Morgunblaðið - 26.05.2008, Qupperneq 15
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 26. MAÍ 2008 15
MENNING
SAMÍSKA leikhúsið Beaivváš
sýnir Sá hrímhærði og draum-
sjáandinn í Kassanum í Þjóð-
leikhúsinu annað kvöld klukk-
an átta. Leikstjóri
sýningarinnar og listrænn
stjórnandi leikhússins er
Haukur J. Gunnarsson.
Höfundur verksins, Nils As-
lak Valkeapää, er eitt þekkt-
asta ljóð- og tónskáld Sama.
Hann fékkst jöfnum höndum
við tónsmíðar, ljóðlist og listmálun, auk þess sem
hann lagði stund á heimspeki. Valkeapää hlaut
Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1991.
Miðaverð á sýninguna er 2.500 krónur.
Leiklist
Samísk leiksýning
í Þjóðleikhúsinu
Haukur J.
Gunnarsson
Í DAG verður haldinn fyrir-
lestur á vegum Asíuseturs Ís-
lands um samkynhneigð á Ind-
landi og birtingarmyndir
hennar í indverskum bók-
menntum.
Bókmenntafræðingurinn
Hoshang Merchant gerir grein
fyrir aðstæðum og sjálfsmynd
samkynhneigðra á Indlandi og
tekur dæmi úr verkum þekktra
indverskra rithöfunda sem
skrifa á mörgum ólíkum indverskum tungu-
málum.
Fyrirlesturinn fer fram í Aðalbyggingu Há-
skóla Íslands og hefst klukkan 12.
Bókmenntir
Samkynhneigð
á Indlandi
Hoshang
Merchant
Kirsten Rask heldur fyr-
irlestur á vegum Dansk-
íslenska félagsins og Íslenska
málfræðifélagsins undir yf-
irskriftinni: „Rasmus Kristian
Rask – stórar hugmyndir í litlu
landi.“
Þar mun hún rekja hvernig
Rask kom danskri tungu á
kortið sem sjálfstæðu tungu-
máli. Áður höfðu Grimms-
bræður skilgreint hana sem
þýska mállýsku.
Fyrirlesturinn fer fram á dönsku í stofu 101 í
Háskólatorgi Háskóla Íslands og hefst klukkan
fjögur í dag.
Fræði
Rask og sjálfstæð
dönsk tunga
Rasmus Kristian
Rask
BANDARÍSKI arkitektinn Frank
Lloyd Wright skildi eftir sig yfir 500
byggingar þegar hann lést í hárri elli
árið 1959. Af þessum húsum standa
enn um 400 og hafa þau aldrei verið
eftirsóttari en nú, enda er áhugi á
byggingarlist
miðrar tutt-
ugustu ald-
arinnar í hámarki
um þessar mund-
ir.
„Sum þessara
húsa eru verðlögð
alltof hátt. En al-
gengast er að fólk
borgi 25 til 40
prósentum meira
fyrir þau en sam-
bærilegar fasteignir eftir óþekkta
arkitekta,“ segir Ron Scherubel, for-
maður Frank Lloyd Wright-
forvörslufélagsins, í viðtali við New
York Times.
Hann segir fólkið sem kaupir hús
eftir Wright ekki síður leggja mikið
fé í að halda þeim við. „Ef hjarir gefa
sig hringja þau í okkur til þess að fá
ábendingar um handverksfólk sem
getur gert nýjar hjarir sem eru ná-
kvæmlega eins. Ef það þarf að
leggja nýja þaksteina vilja þau láta
búa þá til með sömu aðferð og var
upphaflega notuð. Þetta finnst mér
frábært.“
Það er ekki bara áhugafólk um
byggingarlist sem fjárfestir í þess-
um húsum því þau hafa marga þá
kosti sem þykja eftirsóknarverðir í
íbúðarhúsnæði í dag. Meðal höfund-
areinkenna Wrights eru stórir
gluggar sem ná ofan í gólf, mikið op-
ið rými og áhersla á náttúruna í
kring.
Steinn og gler Hús eftir Wright.
Mikil
eftirspurn
eftir Wright
25 til 40 prósentum
dýrari en önnur hús
Frank Lloyd
Wright
STÆRSTA safn af verkum eftir
breska súrrealista er í eigu Jeffrey
Sherwin, læknis á eftirlaununum.
Það verður bráðlega sýnt í ný-
listasafni í Middlesbrough. Verkin í
safninu eru meðal annars eftir
Henry Moore, Paul Nash, Damien
Hirst og Glen Baxter og þar finnast
líka verk eftir listamenn af meg-
inlandinu eins og René Magritte.
