Morgunblaðið - 10.01.2008, Page 25

Morgunblaðið - 10.01.2008, Page 25
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 10. JANÚAR 2008 25 Margar sögur eru til um Björn og sjúkraflug sem hann fór í afar erfið- um skilyrðum og vondu veðri. Flug- maður sagði mér eftirfarandi sögu sem gerðist þegar hann ungur og lítt reyndur var nýbyrjaður að starfa hjá Flugþjónustunni hf. Eitt sinn var leitað til Björns að koma bráðveikum dreng á Vopnafirði undir læknis- hendur. Allir vegir voru ófærir og veður var mjög slæmt á NA-landi, snjókoma og lélegt skyggni og þetta virtist eina leiðin til þess að bjarga lífi þessa drengs. Björn bjóst til ferð- ar á TF-VOR og rétt fyrir brottför bað sögumaður minn Björn um að fá að fara með og hann samþykkti það. Flogið var norður yfir hálendið og austur um Hólsfjöll, en þegar kom að Grímsstöðum á Fjöllum var skyggn- ið orðið mjög lélegt og sá sögumaður minn engin kennileiti vegna sjókom- unnar og lélegs skyggnis og áttað sig aldrei á því hvar þeir voru. Hann tók eftir því að Björn varð mjög hugsi og eins og annars hugar þegar þeir voru að fljúga niður í Vopnafjörðinn við mjög erfið skilyrði og leist unga manninum nú ekki á blikuna, en Birni tókst þó að lenda á flugvell- inum. Þar tók Kjartan Björnsson flug- afgreiðslumaður á móti þeim. Björn víkur sér að Kjartani og segir: „Ég var að velta því fyrir mér áðan hvort bærinn hérna framfrá hafi heitað Hauksstaðir eða Haugsstaðir“! – Þetta var þá það sem hann var að brjóta heilann um á leiðinni niður í Vopnafjarðardalina! Ekki þarf að geta þess að bráðveikum sjúklingn- um varð komið undir læknishendur og bjargað. Konan annaðist alla afgreiðslu Björn var lengi vel einyrki í flug- starfseminni og rak hana heiman frá sér. Sveina Sveinsdóttir, kona hans, annaðist alla afgreiðslu varðandi starfsemina árum saman. Á nóttu sem degi tók hún við skilaboðum og beiðnum um flug og hún fylgdist allt- af með flugferðum Björns, hvar hann væri staddur, hvenær hann væri væntanlegur á ákvörðunarstað eða heim aftur. Víst er að henni hefur ekki alltaf verið rótt þegar Björn fór í skyndi í erfitt flug, veður válynd og lendingarstaður ekki alltaf hinn tryggasti. Sjúkraflug hefur aldrei reynst ábatasamt þeim sem það stunda og Björn og Flugþjónustan voru þar ekki undanskilin. Óhætt er að full- yrða að naumur fjárhagur setti rekstrinum og kaupum á nýjum tækjum og búnaði skorður, en hag- sýni og óeigingirni og ekki síst áhugasamt, fært og duglegt starfs- fólk voru styrkur Flugþjónustu Björns Pálssonar flugmanns. Það var með ólíkindum hvernig Björn Pálsson flugmaður leysti hvern þann vanda sem hann stóð frammi fyrir og virtist óleysanlegur. Hann sýndi það og sannaði fyrir íbú- um afskekktra og einangraðra byggða að mögulegt var að koma þeim til hjálpar þegar neyðin barði að dyrum og engin önnur ráð en sjúkraflugið voru möguleg eða tiltæk til þess að bjarga mannslífi. Ekki leið á löngu þar til hann hafði aflað sér mikils og góðs orðstírs meðal þjóð- arinnar, orðstírs sem „deyr aldregi“. Hann opnaði augu manna fyrir því að mögulegt var að koma bráðveiku fólki fljótt undir læknishendur þótt vegir væru engir eða lokaðir og flug- brautir væru engar nálægar. Áhugi hans var brennandi og hann var ósérhlífinn með afbrigðum. Björn varð þjóðkunnur fyrir störf sín við sjúkraflugið, hann gerði nafn sitt ódauðlegt í flugsögu okkar og í huga þjóðarinnar var hann hetjan, bjargvættur og lífgjafi sem ótal sinn- um bauð sjálfum dauðanum birginn í sjúkraflugi sínu. Enginn vafi leikur á því að þeir voru æði margir sem áttu Birni Pálssyni líf sitt að launa, enda litu margir á hann sem lífgjafa