Morgunblaðið - 03.09.2008, Síða 29

Morgunblaðið - 03.09.2008, Síða 29
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 3. SEPTEMBER 2008 29 ✝ SigurbjörgBöðvarsdóttir fæddist í Reykjavík 3. mai 1923. Hún lést á St Jósefsspít- ala í Hafnarfirði 22. ágúst síðastlið- inn. Foreldrar hennar voru hjónin Böðvar Jónsson frá Tjörn á Vatnsnesi og Guðrún Skúla- dóttir frá Ytra- Vatni í Skagafirði. Systkini Sig- urbjargar eru Jón Stefán, f. 13.8. 1912, d. 1986, maki Hólmfríður Sigurðardóttir. Gunnar, f. 2.2. 1914, d. 1966, maki María Ásgeirsdóttir. Ingi- björg, f. 21.7. 1915, d. 8.11. 1996, maki Reynir Guðmundsson. Ragnheiður, f.17.8. 1921, maki Jóhann Sigurðsson. Hinn 19.3. 1949 giftist Sig- urbjörg Jóni A. Sigurpálssyni, f. á Húsavík 15.10. 1922, d. 15.4. 2002. Foreldrar hans voru Sig- urpáll Jónsson frá Klömbrum í Aðaldal og Þórgerður Björns- dóttir frá Akureyri. Börn Sig- urbjargar og Jóns eru: 1) Mar- grét, kennari, gift Sigurði Þórarinssyni, og eiga þau fjögur börn, Jón Þór, Gunnar, Skúla og Sigrúnu. 2) Sigurpáll, rafmagns- verkfræðingur, kvæntur Borghildi Ingvarsdóttur, og eiga þau fjórar dæt- ur, Önnu Kristínu í sambúð með Ólafi Jónssyni og eiga þau tvö börn, Sig- urbjörgu í sambúð með Hjálmari Árna- syni, Ingunni í sam- búð með Garpi El- ísabetarsyni og eiga þau eina dóttur og Margrét. 3) Þorgerð- ur, hjúkrunarfræð- ingur, í sambúð með Skúla Páls- syni, og á hún tvö börn, Ingibjörgu Lilju og Tómas. 4) Auður, kennari, gift Gylfa Yngvasyni, eiga þau fjögur börn, Hjalta, Elísabetu, Katrínu Ingu og Hjört Jón. Sigurbjörg stundaði nám við Kvennaskólann í Reykjavík. Vann síðan ýmis skrifstofustörf þar til hún gifti sig. Var hún heimavinn- andi þar til hún hóf störf í Lyfja- búð Breiðholts árið 1970 þar sem hún vann til starfsloka. Eftir það vann hún ýmis sjálboðaliðastörf hjá Rauða krossinum. Útför Sigurbjargar fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag og hefst athöfnin klukkan 15. Nú þegar sól er farin að lækka á lofti og haustið farið að gera innreið sína kveðjumst við tengdamóðir mín og ég. Að kveðja á þessum árstíma hæfir henni vel því sumarið og haustið voru hennar uppáhalds árs- tíðir. Haustið er líka að margra áliti sá tími sem er hvað fallegastur á Ís- landi, tími berjatínslu, útiveru og lita. Samskipti okkar Sísíar hófust fyrir u.þ.b. fjörutíu árum þegar ég fór að gera mig heimakominn í Skaftahlíðinni þar sem ég gerði hos- ur mínar grænar fyrir elstu dótt- urinni á bænum. Eins og allir von- biðlar vita er það fyrirkvíðanlegt að vera kynntur fyrir tilvonandi tengdaforeldrum. En frá fyrsta degi tók hún mér opnum örmum og hefur aldrei borið skugga á okkar sam- skipti. Yndislegri tengdaforeldra er ekki heldur hægt að hugsa sér en þau Sísí og Jón. Bæði voru þau svo einstaklega hlýjar og yndislegar manneskjur og var það mikið gæfu- spor að kvænast inn í þeirra fjöl- skyldu. Fjölskyldan er og hefur allt- af verið einstaklega samheldin og veit ég að fyrir Sísí var fjölskyldan það dýrmætasta sem hún átti. Oft hefur verið sagt í gríni að fjölskyld- an væri svo samrýmd að enginn gæti hreyft sig spönn frá rassi án þess að allir hinir fylgdu með, en ég verð að segja