Það telur alls um 350 verk.
Sherwin eyðir síðkvöldunum oft í
að endurraða verkunum til þess að
sjá þau í nýju ljósi og ólíku sam-
hengi. Hann fékk áhuga á súrreal-
isma þegar fimmtíu ára afmælis
hinnar frægu súrrealista sýningar í
London árið 1936 var minnst með
sögusýningu í heimabæ hans Leeds.
„Hún opnaði augu mín, ég vissi ekki
fyrr en þá að það væri neitt til sem
héti breskur súrrealismi,“ sagði
hann í samtali við Guardian. „Ég er
venjulegur maður og súrrealismi er
eitthvað sem venjulegt fólk skilur.
Þetta er raunveruleikinn, nema
honum er snúið á haus. Þú sérð
hluti sem þú þekkir, annað en í ab-
straktlist eða expressjónisma, sem
þarf yfirleitt að útskýra. Maður
hugsar með sér: En áhugavert! En
spennandi!“
Safnaði
súrrealistum
Eftir Einar Fal Ingólfsson
efi@mbl.is
Á SKJÁ í Listasafni Reykjavíkur
má sjá Israel Rosenfield útskýra
hvernig svarthvít ljósmynd breytist
í litmynd. Áhugamál Rosenfields
eru svo fjölbreytileg að það má bú-
ast við því að sjá hann útskýra hina
ólíklegustu hluti. Hann er þó eink-
um kunnur fyrir hugmyndir sínar
um þann leyndardóm sem manns-
heilinn er.
Rosenfield aðstoðaði umsjónar-
menn Tilraunamaraþonsins um
liðna helgi, þá Hans Ulrich Obrist
og Ólaf Elíasson, við að velja vís-
indamenn til þátttöku á þessu
stefnumóti lista og vísinda. Rosen-
field nam stærðfræði, læknisfræði
og heimspeki og er kunnur háskóla-
kennari og fyrirlesari. Hann hefur
skrifað margverðlaunaðar bækur;
þar á meðal um heilann, taugalífeðl-
isfræði, meðvitundina og DNA, og
tvær satýrur. Skrif hans hafa vakið
athygli ýmissa listamanna og verið
notuð af þeim; til að mynda hefur
hann unnið með Ólafi Elíassyni.
„Ég var beðinn að hitta íslenska
vísindamenn og stinga upp á því
hverjum ætti að bjóða. Það var
nokkuð óþægileg staða því við hefð-
um getað boðið svo mörgum. Ég
kom því í desember og hitti fólk.“
Við Rosenfield ræðum saman
„baksviðs“ í Hafnarhúsinu en
frammi er fjöldi fólks að fylgjast
með hreyfilistamanni frá Venesúela
flytja mál sitt, á þessum stefnumót-
um lista og vísinda. En hverju var
Rosenfield að leita eftir?
„Ég velti fyrir mér hvaða
áhersluþáttum ég ætti að sækjast
eftir frá íslensku vísindamönnunum.
Sjónir beindust vitaskuld að sögu
Íslenskrar erfðagreiningar, sem er
þekkt alþjóðlega, hefur ýmsar vís-
indalegar vísanir og tengist vís-
indum og stjórnmálum. Ég vildi fá
til liðs við okkur fólk af þeim vett-
vangi til að fjalla um heim erfða-
tækninnar. Það gekk því miður
ekki, enginn var reiðubúinn að tjá
sig. Að lokum fórum við því ekkert
út í erfðavísindin.
Við vildum einnig koma inn á
heim taugalíffræðinnar og því hitt-
um við Hilmar B. Janusson, fram-
kvæmdastjóra rannsóknar- og þró-
unarsviðs Össurar. Hann er að
vinna að afar áhugaverðum hlutum
með stoðtækjum og hefur for-
vitnilega heimspekilega sýn. Til að
skapa samtal á milli Hilmars og
annarra, til að mynda um líkamann,
buðum við til dæmis Peter Coles,
sem er stjarneðlisfræðingur sem
veltir heiminum fyrir sér. Við höfum
verið að velta fyrir okkur hug-
myndum um sjálfsmyndir, myndinni
af heiminum og hugmyndum um
hreyfingu og skynjun og hvað að-
skilur þetta tvennt. Það varð að eins
konar þema.“
Nýr skilningur verður til
– Við að hlýða á þessa for-
vitnilegu en ólíku þátttakendur
vaknar spurningin hvort þið séuð að
reyna að þrýsta vísndum og listum
saman.
