Morgunblaðið - 06.12.2007, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 06.12.2007, Blaðsíða 20
20 FIMMTUDAGUR 6. DESEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ HÖFUÐBORGARSVÆÐIÐ Morgunblaðið/Frikki Skín við sólu … Álftagerðisbræður syngja í hljóðveri fyrr á þessu ári. Eftir Skapta Hallgrímsson skapti@mbl.is TUTTUGU ár eru liðin síðan Álfta- gerðisbræður úr Skagafirði hófu að syngja opinberlega saman. Fjór- menningarnir halda nú upp á söng- afmælið með útgáfu á geisladiskin- um Skála og syngja, svo og mynddiski þar sem sjá má upptökur frá tónleikum og ýmsum öðrum samkomum á ferli þeirra, viðtöl við þá og meira að segja upptökur frá því þeir voru pjakkar heima í Álfta- gerði. Óskar Pétursson, sem er yngstur þeirra bræðra (og fallegastur, að eigin sögn), er búsettur á Akureyri en hinir þrír í Skagafirði. Óskar er því á töluvert á ferðinni og þeir reyndar allir um þessar mundir; syngja víða til að kynna diskinn. Bræðurnir eru t.d. með tónleika í Ólafsvík í kvöld og á föstudags- kvöldið verða þeir í Langholtskirkju í Reykjavík. Diskurinn, sem nýlega kom út, er sá fjórði sem bræðurnir senda frá sér. „Þetta eru þrettán gömul og góð lög; lög sem koma fram á var- irnar á mönnum þegar þeir eru orðnir kenndir í Miðgarði – enda heitir diskurinn Skála og syngja. Skagfirðingar eru þekktir fyrir það,“ sagði Óskar í samtali við Morgunblaðið í gær. „Það hefur oft komið til tals að gera svona disk en ekki orðið af því fyrr en nú, en það er alltaf gaman að syngja þessi lög, róleg og rómantísk, sem detta upp á kjaftinn á mönnum við góð tæki- færi.“ Hljómsveit undir stjórn Gunnars Þórðarsonar leikur með bræðrunum á diskinum og kemur með þeim fram á tónleikunum. Stef- án Gíslason, stjórnandi karlakórsins Heimis, útsetur öll lögin en hann hefur starfað með bræðrunum alla tíð. Á mynddiskinum kennir margra grasa, eins og áður kom fram, m.a. eru upptökur frá upptökum nýja disksins. Óskar segir ótrúlegt að sjá hvað þeir bræður voru einu sinni ungir og fallegir … „Það er til dæm- is myndbútur frá árinu 1966 þar sem Pétur bróðir er að snúa heyi, búinn að setja upp lakkrísbindið – örugglega alveg að fara í Húna- ver …“ Bræðurnir hafa alla tíð verið miklir söngmenn eins og margir Skagfirðingar. Óskar er sá eini fjór- menninganna sem hefur sönginn að atvinnu en bræður hans „eru í öllum kórum fyrir vestan“, segir hann. „Þeir eru galandi út í eitt, í karla- kórnum Heimi, kirkjukórum og ég veit ekki hverju.“ Sigfús og Gísli stunda búskap í Álftagerði en „Pétur er atvinnu- framsóknarmaður á Króknum“, eins og Óskar orðaði það í samtali við Morgunblaðið. Allir syngja við ýmis tækifæri, oft saman, og þá ekki síst fyrir gamalt fólk og við jarðarfarir að sögn Óskars. Enda sendi einn vinur bræðranna þeim þessa vísu, sem Óskar hefur gaman af: Enginn veit hvort fólki finnst, að fagrir tónar renni. En líklega kvarta langtum minnst, lík og gamalmenni. „Lög sem koma fram á varir manna í Miðgarði“ Í HNOTSKURN » Bræðurnir úr Álftagerðisungu fyrst opinberlega saman við jarðarför föður þeirra, 3. október árið 1987. » Álftagerðisbræður komafram