Morgunblaðið - 30.09.2008, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 30.09.2008, Blaðsíða 31
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 30. SEPTEMBER 2008 31 ástvinir veittu henni einnig mikinn stuðning. Þá ber og að þakka hjálp- semi og uppörvun, sem Ólöf Dögg auðsýndi henni í veikindunum. Við Steinunn minnumst þessarar glæsilegu ungu vinkonu okkar, sem nú hefur verið kvödd á brott aðeins rúmlega fertug að aldri. Eftir lifir minningin um góða og heilsteypta konu, sem með starfshæfni sinni og þægilegu viðmóti ávann sér virðingu og vinsældir sem góður fulltrúi Ís- lands á erlendri grund. Við vottum Hanne og Halldóri og fjölskyldu þeirra dýpstu samúð okkar. Markús Örn Antonsson. Í dag kveðjum við Kristínu S. Halldórsdóttur, vinkonu og félaga. Hún var samstarfsmaður okkar beggja í utanríkisráðuneytinu og vinur og félagi frá fyrsta degi. Kristín var glæsileg, hávaxin og tíguleg. Hún var dugleg og sam- viskusöm í vinnu og glaður og skemmtilegur félagi í amstri dags- ins. Við minnumst ófárra samveru- stunda með þakklæti og gleði í huga. Í sumarbyrjun 2007 kom Kristín heim frá Kanada, eftir að hafa greinst með alvarlegt krabbamein í höfði. Við fylgdumst með baráttu hennar við erfiðan sjúkdóm, sem gekk að henni af mikilli hörku. Sjúk- dómsstríðið var hart það sumar og um tíma héldum við þá að komið væri að endalokum. En um mitt sumarið kom hlé og Kristín náði þokkalegri heilsu á ný. Í langri bar- áttu við þennan erfiða sjúkdóm sýndi Kristín ótrúlega stillingu og hugrekki og jafnlyndi hennar brást aldrei. Þegar komið var í heimsókn ljómaði hún af gleði og kátínu og spurði frétta. Hún lagði sig fram um að lifa eins eðlilegu lífi og kostur var og rækti samband við vini og kunn- ingja. Stærsta gæfa Kristínar var stuðn- ingur og umhyggja fjölskyldu henn- ar í þessari löngu og erfiðu baráttu. Eftir standa fallegar minningar um brosmilda, örláta og greiðvikna vin- konu með glettið augnaráð. Megi sú minning fylgja okkur öllum og vera fjölskyldu hennar og vinum styrkur í mikilli sorg. Guð blessi minningu Kristínar S. Halldórsdóttur. Árni Páll Árnason og Sigrún Eyjólfsdóttir. Mig langar til að minnast minnar kæru vinkonu Kristínar sem hefur kvatt okkur of fljótt. Ég er mjög þakklát fyrir öll árin sem við höfum þekkst. Kristínu kynntist ég árið 1983. Þá vorum við báðar í Hús- stjórnarskólanum á Laugarvatni. Ég var nítján ára og hún sautján. Það mynduðust strax mjög góð tengsl á milli okkar og Örnu sem var með mér í herbergi. Við þrjár ásamt nokkrum öðrum brölluðum ýmislegt á Húsó og tíminn þar var virkilega skemmtilegur. Hinn 29. júní sl. fór- um við þrjár, Kristín, Arna og ég, í dagsferð til Laugarvatns. Við not- uðum tækifærið og skoðuðum skól- ann og settumst svo niður og feng- um okkur kaffi og köku. Þetta var mjög ánægjuleg ferð. Elsku Kristín mín, ég kom til þín daginn áður en þú lést. Þetta var eitthvað sem við réðum ekki við og það að horfa á þig fallega stelpa verða svona lasin, það er nokkuð sem við eigum erfitt með að skilja og vont að upplifa. Ég vil þakka þér Kristín innilega fyrir að vera vinkona mín og ég mun sakna þín mikið. Sakna þess að geta ekki hlegið með þér og rifjað upp tímann á Húsó eins og við gerðum oft. Ég rifja núna upp allar stund- irnar sem við áttum saman, Hús- ósamveruna og margt annað. Þetta allt geymist vel. Minning þín mun lifa í hjarta mínu. Guð geymi þig. Fjölskyldu Kristínar votta ég mína dýpstu samúð. Áslaug Gunnarsdóttir og fjölskylda. Með örfáum orðum ætla ég að kveðja kæra vinkonu mína, Kristínu Halldórsdóttur. Ég