsfirði. Hún kvaddi þetta líf á Jónsmessu- nótt og hafði þá lifað langa stund – tæplega hundrað og eitt ár. Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp, Baldur Vilhelmsson. MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 28. JÚNÍ 2007 33 ✝ Ragnar Þór-hallsson fæddist á Laufási í Ket- ildölum í Arnarfirði 13. nóvember 1933. Hann lést á Dval- arheimilinu Felli í Reykjavík 25. maí síðastliðinn. For- eldrar hans voru hjónin Marta Guð- mundsdóttir, f. 27.7. 1901, d. 13.5. 1987, og Þórhallur Guðmundsson, f. 9.2. 1900, d. 30.6. 1987. Systkini Ragnars eru Guð- mundur, f. 20.6. 1922, d. 2.12. 1941, Ragnar Níels, f. 1.4. 1924, d. 10.7. 1924, Margrét, f. 1.4. 1925, Guðrún, f. 18.1. 1927, Hólmfríður, f. 17.8. 1930, d. 26.11. 1999, Sigurður Stefán, f. 22.11. 1931, Kristbjörg, f. 22.10. 1938, og Guðmunda Erla, f. 4.2. 1942. Ragnar kvæntist Sif Karls- dóttur frá Húsavík um jólin 1961. Þau skildu. Synir Ragnars og Sifjar eru Karl, f. 1.4. 1962, og Kári, f. 9.12. 1964, báðir fæddir í Reykjavík. Sif flutt- ist til Bandaríkj- anna ásamt son- unum. Ragnar ólst upp í Laufási og síðar á Bíldudal. Hann stundaði nám við Héraðsskólann á Laugarvatni og síð- ar við Iðnskólann í Reykjavík, þar sem hann lauk námi í pípulögnum. Milli þess sem hann sótti skóla sinnti Ragnar ýmsum störfum til lands og sjávar. Meðal annars var hann lengi í millilandasigl- ingum. Eftir að hafa tekið meist- arapróf í pípulögnum starfaði Ragnar um tíma við þá iðn. Síð- ustu árin áður en heilsan brast starfaði hann hjá Málningu hf. í Kópavogi. Útför Ragnars hefur farið fram í kyrrþey að hans eigin ósk. Ragnar mágur minn og vinur er látinn. Kynni okkar hófust lítillega á seinni hluta 6. áratugar síðustu ald- ar, en þá var hann fyrir stuttu kom- inn heim úr nokkurra ára siglingu um heimsins höf. Sjálfur dvaldi ég árum saman erlendis eftir það svo kynni okkar voru fyrst endurnýjuð eftir heimkomuna. Samgangur okk- ar var ekki mikill í byrjun. Ragnar vann ýmis störf til lands og sjávar á þessum tíma, lærði pípulagnir, fékk meistararéttindi í þeirri iðngrein og vann nokkur ár við pípulagnir. Segja má að kynni okkar hafi fyrst orðið náin, þegar hann réð sig til starfa hjá Málningu hf. í Kópavogi þar sem við áttum samleið í nokkur ár, eða þar til heilsa hans brast. Ragnar var þá tíð- ur gestur á heimili okkar hjóna, gætti meira að segja bús og barna þegar við skruppum í stuttar ferðir til útlanda. Drengirnir okkar minn- ast enn þess tíma með Ragga frænda, enda var þá brugðið frá vana hversdagsleikans. Ragnar var skarpvel gefinn og tekið var til minnis hans hvar sem hann kom. Hann myndaði sér ákveðnar skoðanir á málum, sem voru ekki alltaf í takti við skoðanir annarra. Þegar þannig stóð á lá hann ekkert á skoðunum sínum, rökstuddi þær af mælsku, enda hvatvís og var hvassyrtur, ef honum fannst á sig hallað. Kom það oftar en ekki niður á þeim sem síst skyldi, þeim sem næst honum stóðu og best vildu. Áhrifa- menn samtímans virtust honum ekki sérlega hugstæðir. Hans menn voru hetjur Íslendingasagnanna, sem hjuggu mann og annan og féllu síðan með sæmd. Hann var mjög vel lesinn í þeim fræðum og í vinahópi, þegar vel lá á honum, skýrði hann gjarnan frá heilu viðburðunum úr þessum sögum og vitnaði orðrétt í orðræður manna. Honum voru hugstæð síð- ustu orð Þormóðar Kolbrúnarskálds eftir Stiklastaðabardaga, þá er hann kippti á brott örinni sem stóð honum í hjartastað og tágar af hjartanu fylgdu með: „Vel hefur konungurinn alið oss. Feitt er mér enn um hjarta- rætur.