Samvinnan - 01.08.1971, Side 31
Eysteinn SigurSsson:
Er íslenzk tunga
að breytast?
Jan Lenica.
Því heyrist oftlega fleygt, að
íslenzk tunga sé enn að breyt-
ast í tímanna rás, fólk nú á
dögum tali ekki né riti að öllu
leyti sama mál og forfeður þess
t. d. á öldinni sem leið. í þessu
er vafalaust talsvert til, þó ekki
sé nema litið á nýyrðin; til
dæmis er okkur svo tamt orð
sem þvottavél ekki að finna i
orðabók Blöndals, að ekki sé
gleymt orðunum þyrla, þota,
hyrna, ferna o. s. frv. o. s. frv.,
sem búin hafa verið til og tekin
í notkun á síðustu árum. Þar
er einfaldlega um að ræða eðli-
lega breytingu orðaforðans
eftir þvi sem ný merkingarmið
koma til sögunnar i breyttu
þjóðfélagi og kalla á ný orð, en
önnur hverfa úr notkun af
sömu ástæðu.
Sömuleiðis má telja, að sá
vísir að mállýzkumun i fram-
burði á milli fólks úr einstökum
landsfjórðungum, sem til
skamms tíma gætti hér á landi,
sé nú að mestu úr sögunni með-
al yngra fólks. Valda þar vafa-
laust mestu um áhrif útvarps-
ins, sem nú hefur brotið niður
hina framburðarlegu einangr-
un einstakra byggðarlaga um
nokkurra áratuga skeið og
þannig stuðlað að samræmingu
á framburði allra landsmanna.
Þá er heldur ekki að efa, að
upp eru að koma hér á landi
ýmsar tegundir af stétta-
bundnu málfari, sem ekki hafa
fyrr verið til, eins og t. d. verzl-
unarmál, náttúrufræðimál,
verkfræðimál, dagblaðamál,
auglýsingamál, lögfræðimál o.
s. frv., án þess þó að um þurfi
að vera að ræða kynslóðabreyt-
ingar í málfari að því er nokk-
uð af þessu varðar. En aftur á
móti kannast allir við ýmiss
konar tízkubundið málfar ungl-
inga, sem kemur og fer og á
það sameiginlegt með fyrrtöld-
um tegundum að einkennast af
sérstöku orðavali. Slikt málfar
getur vissulega skilið eftir sig
varanleg merki, en hefur þó
tæplega nokkur úrslitaáhrif á
breytingar á notkun tungunn-
ar.
En sé hins vegar að því spurt,
á hvaða sviði málnotkunarinn-
ar séu nú að eiga sér stað ger-
tækastar breytingar, þá er það
að minni hyggju á sviði fram-
setningaraðferða. Það þarf ekki
ýkjalöng kynni af íslenzkum
miðaldaritum til að komast að
raun um, að forfeðrum núlif-
andi íslendinga var margt bet-
ur gefið en að orða hugsun sína
í stuttu og afmörkuðu máli.
Þetta má ekki misskilja sem
last, því að orðmörg fram-
setning getur oft fólgið i sér
þokka, en aftur á móti
rikti á íslandi frásagnarhefð,
sem m. a. bar þessi einkenni.
Hana má raunar rekja allar
götur aftur til blómaskeiðs
sagnaritunarinnar fornu, en
þessi hefð fól í sér, að lausa-
málsfrásagnir voru rækilegar
og spönnuðu yfir breiða lýs-
ingu á þeim atburðum, sem
verið var að segja frá, þ. e. a. s.
hún beindist að því að segja
ýtarlega frá, og láta smáatriði
og ýmis innskot — t. d. ættar-
tölur — hiklaust fylgja með, án
tillits til þess hvort slikt lengdi
frásögnina umfram nauðsyn.
Það verður þó að undirstrika,
að hér er ekki um hina orða-
lagslegu hlið að ræða, heldur
hina framsetningarlegu, enda
eru mörg af þessum ritum
kjarnyrt og með samanþjöpp-
uðu orðalagi, þótt þau taki yfir
rækilega atburðalýsingu. Að
vísu er naumast hægt að segja,
að þessi íslenzka frásagnar-
venja hafi skapazt vegna of-
gnóttar pappírs, þótt oft sé því
likast, heldur að likindum fyrst
og fremst vegna nægs tíma
beggja aðila, rithöfunda og les-
enda.