að það er ákaflega notalegt að vera meðlimur í slíka fjölskyldu. Sísí var borin og barn- fædd Reykjavíkurmær. Yngst sinna systkina ólst hún upp í stórri og samheldinni fjölskyldu þar sem hún var umvafin umhyggju og ástúð. Þar sem foreldrar hennar voru bæði ut- an af landi var oft gestkvæmt á æskuheimili hennar þar sem alltaf virðist hafa verið pláss fyrir gesti og gangandi. Nefndi hún það að þegar Jón fór í fyrsta sinn á sjúkrahús, þá orðinn fullorðinn maður, hefði hún upplifað það í fyrsta sinn að sofa ein í rúmi. Áður en hún gifti sig hafði hún alltaf deilt rúmi með Rögnu systur sinni eða einhverjum gestum. Þannig voru tímarnir þá. Eins og ég sagði ólst Sísí upp í stórri og sam- heldinni fjölskyldu. Á heimilinu var mikið sungið og tónlist í hávegum höfð. Ung lærði hún á píanó og hafði hún mikið yndi af að syngja og spila á píanóið. Voru þá Fjárlögin og fal- leg ættjarðarlög í mesta uppáhaldi. Sísí var mikið fyrir útiveru og voru þær ferðirnar sem farnar voru á skautum, skíðum, á fjöll og sund óteljandi að ég tala nú ekki um allar ferðirnar í berjamó þar sem fjöl- skyldan átti sína uppáhaldsstaði. Sísí og Jón voru mjög samrýmd hjón og nutu þess að vera saman. Fannst báðum ákaflega gott að vera úti við í góðu veðri og njóta sólarinnar. Ófáir eru þeir dagarnir sem hún mætti á pallinn hér í Ystaselinu á góðviðrisdögum. Sat hún þá með bók eða krossgátur og naut sólar- innar. Þegar vetur gekk í garð fóru þau Jón oft til sólarlanda og nutu þess að vera í góðra vina hópi. Sísí hafði ákaflega gaman af að spila á spil. Hún var flinkur spilari og bak- aði okkur fjölskylduna yfirleitt við spilaborðið. Nú þegar komið er að kveðjustund vil ég þakka þessari ljúfu og prúðu konu fyrir samfylgd- ina og þakka henni fyrir þátt hennar í lífi okkar og barna okkar. Mun ég ávallt minnast hennar með þakklæti og hlýhug. Sigurður Þórarinsson. Þó að amma mín hafi hvorki farið snögglega né óvænt þá er ekkert sem gat búið mig undir að missa hana. Hún hefur alltaf verið svo stór partur af lífi mínu, flestar minningar mínar frá barnæsku tengjast ömmu og afa í Skaftahlíðinni. Það eru ekki margir sem fá að upplifa þau for- réttindi að eiga ekki bara frábæra ömmu og afa heldur búa í sama húsi og þau stóran part ævi sinnar- .Heima hjá þeim hittist öll fjölskyld- an á hátíðum. Jól, páskar og aðrir hátíðisdagar eru hennar minningu órjúfanlegir. En jafnvel ennþá meira virði eru allar litlu hversdagslegu stundirnar. Við systkinin borðuðum alltaf hádegismat hjá ömmu eftir skóla og á sumrin vorum við hjá þeim á daginn og fórum með þeim í sund í Vesturbæjarlaugina á hverj- um morgni og hittum þar alla vini þeirra. Stundum fengum við að gista á svefnsófanum inni í dótaherbergi og jafnvel að skríða uppí á milli þeirra afa. Þá sagði hún að nú væri köttur í bóli bjarnar, lét okkur fara með bænirnar og söng svo sálma og strauk okkur um andlitið þangað til að við sofnuðum. Það voru notalegar stundir þegar afi sat við eldhúsborðið og las fyrir okkur ömmu á meðan amma sat við handavinnu, bakaði eða lagði bara kapal. Hún naut þess að sitja við pí- anóið og spila og ég fékk þá stund- um að syngja með og velja lögin. Hún átti