„Alls ekki. Það er ekki hægt. Ef
þú reynir að útskýra listir með vís-
indum, þá verður það bara kjánaleg
æfing.“
– En hvað gerist þegar þú stillir
listum og vísindum upp saman?
„Ég veit það ekki. Þegar þú geng-
ur út á götu verðurðu fyrir alls kyns
upplifunum sem hafa áhrif á þig síð-
ar um daginn. Það sama má segja
um uppákomurnar hér. Þú heyrir
eitthvað, ert kannski að vinna í list-
um en kemst að einhverju forvitni-
legu úr vísindaheiminum. Hver veit
hvað gerist? Fólk verður oft fyrir
áhrifum af öðrum og af hugmyndum
sem það rekst á á óvæntan hátt; það
er hluti af margbreytileika lífsins.
Áhrif eru svo mikilvæg.“
– Hér er bent á að myndlist getur
verið ferli, ekki bara hlutur.
„Einmitt. Þetta er svo mikið um
minningar og móttöku, um skilning.
Maður er sífelllt að vinna úr minn-
ingum og upplifunum. Maður festir
mynd ekki í huga sér á varanlegan
hátt, hugurinn er sífellt að endur-
meta og endurskapa úr þeim upp-
lýsingum sem við tökum inn. Upp-
lifanir eru settar í nýtt samhengi,
nýr skilningur verður til. Þetta er
svo sannarlega ferli.
Listin er svo dýnamísk í eðli sínu
að hún er alltaf að breytast. Eins er
mikil fegurð í stærðfræði, fagur-
fræði sem gerir hana spennandi –
burtséð frá því hvort lausnirnar
byggi á afgerandi sannleika. Á
morgun geta komið fram nýjar up-
lýsingar sem breyta hugmyndum
okkar og það sem við teljum satt í
dag getur verið rangt á morgun;
þar er munurinn á trúarbrögðum og
vísindum. Í vísindum er sífellt leitað
að nýjum lausnum og svörum.“
Róttækar breytingar
– Fyrir 20 árum hefði maraþon
eins og þetta varla verið haldið hér.
„Það er líklega rétt. En ég held
það megi segja um hvaða tímabil
sem er í sögunni, að hlutirnir taki
róttækum breytingum. Líttu á bíl-
inn, tilkoma hans hafði afar róttæk
áhrif á lífshætti manna. Svo ekki sé
minnst á lestar, flugvélar, DNA!
Þetta eru allt breytingar, eins og á
19. öldinni þegar umræður voru
hvað heitastar um kenningar Darw-
ins, öll sú gróteska þvæla um sköp-
unarsöguna hafði gríðarleg áhrif. Þá
voru sköpunarsinnar í miklum
meirihluta og þeim þóttu hug-
myndir Darwins gróteskar! Samt
eru þær undirstaða svo margs í
hugsunum okkar og skoðunum um
lífið og tilveruna. Þróunin hefur ver-
ið til staðar, þótt hún virðist vissu-
lega vera hraðari núna.“
– Hvað kemur út úr maraþoninu?
„Það er erfitt að segja. Þetta er
áhugaverður fundur lista og vísinda
og kannski leiðir hann til fleiri
slíkra funda. Ýmsar mikilvægar
hugmyndir í vísindum eru ekki eins
kunnar og þær ættu að vera og dag-
skrá eins og hér hjálpar til við að
miðla þeim; fólk verður fyrir örvun
af áhugaverðum upplifunum.“
Listahátíð í Reykjavík | Israel Rosenfield valdi vísindamenn á Tilraunamaraþonið
Áhrif eru svo mikilvæg
Morgunblaðið/Einar Falur
Samræða „Ef þú reynir að útskýra listir með vísindum, þá verður það bara kjánaleg æfing,“ segir Israel Rosen-
field. Með því að stilla þessum heimum upp saman geti hinsvegar orðið til áhugavert samtal.
Upplifanir settar í
nýtt samhengi
Í HNOTSKURN
» Tilraunamaraþonið er um-fangsmesta framkvæmd sem
Listasafn Reykjavíkur hefur
staðið fyrir. Um fjörutíu lista- og
vísindamenn komu að því.
» Israel Rosenfield aðstoðaðivið val íslenskra og erlendra
vísindamanna sem tóku þátt.
» Rosenfield nam stærðfræðiog læknisfræði við N.Y.U. og
er doktor frá Princetonháskóla.
» Sýningunni í Hafnarhúsinulýkur í ágústlok.
♦♦♦