mun aldrei gleyma góðum stundum sem við áttum saman – öll- um hlátrinum, bröndurunum og já- kvæðninni sem einkenndi þig fram á hinstu stundu. Þú bjóst yfir þeim hæfileika að gera hvert augnablik einstakt, hvort sem það var versl- unarferð í apótekið, daglegt kapp- hlaup á klósettið, aðfangadagur á fallega heimilinu þínu, hrekkjavaka í búningi bleiku og bláu tvinnsanna, bíóferð á leiðinlega bíómynd, „kar- díókikk“ í leikfiminni, SPA-dagur í tilefni afmælis, þakkargjörðar- kvöldverður með risavöxnum ljúf- fengum kalkún, tjaldútilega í Algon- quin-þjóðgarðinn eða venjulegur vinnudagur á skrifstofunni. Allt varð að ævintýri og þú sást jákvæðu og skemmtilegu hliðina á öllu. Ég þakka fyrir þau forréttindi að fá að kynnast þér. Ég lærði svo ótalmargt af þér og líf mitt er snort- ið af kynnum okkar. Hugur minn dvelur hjá þér og fjölskyldu þinni. Hvíl í friði, elsku tvinnsan mín. Ólöf Sigvaldadóttir. Nú legg ég augun aftur, ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt. Æ, virst mig að þér taka, mér yfir láttu vaka þinn engil, svo ég sofi rótt. (Sveinbjörn Egilsson) Ég og Stína kynntumst á Hús- mæðraskólanum á Laugarvatni fyr- ir 25 árum. Við komum til Laug- arvatns með sömu rútu og eitt af því fyrsta sem var sagt við okkur var: „Eruð þið systur?“ Næstu árin fengum við iðulega að heyra þessa setningu þar sem við vorum sam- ankomnar. Návist Stínu gerði mig að betri manneskju. Lífsgleði henn- ar var einstök, félagslyndi, kærleik- ur og fordómaleysi stýrði lífi hennar og ég hreifst með. Það eru engin orð sem geta lýst söknuði mínum við ótímabært frá- fall minnar kæru vinkonu. Hún mun lifa í hjarta mínu og huga á meðan ég lifi. Ég ætla að enda þetta með orðum sem við notuðum oft í okkar netsambandi, ciao bella. Kæru foreldrar, Halldór og Hanne, ættingjar og vinir Kristínar, ég votta ykkur alla mína samúð og megi Guð vernda ykkur og hugga. Með ævarandi tryggð, vináttu og kærleik, Arna Guðmundsdóttir. Á grámyglulegum vinnudegi berst skyndilega klingjandi hlátur fyrir hornið og inn til mín. Eflaust hefur einhver galsafenginn litið inn á skrifstofuna hjá Stínu í framhjá- hlaupi og haft uppi skemmtilegheit. Ósjálfrátt fer maður að brosa, hlát- urinn er svo innilegur og gleðin svo smitandi. Enda margir sem vildu stoppa við hjá henni til að fá sinn skammt af lífsfjörinu. Á upplýsinga- og menningarskrif- stofunni var einmitt oft líf og fjör, við fjórar starfskonurnar stóðum þétt saman og ákváðum að láta okk- ur ekki leiðast í vinnunni. Stína sá ekki síst til þess að húmorinn var uppi, oft absúrd, og við leyfðum okkur á stundum að hafa uppi kæruleysislegt bull á hinum rómuðu „deildarfundum“ sem aldrei alveg lögðust af þó að Stína hæfi störf í Kanada. Minningin um Stínu sem ekki lét hláturinn víkja fyrir veik- indunum stendur eftir. Ég bið að- standendum hennar huggunar og minningu hennar blessunar. Elín Flygenring. Það hefur verið yndislegt að þekkja Kristínu, eða eins og við kölluðum hana oft Stínu stuð. Minn- ingarnar um hana eru alger fjár- sjóður sem aldrei gleymist. Hennar jákvæða viðhorf, lífsgleði og hug- rekki var öðrum sannkallaður inn- blástur. Ef við gætum öll verið að- eins líkari Kristínu, þá væri þessi heimur miklu betri. Kristín kunni að meta lífið og litlu augnablikin – fjölskylduna, vini, blóm, mat og náttúrlega fegurð. Hún var alltaf með „vá, þetta var alveg frábært“ eða „þetta var mjög indælt“ á tak- teinum. Hún var alltaf til í að taka þátt í nýjum ævintýrum og skoða nýjar víddir í tilverunni. Hún var til í að flytjast til nýrra staða, þar sem