sinn, og áður en yfir lauk hafði Flugþjón- ustan flutt á fjórða þúsund slasaðra eða sjúkra, fyrir utan alla þá sem ferðuðust með honum í venjulegu farþegaflugi. Þegar hringt var í Björn, oft að kvöldi eða nóttu, lá oft lífið við og hann brást við skjótt. Get- ur nærri hvort oft hefur ekki reynt á sálarþrekið þegar hann var sá eini sem gat bjargað fólki í neyð eða lífs- hættu og veðurskilyrði eða veðurút- lit var slæmt, hættulegt eða ófært. Björn lenti flugvélum sínum á ótrú- legustu stöðum og oft var lending- arstaðurinn metinn af örvæntingar- fullum mönnum, sem biðu með fárveikan sjúkling og lýstu upp að næturlagi með bílljósum eða olíu- luktum. Á eins hreyfils flugvél til Grænlands við verstu skilyrði Björn Pálsson flugmaður veitti íbúum dreifðra og afskekktra byggða öryggistilfinningu og átti vafalítið mikinn þátt í því að halda mörgum bæjum í byggð þar til öruggt vegasamband komst á. Björn eignaðist ekki aðeins aðdáendur og vini um allt land, hann fór ótaldar ferðir til Grænlands og sótti þangað bráðveika sjúklinga. Margar sjúkra- flugferðanna þangað fór hann á eins hreyfils flugvélinni TF-HIS, einn og um hávetur í stuttri dagsbirtu og við verstu skilyrði og lenti á skíðum á snjóbreiðum eða ís. Íbúar afskekktra byggða í Grænlandi dýrkuðu Björn. Agnar Kofoed-Hansen sagði í minn- ingargrein um Björn Pálsson: „Sum sjúkraflug hans til Grænlands, um vetur á einshreyfils flugvél við verstu skilyrði, eru með því djarfasta sem hægt er að tefla og sleppa samt lif- andi.“ Huldir verndarvættir héldu sannarlega verndarhendi sinni yfir Birni og farþegum hans í þessum ferðum. Ég sem þetta rita hafði að sjálf- sögðu heyrt talað um Björn Pálsson flugmann og ég var svo lánsamur að kynnast honum þegar ég fór að vinna hjá Flugmálastjórninni vorið 1965. Segja má að ljóðlínan „Þéttur á velli, þéttur í lund, þrautgóður á rauna- stund“ hafi sannarlega átt vel við Björn. Hann var afar aðlaðandi maður, ávallt glaður, hress og vingjarnlegur við háa sem lága, enda vinmargur og vinsæll maður. Öllum sem ég þekkti var afar hlýtt til hans og báru ekki aðeins mikla virðingu fyrir þessum geðþekka og þægilega manni, heldur fann hver sem honum kynntist að þarna fór maður sem þjóðin öll mátti vera stolt af því að eiga, enda barst hróður Björns Pálssonar flugmanns langt út fyrir landsteinana. Hann var sannarlega orðinn þjóðsagnapersóna í lifanda lífi. Björn Pálsson flugmaður starfaði í Rannsóknarnefnd flugslysa frá stofnun hennar 1. september 1968 til dauðadags og leiðir okkar lágu sam- an við aðkomu og rannsókn margra hörmulegra flugslysa næstu árin. Flestir menn sem hafa kynnst sviplegum slysum og orðið áþreifan- lega varir við návist dauðans og hans óvissa tíma skilja vísast betur en aðr- ir hversu lífið er dýrmæt Guðsgjöf og hve mikils virði er að þakka og njóta þessarar gjafar. Björn skildi þetta afar vel og kunni vel að meta það líf sem forsjónin gaf honum og lifði hvern dag sífellt glaður og reifur. Hann naut hamingjuríks og ástríks fjölskyldulífs og mikils barnaláns þeirra hjóna. Þegar þau seldu hús sitt á Kleifarveginum fluttu þau inn í stórt og fallegt hús sem þau byggðu í brekkunni skammt innan við Reykjalund í Mosfellssveit og nefndu Heiði, eftir Heiði á Síðu en þaðan var Sveinn, faðir Sveinu, ætt- aður. Björn var afar forsjáll maður og þarna sá hann möguleikana og framtíðarland fjölskyldunnar. Hinn 26. mars 1973 var skyndilega klippt á þráðinn, þegar Björn fórst í flugslysi ásamt fjórum öðrum mönn- um. Flugvélin TF-VOR sem var á leið til Reykjavíkur frá Akureyri, skall til jarðar í Búrfjöllum norðan við Langjökul, eftir að mikil ísing