Morgunblaðið - 03.07.2008, Blaðsíða 33

Morgunblaðið - 03.07.2008, Blaðsíða 33
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 3. JÚLÍ 2008 33 stundum á orði, að vegna þess hversu litla æfingu hann hefði í er- lendum málum, gripi hann gjarnan til þess ráðs að ræða við fulltrúa er- lendra þjóða á því máli sem hann kallaði „al-heimsku“. Þeir sem nutu þeirrar náðar að heyra Jón tala þessa nýju og heimatilbúnu útgáfu af „esperantó“, munu seint gleyma þeirri skemmtun. Hún var – í einu orðin sagt – óborganleg. En það voru líka fleiri strengir í hörpu Jóns en húmorinn. Eins og gjarnt er um þá sem hafa ríkulega kímnigáfu, var hann undir niðri mik- ill alvörumaður. Á fallegum sumarkvöldum gat verið unun að sitja með Jóni á kaffi- húsinu sem hann byggði, „Kaffi langbrók“ í Fljótshlíðinni, og kalsa við hann um fyrirbæri þessa heims og annars. Listin að kveða rímur var Jóni í blóð borin og á seinni árum skipaði hann sér á bekk með fremstu kvæða- mönnum landsins Með Maríu móður sinni ferðaðist hann um landið og þau mæðginin kváðu saman, eins og afi Jóns hafði gert með dóttur sinni Maríu ungri, um hálfri öld fyrr, við mikinn orðstír. Löngu eftir að ég var horfinn úr Fljótshlíðinni til annarra verka hringdi Jón í mig og sagði: „Ja, nú verð ég að segja þér tíðindi, Arthúr minn. Heldurðu ekki að við mæðg- inin höfum verið fengin til að kveða fyrir sjálfan Svíakóng!“ Þessi tíðindi komu mér reyndar ekki á óvart. Einhvern veginn fannst mér það jafnsjálfsagt að Jón á Kirkjulæk kvæði rímur fyrir sjóla Svíaríkis, eins og það þegar Steinar bóndi í Hlíðum færði jöfranum klárinn væna sem frá segir í Paradísarheimt. Jón átti það líka sameiginlegt með Steinari bónda í Hlíðum að hann var hugvitssamur smiður. Það sýndi stórhug Jóns, að í stað þess að smíða kistil úti í skemmu eins og Steinar bóndi, smíðaði hann heilt Meyjarhof í Hlíðinni sinni. Minna mátti það ekki vera. Mér finnst sárt til þess að vita, að vinur minn, Jón á Kirkjulæk, skuli hafa orðið að kveðja þetta jarðlíf svona snemma. Ég hefði svo gjarnan viljað njóta þess að skoða með hon- um Meyjarhofið og kalsa við hann um Langbrókina og fleiri mætar konur úr Njálu. Það er alltaf erfitt að sætta sig við það, þegar dauðinn hrifsar til sín vini manns, langt fyrir aldur fram. Ekki síst þegar um er að ræða jafnlifandi, fjölhæfan og skemmtilegan mann og Jón á Kirkjulæk. Ég kveð þig, vinur, og þakka þér fyrir vináttuna, jákvæðnina, lífsgleð- ina og allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Við Svala vottum þér, kæra Inga, og börnum ykkar einlæga samúð. Ég veit að söknuður ykkar er sár. Megi það þó verða ykkur ofurlítil huggun, að við sem áttum því láni að fagna að kynnast Jóni á Kirkjulæk, munum aldrei gleyma manngæsku, fjölhæfni og lífsgleði þessa væna drengs. Arthúr Björgvin Bollason. reyr, stör sem rósir vænar reiknar hann jafnfánýtt. (Allt eins og blómstrið eina eftir séra Hallgrím, niðurlag þriðja vers þar sem sagt er frá hinum slynga sláttumanni.) Jón á Kirkjulæk var reyr sterkur og rós væn en samt fall- inn langt um