Samvinnan - 01.08.1971, Page 39
sitt í kröfuhörðu og síbreytilegu samfé-
lagi. Margt hefur því á seinni árum bent
til að saga heimilisins væri á enda eða
sú samfélagseining væri í engu samræmi
við breyttar aðstæður og ólík skilyrði. —
En einhvern veginn hefur samt stað-
reyndin verið sú, að mönnum hefur þótt
mikil eftirsjá að heimilinu sem sjálf-
stæðri stofnun og þeim möguleika, sem
það skapaði til raunhæfrar og eðlilegrar
fjölskyldumyndunar. Hugmynd hinnar
ævagömlu heildar, sem sagt er að
sjálft þrenningarhugtak trúarbragðanna
grundvallist á, hugmyndin um föður,
móður og barn og þann reit, sem geri
þeirri heild mögulegt að njóta sín, skapa
einingu og öðlast fyllingu, sú hugmynd
hefur engan veginn horfið eða ljómi
hennar minnkað. Hitt er ljóst, að það
þrönga, einstrengingslega og takmarkaða
heimilisform, sem skapazt hefur í borga-
samfélögum Vesturlanda til þessa, getur
á mjög ófullkominn hátt gegnt því hlut-
verki sem því er ætlað. Margt bendir og
til þess að heimilum Vesturlanda hafi í
verulegum atriðum mistekizt, og til hinna
smáu og frá uppeldislegu og mótunar-
legu sjónarmiði séð fátæku og fátæklegu
eininga má rekja mörg þau mistök
og margs konar vanrækslu, sem komið
hafa hart niður á einstaklingum og heild-
um. — Það er því að vonum að sjálf
heimilishugmyndin hefur verið mjög í
sviðsljósinu á síðustu árum og fáar hug-
myndir meira ræddar. Hafa eins og að
líkum lætur skoðanir manna verið æði
skiptar. Til eru þeir, sem álíta, að dagar
heimilisins sem sjálfstæðrar stofnunar
séu þegar taldir og sú afskræmismynd
heimilis, sem víðast hvar blasir við á
Vesturlöndum, eigi ekki langt eftir að
hverfa með öllu af sjónarsviðinu. Muni
þá renna upp nýtt skeið í sögu mann-
kyns, án heimila, án hinna gömlu föður-
og móðurhugmynda, en börn hljóta upp-
eldi að verulegu leyti á stofnunum, þar
sem sérhæft fólk tryggir að þörfum þeirra
líkamlegum og andlegum verði fullnægt
og séð verði um að leysa hæfileika þeirra
úr læðingi. — Aðrir hafna þessum skoð-
unum á þeim forsendum ekki sízt að þær
brjóti í verulegum atriðum í bága við
mannlegt eðli og komi þvert á eðlilegar
hneigðir manna, hvatir og náttúr-
legt og upprunalegt tilfinningalíf. Virðist
þeim hinum sömu einsýnt að heimilis-
stofnunin eigi rætur að rekja til líffræði-
legra forsendna, og verði ekki fram hjá
þeim gengið án þess að valda mannkyn-
inu miklum skaða, trufla tilfinninga- og
hvatalíf og auka enn á erfiðleika manna
til aðlögunar, en ræna þá heilladrýgsta
þættinum í hamingju og lífsfyllingu.
Þeim sem þannig hugsa virðist augljóst að
gera beri tilraunir með nýtt heimilis- og
fjölskylduform. Það form beri að miða
við nýjar aðstæður þéttbýlisins og ný
viðhorf varðandi stöðu kynjanna. Af þess-
um rótum eru runnar tilraunirnar mörgu
á Vesturlöndum með myndun stórheim-
ila og stórfjölskyldna, þar sem hópur ein-
staklinga og margar smáfjölskyldur taka
sig saman og koma á nánu samstarfi og
samlífi, sem veitir möguleika verkaskipt-
ingar á heimilinu og margvíslega
fjölbreytni í sambandi við félagslega
mótun, einnlg uppeldi. Viðurkenna verð-
ur að hinar nýju tilraunir hafa margar
hverjar verið gerðar meira af kappi en
forsjá, og nýjungagirni og sérvizka af
ýmsu tagi sett um of mark sitt á mótun
þeirra. Hinu verður þó naumast móti
mælt, að tilraunirnar eru eðlileg félagsleg
viðbrögð til að koma í veg fyrir að sá
menningarlegi vettvangur, sem heimilið
allt frá upphafi hefur verið, hverfi og
skilji eftir opna und, sem haft geti ófyrir-
sjáanlegar afleiðingar fyrir framtið
mannkynsins.
Manngerðir
Það síðasta sem gerð verður stuttlega
grein fyrir í þessum inngangsþætti að
mati á stöðu samvinnusamtakanna árið
2000 sem félagsmálahreyfingar og menn-
ingarstefnu snertir sjálfa manngerðina.
Eru það almennar hugleiðingar er lúta
að því hversu maðurinn kann að hafa
breytzt í aldanna rás eftir því sem ytri
og innri aðstæður hafa orkað á hann. —
Greinargerð sú sem hér um ræðir gæti að
sjálfsögðu verið með ýmsu móti. Hún gæti
verið félagsfræðileg og þá t. d. grund-
vallazt á skiptingu þjóðfélagsfræðingsins
Davids Riesmans í hinar þrjár mann-
gerðir, sem hann telur að ein hafi tekið
við af annarri í sögu Vesturlanda. Þá
skiptingu ræðir Riesman í bók sinni
The Lonely Crowd, Hópurinn einmana.