alltaf kökur í ofninum og var með tvíréttað í öll mál. Sauð grauta í eftirmat handa okkur hin- um hvern dag vikunnar jafnvel þó að hún hafi aldrei verið fyrir þá sjálf. Hún eldaði alltaf eins og fyrir heila herdeild og alltaf var hún jafn sár við okkur þegar hún sat svo uppi með afgangana. Það er ekki fyrr en ég fór að eldast að ég gerði mér grein fyrir hversu margt amma kenndi mér. Hún kenndi mér að prjóna, hekla, spila á spil og á píanó, að klára af disknum mínum, bera mig vel og vera kurteis. Og það var sama hvað ég gerði rangt, hversu stuttir sem puttarnir voru og hversu margt ég braut, aldrei átti hún ann- að en hrós handa mér og hvatningu. Mín besta minning af ömmu er frá jólunum, sitjandi við píanóið að spila jólalögin á meðan við gengum í kringum sófaborðið og sungum. Takk fyrir öll faðmlögin, alla koss- ana og bænirnar, amma mín. Ingibjörg. Þegar við systur minnumst ömmu Sísíar leiðir það hugann að samveru- stundum samheldinnar fjölskyldu. Það var oft margt um manninn í eld- húsinu hjá ömmu og afa í Skaftahlíð- inni þegar stórfjölskyldan kom sam- an til að taka slátur, skera laufabrauð eða drekka kaffi á sunnu- dagseftirmiðdögum. Á samkomum sem þessum gaf amma sér tíma til að sinna barnabörnunum, dró fram púslur, settist niður með okkur í eld- húsinu og spilaði svarta pétur eða dansaði með okkur „Í grænni lautu“. Það voru notalegar stundir sem við áttum í eldhúsinu í hádegishléum í skólanum. Hlaðið borð af kræsing- um og amma og afi sem hlustuðu af áhuga á allt það sem gekk á í dag- legu lífi unga fólksins. Það er ekki sjálfgefið að tilheyra jafn samheldinni fjölskyldu og okk- ar, þar sem fjölskyldumeðlimir eru bestu vinir og hittast oft í viku. Þessu lögðu amma og afi grunninn að með kærleika og hlýju og við bú- um að og getum vonandi miðlað áfram. Fjölskylduferðir voru reglulegir viðburðir og má þar nefna sumar- ferðir á Þingvelli, berjatínsluferðir á haustin og sundferðir í Laugar- skarð, þar sem stóra köflótta nest- istaskan hennar ömmu gegndi lyk- ilhlutverki. Alltaf réðu gleði og ánægja ríkjum og alltaf áttum við alla athygli ömmu. Ömmu féll aldrei verk úr hendi og lét hvorki sér né öðrum leiðast. Ef það voru ekki ferðalög sem hún hafði hugann við þá voru það kross- gáturnar hennar og myndagátur sem hún dundaði við, lestur, handa- vinna og símtöl til ættingja og vina, til að heyra hvort ekki væri allt í standi. Við minnumst hlýrrar, skemmti- legrar og yndislegrar konu sem kenndi okkur að hugsa vel um þá sem næst okkur standa og þá hluti sem gefa lífinu gildi. Ömmu Sísíar er sárt saknað. Anna Kristín, Sigurbjörg, Ingunn og Margrét. Það er með söknuði að við kveðj- um ömmu Sísí. Hún var einhver sú jafnlyndasta og þægilegasta mann- eskja sem við höfum kynnst. Ást hennar og umhyggja var skilyrðis- laus. Aldrei nokkurn tímann þurfti hún að æsa sig eða hvæsa á okkur, það voru ekki hennar verkfæri í samskiptum sínum við fólk. Það hef- ur aldrei verið öðruvísi en svo að það hafi verið gaman að hitta og sjá ömmu. Sérstaklega þó í Skaftahlíð- inni þar sem þau afi Jón bjuggu síð- an þau voru ung hjón. Þar hafa þau verið síðan tímar hófust, í okkar huga í það minnsta. Áður