aldur fram. Að honum er eftirsjá í héraði og mikill mann- skaði. Líf okkar sem eftir sitjum lit- lausara að hafa hann ekki með okk- ur. Kirkjulækjarbóndinn var allt í senn, athafnamaður, listamaður og lífskúnstner af besta tagi. Hrað- kvæður og öllum fremri þegar kom að hinni fornu kvæðamannaíþrótt. Gat þar kveðið bæði ljúflega og ekki síður á slíkri útopnu og af þeim hljómstyrk að til fádæma heyrði. Í list sinni færði þessi afkomandi Bólu-Hjálmars okkur langt aftur í aldir. Það sem var okkur framandi og í besta falli kunnugt af bók eða æfðri dagskrá í sjónvarpi var Jóni sjálfsögð veröld frá blautu barns- beini. Í fjölskyldu Maríu móður hans hafði þráðurinn aldrei slitnað og þess sáust merki. Þau mæðgin sem oft komu fram saman stóðu hér föst- um fótum í íslenskri menningu án nokkurar tilgerðar. Kveðskapur þeirra Maríu og Jóns myndaði þann- ig eðlilegt framhald þess að vel mannsaldri fyrr hafði María farið ung stúlka með föður sínum, Jóni Lárussyni, og skemmt með rímnas- temmum í Reykjavík og víðar. Þegar leið á kvöld átti Jón til að lauma hendinni í vasa eftir svartri stílabók sem hann sjálfur nefndi því óvirðulega nafni, klámskinnu. En þrátt fyrir nafnið geymdi bók þessi marga góðgripi skáldsins á Kirkju- læk, óborganlega bragi um kímileg atvik, smellnar tækifærisvísur og auðvitað á köflum vísur sem best var að bíða með fram í myrkur. En jafn- vel í kersknis- og afmorskveðskap skein í gegn gæska skáldsins og já- kvæðni öðru fremur. Jón á Kirkjulæk var fjarri því ein- hamur og líklega sá vina minna sem sómt hefði sér jafn vel á hvaða öld sem er Íslandssögunnar. Nútímaleg- ur en samt afbragðs torfhleðslumað- ur og smiður. Hraustmenni, sagna- maður og náttúrubarn. Einstakt ljúfmenni en gat verið fastur fyrir. Athafnamaður sem ekki spurði alltaf að verkalaunum en mat fremur verk- ið og gildi þess. Kaffihús hans og Ingu, Kaffi Langbrók, ber þessu vitni og ekki síður Meyjarhofið sem vitnar um síkvikan áhuga á íslenskri menningu og endurreisn menningar- arfsins. Það er trautt að lýsa minningum og laglausum manni varla fært að lýsa stemmusöng Jóns á Kirkjulæk. Hann var þeim ógleymanlegur sem heyrðu. Fyrir hinum sem hvorugt þekktu, manninn eða stemmukveð- skap hans standa verkin í túni Kirkjulækjar sem og mannvænleg börn listamannsins. Um leið og ég votta þeim og Ingu mína dýpstu samúð þakka ég samfylgdina og það ríkidæmi sem er í minningunni um góðan dreng og félaga. Bjarni Harðarson. Mig langar að minnast með nokkr- um orðum góðs nágranna míns og vinar, Jóns Ólafssonar á Kirkjulæk, sem horfin er á brott svo alltof fljótt. Ég er uppalinn á einum Kirkjulækj- arbænum en þar er því þannig hátt- að að þrír bæir eru á nánast sama hlaðinu. Það er því óhjákvæmilega mikill samgangur á milli bæja og hef ég alltaf haft mikið og gott samneyti við Jón og hans fólk. Minnist ég fyrst starfs Jóns í kringum Ungmanna- félagið Þórsmörk. Þar gegndi Jón forystuhlutverki til margra ára og var mjög drífandi í því hlutverki. Hvatti hann okkur sem litla peyja áfram í frjálsum með láði og dáð og var