voru ný andlit sem urðu strax að nýjum vinum og síðan ævilöngum vinum. Kristín var svo glæsilegur gest- gjafi. Alltaf að bjóða fólki heim og allir voru svo velkomnir. Það var heldur ekkert mál fyrir Kristínu að búa til góðan mat – hvort sem það var salsa, kjöt á grillið eða heil þakkargjörðarmáltíð. Og hún Stína fína var alltaf svo flott, hvort sem hún fékk sér ný gleraugu, trefil í stíl, nýja hálfesti eða nýja hárgreiðslu – hún leit alltaf svo vel út, svo glæsileg og tignarleg. Jafnvel í gegnum veikindin hafði hún alltaf svo jákvætt viðhorf, sá alltaf glasið fullt og gafst aldrei upp, hélt áfram að berjast og líta já- kvæðum augum á framhaldið. Hún var alltaf með bros á takteinum og skondnar athugasemdir. Og þetta bros var alltaf þarna og þessi glampi í augunum. Við erum ennþá með Azalea- plöntuna sem Kristín gaf okkur þegar hún flutti frá New York. Plantan er á þakinu hjá okkur og það er svo ánægjulegt að núna skuli hún vera um það bil að blómstra. En það sem er ennþá mikilvægara, að jafnvel þótt Azalea-plantan blómstri ekki alltaf – þá mun minn- ing Kristínar alltaf blómstra í hjört- um okkar. Okkar innilegustu samúðarkveðj- ur til fjölskyldunnar. Mark og Edda. Elskuleg vinkona okkar, Kristín, er fallin frá eftir hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm. Það er með sorg og söknuði í hjarta sem við kveðjum Kristínu okkar, en góðar og fallegar minningar um hana varðveitum við í huga okkar. Þegar við hugsum um Kristínu kemur fyrst upp í hug okkar brosið hennar fallega og hvað hún var af- skaplega vel gerð manneskja í alla staði. Kristín hafði einhvern veginn alla þá góðu mannkosti sem hægt er að hugsa sér, hún var heilsteypt, glaðlynd, jákvæð og yndisleg. Krist- ínu höfum við þekkt frá því í fram- haldsskóla og þau vináttutengsl hafa haldist þrátt fyrir að Kristín hafi mikið starfað erlendis. Kristín var heimskonan í hópnum, afar glæsileg og kom vel fyrir. Henni var ákaflega mikilvægt að halda góðum tengslum við vini sína á Íslandi sem og erlendis. Það var okkur ætíð mikið tilhlökkunarefni að hitta Kristínu enda einkenndust endur- fundir okkar af gleði og hlátri, en Kristín hafði skemmtilegan og smit- andi hlátur. Ekki eru nema rúm tvö ár síðan við samglöddumst Kristínu á fer- tugsafmæli hennar þar sem gleðin var mikil og lífið virtist svo bjart framundan. Rétt um hálfu ári síðar veiktist Kristín og var það öllum mikið reiðarslag. Þá kom í ljós hversu sterk persóna Kristín var, en hún lét engan bilbug á sér finna, sagði eitt sinn við okkur að hún liti á veikindi sín sem verkefni sem hún ætlaði að leysa. Það var einmitt Kristín sjálf með jákvæði sínu og gleði sem hélt voninni hjá okkur, voninni um að hún myndi hafa bet- ur. Við kveðjum nú Kristínu vinkonu okkar í hinsta sinn með þessari bæn og sendum innilegar samúðarkveðj- ur til fjölskyldu hennar og vina. Nú legg ég augun aftur, ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt. Æ, virst mig að þér taka, mér yfir láttu vaka þinn engil, svo ég sofi rótt. (Sveinbjörn Egilsson) Jóhanna, Oddný og Sólveig. Daginn eftir að Stína dó skiptist á með glampandi sól og dimmum rigningarsudda. Líðan mín var með svipuðum hætti, um hugann léku bjartar hugsanir um yndislega konu í bland við dimma sorg og trega. Leiðir okkar lágu saman í utan- ríkisráðuneytinu fyrir fimm árum og okkur varð strax vel til vina. Stína var einstaklega dugleg og samviskusöm í sínum störfum en líka annálaður gleðigjafi. Við vor- um með skrifstofur hlið við hlið og ég heyrði glaðhlakkalegan hlátur- inn yfir til mín oft á