“ Til að undirstrika hug sinn til þessa tíma fór Ragnar ekki dult með að vera ásatrúar. Eins og marg- ir Íslendingar hélt Ragnar mikið upp á Njálu. Flestir Njáluunnendur eiga sér sína söguhetju. Hetja Ragnars var kappinn Kári Sölmundarson, sem elti brennumenn uppi og felldi hvern af öðrum. Einhvern tíma í góðu tómi trúði Ragnar mér fyrir því, að hann hefði skírt yngri son sinn, Kára, eftir söguhetjunni úr Njálu. Ragnar var mjög ljóðelskur, las mikið af ljóðum og fór með heilu ljóðabálkana, þegar sá gállinn var á honum. Hann hélt mikið upp á Dav- íð, en ég hygg að Steinn Steinarr og Vilhjálmur frá Skáholti hafi verið hans skáld og ekki fjarri að hann hafi með sínu napra skopskyni talið sig eiga samleið með þeim. Honum voru hugstæð lok kvæðis Vilhjálms, Jesús Kristur og ég: Hver síðastur þú sagðir að yrði fyrstur, en svona varð nú endirinn með þig. Og úr því að þeir krossfestu þig, Kristur, hvað gera þeir við ræfil eins og mig? Ragnar var miklum kostum gædd- ur og sérlundaður á sinn hátt. Það er eftirsjá í slíkum drengjum og skaði að þeir skulu ekki ná að að njóta sín sem skyldi í lifanda lífi. Hann fór ekki vel með líf sitt, missti heilsuna um aldur fram og var öryrki seinustu áratugina. Þegar minnst er á Ragn- ar, hvort sem er við kunningja hans eða starfsfólk á heilbrigðisstofnun- um, sem hann sótti oft, eru ummælin þau sömu, Ragnar var spes. Blessuð sé minning hans. Óskar Maríusson. Ragnar Þórhallsson Kveðja frá starfsfólki HEKLU hf. Friðbjörn Agnarsson, sem hér er minnst, var löggiltur endurskoðandi og tengdist Heklu hf. sem verktaki og starfsmaður fyrirtækisins á því sviði í 50 ár. Hann lét af störfum fyr- ir tæpum þremur árum þegar hann náði sjötugsaldri. Andlát Friðbjörns bar brátt að þar sem hann var stadd- ur á ferðalagi fjarri ættjörðinni, en það kom þeim, sem til hans þekktu, ekki svo mjög á óvart, vegna þess að hann hafði ekki gengið heill til skóg- ar í nokkur ár. Hver er sem veit, nær daggir drjúpa, hvar dafnar fræ, sem ná skal hæst. Hver er sem veit, nær knéin krjúpa við kirkjuskör, hvað Guði er næst. (Einar Benediktsson) Friðbjörn var borinn og barn- fæddur Reykvíkingur, kominn af ættum traustra bænda í Árnessýslu og Húnaþingi, og hafði gaman af að rekja þau tengsl. Hann ólst upp í austurbænum, nánar tiltekið við Bjarnarstíg þar sem hann bjó síðan alla tíð. Hann gekk í Austurbæjar- skóla og eftir það í Verslunarskóla Íslands, þaðan sem hann lauk prófi árið 1954. Að því loknu stundaði hann nám í endurskoðun við Háskóla Íslands og á Endurskoðunarstofu Kolbeins Jóhannessonar og hlaut löggildingu í þeirri grein árið 1960. Friðbjörn tengdist ungur KFUM og var virkur þátttakandi í þeim ágæta félagsskap lengi frameftir ævi. Eink- um lét hann sér annt um starfið í Vatnaskógi og naut hreyfingin þar fagþekkingar hans á sviði bókhalds og endurskoðunar. Friðbjörn Agnarsson ✝ Friðbjörn Agn-arsson fæddist 24. nóvember 1934. Hann lést 28. apríl síðastliðinn. For- eldrar hans voru Anna Margrét Þor- kelsdóttir, f. 14. ágúst 1903, d. 17. mars 1993, og Agn- ar Guðmundsson, f. 17. september 1883, d. 3. ágúst 1965. Bróðir Friðbjörns er Guðmundur Agn- arsson, f. 7. apríl 1938. Friðbjörn var jarðsunginn 18. maí. Á seinni hluta ævi sinnar gerði Friðbjörn víðreist um heiminn og sóttist sérstaklega eftir að koma til fjar- lægra landa og