lykilmaður í álfadansi UMF Þórsmörk frá því að ég man eftir mér. Þegar ég svo komst á unglings- árin og við félagarnir komum saman til að gera okkur glaðan dag þá var oftar en ekki kíkt í kaffi til Jóns og Ingu þar sem okkur var alltaf vel tekið. Reyndar er það sérstakt að minnast þess hve okkur var alltaf tekið sem jafningjum þó svo að við séum nokkru yngri. Á tímabili var það fastur liður að heimsækja þau hjón á þriðjudagskvöldum þar sem setið var að gleðskap frameftir. Minnist ég þess hve þeir voru margir erfiðir til vinnu miðvikudagsmorgn- arnir eftir slíka heimsókn. Jón var alltaf mikill áhugamaður um íslenska landsliðið í handbolta og get ég ekki annað en brosað þegar ég minnist hve oft ég heyrði hróp og köll frá Jóni alla leið úr næsta húsi þegar sem mest gekk á á handbolta- vellinum. Eins minnist ég frækinnar ferðar þegar við nokkrir félagar úr Hlíðinni og nágrenni, ásamt Jóni, fórum á leik í HM í handbolta sem haldið var hérlendis 1995. Þótt leik- urinn hafi tapast þá mun ég aldrei gleyma allri gleðinni í þessari ferð og trúi því að það geri heldur ekki nokk- ur annar sem þar var með. Jón var söngmaður góður og vel liðtækur í kveðskap og hljóðfæra- leik. Einnig hafði hann mikinn áhuga á fornri byggingarlist. Einkum var það grjóthleðsla sem heillaði og byggði hann síðastliðið sumar hof að fornum sið við Kaffi Langbrók sem hann helgaði móður jörð og kallaði Meyjarhof. Er það listavel byggt og aðdáunarvert að hann skuli hafa náð að klára það þar sem hann var þegar farinn að kenna þess sjúkdóms sem leiddi hann til dauða á meðan að byggingu þess stóð. Í mínum huga var Jón litríkur persónuleiki sem setti mikinn svip á mannlífið hér í sveit. Þar skilur hann eftir sig skarð sem erfitt verður að fylla. Það er því með söknuði í huga sem ég geng um hlaðið á Kirkjulæk vitandi það að ég á ekki eftir að rekast á Jón þar fram- ar. Votta ég Ingu, Sveinbjörgu, Sig- nýju, Ómari, Andra og Maríu móður hans mína dýpstu samúð. Megi góð- ur guð styrkja ykkur á þessum erf- iðu tímum. Páll Eggertsson. Öðlingur er látinn. Okkar góði fé- lagi úr sönghópnum Öðlingum, Jón Ólafsson á Kirkjulæk eða Nonni eins og við kölluðum hann alltaf er fallinn frá. Hann skilur eftir stórt skarð í okkar hópi sem og í samfélaginu öllu hér í Rangárþingi. Jón var okkar stærsti póstur í sönghópnum og oftast hafði hann orðið þegar slá þurfti á létta strengi milli laga og oftar en ekki gladdi hann okkur, ekki síður en áheyrend- ur á þeim stundum. Jón var einn af stofnendum hópsins fyrir rúmum tíu árum síðan og gaf hann þá hópnum nafnið Öðlingar sem hefur haldist síðan. Margt var brallað og margs að minnast úr ferðum okkar bæði hér heima og erlendis. Öðlingarnir áttu 10 ára afmæli sl. haust og vorum við að undirbúa afmælishátíð þegar að heilsu Jóns fór að hraka og var þá ákveðið að fresta hátíðinni svo að hann gæti verið með en enginn reiknaði með að hann yrði kallaður svo skjótt frá okkur. Jón naut sín hvergi betur en í söngferðum erlend- is og lék þá alltaf á alsoddi, sér og okkur hinum til ómældrar ánægju. Við