Fréttablaðið - 11.04.2009, Page 20

Fréttablaðið - 11.04.2009, Page 20
20 11. apríl 2009 LAUGARDAGUR S kotinn Bill Shankly, þjálfari Liverpool á árunum 1959 til 1974, sagði eitt sinn að knatt- spyrna væri ekki spurn- ing um líf eða dauða; Hún væri mun mikilvægari en svo. Þessi heimspeki þjálfarans afsannaðist í eitt skipti fyrir öll, í það minnsta í hugum flestra Liver- pool-aðdáenda, hinn 15. apríl árið 1989 þegar 96 aðdáendur liðsins krömdust til bana í mannskæðasta íþróttaslysi í sögu Bretlands. Það er ekki ofsögum sagt að þessi harmleikur hafi haft víð- tæk áhrif. Til að mynda var regl- um um aðbúnað og gæslu á knatt- spyrnuvöllum umbylt í kjölfarið. Einnig hafa farið fram réttarhöld með óreglulegu millibili allt fram á þennan dag, þar sem þess hefur verið freistað að komast endanlega til botns í því hvað það var sem fór úrskeiðis og gera hina ýmsu aðila ábyrga gjörða sinna, nánast án nokkurs sýnilegs árangurs. Eftir stendur þó sú staðreynd að 96 knattspyrnuaðdáendur létu lífið, staðreynd sem fjölskyldur þeirra hafa þurft að horfast í augu við í tvo áratugi. Hlýr vordagur í Sheffield Liverpool og Nottingham Forest mættust í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar á Hillsborough, heimavelli Sheffield Wednesday, á þessum hlýja vordegi í apríl 1989. Eins og tíðkast þegar leikið er á hlutlausum völlum hafði áhorf- endapöllunum verið skipt í tvo hluta til að skilja að aðdáendur liðanna tveggja, enda grasseraði ofbeldishegðun fótboltabullanna sem aldrei fyrr á þessum árum. Meðal fyrirbyggjandi aðgerða voru stálgirðingar sem komið hafði verið fyrir neðst í stúkum á mörgum völlum, ætlaðar til þess að hamla því að áhorfendur ættu greiða leið út á völlinn. Girðingin neðst í Leppings Lane-stúkunni, þar sem Liverpool-aðdáendum var úthlutað stæðum, reyndist mörg- um þeirra banvæn. Stjórn Liverpool hafði lagt fram kvörtun til enska knattspyrnu- sambandsins þegar í ljós kom að leikurinn færi fram á Hillsbor- ough-vellinum. Ástæða þess var að stuðningsmenn liðsins höfðu kvartað undan þrengslum og troðningi í Leppings Lane-stúk- unni árið áður, auk þess sem sú tilhögun sambandsins að úthluta stuðningsmönnum Nottingham Forest 6.000 fleiri aðgangsmiðum þótti undarleg í ljósi þess að stuðn- ingsmenn Liverpool voru töluvert fleiri. Þessum kvörtunum var ekki sinnt af hálfu sambandsins. Vegaframkvæmdir í nágrenni Sheffield gerðu það meðal ann- ars að verkum að margar rútur og einkabílar með stuðnings- mönnum Liverpool komu venju fremur seint á völlinn þennan dag, og skapaðist því mikil mann- mergð og troðningur við inngang- inn að Liverpool-hluta stúkunn- ar. Fimmtán mínútum fyrir leik höfðu 5.000 manns safnast saman fyrir utan völlinn, og tóku þeir sem sáu um lögreglumál á svæð- inu því þá ákvörðun að opna stór hlið, sem ætluð voru til útgöngu, upp á gátt og hleypa mergðinni inn á völlinn. Lögreglumennirnir skýrðu þessa ákvörðun síðar með því að hætta hefði verið á meiðsl- um fólks vegna troðningsins fyrir utan hliðið. Það sem við tók var þó verra en nokkur hefði getað ímyndað sér. Afdrifaríkar ákvarðanir Hinir 5.000 áhorfendur sem hleypt var inn þustu flestir að inngöngunum tveimur að miðju Leppings Lane-stúkunnar, þar sem fyrir var nokkur fjöldi fólks. Engir lögreglu- og gæslumenn voru við þessa innganga til að beina fjöldanum að öðrum inn- göngum til