Náttúrufræðingurinn

Volume

Náttúrufræðingurinn - 1999, Page 19

Náttúrufræðingurinn - 1999, Page 19
sem nú er ofan bæjar á Svartagili. Við það myndaðist uppistöðulón ofan hraun- stíflunnar. Af vatnasetinu urðu þá til flatar eyrar, sem síðan hafa gróið upp í valllendisbreiður. Eru þar nú sléttir árbakkar og eyjar, svo sem Desey, sem er grasi gróið flatlendi. Hraunið sem rann neðar í dalinn hrakti árvatnið þar einnig til austurs við fossinn Glanna, en jafnframt fór það upp að klettavegg, þar sem nú heita Þrengsli í Norðurá skammt neðan Veiðilækjarbæjar, og myndaði þar aðra stíflu. Við það varð til lón í ánni, og enn hlóðust upp eyrar og urðu til bakkar, sem nú heita Breiðanes, Svuntur og Mjóengi í Laxfosslandi og grónir bakkar við ánahjá Veiðilæk. LÍPARÍTSNAUÐUR JÖKULRUÐNINGUR Áður en hraunið varð til hefur Norðurá sennilega runnið um miðjan dal, þar sem nú heita Hreðavatnsengjar. Eru þar ker, rásir, hraunskvompur og grafningar í landinu. Þar hefur Brekkuá streymt ofan af fjalli og fallið í Norðurá, og einnig nokkru neðar hefur útfall frá Hreðavatnssvæðinu runnið og sam- einast aðalánni. Áin hefur þá fallið fram að Breiðanesi eða í Kimana við Hrauná og hefur síðan sennilega að hluta runnið um slakkann, Tjarnarlág, innan við Bakkaskóg, og komið að Fossvaðinu ofan við Laxfoss. Árvatnið hefur dreifst þarna um flatlendi, borið fram möl og myndað eyrar, sem hafa að miklu leyti verið úr líparíti ættuðu ofan frá Baulu. Sést þessi möl víða í farvegi Hraunár. Athyglisvert er hve mikið líparít er í þessari ármöl. Hins vegar sést ekkert slíkt ljósgrýti í jökulruðningunum, sem ættu samt að hafa borist á eldri skeiðum niður dalinn frá sömu slóðum og mölin. Hlýtur maður óhjákvæmi- lega að velta því fyrir sér hver sé uppruni þessa líparítlausa jökulruðnings við Lax- foss. Annaðhvort er að jökulruðningurinn hefur borist austan um Þverárhlíð eða að líparít hefur ekki legið á lausu ofar í Norðurárdal á þessum tíma jökulskeiðsins, og jökull sem þaðan skreið hafi því ekki getað flutt neitt líparít með sér í urðina. Þá má einnig benda á að ekkert líparít er heldur í jökulurð uppi á Bröttubrekku vestan við Baulu. Samt er Baula talin hafa myndast fyrir 3,4 milljónum ára (Haukur Jóhannesson 1997). Og á því líparít að hafa verið nærtækt í lokjökulskeiðsins. MISGENGI OG ROFHRAÐI LAXFOSS Laxfoss í Norðurá fellur fram af berghafti, sem myndað er við brotalínu er liggur þvert yfir dalsmynnið. Sést þessi brotalöm skerast um Hádegisskarð í Hallarmúla, um Laxa- skarð og í Náttmálaskarð vestan Laxfoss- bæjar. Hefur norðurjaðar sprungunnar sennilega risið eftir ísöld og myndað þetta misgengi. Ef til vill féll fossinn í fyrstu fram í Gaflhylinn út undan Eyrinni. Smám saman hefur vatnið sorfið brún fossins og fært hann ofar í ána. Hafi misgengið orðið í lok ísaldar fyrir 10.000 árum hefur fossinn færst aftur um 50 m á þeim tíma sem liðinn er, eða um hálfan sentimetra á ári. Það er lítið miðað við rof á Gullfossi í Hvítá, sem mælst hefur 30 sm á ári (Þorleifur Einarsson 1991). Löngu fyrir landnám hefur vatnsbuna sunnanvert í fossinum grafið út skessuketil, stóra, hring- laga holu í klöppina, nokkuð fyrir ofan Gaflhylinn, en Nikulásarkerið var þegar til fyrir rúmum 800 árum, svo sem sjá má af máldögum (íslenskt fornbréfasafn I). Nú hefur vatninu verið brotin leið af manna völdum í gegnum þetta berghaft fossins með sprengingu við gerð laxastiga, og er nú skammt í að hann breyti fossrennslinu þar í flúðir. Önnur brotalöm liggur nokkru neðar á svæðinu um Litlaskarð yfir í Einifellsland. Þar sunnan Norðurár streymir heitt vatn að yfirborði. Fleiri misgengi liggja þvert yfir Norðurárdalinn. Mest þeirra er brotalínan framan við Hvassafell og Hraunsnefsöxl. Norðurbrún þeirrar misgengislínu hefur risið hátt yfir þá syðri og myndað hamra- veggi sem ná því að vera um 100 m háir framan í öxlinni. Við jarðhræringar hefur 17

x

Náttúrufræðingurinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.