fórum víða í söngferðir bæði sem Öðlingar og einnig sem Saga Singers og fluttum þá söngleikinn um Gunn- ar á Hlíðarenda. Það væri hægt að segja svo margar skemmtisögur þar sem Jón fór á kostum. Hann var ein- staklega skemmtilegur maður en líka barnslega einlægur sem varð oft til þess að út kom eitthvað spaugi- legt sem hægt var að gantast með. Jón hafði fallega bassarödd og söng 1. bassa, þó gat hann líka sungið eins og hetjutenór en raddsvið hans var mjög vítt. Ekki grunaði okkur að sumarið bæri það í skauti sér að við stæðum hér í kirkjunni á Breiðaból- stað í Fljótshlíð að syngja yfir okkar kæra félaga. Við kveðjum góðan dreng og þökkum honum samfylgd og óeigingjarnt starf á alltof stuttri ævi. Við vottum Ingu, börnunum og öll- um aðstandendum hans okkar dýpstu samúð. F.h. félaga í sönghópnum Öðling- um og maka, Hlynur Snær Theodórsson og Haukur Kristjánsson. Ég kynntist Jóni þegar ég ákvað að reyna fyrir mér í sveitastörfum 14 ára gamall. Okkur Jóni kom vel sam- an og brölluðum við ýmislegt í þau tvö sumur sem ég dvaldi á Kirkju- læk. Ég hafði nánast aldrei komið í sveit áður en fjölskyldan tók mér opnum örmum og maður varð strax hluti af henni. Jón glotti út í annað þegar hann ákvað að setja mikla ábyrgð á ungan dreng og var maður sendur á gamlan Deutch svo snemma að pabbi var ekki einu sinni lagður af stað heim eftir að hafa skutlað mér austur. Eina sem Jón sagði var að drepa ekki á honum nema í brekku þar sem enginn raf- geymir var í honum. Auðvitað vissi hann að kúplingin var fjandanum þyngri og hann glotti við þegar ég svitnaði við að ná henni niður. Seinna það sumarið rákumst við Jón á agnarsmáan maríuerluunga á vappi á hlaðinu heima. Jón ákveður að stríða Ómari syni sínum sem var líklega á þriðja ári og spyr hann hvort hann vilji sjá töfrabrögð. Ómar játti því og fór þá Jón með mikla þulu, sneri sér í hring og út um munninn flaug fuglinn fljúgandi. Ómar gapti af undrun og var nokkuð lengi að taka pabba sinn í sátt aftur sem skemmti sér konunglega við að sjá undrunarsvipinn á guttanum. Eitt sinn þurfti rétt aðeins að dytta að Gorba (Lada Sport) í hlöð- unni og beðið var eftir varahlutum úr borginni. Fyrst bíllinn var nú kom- inn inn var brugðið á það ráð að lappa aðeins upp á hann. Leitað var að málningu til að bletta í ryð og ein- hverjir afgangar fundust. Fljótlega breyttist verkefnið í að búa til felulit- aðan rússneskan herjeppa sem sveit- ungar myndu varla sjá þegar hann þaut framhjá. Hann Jón var stríðinn og prakk- arinn í honum var aldrei langt und- an. Hann naut sín best þegar hann fékk einhvern til að taka þátt í grín- inu með sér, sem var aldrei vanda- mál. Ég votta Ingu og fjölskyldunni samúð mína á þessum erfiðu tímum. Hákon (Konni). Þvílík tímasetning. Jón gerði allt með stæl. Eftir mikla elju við að byggja Meyjarhofið við Kaffi Lang- brók, lét hann vígja það á Jóns- messunótt 2007 milli 12 og 01. Ári síðar á sömu klukkustund andaðist hann. Hver hefði trúað þessu? Það er alveg ótrúlegt hvað hann kom miklu í verk á sinni ævi. Hann lifði fyrir