en Sigrún systir kom til sög- unnar gistum við bræður margar nætur í Skaftahlíðinni þegar mamma og pabbi voru í vinnu eða að byggja í Breiðholtinu. Þá var vaknað snemma á hverjum morgni og amma og afi fóru með okkur í Vesturbæj- arlaugina. Í minningunni voru þau mjög dugleg að synda, þó geti verið að í raun hafi mestallur tíminn farið í spjall í heitu pottunum. Síðan var farið aftur í Skaftahlíðina í kakó og ristað brauð. Jólin voru alltaf haldin í Skafta- hlíðinni. Jólin voru sérstaklega af- slöppuð en hátíðleg og rík að hefð- um. Hátíðarnar voru með sama fyrirkomulagi í hvert skipti, aspars- súpan sem við borðuðum alltaf of mikið af, maturinn, sirkusinn í sjón- varpinu, söngurinn með undirspili ömmu, gjafirnar og kaffið. Ekkert átti heldur að vera öðruvísi. Við stungum meira að segja upp á því, þegar amma treysti sér ekki til að halda veisluna, að jólin yrðu samt haldin í Skaftahlíðinni, þaðan sem þau eru upprunnin. Það er erfitt að skrifa eða hugsa um ömmu án þess að afi komi upp í hugann. Amma tók svolítið við og fór m.a. að keyra eftir að afi fékk slagið. Hann var henni sýnilega háðari en áður, hún hélt heimili og sá um hann og alla sína. Hún átti alltaf eitthvað smá óvænt handa okkur. Ólíkt því hvernig það var heima, hvarflaði það aldrei að okkur að fara að laumast og finna leyniskápinn þar sem hún geymdi lakkrísrúllurnar, hvað þá að fara að suða um þær. Hún gaf okkur þær og manni fannst maður eiga þær skilið, eða ekki. Ekki var hægt að láta sér leiðast í Skaftahlíðinni, enda hálfgert ættar- óðal með ömmu Sigrúnu og afa Þór- arinn í næsta stigagangi og svo flutti Stella frænka líka í blokkina sem þýddi að raun voru þá þrjár ömmur í sama húsinu. Stórfjölskyldan hefur alltaf verið mjög náin og heimili ömmu Sísíar og afa Jóns var helsti samkomustaðurinn. Ófáar athuga- semdir komu í æsku frá vinum um þann fjölda fjölskylduboða sem við systkinin vorum látin fara í, alltaf höfðum við þó gaman af og aldrei var erfitt að fá okkur til að koma í heimsókn til ömmu og afa. Jón Þór, Gunnar, Skúli og Sigrún. Sigurbjörg Böðvarsdóttir                          ✝ Ástkær frænka okkar, KRISTÍN ANDRÉSDÓTTIR, Árskógum 6, Reykjavík, lést fimmtudaginn 28. ágúst á líknardeild Landakotsspítala. Þóra Stefánsdóttir, Valdimar Stefánsson, Bryndís Stefánsdóttir. ✝ Systir okkar, ELÍN SIGURJÓNSDÓTTIR, Steinum undir Eyjafjöllum, verður jarðsungin frá Eyvindarhólakirkju laugar- daginn 6. september kl. 11.00. Þórarinn Sigurjónsson, Árni Sigurjónsson, Eyjólfur Sigurjónsson og aðstandendur. ✝ Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og bróðir, JÓN SNÆR SIGURJÓNSSON frá Snæhvammi í Breiðdal, til heimilis á Unnarbraut 28, Seltjarnarnesi, lést mánudaginn 1. september á Landspítalanum, Landakoti. Útförin auglýst síðar. F.h. aðstandenda, Hlíf Þ. Jónsdóttir. ✝ Okkar ástkæri PÁLL JÓHANNESSON húsasmíðameistari, Aðalstræti 47, Patreksfirði, sem lést á Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar föstudaginn 15. ágúst, verður jarðsunginn frá Patreksfjarðarkirkju föstudaginn 5. september kl. 13.00. Fyrir hönd aðstandenda, Hrönn Vagnsdóttir.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.