dag. Stundum fann ég mig knúna til að standa upp og forvitnast um hvað væri svona skemmtilegt og það brást þá ekki að einhver vinnufélaginn hafði litið inn til Stínu og ekki getað slit- ið sig burt. Við samstarfskonur hennar nutum margsinnis hæfi- leika hennar í matargerð og list- fengi þegar við héldum „deildar- fundi“ þar sem ýmist voru snæddar gómsætar veitingar eða föndrað eitthvað fallegt – eða hvort tveggja. Ég var svo lánsöm að heimsækja Stínu þegar hún bjó í Ottawa og gista hjá henni í nokkrar nætur. Hún var sérlegur höfðingi heim að sækja og mér leið strax eins og ég ætti heima þar. Ég á líka góðar minningar um skíðaferð í Kanada, gönguferðir á Esjuna og í Þórs- mörk, kokteilboð á íslenskum sum- arkvöldum og ABBA-kvöld þar sem við horfðum á öll tónlistar- mynd hljómsveitarinnar í striklotu og eina sjónvarpsmynd til. Eftir að Stína veiktist kom hún reglulega í ráðuneytið um tíma og sinnti þar verkefnum eins og hún hafði orku til. Það voru mikilvægar stundir fyrir okkur vinnufélaga hennar. Stína var ljúf og vönduð mann- eskja, falleg ytra sem innra, skemmtileg og glæsileg kona í alla staði. Það er sárt og sorglegt að sjá á bak henni en mest er sorg for- eldra hennar og fjölskyldu sem ég færi mínar innilegustu samúðar- kveðjur. Anna Hinriksdóttir. Ég kynntist Kristínu í Svíþjóð fyrir 15 árum og við urðum strax mjög góðar vinkonur. Ég fluttist síðan heim um tíma og þá flutti hún til New York. Þegar hún flutti síðan heim var ég flutt til Dubai. Þrátt fyrir fjarlægðina milli okkar var Kristín frábær vinkona. Þegar við hittumst um jól og á sumrin vorum við óaðskiljanlegar. Hún var eins og ein af fjölskyldu minni. Ég man varla eftir þeim degi þegar við vorum báðar heima þar sem við hittumst ekki. Hún kom að heimsækja mig til Dubai og ætlaði að vera í 2 vikur. Við létum ekki hitann og rakann (40–50 gráður) standa í vegi fyrir okkur og gerðum nánast allt það sem hægt var að gera í Dubai. Fór- um í safarí, ferðuðumst til Ras al Khaima, köfuðum, fórum í sigling- ar, sáum magadans, fórum í skoð- unarferðir og á söfn. Fórum á ótal skemmtistaði og ekki má gleyma útimörkuðunum þar sem við vorum hugfagnar af arabískum sjölum, teppum og fl. Við vorum svo upp- teknar af að skemmta okkur að við gleymdum að borða og að hvíla okkur. Aðalfæðan var diet pepsi og popp því við gáfum okkur ekki tíma til að setjast niður og borða. Eftir tveggja vikna frí vildi Kristín vera í eina viku til viðbótar svo hún gæti jafnað sig á öllum asanum áður en hún færi aftur til New York. Við vorum báðar útkeyrðar og því var síðasta vikan mjög notaleg og góð þar sem við fórum bara á ströndina og slöppuðum af. Þetta frí með Kristínu er eitt það eftirminnileg- asta sem ég hef átt. Við upplifðum svo margt saman og hver dagur var ævintýri líkastur. Ég fór einnig með Kristínu til Barcelona þar sem við bjuggum hjá vinkonu hennar. Ég man eftir að sitja úti á svölum þar sem við horfðum yfir eina þá fallegustu kirkju sem við höfðum séð (hannaða af Gaudi) og borð- uðum morgunmat áður en við hent- umst af stað til að skoða og upplifa borgina. Kristínu og mér þótti báð- um gaman að menningu, list og arkitektúr og því fannst mér ég fá svo mikið út úr því að ferðast með henni þar sem ég gat upplifað með henni eitthvað sem okkur þótti báðum gaman að. Þetta var líka mjög eftirminnilegt frí sem við átt- um saman. Kristín á heiðurinn af að koma mér á hestbak í fyrsta sinn og hún kenndi mér nýja leið til að njóta úti- vistar og náttúru. Við Kristín fórum í 2 hestaferðir saman og það var planið að fara í þá þriðju