hliðanna, sem voru nánast tómir, og hefur ástæð- an fyrir því aldrei verið útskýrð fyllilega. Úr varð að þegar þessir 5.000 áhorfendur hópuðust inn í stúk- una myndaðist gríðarlegur þrýst- ingur á þá sem fyrir voru. Þeir sem voru uppi við hliðin fremst í stúkunni urðu verst úti, og leið fljótlega yfir marga vegna súr- efnisskorts. Aðrir tróðust undir í skelfingunni sem greip um sig meðal stuðningsmannanna þegar aðsteðjandi lífshættan varð fólk- inu ljós. Nokkrir björguðust með því að hífa sig upp í efri hluta stúk- unnar með aðstoð áhorfenda þar, og aðrir megnuðu að klifra yfir hliðið sem aðskildi mið- og hlið- arhluta stúkunnar. Bruce Grobb- elaar, markvörður Liverpool, sem stóð í marki sínu nokkra metra frá þessum hræðilega atburði, lýsti því síðar hvernig stuðnings- menn Liverpool öskruðu til hans í upphafi leiks: „Bruce, þeir eru að drepa okkur!“ Stálgirðingin neðst í stúkunni brast að lokum undan þunganum, og þá varð megninu af lögreglumönnum og vallarstarfs- mönnum loks ljós alvarleiki máls- ins. Leikurinn var flautaður af eftir sex mínútur og leikmönnum lið- anna vísað til búningsherbergja svo sjúkraliðar gætu athafnað sig og lífgunartilraunir hafist. Á þessum tímapunkti var þó enn nokkur hluti lögregluliðs í við- bragðsstöðu vegna þess sem þeir töldu vera innrás fótboltabullna á völlinn. Einnig var sjúkrabíl- um sem dreif að vellinum meinuð aðganga að vallarsvæðinu, sem er önnur þeirra óskiljanlegu ákvarð- ana þessa dags sem aldrei hefur fengist fullnægjandi skýring á. Auglýsingaskilti voru brotin niður og nýtt sem börur fyrir þá sem nauðsynlega þurfti að koma undir læknishendur. Áhorfendur og öryggisverðir hjálpuðust að við að bjarga þeim sem bjargað varð. En nokkrum klukkustundum síðar varð ljóst að 94 stuðningsmenn Liverpool höfðu látið lífið. Íþróttahús í nágrenni leikvang- ins voru gerð að tímabundnum líkhúsum. Fjórum dögum síðar lést hinn fjórtán ára gamli Lee Nicol af sárum sínum á sjúkra- húsi. Síðasta fórnarlamb harm- leiksins, hinn 22 ára gamli Tony Bland, lést í mars 1993 eftir nærri fjögur ár í dái. Spurning um líf eða dauða Næsta miðvikudag verða liðnir tveir áratugir frá harmleiknum á Hillsborough, mannskæðasta íþróttaslysi í sögu Bretlands, er 96 aðdáendur knattspyrnuliðsins Liverpool létu lífið. Kjartan Guðmundsson fer yfir skelfilega atburði dagsins og eftirmál slyssins. VOTTUÐ VIRÐING Anfield Road, heimavöllur Liverpool, varð eitt haf blóma dagana eftir harmleikinn. Fólk dreif að til að votta hinum látnu virðingu sína. NORDICPHOTOS/AFP HARMLEIKUR Ringulreiðin á Hillsborough varð alger þegar ljóst varð hvað hafði átt sér stað. NORDICPHOTOS/AFP SLYSSTAÐURINN SÝNDUR Margaret Thatcher, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, heimsótti Hillsborough daginn eftir slysið. Hún skipaði síðar Taylor-nefndina í þeim tilgangi að komast til botns í því sem átti sér stað. NORDICPHOTOS/AFP SKELFING Hinn gríðarlegi þrýstingur sem myndaðist þegar þúsundir áhorfenda reyndu að komast inn í Leppings Lane-stúkuna í einu reyndist mörgum aðdáendum Liverpool banvænn. Bruce Grobbelaar, markvörður Liverpool, sem stóð í marki sínu nokkra metra frá þessum hræðilega atburði, lýsti því síðar hvernig stuðningsmenn Liverpool öskruðu til hans í upphafi leiks: „Bruce, þeir eru að drepa okkur!“

x

Fréttablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.