líð- andi stund og gerði það sem hann langaði. Hann lét sig alltaf varða um lífið í kringum sig og fylgdist vel með því sem var á seyði. Fjölskyldur okkur samtvinnuðust á ótrúlegan hátt frá þeirri stundu sem við kynntumst er hann kom ásamt Ingu og vinahjónum úr Fljóts- hlíðinni óvænt í fertugsafmælið hjá Jenna. Börnin kynntust fljótlega upp úr því og urðu góðir vinir. Við vorum saman í Samkórnum og fór- um svo óvænt að spila saman og mynduðum hljómsveitina Hjóna- bandið. Allt í einu vorum við farin að semja saman ljóð og lög og var það ótrúlega skemmtilegt hvernig það kom allt til. Við vorum langt komin með disk númer tvö þegar veikindin tóku völd. Við munum að sjálfsögðu halda þeirri vinnu áfram í anda Jóns þar sem þetta var mikið mál hjá hon- um að gefa þennan disk út. Við höfð- um nokkrar hljómsveitaræfingar á Landspítalanum meðan Jón hafði þrek til að halda á bassanum. Það mæltist vel fyrir og veitti Jóni og okkur mikla gleði. Við gerðum svo ótrúlega margt saman. Við gætum skrifað heila bók um það en það sem við viljum nefna er útihátíðin okkar Veltingur sem hefur verið haldin í u.þ.b. 10 ár, fyrst heima á hlaði á Kirkjulæk og svo á Kaffi Langbrók þegar það byggðist upp. Afmælishátíðin þegar kapparnir Jón og Jens urðu 50 ára. Öll ferða- lögin, en síðasta ferðin okkar í byrj- un febrúar til Kaupmannahafnar fór ekki eftir óskum, þar sem Jón varð fárveikur og kom í hjólastól heim. Menningarferðin okkar síðastliðið haust var frábær þar sem við fórum um Snæfellsnes og skoðuðum Ei- ríksstaði, safnið í Borgarnesi og end- uðum svo í Aðalstræti í Reykjavík. Alls staðar að skoða fornminjar og hleðslur og var ferðin sem betur fer mjög Jóns-miðuð. Missir okkar allra er mikill en lífið heldur áfram og við munum öll halda minningu Jóns á lofti. Hann verður með okkur og fylgist örugglega vel með. Við viljum þakka fyrir þau for- réttindi að hafa fengið að verða sam- ferða honum þessi ár. Blessuð sé minning hans. Auður, Jens og fjölskylda. Með örfáum orðum langar mig að minnast góðs æskufélaga, Jóns Ólafssonar sem lést langt um aldur fram 24. júní sl. Jón var fæddur á Kirkjulæk III í Fljótshlíð og ólst þar upp ásamt sex systkinum sínum. Kirkjulækjarbæirnir eru þrír og liggja bæjarhlöðin nokkurn veginn saman. Á uppvaxtarárum Nonna dvaldi ég mikið á Kirkjulæk II, fyrst hjá afa og ömmu og svo móðurbróður mín- um ásamt frændsystkinum. Nonni og systkini hans léku sér við okkur frændsystkinin sem voru komin til sumardvalar á Kirkjulæk II. Við lék- um okkur mikið saman enda öll á svipuðum aldri. Yfirleitt var hlaupið vestur í (eins og við kölluðum það þegar við fórum yfir til Nonna) oft á dag, í hádegishléi og eftir mjaltirnar á kvöldin. Það var ýmislegt brallað farið í marga skemmtilega leiki, ver- ið að veiða í lækjunum í kring og skemmtilegast þótti okkur að veiða þar sem mátti ekki veiða. Á vorin var hlöðunni í Vesturbæn- um breytt í badmintonhöll og þar gátum við dvalið löngum stundum og spilað badminton. Okkur þótti líka skemmtilegt að fara austur í (Aust- urbæinn, þ.e. Kirkjulæk