á tónleikum í Ólafs- vík í kvöld og í Langholts- kirkju í Reykjavík annað kvöld. Hljómsveit undir stjórn Gunnars Þórðarsonar leikur með þeim á báðum stöðum. » Útgáfutónleikar verða íSamkomuhúsinu á Ak- ureyri miðvikudagskvöldið 12. desember. KEA úthlutaði í vikunni 4,4 millj- ónum úr Menningar- og viðurkenn- ingasjóði félagsins. Nú hlutu 26 ein- staklingar og félagasamtök styrki. Annars vegar voru afhentir al- mennir styrkir og hins vegar í flokki þátttökuverkefna. Í þeim fyrrnefnda hlutu styrki: Safnasafnið á Sval- barðsströnd, Magnús Aðalbjörnsson, vegna ritunar sögu Gagnfræðaskól- ans á Akureyri, Bílaklúbbur Ak- ureyrar, til að gera upp elsta vörubíl á Eyjafjarðarsvæðinu, Kammerkór Norðurlands, Guðmundur Ingi Jón- atansson, til þess að vinna ljós- myndafilmur á rafrænt form, mynd- ir frá Dalvík og nágrenni, Menningar- og listasmiðjan á Húsa- bakka, Kvennakór Akureyrar, Fé- lag eldri borgara í Dalvíkurbyggð og Hrísey, Karlakór Siglufjarðar, Íþróttafélagið Þór, til öflunar gagna um sögu Þórs í tilefni af 100 ára af- mæli félagsins, Herhúsfélagið, til reksturs hússins, þar sem listamönn- um er boðin vinnuaðstaða og gist- ing, Skákfélagið Goðinn, til kaupa á útbúnaði til skákiðkunar, Birna Björnsdóttir, vegna námskeiða fyrir börn og unglinga í listsköpun, Kór félags eldri borgara á Akureyri, Ro- ar Kvam, til tónleikahalds með Kvennakórnum Emblu, GalleriBOX, Hólmgeir Sigurgeirsson, vegna heimildarmyndar um sögustaði í Eyjafirði, George Hollanders, til að setja upp sýningu úti á víðavangi víðs vegar um Eyjafjarðarsveit, Þór- arinn Stefánsson, til að gefa út geisladisk, útsetningar fyrir píanó á ísl. þjóðlögum, Guðmundur Þ. Júl- íusson og Árni Geir Helgason, til að endurgera og breyta gömlum eik- arbáti sem smíðaður var í Slippstöð- inni 1971, Mývatn – töfraland jólanna og Aflið, samtök gegn kyn- ferðis- og heimilisofbeldi, til rekst- urs starfseminnar. Í flokki þátttökuverkefna fengu styrki: Kammerkórinn Hymnodia, Þórir Ó. Tryggvason, Snæuglan ehf., og Sumarbúðir KFUM og KFUK að Hólavatni. Á myndinni eru styrkþegar eða fulltrúar þeirra ásamt Halldóri Jó- hannssyni, framkvæmdastjóra KEA og Hannesi Karlssyni, stjórnarfor- manni. KEA úthlutar 4,4 milljónum króna AKUREYRI Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur jmv@mbl.is Háaleiti | Íbúasamtök Háaleitis norður afhentu borgarstjóranum í Reykjavík, Degi B. Eggertssyni, undirskriftalista vegna úrbóta um- ferðarmála við Fellsmúla. Íbúarnir krefjast þess að Fells- múli verði botngata og henni lokað ofan gatnamóta Síðumúla og Fells- múla. Einnig að hámarkshraði í göt- unni verði 30 km, að hraðahindranir og gangbraut verði settar upp og umhverfið fegrað. Með breytingun- um vilja íbúarnir að umferð sem tengist íbúunum verði aðgreind frá gegnumstreymisumferð vegna ná- lægra verslunar- og þjónustugatna. Samtökin benda á að um götuna fari um 13.000 bílar á sólarhring og af því hljótist mikil mengun og skerðing lífsgæða íbúa hverfisins. Slysahætta við Fellsmúla sé einnig töluverð og að ítrekað hafi verið ekið á börn og unglinga á mótum Háaleitisbrautar og Fellsmúla. Borgarstjóri