kynn- ast sérkennum fram- andi þjóða. Eftir slíkar heimshornareisur miðlaði hann gjarnan reynslu sinni til okkar, samstarfsmanna sinna, með líflegum frásögnum af því sem fyrir augun hafði bor- ið, og lýsingum af skemmtilegum atvikum. Í brjósti Friðbjörns bærðist listrænn streng- ur, sem birtist í því að hann notaði hvert tækifæri á ferðum sínum er- lendis og hér heima til að sækja list- sýningar, tónleika og leikhús. Það var þó ætíð á hreinu, að hans mati, hvað væri list, og gerði hann skörp skil á milli nútíma „dægurlistar“ og hinnar sígildu, enda átti Friðbjörn t.d. gott safn málverka, m.a. eftir gömlu íslensku „meistarana“, sem nú hafa hlotið uppreisn æru. Það fer ekki hjá því, að fólk, sem starfar lengi saman, jafnvel þó að á fjöl- mennum vinnustað sé, kynnist náið og tengist gjarnan vináttuböndum. Það á einmitt við nú, þegar við kveðj- um Friðbjörn Agnarsson að lokinni hans jarðvist. Við minnumst hans nú sem manns, sem ástundaði reglusemi í starfi og leik, viðhafði fagleg vinnu- brögð og mat trúmennsku og heið- arleika ofar öðrum gildum. Hann var dagfarsprúður maður, sem lagði jafnan gott til málanna, enda naut hann álits og virðingar meðal starfs- félaga sinna. Friðbjörn var að vissu leyti einfari og gat virkað fráhrind- andi í viðurvist ókunnugra, en við sem vorum samvistum við hann dag- lega vissum að undir yfirborðinu var heilsteypt sál og gott hjartalag. Það, ásamt hans sérstöku kímnigáfu, gerði samverustundir með honum þægilegar og eftirminnilegar. Frið- björn hélt tengslum við okkur í Heklu eftir að hann hætti hér störf- um, og kom til að kveðja okkur dag- inn áður en hann fór í sína seinustu utanlandsferð, sem reyndist hans hinsta för í þessum heimi. Nú fáum við ekki lengur að heyra ferðasögur frá fjarlægum heimshornum, krydd- aðar hans lifandi frásagnargleði, en við geymum minninguna um góðan og vammlausan mann. Hver er að dómi æðsta góður, – hver er hér smár og hver er stór? – Í hverju strái er himingróður, í hverjum dropa reginsjór. (Einar Benediktsson) Friðbjörn var ókvæntur og barn- laus. Hann bjó lengst af með móður sinni, eða þar til hún lést háöldruð. Við vottum eftirlifandi bróður hans og fjölskyldu dýpstu samúð. Fh. starfsfólks Heklu hf. Finnbogi Eyjólfsson. Fallegir legsteinar á góðu verði Englasteinar Helluhrauni 10 Sími 565 2566 - www.englasteinar.is Sendum myndalista ✝ Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlýhug vegna andláts og útfarar elskulegrar móður okkar, tengdamóður, ömmu, langömmu og langalang- ömmu, KLEMENTÍNU MARGRÉTAR KLEMENZDÓTTUR, Hagamel 31, Reykjavík. Margrét Björgvinsdóttir, Þráinn Viggósson, Magdalena Björgvinsdóttir, Kolbrún Björgvinsdóttir, Dröfn Björgvinsdóttir, Þorgeir Jónsson, Mjöll Björgvinsdóttir, Ólafur Stefánsson, Drífa Björgvinsdóttir, Benedikt Þ. Gröndal, Hrönn Björgvinsdóttir, ömmubörn, langömmubörn og langalangömmubarn. ✝ Maðurinn minn, faðir, tengdafaðir og afi, HARALDUR BJARNASON fv. bóndi, Stóru-Mástungu I, Réttarheiði 36, Hveragerði, sem lést 23. júní, verður jarðsunginn frá Stóra- Núpskirkju, laugardaginn 30. júní kl. 13.30. Blóm og kransar vinsamlega afþakkaðir en þeim sem vilja minnast hans er bent á Krabbameinsfélagið. Ragnheiður Haraldsdóttir, Þórir Haraldsson, Vaka Haraldsdóttir, Haukur Haraldsson, Bjarni Haraldsson, Kolbrún Haraldsdóttir, Ragnar Haraldsson, Örn Haraldsson, tengdabörn og barnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.