Hefðin
Það mætti auðveldlega eyða
löngu máii í umræðu um hina
íslenzku frásagnarhefð, orsakir
hennar og einstök afbrigði, en
þess skal aðeins getið hér, að
þegar fram i sótti, hafa rit-
venjur kirkjunnar og margra
þjóna hennar (klerkamælgi)
vafalaust orðið til þess að ryðja
braut fyrir orðmargan og inni-
haldslítinn stíl, sem víða gætir
á seinni öldum. Við sliku er líka
að búast, þegar gætt er að of-
urvaldi hennar i þjóðfélaginu
um aldaraðir. Ekki má heldur
gleyma ljóðagerðinni, en um
tima voru hagyrðingar á hverj-
um bæ á íslandi og skáld nán-
ast í hverri sveit. Slik ofuriðk-
un bundins máls, lengi vel við
takmarkaðan fjölda yrkisefna,
hefur vitaskuld ýtt undir ögun
tungunnar við lausamálsritun
einnig.
Reyndin er líka sú fram eftir
öllum öldum, að þegar íslend-
ingur sezt niður til að skrifa,
hvort sem það er blaðagrein
eða bók um eitthvert tiltekið
efni, þá er það nánast lista-
maður, sem þar er að verki.
Þetta er nánar til tekið i því
fólgið, að afstaða íslendinga til
ritaðs máls af flestu tagi hefur
verið lík afstöðu málara til
málverks, tónskálds til tón-
verks, myndhöggvara til högg-
myndar o. s. frv., þannig að
það voru listasjónarmiðin, sem
réðu ferðinni, og svo sterk voru
áhrif hefðarinnar, að þessi
sjónarmið hafa haft veruleg
áhrif á rit- og framsetningar-
venjur hér á landi allt fram til
nútímans. Þetta kemur m. a.
fram i því, hversu víða hefur
verið að finna samlíkingar af
ýmsu tagi í rituðu máli um hin
óskyldustu efni, en slík stílblóm
eru eitt helzta einkenni ljóða-
gerðar — ekki aðeins íslenzkr-
ar, heldur viðast hvar í heim-
inum. Skáldskaparlikingar eru
hins vegar ekki sérlega vel til
þess fallnar að tjá skarpa og
vel afmarkaða hugsun, heldur
þvert á móti henta þær betur
fyrir reikulli og tilfinninga-
legri tjáningu skáldskaparins.
Annars konar framsetning
Aftur á móti er greinilegt, að
þessi gamla íslenzka rithefð er
nú á undanhaldi. í dag eigum
við að vísu nóg af pappír, en á
móti kemur, að við búum við
óstöðvandi daglegt flóð ritaðs
og talaðs máls af flestu tagi.
Nútímafólk er lika yfirleitt
margfalt önnum kafnara en
forfeður þess, og afleiðingin
verður, að þörfin kallar á meiri
hraða, stuttorðari framsetn-
ingu og að aðalatriðin séu
dregin fram, en aukaatriðum
sleppt. Fólk gefur sér ekki leng-
ur tíma til að lesa langhunda
um léttvæg efni, þótt þeir
kunni að vera skemmtilega
skrifaðir, heldur vill það stutt-
orða framsetningu urn efni sem
skipta það máli. Með öðrum
orðum, íslendingar eru ekki
lengur allir skáld og rithöfund-
ar, og móðurmálið er ekki leng-
ur almenningstæki til sjálf-
stæðrar listsköpunar, heldur
þvert á móti er það orðið fyrst
og fremst að tjáningartæki til
að koma hugsun þess sem ritar
sem einfaldast á framfæri.
Sem slíkt tæki kallar islenzk
tunga vitaskuld fyrst af öllu á
einfaldleika, sparsemi i orða-
notkun og stuttorða framsetn-
ingu, þvert á móti því sem tíðk-
aðist hér áður fyrr. Og það er
ekki vandséð, hvert þessi þróun
stefnir, því að hún hlýtur að
hafa í för með sér fábreyttari
og sérhæfðari orðaforða, þegar
fram í sækir, sem hætta er á
að geti orðið fátæklegur. Það
er dálítil spurning, hvort
ástæða sé til að harma þessa
þróun, þar sem hér er fyrst og
fremst um að ræða eðlilegar
breytingar við breytt hlutverk
tungunnar frá þvi sem áður
var. Hins vegar hlýtur leiðin
til að bregðast við þessu að
vera sú, að kappkostað sé að
innprenta fólki vandaða mál-
notkun, þ. e. a. s. að forðast
þau mállegu einkenni, sem
sýna má fram á að séu til lýta,
en ástunda í staðinn rökrétta
notkun móðurmálsins í sam-
ræmi við beyginga- og hljóð-
kerfi þess, sögulega rétta notk-
un orðtaka og umfram allt
markvissa orðanotkun sam-
kvæmt upprunalegri merkingu.
Eitt megingildi islenzkunnar
hefur löngum verið talið felast
í gegnsæi hennar, þ. e. í skýrt
afmarkaðri merkingu orðstofn-
anna, sem gerir það að verkum,
að auðvelt er að mynda sam-
sett orð og nýyrði, þannig að
samstundis skiljist, og hættan
sem nú steðjar öðrum fremur
að henni er sú, að þetta gegn-
sæi glatist.
Eysteinn Sigurðsson.
31