sagði við afhendingu undirskriftalistans að nú þegar væri hafin vinna við skipulagningu Háa- leitisbrautar og að koma yrði á verk- fundi með íbúasamtökunum og sér- fræðingum borgarinnar, til að ræða útfærslu hugmynda. Hann þakkaði samtökunum fyrir frumkvæðið, íbú- arnir þekktu best hvar úrbóta væri þörf. Birgir Björnsson, formaður íbúa- samtakanna, segist ánægður með fundinn. „Það er óskastaða fyrir okkur að fá að taka þátt í vinnuferl- inu með þeim sem hafa völdin í borg- inni. En auðvitað taka slíkar aðgerð- ir langan tíma og við viljum fá vissar bráðabirgðaúrbætur strax, eins og t.d. hraðahindrun inn í Fellsmúlann. Við viljum ekki sjá fleiri alvarleg slys og þau geta orðið hvenær sem er.“ Morgunblaðið/Frikki Íbúasamtök krefjast meira öryggis við Fellsmúla Afhending Valgerður Pálsdóttir og Heiða Sævarsdóttir afhenda Degi B. Eggertssyni borgarstjóra undir- skriftalistann. Á milli þeirra er Emma Hjartardóttir sem ekið var á við Fellsmúla í síðasta mánuði. Kjalarnes | Hátíðardag- skrá verður í Fólkvangi á Kjalarnesi sunnudaginn 9. des. kl. 14 í tilefni af hundrað og fimmtíu ára afmæli Brautarholts- kirkju. Dagskráin hefst með helgistund í umsjón sókn- arprests, sr. Gunnars Kristjánssonar prófasts og héraðspresta Kjalar- nessprófastsdæmis, sr. Kristínar Þórunnar Tóm- asdóttur og sr. Kjartans Jónssonar. Lúðrasveit leikur á undan athöfn- inni, barnakór Klébergs- skóla undir stjórn Ás- rúnar Kondrup syngur við helgistundina. Ásgeir Harðarson, formaður sóknarnefndar, flytur ávarp. Karlakór Kjalarness flytur lög við texta eftir séra Matthías Jochumsson, stjórnandi kórsins er Páll Helgason organisti kirkjunnar. Erindi um sögu kirkjustaðarins í Brautarholti eftir Jón Þ. Þór sagn- fræðing, lesari: Ásthildur Skjald- ardóttir. Sögusýning um kirkjuna og kirkjustaði á Kjalarnesi í um- sjón Ólafs J. Engilbertssonar sagn- fræðings. Egill Ólafsson, Jónas Þórir og Hjörleifur Valsson flytja sálmalög, Sigríður Hrefna Bjart- marsdóttir umsjónarkennari átt- unda bekkjar kynnir verkefni sem nemendur hennar hafa unnið í til- efni af afmæli kirkjunnar. Á eftir verður boðið til afmæl- isveislu. Í fréttatilkynningu segir að Brautarholtskirkja á Kjalarnesi megi teljast afkomandi fyrstu kirkju sem reist var á Íslandi, þeirrar kirkju sem suðureyski landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson reisti á Esjubergi skömmu fyrir árið 900 og frá segir í Landnámu. Brautarholtskirkja var reist árið 1857 af Eyjólfi Þorvarðarsyni frá Bakka á Kjalarnesi. Hann reisti fleiri kirkjur, m.a. Þingvallakirkju ári síðar. Áratug eftir vígslu kirkj- unnar kom þjóðskáldið séra Matth- ías Jochumsson til þjónustu í Brautarholtssókn (1867-73). Nýlega var kirkjan endurbyggð frá grunni. Hún tekur um 50 manns í sæti. Formaður sókn- arnefndar er Ásgeir Harðarson, kirkjuhaldari er Björn Jónsson í Brautarholti og organisti er Páll Helgason. Hátíð á 150 ára afmæli Brautarholtskirkju Morgunblaðið/Sverrir Brautarholtskirkja Kirkjan var reist árið 1857 af Eyjólfi Þorvarðarsyni frá Bakka á Kjalarnesi.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.