Samvinnan - 01.02.1950, Síða 31
;
(Tramhald).
Elísabet sökk þannig smám saman niður í sljóvgandi
einveru, og hugarangur hennar breyttist í hversdagslegt
ástand, sem hún vandist og dofnaði fyrir, þegar fram liðu
stundir. Hún var frá upphafi ráðin í því, að láta aldrei bug-
ast af þessum ástæðum, en þó reyndist hitt henni ennþá
drýgri raunabót, að hún tamdi sér eftir fremsta megni að
líta björtum augum fram í tímann í von um fáeina sól-
skinsbletti í heiði dapurlegra hjónabandsrauna — fáeina
glaða og rólega daga, þegar Sölvi kynni að dvelja heima
hjá henni og börnunum og líkjast um stund sjálfum sér
aftur, eins og hann hafði verið, þegar þau hófu sambúð
sína. En þessi sæla, hógværa von brást því miður alltof oft.
F.lisabet hliðraði þannig alltaf til og reis aldrei gegn
duttlungum eiginmanns síns. En einmitt þessi afstaða
hennar hellti olíu í eld afbrýði hans og grunsemda, sem
vissulega logaði þó nógu heitt áður. Sölvi hafði það alltaf
á tilfinningunni, að slík undirgefni væri harla gagnstæð
innsta eðli Elísabetar og væri því aðeins hyggindabragð,
sem hún gripi til í því skyni að leyna sekt sinni og sam-
vizkubiti. Sjómannsreynsla hans á fjarlægum höfum og á
meðal framandi þjóða og sjúkleg tortryggni hans í garð
eiginkonunnar hafði smám saman breytt honum í harð-
stjóra, sem — þegar sá gállinn var á honum — þoldi ekki
hin minnstu andmæli — hvorki konunni né nokkrum öðr-
um. En á hinn bóginn var hann ekki síður kvíðandi en
hún fyrir því hvert stefndi með geðsmuni hans og hugar-
ástand allt. Og því var það, að hann leitaði svo oft á fund
vínguðsins í veitingastofunni í Arnardal.
XXV.
Beckshjónin yngri — eins og þau voru ennþá oftast nefnd
til aðgreiningar frá Beck gamla hafnsögustjóra og konu
hans — áttu veglegt heimili í Arnardal og bárust allmikið
á, enda höfðu þau góð ráð á því í hvívetna, því að skipa-
smíðastöðin skilaði ríflegum hagnaði á ári hverju. Hinn
glæsilegi sjóliðsforingi var mikill samkvæmismaður. Dökkt
og hrokkið hár hans, sem snemma varð ofurlítið hæru-
skotið, liðaðist fagurlega um enni hans, og þegar hann reis
virðulega úr sæti sínu í veizlum og flutti smekklegar skála-
ræður, var fólk sammála um það, að hann væri óvenjulega
myndarlegur og fallegur maður. Fyrirmannsbragur var á
öllu fari hans, og menn viðurkenndu fúslega dugnað hans
og yfirburði í hvívetna.
Slíkur maður gat auðvitað ekki hjá því komizt að koma
víða við sögu — ekki aðeins í samkvæmislífinu, heldur
einnig við samningaborðið og í nefndarmannsstólnum,
enda hlóðust á hann hvers konar trúnaðarstörf í þágu bæj-
arins og sveitarfélagsins. En þótt Beck yngri nyti þannig
vinsælda og trausts samborgara sinna og nágranna, varð
hið sama naumast sagt með sanni um eiginkonu hans.
Menn voru þó sammála uin það, að hún fetaði hinn þrönga
veg dyggðanna og velsæmisins sérlega nákvæmlega og rétt
í alla staði. En sá dómur var í munni samborgaranna hvorki
tákn vináttu né aðdáunar, en aðeins réttmæt viðurkenning
sannleikans og þess valds, sem frúin hafði óneitanlega í
félagslífi bæjarins og samkvæmisheimi borgaranna.
Og sannleikurinn var raunar sá, að frúin hafði í kyrrþey
undarlega mikið vald yfir manni sínum, og það er enda
engan veginn víst, að hann hefði ratað jafn örugglega milli
skers og báru í félagslífinu, ef hann hefði ekki notið henn-
ar við, háttvísi hennar og siðferðilegs strangleika, því að
annars er hætt við því, að full opinskár trúnaður og vin-
semd hefði orðið virðingu hans að fótakefli. En á hinn
bóginn var Beck ávallt hinn riddaralegasti í allri umgengni
við konu sína, nærgætinn og kurteis í hvívetna, enda var
hann talinn fyrirmynd allra annarra eiginmanna þar um
slóðir.
Þeim, sem nákunnugastir voru heimili og einkalífi þeirra
hjóna fannst þó stundum trúnaður þeirra ekki eins heill
og hann virtist á yfirborðinu, heldur leyndist einhver kyn-
legur svali og fráhverf hlédrægni af beggja hálfu bak við
kurteisina og stimamýktina. Sumir ympruðu á því í þessu
sambandi, að ekki væri víst, að frúin kynni að meta mann
sinn að verðleikum, enda væri sambúð þeirra einlægust og
bezt, þegar gestir væru viðstaddir orðræður þeirra og atlot.
Og svo var frú Beck kynlega föl á vangann. Rósemi henn-
ar gat stöku sinnum minnt á tilfinningaleysi, og við hliðina
á hinum hlýlega og glaðværa eiginmanni stakk kuldaleg
háttvísi frúarinnar stundum furðulega og næstum því
óþægilega í stúf við framkomu húsbóndans.
Þegar þau komu sem nýgift hjón til Friðriksvarnar, hafði
litarháttur hinnar ungu konu verið ferskur, og bjarmi
hinnar fyrstu ástarsælu hafði hýrgað svip hennar og við-
mótið allt. Hlýlegt fas og heillandi persónuleiki eigin-
manns hennar hafði þó enn sterk áhrif á hana og hún hafði
fundið til glaðrar öryggiskenndar, þegar hún minntist þess,
að hann hafði gefið henni nafn sitt og ást sína alla. En ekki
leið þó á löngu, unz hún þóttist verða vör við nokkra galla
í hrópandi mótsögn við djarfmannlega framgöngu hans og
karlmennsku: — Hann þjáðist af óvenjulega sterkri hé-
gómagirnd og var næstum því hlægilega háður dómum
heimsins. En þetta voru þó smámunir í hennar augum —
fFramhald).
31