Náttúrufræðingurinn - 1965, Blaðsíða 37
NÁTTÚRUFRÆÐIN GURINN
195
ísinn fleytt þeim hingað til íslands? Mikla heppni þarf til að hafís-
flutt fræ berist upp í mold, þar sem það getur gróið. En margt
skeður vegna tilviljana. Hver skyldi vera lausn gátunnar? Hefur
davíðslykillinn hjarað síðustu ísöld á Hámundarstaðabökkum? Hef-
ur hann slæðzt þangað með varningi eða hefur hafísinn flutt hann
milli landa? Fyrrum sigldu líka íslendingar milli íslands og Græn-
lands!
Ingólfur Davíðsson.
Starir fundnar á nýjum stöðum 1964.
1. Dúnhulstrastör (Carex pilulifera). Sá hana hér og hvar í snögg-
lendum grasbrekkum á Gilsárstekk, Gilsá og Tóarseli í Norður-
dal Breiðdals. Sömuleiðis í utanverðum Hrolleifsdal í Skaga-
firði.
2. Flóastör (Carex limosa). Víða á Gilsá og Gilsárstekk í Breiðdal,
m. a. í flóabletti allhátt í Gilsárstekkshlíð.
3. Grástör (Carex flacca) mjög þroskaleg, vex í kjarrjaðri á hálf-
röku halli innan og ofan við gamlan knattspyrnuvöll í norður-
hlíð Fagradals inn af Reyðarfirði.
Skammt þaðan sá ég villilín og nokkrar hvítblómgaðar blá-
klukkur. Þyrnirósinni á Kollaleiru við Reyðarfjörð er e. t. v. hætta
búin af ræktunarframkvæmdum. Þarf að friða vaxtarstaði íslenzku
rósanna. Ingólfur Daviðsson.
Slæðingar að Hólum og við Skógaskóla:
Heim að Hólum í Hjaltadal hafa sennilega fyrr og síðar slæðzt
ýmsar jurtategundir. Sumarið 1964 sá ég þessar við lauslega at-
hugun: Akurarfi, arfanæpa, arfamustarður, bókhveiti, baldursbrá
útlend, freyjubrá, gulbrá, hélunjóli, rauðsmári, alsikusmári, bygg,
hveiti, hafrar, axhnoðapuntur, rýgresi, háliðagras, vallarfoxgras og
ennfremur eldri slæðingar þ. e. hásveifgras, húsapuntur, græðisúra
og skriðsóley. Alls 21 tegund.
Þótt aðeins séu liðin 15 ár síðan Skógaskóli undir Eyjafjöllum
var settur á stofn, hafa þegar borizt þangað 14 teg. slæðinga með
grasfræi o. fl. varningi. Þær eru þessar: Gulbrá, græðisúra, hnoða-
fræhyrna, krossfífill, kúmen, rauðsmári, skriðsóley, þistill, húsa-
puntur, bygg, axhnoðapuntur, rýgresi, háliðagras og vallarfoxgras.