Fréttablaðið - 11.04.2009, Síða 18
18 11. apríl 2009 LAUGARDAGUR
að fá ekki greitt og vilja eitthvað
áþreifanlegt í staðinn. Þá gæti
orðið sú atburðarás að hingað komi
alþjóðlegt fyrirtæki sem Alþjóða-
gjaldeyrissjóðurinn væri tilbúinn
að lána gegn því að það legði nýtt
eigið fé inn í Landsvirkjun.
Ég held, með öðrum orðum, að
það sé raunveruleg hætta á að
Landsvirkjun verði tekin af okkur.
Og þar með auðlindin.“
Lítil von í stjórnmálunum
Í þessu umróti öllu hefur Sigurður
Gísli orðið fyrir vonbrigðum með
pólitíkina og telur lag að stokka
upp stjórnskipunarfyrirkomulag-
ið. Honum misbauð til að mynda
að ekki skyldu fara fram umræð-
ur á Alþingi um samninginn við
Alþjóðagjaldeyrissjóðinn áður
en hann var samþykktur. Slíkar
umræður fóru fram í Úkraínu, en
ekki hér. „Eigum við ekki að heita
þroskað lýðræðisríki?
Ég hef orðið ákaflega takmark-
aða trú á stjórnmálaflokkum og
sé ekki framtíðarsýn í nokkrum
flokki sem færir mér trú eða von.
Ekki síst þess vegna held ég að það
sé mikilvægt að hugmyndir um
stjórnlagaþing nái fram að ganga
enda hefur sýnt sig að stjórnmála-
mennirnir ráða ekki við að breyta
stjórnarskránni.
Það er lífsnauðsynlegt fyrir
framhaldið að hreinn aðskilnaður
verði á milli framkvæmdarvalds-
ins og löggjafarvaldsins og að
Alþingi verði þannig endurreist.
Það gengur ekki lengur að Alþingi
sé bara afgreiðslustofnun fyrir
framkvæmdarvaldið. Ráðherrar
eiga að fá sömu laun og þingmenn,
þingið á að skipa dómara, það á að
vera tiltölulega auðvelt að efna til
þjóðaratkvæðagreiðslu og svo væri
æskilegt að landið yrði gert að einu
kjördæmi. Eða í það minnsta að
vægi atkvæða yrði jafnað. Einn
maður, eitt atkvæði. Bara sjálft
hugtakið „þingmaður kjördæmis-
ins“ er hræðilegt,“ segir hann og
telur að fleiri stoðir samfélagsins
þurfi að hysja upp um sig buxurn-
ar.
„Í okkar litla samfélagi hefur
ríkt ákveðin tegund þöggunar
og því þarf að breyta. Það er til
dæmis eftirtektarvert hve lítið
hefur heyrst í háskólasamfélaginu,
sem í raun réttri ætti að vera afl
í umræðunni. Þaðan ætti að koma
gagnrýnin hugsun.
Sama er að segja um fjölmiðl-
ana. Það er ekki nokkur vafi á
því í mínum huga að fjölmiðlar
gegndu ekki hlutverki sínu, þeir
voru ekki þetta svokallaða fjórða
vald. Þar spilar reyndar inn í að
öflugir blaðamenn voru tíndir inn
í bankana og önnur fyrirtæki sem
í krafti peninganna soguðu til sín
fjölda fólks með mikla reynslu en
eftir sat það fólk sem minni hafði
reynsluna.“
Hugsjónirnar hurfu
Eftir að hafa stundað ýmiss konar
viðskipti í rúm þrjátíu ár, fylgst
grannt með gangi mála og horft upp
á velgengni og ófarir hefur Sigurður
Gísli komist að þeirri niðurstöðu að
samþjöppun auðs sé óráð. Það sjáist
ekki bara í raunveruleikanum held-
ur blasi við í lífsspeki ævintýranna.
„Alls staðar þar sem er kista eða
poki með gulli í ævintýrunum, þar
er óhamingja. Og þar verður vesen.
Út frá því má leggjast í heimspeki-
legar pælingar um hvort þetta kons-
ept sem við höfum lagt til grund-
vallar í lífinu, peningar og neysla,
sé ekki bara misskilningur. Og við
höfum líka dæmin úr veruleikan-
um. Ég held að það geti orkað tví-
mælis að safna miklum peningum til
einhverrar framtíðar, sérstaklega í
sjóðum og fyrirtækjum, því það
bregst ekki að það er reynt að stela
þeim. Ég segi stela innan gæsalappa.
Við höfum nú horft upp á það gerast
í lífeyrissjóðunum. Frá þeim er búið
að stela fullt af peningum.“
Hann telur einnig að óheillaþróun
hafi orðið hvað varðar tengsl fyrir-
tækja við samfélagið og að hugsjón-
ir hafi vikið fyrir óheftri arðsem-
iskröfunni. Við hverfum ein 150 ár
aftur í tímann.