hlóðst á hana og hreyflarnir misstu aflið. Það var kaldhæðni örlaganna að í þessu síðasta flugi Björns Páls- sonar skyldi hann hafa verið farþegi en ekki við stjórn flugvélarinnar. Hann gekk því ósigraður af glímu- vellinum við náttúruöflin. Ég fór á slysstaðinn með þyrlu Varnarliðsins í birtingu næsta dag, eftir að flak TF-VOR fannst. Það voru þung spor sem ég þurfti að ganga yfir melinn þar sem þyrlan lenti og að flaki TF-VOR sem lá þarna á fjallsbrúninni. Þar var ekki aðeins Björn Pálsson flugmaður lát- inn, heldur einnig Haukur Claessen varaflugmálastjóri og Hallgrímur Magnússon trésmiður, báðir vinnu- félagar og vinir mínir hjá Flugmála- stjórn, svo og Knútur Óskarsson flugmaður, æskufélagi og skólabróð- ir minn, svo og Ólafur Júlíusson tæknifræðingur sem vann tiltekin verk fyrir Flugmálastjórnina. Það var erfitt að trúa því að þetta væri raunveruleikinn blákaldur. Ég persónulega hafði ekki aðeins misst vini og starfsfélaga, þjóðin sá á bak mætum sonum sínum. Punktur hafði verið settur aftan við síðasta orðið í sögu Björns Pálssonar, bjargvætts hinna sjúku og nauðstöddu, sögu manns hvers minning og orðstír mun lifa með ókomnum kynslóðum. Skúli Jón Sigurðarson. Frá fyrsta sjúkraflugi Björns Pálssonar á TF-HIS til Scoresbysunds á Grænlandi, 9. maí 1957. ✝ Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, bróðir og mágur, GÍSLI ÞÓR AGNARSSON, Skarðshlíð 23a, 603 Akureyri, andaðist á heimili sínu miðvikudaginn 2. janúar. Jarðarförin fer fram í Möðruvallaklausturskirkju föstudaginn 11. janúar kl. 13.30. Starfsfólki Heimahlynningar er sérstaklega þökkuð hjúkrun og stuðningur í veikindum hans. Hrefna Þorbergsdóttir, Eyrún Huld og Bergvin Þór Gíslabörn, Aðalsteinn Rúnar Agnarsson, Ragnheiður Brynjólfsdóttir, Þórir Páll Agnarsson, J. Nicoleta Lacramiora, Jórunn Kolbrún Agnarsdóttir, Sigurgeir Pálsson, Þórey Agnarsdóttir, Árni Björnsson, Ingi Stein Agnarsson, Gissur Agnar Agnarsson, Sigrún Sigfúsdóttir. ✝ Móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, EYDÍS HANSDÓTTIR, Hjallavegi 7, Reykjavík, lést þriðjudaginn 8. janúar á Hjúkrunarheimilinu Eir. Guðbrandur Þórir Kjartansson, Alda Gunnarsdóttir, Magdalena Margrét Kjartansdóttir, Ingólfur Steinar Óskarsson, Kolbrún Björgólfsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Elskuleg móðir mín, amma og langamma, KLARA GUÐMUNDSDÓTTIR, Hjúkrunarheimilinu Hlíð, Akureyri, áður Tjarnarlundi 13i, lést á heimili sínu, Hlíð, mánudaginn 7. janúar. Útförin fer fram frá Höfðakapellu föstudaginn 18. janúar kl. 13.30. Blóm og kransar eru vinsamlegast afþakkaðir en þeim sem vilja minnast hennar er bent á Krabbameinsfélag Akureyrar. Kristinn Ketilsson, Einar Már Guðmundsson, Bjarni Freyr Guðmundsson, Klara Guðmundsdóttir, langömmubörn. ✝ Ástkær faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, MAGNÚS ÁSMUNDSSON, Hjúkrunarheimilinu Sóltúni, áður að Bústaðavegi 83, lést á heimili sínu, Sóltúni, föstudaginn 4. janúar. Útförin fer fram frá Grensáskirkju föstudaginn 11. janúar kl. 13:00. Ásmundur Magnússon, Auður Magnúsdóttir, Halldór Kristiansen, Stefanía Júlíusdóttir, Sigurður Jónsson, Magnús Ásmundsson, Hrefna Ásmundsdóttir, Einar Halldórsson, Davíð Einarsson, Gabríel Aron og Mikael Máni Sigurðarsynir. ✝ Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma og lang- amma, GUÐRÚN FLOSADÓTTIR (DÚNA), sem lést á jóladag, verður jarðsungin frá Grafar- vogskirkju föstudaginn 11. janúar kl. 15.00. Birna Guðrún Jóhannsdóttir, Finnbjörn Finnbjörnsson, Guðbjartur Finnbjörnsson, Jónas Finnbjörnsson, Sjöfn Finnbjörnsdóttir, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.