þegar hún yrði frísk. Ég kem til með að sakna Kristínar mikið, hún var alltaf full af lífskrafti og jákvæð, jafnvel eftir að hún veiktist. Ég sá hana aldrei bug- ast eða fyllast vonleysi þrátt fyrir allt sem hún þurfti að ganga í gegn- um. Ég dáðist að styrk hennar og já- kvæðni og hvernig hún tókst á við veikindi sín. Kristín kenndi mér að meta lífið og vera þakklát fyrir það sem maður hefur. Hún var jafnan ráðagóð og alltaf til staðar þegar ég þurfti á henni að halda. Kristín var mín besta vinkona og ég mun sakna hennar sárt. Mínar innilegustu sam- úðarkveðjur til fjölskyldu Kristínar. Helga Marín í Dubai. Kristín vinkona okkar er fallin frá í blóma lífsins. Við hjónin erum svo heppin að hafa kynnst Kristínu og fengið að njóta vinskapar hennar til fjölda ára. Birgir útskrifaðist með Kristínu úr FÁ árið 1989. Fljótlega eftir útskrift fór Kristín að vinna hjá utanríkisþjónustunni og hélt út í heim. Hún flutti fyrst til Stokkhólms og það var þar árið 1997 að ég kynntist Kristínu, bestu vinkonu systur minnar, Helgu. Við urðum strax vinkonur og þó Helga flytti frá Svíþjóð vorum við alltaf í sambandi við Kristínu og heimsóttum hana þangað . Síðan flutti hún til New York en fjarlægðin var ekki vandamál . Við vorum alltaf í sambandi enda Kristín ótrúlega dugleg að rækta samband við vini sína. Svo glöddumst við þegar hún loks flutti heim og bjó sér fallegt heimili á Kjartansgötu. Þau voru mörg mat- arboðin hjá Kristínu enda var hún snilldarkokkur og einstaklega gest- risin. Við eigum svo margar góðar minningar, Kristín var dugleg að ferðast með okkur og fór margoft með okkur í tjaldútilegu og svo fór- um við saman til Madonna á skíði fyrir 3 árum skemmtum okkur kon- unglega eins og alltaf þegar við vor- um saman. Við áttum alltaf eftir að fara saman til Parísar, það var alltaf planið að fara þangað þegar henni batnaði. Kristín var svo ljúf og yndisleg og svo gott að vera nálægt henni, hún var allt kát og í góðu skapi og alltaf eitthvað skemmtilegt í boði. Kristín var einstaklega glæsileg og flott kona og var alltaf umhugað vera flott og fín, sem hún var alltaf. Það er okkur mikil gæfa að hafa kynnst Kristínu og minningar um frábæra vinkonu munu alltaf lifa með okkur. Elsku Hanne, Halldór, Beta, Anna og fjölskylda, okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra. Sigrún Rósa og Birgir. Nú þegar komið er að kveðju- stund viljum við minnast Kristínar með örfáum orðum. Hún var okkur ekki einungis kær samstarfskona heldur líka vinur, sem fallin er frá langt um aldur fram, eftir stranga baráttu við alvarleg veikindi. Við kynntumst Kristínu í New York þar sem hún starfaði við fasta- nefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóð- unum. Okkur varð strax ljóst að þar var hæglát og traust manneskja á ferð og á þeim árum sem við áttum samleið þar í borg myndaðist með okkur góð vinátta. Hún hafði ljúfa og þægilega nærveru og framkoma hennar einkenndist af yfirvegun og fágun. Hún var há og glæsileg kona og vakti eftirtekt þar sem hún fór. Þannig var hægt að aðgreina hana í mannfjöldanum á Manhattan; háa og tignarlega, með nýtískuleg gleraugu og hálsklút í björtum lit. Undanfarin ár hafa tækifærin til samveru verið færri en við hefðum viljað. Hún hélt ætíð tryggð og við hittumst þegar færi gafst. Það var ljóst hvert stefndi og nú hefur Krist- ín fengið hvíldina. Að leiðarlokum þökkum við mætri konu samfylgdina og vottum ástvinum hennar dýpstu samúð. Ragnar G. Kristjánsson, Þórunn Scheving Elíasdóttir.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.