„Þá söfnuðust bændurnir saman í
Þingeyjarsýslu utan um samvinnu-
hugsjónina. Það var frábært fram-
faramál, mikið þjóðþrifamál. Það óx
og dafnaði en einhvers staðar á leið-
inni glataðist hugsjónin og Samband-
ið varð að vél sem var til fyrir sjálfa
sig. Auðvitað endaði það með því að
reksturinn fór allur á hausinn.“
Ekki taki betra við hjá hlutafélög-
um.
„Ég hef alltaf haft fyrirvara á því
þegar sagt er að hlutafélög hafi sam-
félagslega ábyrgð. Hlutafélag getur
ekki og á ekki að gera neitt annað
en að hámarka afkomu hluthafans.
Allt annað gildir um félag sem þú
átt einn.
Gott og vel, það kann vel að vera
heppilegt fyrir framlínu fyrirtæk-
is að verja peningum í eitthvað sem
talið er vera samfélagsleg ábyrgð,
styðja líknarstarf eða þvíumlíkt.
En drifkrafturinn er hagsmunir
fyrirtækisins. Þegar fyrirbærið
hlutafélag varð til í Bandaríkjun-
um á sínum tíma var mönnum þetta
ljóst enda máttu bara einstaklingar
eiga hlutabréf. Með því var mann-
eskjuleg nánd við bæði starfsem-
ina og samfélagið. En þegar félög
fóru að geta átt hlutabréf og svo
félög sem áttu félög sem áttu félög,
þá rofnuðu tengslin og samfélagið
hætti að skipta máli.“
Hann bendir þó á að síðasta orðið
sé alltaf fólksins. Neytandans.
„Með því að taka ábyrgð og hafa
fyrir því að láta sig varða hvort
vörurnar sem verða fyrir valinu
raska, til dæmis, jafnvægi nátt-
úrunnar eða eru framleiddar við
barnaþrælkun, leggur fólk sín lóð
á vogarskálarnar. Með því að snið-
ganga slíkar vörur er beinlínis
hægt að leysa börn úr ánauð eða
leggja náttúrunni lið.“
Smátt er fallegt
Sigurður Gísli stendur, eins og sam-
félagið allt, á tímamótum. Í fyrsta
sinn á lífsleiðinni finnur hann fyrir
hugmyndafræðilegu tómi. En um
leið treystir hann því að eitthvað
gott muni gerast. Að við munum
hallast í átt að betri siðum.
„Á sínum tíma vorum við góðu
gæjarnir sem börðust gegn komm-
únismanum, og unnum. Nú finnst
mér eins og kapítalisminn sé eins
og risi úr leir sem riðar til falls. Um
leið er ég þeirrar skoðunar að við
höfum alls ekki séð fyrir endann
á því sem er að gerast í umheim-
inum. Niðurstaða mín er því sú að
það skiptir kannski ekki öllu máli
hvaða kerfi við notum. Það sem
skiptir máli er að heilbrigð sið-
fræði búi að baki. Á því er mikill
skortur, bæði hér á Íslandi og ann-
ars staðar. Og ef til vill liggja tæki-
færin til framtíðar í þeirri hugsun.
Kannski er það alltaf gildismatið
sem vísar veginn til góðs og ills.
Verkefni okkar er að viðhalda heil-
brigðum gildum og ala okkur sjálf
og börnin okkar upp. Einu sinni var
það kallað guðsótti og góðir siðir.
Kannski gildir það enn. Þjóðin má
vera stolt af því að eiga Ísland og
vera Íslendingar með okkar menn-
ingu, sögu og náttúru.
Þetta sést til dæmis á því að við
höfum ekki lag á að sníða okkur
stakk eftir vexti. En nú treysti ég
því að upp sé að renna sá tími að
menn sjái að smátt er fallegt. Að
við áttum okkur á því að það er
betra að fá tíu 30 manna fyrirtæki
heldur en eitt 300 manna fyrirtæki.
Að við eigum að gjalda varhug við
öllu sem heitir milljarður.“
Þegar Sigurður Gísli talar um að
við eigum að sjá að smátt er fal-
legt á hann ekki við að við eigum
að hugsa smátt. Síður en svo. Við
eigum að hugsa stórt. Það þarf líka
að hugsa stórt til að sjá að smátt
er fallegt.
„Nú ríður á að skapa rými fyrir
umbreytingu, við þurfum að skil-
greina tilgang okkar. Hvernig
ætlar Ísland að birtast í heimin-
um – samfélagi þjóðanna? Hvaða
áhrif viljum við hafa? Mín skoð-
un er sú að við eigum að ákveða að
vera fordæmi fyrir veröldina; taka
ábyrgð á því hvar við erum stödd
með því að vera sjálfbær. Skapa
frið og jafnvægi í okkar tilvist. Við
þurfum að beisla óttann við að vera
ekki nógu góð eins og við erum.
Ég kalla eftir leiðtogum sem geta
haldið uppi viðhorfi velsældar, því
Ísland er gríðarlega gjöfult land.