Manngerðirnar þrjár eru að dómi Ries-
mans: Elzt er mannge-ðin sem stjórn-
ast af erfðavenjum og lætur þannig forn-
ar hugmyndir um lífsstíl og hegðun móta
ævi sína. Síðan sá dagsins ljós mann-
gerðin sem stjó'nast af innri siðaboðum,
trú og hugsjónum, og leggur því engan
veginn sömu áherzlu á hið ytra, heldur
beinist áhugi hennar öðru fremur að því
innra, en samkvæmni og siðræn hugðar-
efni verða þyngst á metum. Loks hefur
birzt sú manngerð, sem orðið hefur ríkj-
andi meira og meira á síðustu árum,
er lætur stjórnast af hinu ytra, sveiflum
almenningsálitsins, áróðri fjölmiðlanna
og þunga auglýsingatækninnar. — Grein-
argerðin gæti líka orðið sálfræðileg og
þá t. d. byggzt á kenningum geðlæknisins
Carls Gustavs Jungs, er skiptir mönnum
fyrst i tvær aðalheildir, innhverfa menn
og úthverfa, en síðan hvorri aðalheild-
inni fyrir sig í fjórar undirheildir. Miðar
Jung þá skiptingu við fjóra aðalþætti
vitundarlífs manna, sem hann telur að
séu rikjandi, einn hjá hverjum einstakl-
ingi. Þeir aðalþættir eru: hugsun, think-
ing; innlifun, feeling; tilfinning, sensati-
on; og innsæi, intuition. — Fyrir mér vakir
þó annað, er ég vil benda á forsendur
fyrir nýrri félagslegri og menningarlegri
þróun, sem ég tel á næsta leiti og eigi
einnig rætur að rekja til hugmynda um
manngerðir og þá sér í lagi til nýrrar
kviku, sem að baki þeim hugmyndum býr.
— Það er kunnara en frá þurfi að segja,
að sú þróun mannverunnar, sem við höf-
um heimildir um og okkur eru tiltækar
sannanir fyrir, hófst með tilkomu þess
afbrigðis mennskrar lífveru, sem nefnd
hefur verið homo sapiens, hinn vitiborni
maður. Þvi er oft haldið fram, að þrennt
hafi komið fram við hin sérstæðu þátta-
skil og megi til þess rekja alla síðari þró-
un mannverunnar á hvaða sviði sem vera
skal. Það þrennt sem sérstætt var fyrir
homo sapiens er: hagnýting eldsins,
hæfileiki tungumálsins og loks skynjun
hins heilaga, sem leiddi til trúarbragð-
anna. — Hitt er engu síður ljóst, að hinn
vitiborni maður homo sapiens hefur
breytzt mikillega. Margt hefur orsakað
þær breytingar eða stuðlað að því að
kalla fram mismunandi eiginleika, vakið
frábrugðna hæfni og hæfileika. — Þann-
ig varð maðurinn að meðvitaðri félags-
veru, zoon politikon eins og Platon kallaði
hann, við það að auka samskipti sín o|
t’-eysta ríki og stjórnskipan. — En mann-
ve:an tók einnig að auðga líf sitt á ann-
an hátt. Hún gerði hið leikræna, hið
dramatíska að áhrifamiklum þætti, ef til
vill áhrifamesta þætti tilveru sinnar. Á
þann hátt þróaðist sú mannvera, sem
hollenzki sagnfræðingurinn Johan Hui-
zinga nefndi homo ludens, hinn leik-
ræni maður, sem leitaðist við að gera all-
ar athafnir sínar, hverju nafni sem nefnd-
ust, að leik til að finna útrás tilfinning-
um sínum og dáðum. — Sérstætt afbrigði
í hinni mennsku þróun er svo homo oeco-
nomicus, hinn hagræni maður, sem verið
hefur fyrirferðarmikill á síðustu öld og
reynt hefur að túlka alla tilveru sína með
hagrænum hugtökum og leiða alla mögu-
leika út frá efnahags- og atvinnuskipan.
■— Á allra síðustu árum hefur svo komið
fram kenningin um að raunverulega bæri
að skipta homo sapiens niður í þrjá ólika
flokka manngerða. í einum flokknum
væru athafna- og framkvæmdamennirn-
ir. Þann flokk mætti kenna við homo
faber, verkmennið. Þessari manngerð
væri rikast í huga að láta verulega að sér
kveða í ytri umsvifum. — í öðrum flokkn-
um væru svo hinir tilfinningaríku, menn
samúðar og samskipta. Flokkinn mætti
kenna við homo amans, hinn elskandi
mann, er þætti mest um vert að auðga
lífið hið innra með auknum tengslum og
persónulegum kynnum. í þriðja flokkn-
um væru svo menn næmleika og fórnar.
Þá bæri að nefna menn harmsins, homo
patiens, þar sem þeir legðu sérstaka á-
herzlu á að skynja veilur, veikleika og
harm mannkynsins til þess að auðveldara
væri að bæta úr og færa í lag. Hver flokk-
urinn um sig hefði mikilvægu hlutverki
að gegna, en æskilegt væri að gera sér
ljóst hin ólíku verkefni og hversu þau
gerðu kröfur til frábrugðinna vinnu-
bragða og mismunandi afstöðu til
verkefna. — Það eru vafalaust hugrenn-
ingar af þessu tagi, sem leitt hafa til
hinnar miklu kviku, er nú verður vart á
Vesturlöndum, að senn hljóti sá tími að
renna upp, þegar fram komi homo novus,
hinn nýi maður. Það er einmitt í hug-
leiðingunum um hinn nýja mann að
araumarnir um algerlega frábrugðnar íe-
lagslegar og menningarlegar forsendur
birtast. Þær forsendur hljóta að svo
miklu leyti sem þær grundvallast á end-
urmati og hugboði um framtíðina að vera
hin æskilegasta viðmiðun, þegar gera skal
grein fyrir hlut og hlutverki samvinnu-
hreyfingarinnar árið 2000. +
39