I) til Billa og Bárðar og kaupa Sinalco eða Spur og Síríus-súkkulaði. Þá var einnig farið upp í Kot (Kirkjulækjarkot) en þar voru yfirleitt margir krakkar á sumrin. Það var líka farið fótbolta í Goða- land þar sem krakkar frá fleiri bæj- um úr Hlíðinni hittust. Við Jón náð- um yfirleitt mjög vel saman, báðir höfðum við mikinn áhuga á hand- bolta og áhuginn var slíkur að fjár- réttunum í Hlíðinni var breytt í handboltavöll sem var á heimsmæli- kvarða eða það fannst okkur á þess- um árum. Já, það var ýmislegt brall- að og stundum fengust við við einhver prakkarastrik. Í nokkrum heimsóknum mínum á spítalann til Nonna rifjuðum við upp mikið af þessum æskuprikum okkar og þá var yfirleitt stutt í brosið hjá honum. Mikið og margt fleira væri hægt að rifja upp úr æsku okkar, en þú varst góður félagi og mikið hlakkað ég alltaf til að koma í sveitina á vorin og hitta þig og systkini þín. En svo þegar árin liðu og við þroskuðumst og eignuðumst okkar fjölskyldur – þú fórst að búa á Kirkjulæk og ég í Reykjavík þá var minna samband eins og gerist og gengur en við feng- um fréttir hvor af öðrum. En mér þótti vænt um að hitta þig síðatsliðið sumar í Kaffihúsinu ykkar Ingu „Kaffi Langbrók“ Þú fórst með okk- ur frændurna í Meyjarhofið sem þú varst nýlega búinn að opna og þar skáluðum við Kirkjulækjarfélagarn- ir í horni að sið fornmanna og skemmtum okkur mikið vel – ekki hvarflaði að mér þá að þú ættir að- eins innan við eitt ár ólifað. Ég og mín fjölskylda flytjum þér Inga mín og börnum ykkar, svo og öðrum að- standendum okkar innilegustu sam- úðarkveðjur. Hvíl þú í friði, kæri æskuvinur. Páll Haraldsson. „Ég sá ljós í eldhúsinu,“ heyrðist sagt um leið og símtólið var tekið upp, Jón var á línunni og var að at- huga hvort eitthvað væri um að vera. Svona var Jón, hann varð alltaf að vera þar sem eitthvað var að gerast. Það þarf ekki að lýsa Jóni, hann þekktu allir, annaðhvort sem Jón bóndi eða Jón á Brókinni. Öll áttum við minningar með honum. Okkur er efst í huga utanlandsferðirnar sem við fórum með þeim hjónum, fyrst á Stuðmenn í Köben þar sem Hamra- borgin var sungin á Strikinu svo glumdi í húsunum en fengum þó klapp frá dönsku lögreglunni. Sam- kórsferðin, siglingin til Bahamas og dagarnir í Nýju-Jórvík voru góðir þar var mikið hlegið og mikið borðað. Allar „fjallaferðirnar“ sem við fór- um saman voru undantekningalaust skemmtilegar. Við gætum eflaust rifjað upp fleiri samverustundir því þær voru marg- ar mjög ánægjulegar. Það er sárt til þess að hugsa að geta ekki bullað við Jón við eldhús- borðin og segja svo þegar bullið nær hámarki „– þú nú, Jón“. Það er sagt að okkur sé skammt- aður viss tími hér ef svo er þá er ekki réttlátt að skammta fólki svona skamman tíma eins og Jóni var skammtaður Elsku Inga, Sveina, Signý, Ómar, Andri og fjölskyldur við vottum ykk- ur okkar dýpstu samúð og vonum að okkar hlýju hugsanir færi ykkur styrk. Sigrún, Þorri og fjölskylda.  Fleiri minningargreinar um um Jón Ólafsson frá Kirkjulæk bíða birt- ingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.