Líkt og Ólafur Stefánsson gerði í
landsliðinu af slíkri sannfæringu
að hinir leikmennirnir gerðust
áskrifendur að viðhorfi hans og
urðu sigurvegarar. Græðgin sem
var svo áberandi hér hin síðustu ár
á rætur í skorti á tilgangi í lífinu.
Það er tilfinningalegt tóm innra
með fólki sem það reynir að fylla
með efnislegum hlutum. En eftir
því sem maður treður meira í sig
stækkar tómið. Þegar maður hefur
skilgreint tilgang sinn í lífinu eða
tilgangsleysi eftir atvikum og tekið
ábyrgð á því, breytist allt.“
FRAMHALD AF SÍÐU 17
Í ræðu á Viðskiptaþingi árið 2000 varaði Sigurður
Gísli við þeirri þróun sem þá þegar hafði orðið á
fjármálamarkaði og lýsti áhyggjum af framtíðinni.
Opinn og frjáls hlutabréfamarkaður hafði þá vart
slitið barnsskónum en engu að síður tíðkuðust á
honum nýstárleg vinnubrögð.
„Nú er í tísku að „gíra sig í botn“ sem þýðir eins
og allir hér vita að skulda sem mest. Ég var alinn
upp við allt annað viðhorf. Í mínu ungdæmi
þótti góð búmennska að hafa borð fyrir báru.
Ég sef ekki rólegur á nóttunni, ef skuldir hlaðast
upp án þess að tekjur og eignir aukist hraðar á
móti.“
Hann sagði ungu kynslóðina sem þá hafði
haslað sér völl hugsa öðruvísi en eldri kyn-
slóðir. Hún þekkti ekki mótlæti. Það væri í lagi
að skulda mikið, ekkert gæti farið úrskeiðis.
„Markaðurinn mun hins vegar fara niður. Ég veit
ekki hvenær, en þá verður gott að hafa borð fyrir
báru.“
Sigurður Gísli furðaði sig á nýmóðins við-
skiptaháttum á markaðnum sem fólust í að
safna bréfum í einu fyrirtæki, tjakka upp verðið
og selja svo, taka það næsta og endurtaka
leikinn. Slíkt skapi ekki raunveruleg verðmæti.
„Jafnvel virt félög á hlutabréfamarkaðnum
beygja sig fyrir nýju leikreglunum og taka þátt í
því að reyna að festa hærra verðmat á hlutabréf-
um í sessi.“
Um leið og hann lýsti aðdáun á unga og vel
menntaða fólkinu, sem sennilega væri fyrsta
ókomplexaða kynlóðin í Íslandssögunni, kvaðst
hann ekki gagntekinn af bjartsýni þess. „Allt
þetta verður til þess að ég fer að spyrja sjálfan
mig þeirrar spurningar hvort ég sé að verða
of gamall og farinn að þvælast fyrir. Er hinn
skjótfengni auður ef til vill tryggari en traustasta
bjarg? Á að strika orð eins og fyrirhyggju og ráð-
deild út úr orðabókinni? Sjálfsagt gildir meðal-
hófið í þessu eins og öðru. Meðfædd og innrætt
íhaldssemi eins og mín má ekki berja kjarkinn
úr unga fólkinu en hún getur líka komið sér vel
þegar verr gengur.“
Og að þessu sögðu kom Sigurður að kjarna
málsins. „Það er kaldhæðnislegt en því fyrr sem
markaðurinn verður fyrir áfalli því betra. Sann-
leikurinn er oft þverstæðukenndur en við skulum
hafa í huga að stór uppsveifla getur kallað á
stóra niðursveiflu ef grunnurinn er ekki traustur.“
Sigurður Gísli vék líka að eftirliti sem hann
taldi ábótavant. Öflugt eftirlit væri nauðsynlegt
annars gæti markaðurinn beðið óbætanlegt tjón.
Fjármálaeftirlit, Samkeppnisstofnun og heilbrigð-
iseftirlit hefðu ekki náð að halda í við markaðinn.
Þeir sem störfuðu á markaðnum ættu skilyrðis-
laust og strax að taka frumkvæðið og setja sér
strangar leikreglur og fara eftir þeim, að öðrum
kosti myndu þeir þurfa að hlíta valdboði ríkisins.
Þetta ætti við atvinnulífið í heild, hvort sem það
væru kjúklingar eða peningar.
„Við sem störfum í atvinnulífinu berum
nefnilega sjálf að stóru leyti ábyrgð á því hvernig
starfshættir fyrirtækjanna eru, hvort heiðarleiki
sé látinn borga sig, hvort treysta megi orðum
manna, hvort reynt sé að halda almennar siða-
reglur og hvort við höfum bein til þess að rísa
undir velgengninni. Ef við stöndum ekki undir
þessari ábyrgð verður Ísland aldrei lengi meðal
hinna bestu.“
„Við skulum hafa í huga að stór uppsveifla getur kallað á stóra niðursveiflu ef grunnurinn er ekki traustur“
KÁRAHNJÚKAR Þessi risavaxna virkjanagerð leiddi til þess að Draumalandið varð til. Myndin er frá sumrinu 2004. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN